2.5.2010 | 13:47
"Hláturinn lengir lífið / og lyftir geði tregu..."
Í tilefni dagsins set ég hér að ofan á blað fyrstu hendinguna í texta sem ég gerði fyrir margt löngu og margir hafa farið rangt með, - það er að segja síðustu þrjú orðin, - "...lyftir geði tregu."
Textinn er að sjálfsögðu miklu lengri en boðskapur hans kemst þó allur fyrir í þessari einu línu.
Húmor og hlátur flokkast undir geðheilbrigðismál og eru okkur jafn nauðsynleg og að anda og nærast.
Lífið er nógu erfitt og snúið þótt það sé ekki gert í því að gera það erfiðara með leiðindum.
Það er of stutt til þess að eyða því í það að velta sér upp stanslaust upp úr því neikvæða.
Þótt sjálfsagt sé að forðast sóun og bruðl daginn út og daginn inn er samt nauðsynlegt að geta gert sér dagamun.
Það er gert um þessa helgi í Kauptúni í Hafnarfirði þar sem er stórskemmtileg mótorsportsýning.
Til þess að efla fjölbreytnina er fyrir því séð að sýna allt frá því dýrasta og stærsta niður í það ódýrasta og smæsta.
Þannig má sjá þarna "geðveikasta" vélhjól í heimi, Boss-Hoss, 500 kílóa hjól með stórri V-8 vél.
Í vélhjólabókum má sjá að hægt er að kaupa slíkt hjól sem er með 508 hestafla vél og vegna þess að eitt hestafl knýr hvert kíló hjólsins þarf aðeins tveggja þrepa sjálfskiptingu.
Í lægra þrepinu kemst hjólið upp undir 200 kílómetra hraða ef allt er í botni og langt upp undir 300 á hærra þrepinu!
Þetta hjól er eitthvað svo mikið 2007, - myndi kosta 12 milljónir núna!
En var á útsölu í boði stjórnvalda sem héldu uppi óraunhæfu gengi íslensku krónunnar á sínum tíma þegar í gangi var stórkostlegur hvati til þess að íslensku heimilin og fyrirtækin fjórfölduðu skuldir sínar.
Þarna má líka sjá þriggja farþega Vespu-hjól, þ. e. Vespu með hliðarvagni.
Nóg er af öflugum kvartmílubílum og einn Ferrari, en forsvarsmenn sýningarinnar höfðu líka humor fyrir því að bjóða mér að sýna þrjá af naumhyggjubílum mínum, minnsta Mini í heimi, minnsta brúðarbíl landsins og NSU-Prinz 1958, en slíkur bíll í minni eigu var minnsti, sparneytnasti, ódýrasti og umhverfisvænasti bíll landsins á árunum 1959-62.
Auðvelt var að flytja tvo bíla saman á vagni suðureftir, sem hannaður er fyrir einn bíl !
Sá stutti hefur verið og verður sýningargripur á bilasalan.is
Hlegið í dag | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Almenningur grætur innra með sér á hverjum degi meðan auðvaldið hlær.
Tómas Waagfjörð, 2.5.2010 kl. 18:36
"........Kauptúni í Hafnarfirði...."
Ái... þetta var sárt Ómar. Við í Garðabænum viljum nú eiga Kauptúnið eitthvað áfram.
Þórhildur (IP-tala skráð) 3.5.2010 kl. 00:05
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.