20.4.2010 | 13:27
Eyjafjöll skulu rísa!
Gosið í Eyjafjallagosi á eina hliðstæðu hvað búsifjar snertir síðan Katla gaus 1918, en það er gosið í Heimaey. Eyjafjallagosið er þegar orðið þungbærara en öskufallið úr Heklu 1970. Myndirnar hér á síðunni voru teknar um miðnætti í nótt og snemma í morgun.
Enn er minnisstætt þegar menn sátu hnípnir í Sjónvarpssal viku eftir að gosið í Heimaey byrjaði og voru farnir að velta vöngum yfir því að gera nýja höfn í Dyrhólaósi og leggja byggð niður á Heimaey.
Ólafur Jóhannessson, þáverandi forsætisráðherra, reif umræðuna út í þessu fari með því að segja af miklum þunga: "Vestmannaeyjar skulu rísa!"
Þetta gerbreytti andanum í umræðunum.
Sama má segja um Eyjafjöll og það nágrenni eldstöðvanna í Suðurjöklum, sem menn munu hafa athygli við næstu misseri.
Gosvirknin á svæðinu hefur nú breyst úr sakleysislegu túristagosi í hamfarir sem geta orðið á borð við gosið í Heimaey að umfangi, tjóni og afleiðingum.
Askan úr Eyjafjallajökli minnir á framburðinn úr Brúarjökli í Kringilsá og Hálslón. Hún er fíngerð eins og hveiti þegar hún er þurr en verður eins og steypa þegar hún blotnar.
Á næstefstu myndini sést Markarfljót í forgrunni og Eyjafjallajökull fjær, en athygli vekur hvernig sveitin er á kafi í ösku mekki sem skefur ofan í hana undan norðanáttinni.
Á sumum svona leirum á Íslandi, eins og við Hagavatn, er uppgræðsla vonlaus, - það þrífst enginn gróður á þeim.
Í morgun mátti sjá hvernig þessi óþverri, sem kom í flóðunum á dögunum, rauk niður í Landeyjar og setti Stóra-Dímon á kaf í öskurokið.
Eyjagosið í Eyjum 1973 stóð í nokkra mánuði og þá gat uppbyggingarstarf hafist að fullu.
Öðru máli gegnir um þær byggðir sem gos í Eyjafjallajökli og hugsanlegt Kötlugos í kjölfarið hafa áhrif á.
Hugsanlega þarf að bíða í allt að tvö ár eftir því að séð verði fyrir endann á hamförunum.
Ef byrjað er of snemma að reyna að endurreisa gróðurlendi á þessu búsældarlegasta svæði Íslands, gæti það verið unnið fyrir gýg og betra að geyma átakið þangað til öruggt er að allir þeir fjámunir, sem í það fara, nýtist. Ekki mun af veita.
Þetta kann að kosta fullnaðar viðlagatryggingu í allt að tvö ár á þessum biðtíma en aðalatriðið hlýtur að vera að hægt verði að segja með sama þunga og ákveðni og sagt var 1973: Eyjafjöll skulu rísa!
Minni að lokum á myndskeið af sprengingum í gosinu með bloggpistli mínum á eyjan.is og á ruv.is.
Gosstrókurinn minnkar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Tek undir þetta Ómar. Það hafði gríðarleg áhrif þegar Ólafur sagði þetta: Vestmannaeyjar skulu rísa. Að tala kjarkinn í þjóð sína. Það er það sem þarf og oft skortir..Ég upplifði það gos. Ég bjó í Vestmannaeyjum og aðfaranótt 23. janúar gleymist aldrei. Samt held ég fyrir utan röskun sem varð hjá þessum fimm þúsundum að þetta sé enn hrikalegra hjá fólkinu undir Eyjafjöllum.
Sigurbjörg Eiríksdóttir, 20.4.2010 kl. 13:50
Landslagið er komið til að vera var eitt sinn fyrirsögn í Mogganum.
Skömmu síðar var keppnin lögð niður.
Þorsteinn Briem, 20.4.2010 kl. 16:34
... en gat af sér frábært lag ... Álfheiði Björk.
Grefillinn Sjálfur - Koma svo! (IP-tala skráð) 20.4.2010 kl. 18:08
Auðvitað tekur samfélagið á sig ábyrgð varðandi fólkið og jarðirnar undir Eyjafjöllum. Þetta er fegursta sveit landsins að mínu mati og þarna grænkar fyrst á landinu.
Það er stundum eins og að keyra úr heimskautaloftslagi héðan að austan, miðað við vorið og gróandann undir Eyjafjöllum á þessum árstíma.
Myndbandið af höggbylgjunum í gígnum er stórkostlegt. Þú hlýtur að geta selt það á alþjóðavísu.
Gunnar Th. Gunnarsson, 21.4.2010 kl. 09:07
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.