Verstu "lestarstjórarnir".

Ég vil bæta við pistil um "lestarstjóra" í umferðinni því sem er kannski mikilvægast í sambandi við þá en það tillitsleysi þeirra að halda sig inn við miðlínu vegar og koma þannig kyrfilega í veg fyrir að nokkur komist fram úr þeim.

Fyrir nokkru ók ég niður Kambana og á þeim kafla voru þrír afar hægfara bílstjórar. Tveir þeirra héldu sig fast við miðlínu þótt auðvelt væri fyrir þá að víkja til hægri út á breiða öxl sem er ætluð fyrir farartæki sem komast ekki hratt. 

Við slíkar aðstæður er freisting að fara fram úr hægra megin og nota vegöxlina til þess en það er ekki leyfilegt og því gera menn það ekki. 

Einn af þessum þremur bílstjórum skar sig þó úr og fór strax út á öxlina. Þegar ég fór fram úr bílnum áttaði ég mig á því að þetta var útlendingur á bílaleigubíl. 

Sjálfur á ég tvo fornbíla sem geta ekki haldið 90 kílómetra hraða upp brekkur ef ég fer út úr bænum og reyni alltaf að haga akstri mínum þannig að allir komist fram úr mér þótt stundum sé það erfitt vegna þess hve Vegagerðin sinnir lítið um vegaxlirnar, sem víða eru illfærar og hættulegar. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þarna hittir þú á kjarna málsins Ómar. Þetta snýst mikið um það hvernig maður keyrir hægt en ekki hvort. Sé maður virkur að gefa þeim sem hraðar vilja fara stefnuljós til merkis þess að öruggt sé að fara fram úr auk þess að halda sig vel til hægri þá tekst oftar en ekki að koma bílum hratt og örugglega fram úr og halda lestinni í lágmarki auk þess er jafn hraði mikið atriði en erfitt er að komast fram úr manni sem er stöðugt að rokka milli 80 og 100 þar sem að við kjöraðstæður er hann ætíð of hratt til að hægt sé að komast örugglega fram úr. Þeir ökumenn sem þannig aka á sífellt breytilegum hraða pirra mig persónulega mest og skapa mikla hættu, en þeir sem keyra stöðugt á 80 og sýna tillitsemi með merkjagjöf þegar færi til frammúraksturs gefst pirra mig ekki neitt. Þannig að verstu lestarstjórarnir hafa yfirleitt fleiri lesti en bara það að fara hægar yfir. En svo getur einnig komið til hræðsla bílstjóra sem á eftir þeim sem hægt fer við frammúrakstur sama hversu liðlegur við merkjagjöfina sá hægi er og þá er hinn raunverulegi lestarstjóri bíll númer 2 í röðinni!

 Takk fyrir að vekja athygli á þessu þarfa máli Ómar.

 Bjarki

Bjarki (IP-tala skráð) 25.5.2010 kl. 11:48

2 identicon

Sæll Ómar, 

Fyrir utan þessa lestarstjóra, hefur þú tekið eftir því að lögreglan hefur aldrei afskipti af þeim sem tala í farsíma undir stýri (þú ert sjálfsagt einn af þeim, jafnvel einn sá versti, með tvo í takinu í einu!)

Hefur þú tekið eftir því að leigubílstjórar aka ALDREI með full ökuljós, eins og áskilið er, í besta lagi stöðuljósin, en margir þeirra aka ljóslausir með öllu jafnvel í skammdeginu og að nóttu til, og ekkert þýðir að gefa þeim merki um ljósleysið, og ekki hefur lögreglan nein afskipti af þeim heldur.

Það er eitthvað allt annað en virðing fyrir lögum og reglu sem ráða ferðinni á þessu skeri.

Björn 

Björn Jónsson (IP-tala skráð) 25.5.2010 kl. 12:59

3 identicon

Er þetta ekki óþarfa smámunasemi, Ómar?! Erum við virkilega að flýta okkur svona mikið? Þú hefur komið nokkrum sinnum á stöðina til mín hérna á Blönduósi og yfirleitt ertu á handahlaupum!!

Hvað viltu gera við þessa "kalla með hattinn"? Eigum við að neita þeim að reyna að fá að lifa lífinu með því að taka þá úr umferð rétt si sona? Er ekki betra að við sem erum á "rétta aldrinum" hjálpum þeim frekar að komast í gegnum lífið hamingjusamlega? Ungir sem aldnir munu ALLTAF eiga í erfiðleikum með akstur, hvernig sem á það er litið. Reynum frekar að telja þeim kjark frekar en niðra þá!

Egill Þór (IP-tala skráð) 25.5.2010 kl. 19:28

4 identicon

Æ, æ Ómar minn, eru allir að þvælast fyrir þér.

 Þú hlýtur nú að fara að reskjast sjálfur og viðbrögðin eitthvað að  sljóvgast þá finnst þér kanski betra  að keyra af öryggi og fara hægar. Hvernig verða bloggfærslunar hjá þér þá. "Ég var að keyra niður kambana á löglegum hraða en í kömbunum eru leiðbeiningarmerki  sem segja að það sé óhætt að keyra á 60 í næstu beygju, en Þessir svíðingar eru að flauta á mig og  keyra eins og eldibrandar þannig að enginn er óhultur fyrir þeim, Hvar er löggan".

Palli var ekki einn í heiminum frekar en þú.

Rafn Haraldur Sigurðsson (IP-tala skráð) 25.5.2010 kl. 19:58

5 Smámynd: Þorsteinn Briem

Af Grundinni austur fyrir fjall,
á fimmtíu ók sá gamli kall,
og kalluglan í Kömbunum dó,
krossaði sig þá Ómar og hló.

Þorsteinn Briem, 25.5.2010 kl. 22:13

6 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Yfirleitt liggur mér ekkert mikið á eins og verið er að ýja að. Litlu, gömlu smábílarnir, sem ég er á, njóta sín best á um 80 kílómetra hraða, eyðslan er minni og áreynslan á vélarnar litlu sömuleiðis.

"Lestarstjórarnir" sem ég er að tala um, fara niður í allt að 50 kílómetra hraða án þess að þess sýnist nokkur þörf og líma sig þar að auki við miðju vegarins.

Síðan eru sumir, sem aka þannig, að það þyrfti sálfræðing til að kanna, hvað fer fram í hausnum á þeim. 

Um daginn ók einn með kerru aftan í sér á um 70 kílómetra hraða á einbreiðum vegi og hélt langri röð á eftir sér. 

Þegar komið var loks á vegarkafla þar sem hægt var að fara fram úr honum brá svo við að hann gaf í og ók að lokum langt yfir 90 kílólmetra hraða! 

Ómar Ragnarsson, 25.5.2010 kl. 22:27

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband