26.5.2010 | 12:24
"Hvort eð er" hugarfar?
"Hvort eð er" hugarfar á miklum vinsældum að fagna hér á landi. Það byggist á því að þegar allt er með endemum skipti ekki lengur máli þótt haldið sé áfram á þeirri braut, það sé hvort eð er búið að klúðra svo miklu.
Þetta hugarfar skín til dæmis í gegn þegar um umhverfisvernd eða náttúruvernd er að ræða. Við erum hvort eð er svo rækilega búin að rýja okkur öllu áliti erlendis að það tekur því ekki að vera neitt að reyna að rétta hlut okkar.
Með þessu hugarfari má réttlæta að ráða fólk í vinnu í borgarstjórn Reykjavíkur sem ýmist hefur aldrei komið nálægt neinu slíku eða gerir það opinbert að það ætli ekki að vinna þessi störf heldur auglýsir eftir fólki til að gera það.
Slíkt er auðvitað með endemum en þá er bara yppt öxlum og sagt: Stjórnmálamenn eru hvort eð er búnir að haga sér með endemum síðustu ár og við Íslendingar erum hvort eð er orðnir frægir að endemum.
Mikið forskot Besta flokksins | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Gnarr er nú á beinni braut,
brosið hans við himinskaut,
Framsókn sem í flagi naut,
fýsnum svalar í sjallalaut.
Þorsteinn Briem, 26.5.2010 kl. 13:07
Reynsluleysi er einmitt það sem þarf, fólk skortir reynslu af stjórnmálaflokkum, eða kanski vegna þess að það er ekki spillt af flokkstarfinu og þeirri óumdeilanlegu spillingu sem þar viðhefst. FLOKKLAUST ÞÝÐIR EKKI HEIMSK
Jóhann Hallgrímsson, 26.5.2010 kl. 16:31
Hef alltaf kunnað vel við þig Ómar, en mér hefur ekki tekist að koma auga á nein rök gegn Bestaflokknum sem ekki eru hræðsla eða getgátur.
Þú hlýtur nú að sjá skoplegu hliðina á þessu. það er ekki einsog að það fari allt til fjandans hérna. Slíkt tal er ekkert nema hræðsla og getgátur.
Einsog Hanna Birna sé einhver sérstakur snillingur bara af því að hún heldur spilunum þétt að sér líkt og Davíð Oddson? Ég held að meðlimir Bestaflokksins teljist seint til heimskari einstaklinga. Þetta er allt mjög hæft fólk, að mínu mati allavega.
Hafðu það gott Ómar
Hermann Hrafn (IP-tala skráð) 26.5.2010 kl. 19:12
Ég held því hvergi fram að frambjóðendur Besta flokksins sé ekki skynsamt og gott fólk.
Ég er aðeins að benda á að samkvæmt þeirra eigin orðum vilji þeir síður vinna þau störf sem á að kjósa þau til.
Og hvergi kemur fram um sjónarmið þeirra í orkumálum, skipulagsmálum og mörgum fleiri málaflokkum.
Þetta er allt saman bara djók og skemmtilegt rugl sem er ágætt á sína vísu.
En ég hélt að við værum að kjósa fólk til að vinna ákveðna vinnu en ekki til að djóka og fíflast, eins og það gerir raunar mjög vel.
Ómar Ragnarsson, 27.5.2010 kl. 01:28
Ég set spurningarmerki við það að allir frambjóðendur Besta flokksins séu skynamt og gott fólk. Ég þekki engan þeirra, en þó þykist ég vita að einhvers staðar á listanum sé kvenmaður sem vann sér það til frægðar fyrir örfáum árum að hrækja framan í fólk í beinni útsendingu í sjónvarpi. Á þeim tíma kom hún fram sem fulltrúi íslensku þjóðarinnar.
Ég segi nei takk!
Hörður Björgvinsson (IP-tala skráð) 27.5.2010 kl. 10:42
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.