3.5.2010 | 08:29
"Öskugangan"? Átök elds og íss.
Ný leið yfir Fimmvörðuháls og ný leið inn í Þórsmörk blasa við á verkefnalista fyrir ferðafólk næsta sumar.
Nú er hægt að breikka markhópinn, sem vill ganga yfir hálsinn, með því að bjóða upp á "survival" öskugöngu yfir hann, þar sem fólk fær að takast á við og upplifa einstæða göngu, sem hvergi annars staðar í heiminum er völ á.
Fór í nótt inn að Gígjökli til að kynna mér átök elds og íss. Var að koma úr þeirri för en ætla að leggja mig (svaf aðeins í eina klukkustund í nótt) og blogga síðan um það með ljósmyndum.
Lét að vísu kvikmyndunina hafa forgang.
Klukkan 19:00: Jæja, þurfti að klára verkefni dagsins áður en ég kæmist í þetta.
Ég áttaði mig ekki á því að tilefni væri til að fara í þessa ferð fyrr en eftir miðnætti, þegar lýst var á mbl. möguleikanaum á því að hraunið kæmi glóandi fram og á hinn bóginn var spáð að myndi þykkna upp og fara að rigna um hádegi.
Fór af stað að heiman upp úr klukkan tvö og kom til baka upp úr sjö.
Í ljósaskiptunum var eins og að aka inn í annan heim að fara upp með Markarfljóti, sem gufan sauð á alla leið, enda fljótið 17 stiga heitt við brúna.
Á myndum er fyrst horft upp til jökulsins, síðan þvert yfir og loks niður með ánni, sem er ekki lengur "jökulsá" heldur heit.
Fljótið hækkar farveg sinn stöðugt og er búið að ónýta nokkra kafla leiðarinnar inn að Gígjökli.
Vitað er að mikið þarf til að gera leiðina yfir aura Jökulsár færa í sumar og líka yfir árnar fyrir innan sem hafa hlaupið.
Þegar ég var þarna var gufan mikil og síðan kom hrun uppi í jöklinum og flóð með boðaföllum, sem Skaftfellingar kalla "drýli" ruddist fram.
Sjónvarpsfólk fór síðan austur um hádegið og þá var skyggnið mun betra heldur en þegar hinn ógnvekjandi gufuheimur brá dramatiskri birtu á þennan vettvang átaka íss og elds, sem í sameiningu er að hlaða upp brattri og hárri aurkeilu þar sem áður var djúpt lón.
Og að koma þangað í ljósaskiptunum í morgun var eins og að ganga í áttina að dyrum vítis.
Ætla að marka nýja leið yfir Fimmvörðuhálsinn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Eldgangan, Walk of Fire.
Öskugangan hljómar nú ekki vel.
Þorsteinn Briem, 3.5.2010 kl. 10:13
Það verður spennandi Ómar að lesa um þessa ferð þína, ekki sofa of lengi
Ragna Birgisdóttir (IP-tala skráð) 3.5.2010 kl. 10:42
Ómar liggur undir feldi,
öskuna til útlanda seldi,
brókin Johnsens brann í eldi,
buxnalaus í fjórða veldi.
Þorsteinn Briem, 3.5.2010 kl. 11:41
Sæll Ómar. Ég var að hlusta á viðtal þitt við Sölva og þakka kærlega fyrir það og myndirnar. Í lok viðtals kemur smá partur af Reykjavíkurljóðinu ..... er þetta myndband einhversstaðar á vefnum? Ég gáði á youtube en fékk ekki neitt :(
Kv. Gróa
MUSA, 3.5.2010 kl. 17:52
Reykjavíkurljóðið er í tónlistarspilaranum vinstra megin á síðunni minni en kannski ekki nógu nákvæmt merkt, "Gunnar Þórðarson-Ómar Ragnarsson".
Þetta er aðeins hljóðið, - ekki myndin. Bendi þér síðan á efsta lagið, sem er alveg nýtt, "Þar ríkir fegurðin", en ég gef nánari útskýringar á því sem fyrst.
Ómar Ragnarsson, 3.5.2010 kl. 18:53
Sæll aftur Ómar. Ég var búin að sjá tónlistarspilarann hjá þér - og á þetta líka á minni tölvu, því ég keypti lagið á tónlist.is. En mig langaði til að fá embed af myndbandinu til að setja inn á heimasíðu sem ég á - og bloggið fyrir borgarkórinn (sem er enn að æfa lagið) :)
MUSA, 3.5.2010 kl. 20:22
Einn falegasti staðurinn við vegin inn í Þórsmörk virðist vera "ónýtur" eftir þessar hamfarir en það er jökullónið.
Einar Steinsson, 3.5.2010 kl. 22:54
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.