Minni truflun og meiri möguleikar á Íslandi.

Heyra má í fjölmiðlum dómsdagsspár um hrun ferðaþjónustunnar vegna hamfara í íslenskri náttúru. Útlendingar muni kjósa að fljúga til annarra landa en Íslands vegna þess hvernig íslenskt eldfjall leikur flugið.

Enn sem komið er hefur eldfjallið þó valdið miklu langvinnari og meiri röskun á flugi í öðrum Evrópulöndum en Íslandi. Millilandaflug okkar hefur til dæmis aldrei fallið með öllu niður. 

Talað er um að bandarískar ferðaskrifstofur muni beina ferðamönnum þaðan til Suður-Evrópu næsta sumar. 

Er þó vitað að Barcelona-liðið varð að ferðast 1000 kílómetra til þess að leika við Inter á Ítalíu og fór þangað meðfram suðurströnd Evrópu.

Við Íslendingar virðumst eiga erfitt með að komast út úr þeim förum að vilja ráða því eftir hverju útlendingar sækist hér á landi og selja Ísland sem land með "póstkortaveðri", logni, heiðríkju og steikjandi hita. 

Á meðan lokka Írar hundruð þúsunda ferðamanna frá hinum heitu löndum Suður-Evrópu til þess að koma á vesturströnd Írlands og upplifa suðvestanrok og rigningu, sem hefur sviðið trjágróður á ströndinni svo mjög með saltrokinu, að trén eru lauflaus sjávarmegin. 

Okkur Íslendingum virðist um megn að tileinka okkur það meginlögmál viðskipta að viðskiptavinurinn hafi alltaf rétt fyrir sér og að það eigi að sækjast eftir því að selja honum það sem hann vill kaupa frekar en það sem við viljum kaupa. 

Sá markhópur í ferðamennsku, sem stækkar örast, er hópurinn sem sækist eftir upplifun, - hópurinn sem varð grundvöllurinn að veldi Lonely Planet,"raunveruleika"-sjónvarpsþátta og "survival-challenge" -upplifuninni.

Einstæð náttúra Íslands er og verður með mesta aðdráttaraflið, hvort sem hún fer hamförum eða ekki. 

Við getum selt "The greatest show on earth". Um þá sýningu gildir, að í stað þess að vilja rjúka upp á sviðið og breyta hinu stórkostlega sjónarspii rétt eins og rokið sé upp á svið til að breyta sýningu á leikriti Shakespeares eða grískum harmleik, liggja möguleikarnir þvert á móti í því að snilldarsýning náttúrunnar verði notuð sem aðal aðdráttarafið. 

Vettvangur Heimaeyjargoss, gosanna núna, Skaftárelda, Veiðivatnagosa, Grímsvatnagosa, Skeiðarárhlaupa, Öræfajökulsgossins 1262, Heklugosa og Kötlugosa og "Sköpunar jarðar, - ferða til mars" á Gjástykki-Leirhnjúkssvæðinu, -  öll þessi svæði öðlast nýja möguleika sem aðdráttarafl eftir að Eyjafjallajökull hefur minnt á tilveru sína og þeirra.

Í stað þess að fara í baklás og harma að svona atburðir eigi sér stað skapa þeir þvert á móti ný sóknarfæri um allt land, sé rétt að málum staðið.   

 

Okkur


mbl.is Keflavíkurflugvöllur opnaður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurbjörn Sveinsson

Laukrétt Ómar.

Sigurbjörn Sveinsson, 26.4.2010 kl. 12:14

2 Smámynd: Þorsteinn Briem

"Tekjutap ferðaþjónustunnar vegna eldgossins í Eyjafjallajökli getur orðið allt að 30 milljarðar króna", segir ferðaþjónustan hér, en það er sama upphæð og tjón vegna eldgossins í Vestmannaeyjum árið 1973 á núvirði.

Dregur úr bókunum í ferðaþjónustu


Eldvirkni er hins vegar einn af stærstu kostum þess að búa á Íslandi, þrátt fyrir truflun á flugsamgöngum og skemmdir á mannvirkjum.


Erlendir ferðamenn koma
til Íslands aðallega til að sjá og njóta eldvirkra svæða á mótum Ameríku- og Evrópuflekans.

Þar má til að mynda nefna Bláa lónið, Þingvelli, Hveragerði, Þórsmörk, Öskju, Mývatn og jarðböðin í Mývatnssveit. Erlendir ferðamenn fara einnig flestir til Reykjavíkur, Gullfoss og Geysir eru skammt frá Reykjavík og Keflavíkurflugvöllur er nálægt eldvirka svæðinu á Reykjanesi.

Margir útlendingar koma einu sinni til Íslands og frestuðu því einungis til næsta árs að ferðast hingað vegna eldgossins í Eyjafjallajökli.

Hjá mörgum öðrum útlendingum kviknaði hins vegar áhugi á að ferðast til Íslands vegna gossins í Eyjafjallajökli, eins og fram kom í viðtali Kristins R. Ólafssonar, fréttaritara RÚV á Spáni, við mann sem rekur þar ferðaskrifstofu.

Heitt vatn
sem við fáum úr jörðu vegna eldvirkni hér sparaði okkur um 16 milljarða króna á núvirði í erlendum gjaldeyri árið 1994, andvirði alls útflutnings á botnfiski það ár. Og Nesjavallavirkjun ein framleiðir 120 MW af rafmagni og 300 MW af varmaorku vegna eldvirkni hér.

Ferðaþjónustan hér nýtur að sjálfsögðu einnig góðs af því, eins og aðrir Íslendingar, sem eru með ríkustu þjóðum í heimi vegna eldvirkninnar hérlendis.

Þorsteinn Briem, 26.4.2010 kl. 14:52

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband