30.5.2010 | 08:27
Mikið grín, - mikið gaman !
Tvær hliðar hafa verið á atburðarásinni hér á landi síðustu tvö ár hvað varðar álit okkar og orðstír erlendis.
Annars vegar sú dauðans alvara að þjóðin er rúin trausti erlendis. Það er alvörumál því að það kemur óþyrmilega á hverjum degi við buddu hvers Íslendins og veldur þjóðinni ómældu tjóni.
Hins vegar það að við virðumst leggja okkur fram um að gera okkur að athlægi um víða veröld og var þó ekki á það bætandi.
Spéfuglar allra landa fá nú ný tilefni til háðs og spotts í garð okkar, því aldrei fyrr hefur verið hægt að nota um íslenskan viðburð hin fleygu orð Ladda: "Mikið grín, - mikið gaman!"
Eitt af þeim orðum sem Jón Gnarr hikaði ekki við að nota í kosningabaráttunni var orðið "aumingjar".
Út á við mun það orð hugsanlega fá flug í hugum annarra þjóða í viðhorfi þeirra til okkar. Ef einhverjar þeirra eiga eftir að reynast okkur vel verður það aumingjagæska.
Í augum alheimsins hafa Íslendingar lagt sig fram um það í þessum byggðakosningum og atburðum siðustu missera að gera sig að aumkunarverðri þjóð sem liggi fyrir hunda og manna fótum, höfð að háði og spotti jafnt inn á við sem út á við, tilbúin til að gefa frá sér auðlindir sínar og alheimsverðmætin, sem henni var falið að hafa umsjón með.
Í kosningabaráttu Besta flokksins sást lítið til þeirrar nauðsynlegu ádeilu með beittan brodd sem Spaugstofan hefur sýnt.
Svo virðist sem að á öllum sviðum, jafnt í gríni sem alvöru, sé forðast að grípa á því sem helst þarf að laga í hegðun okkar, heldur látið nægja að grínið sé almennt nóg til að bæta ál fáránleikann, sem komst í himinhæðir í hruninu.
Þess vegna er hætt við að framtak Jóns Gnarr og fylgismanna hans nægi ekki til að snúa málum hér til betri vegar, en slíkur árangur svona framboðs hefði verið æskilegur.
Með því að láta háðið bitna eingöngu á stjórnmálamönnum sem stétt en leyfa nær öllum öðrum að sleppa var nefnilega tryggt að fylgi fengist. Að því leyti til reyndist Besti flokkurinn engu betri en hinir fyrri flokkar að tilgangurinn virtist helga meðalið.
Besti flokkurinn stærstur | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Tek heilshugar undir með þér Ómar þetta eru góðar tímabærar athugasemdir.
Jón Magnússon, 30.5.2010 kl. 09:22
Merkilegt hvað fólk oft á tíðum sættir sig ekki við lýðræðið. Varla var það fólkið í landinu sem kom þjóðinni á kaldan klakann, nei það voru spilltir stjórnmálamenn, bankamenn og málpípur þeirra í fjölmiðlum.
Viðar Helgi Guðjohnsen, 30.5.2010 kl. 09:50
Góður og áhugaverður pistill hjá þér.
Rafn Haraldur Sigurðsson (IP-tala skráð) 30.5.2010 kl. 09:56
Lýðræðinu hefur verið ógnað með múgsefjun, það er afbökun á lýðræðnu.
Gunnar Heiðarsson, 30.5.2010 kl. 09:56
Hvað vilt þú gera? Afnema kosningarétt landsmanna?
Viðar Helgi Guðjohnsen, 30.5.2010 kl. 10:02
Ja, hérna. Þetta er í fyrsta skipti sem ég sé svartsýn, fordómafull og niðurdrepandi skrif frá Ómari Ragnarssyni.
Grefillinn Sjálfur - Koma svo! (IP-tala skráð) 30.5.2010 kl. 10:13
Lifi byltingin!
Sigurður Haraldsson, 30.5.2010 kl. 10:16
Fyrir nokkrum árum tókust þau á í borgarmálum Árni Sigfússon og Ingibjörg Sólrún.
Árni - sem ábyrgur maður - Ingibjörg sem hávær ruddi sem kunni enga mannasiði.
Fjölmiðlar átu þetta upp og IG varð borgarstjóri. IS fékk leyfi til þess að vaða yfir Árna á skítugum skónum í "viðtalsþáttum" þess tíma.
Hörmungartímabil R listans rann up.
Ingibjörg hafði þó skoðanir - Jón Gnarr forðast að opinbera hvort og þá hvaða skoðanir eða stefnu esti flokkurinn hefur.
Aumingjastimpillinn sem hann setti á Reykvíkinga var samþykktur af 20.666 kjósendum
Kanski táknrænt að talan 666 skyldi koma upp - ýmsir þekkja merkingu þeirrar tölu.
Ólafur Ingi Hrólfsson, 30.5.2010 kl. 10:17
Ég horfði á ráðamenn þjóðarinnar í gær
Þeir voru enn í sama leikritinu
þeir tortíma sjálfum sér ráðamannalega séð
Jón Gnarr er spurður Hann svarar skýrt.
Fjorflokkur er spurður þá kemur bara froða
KVEÐJA
Æsir (IP-tala skráð) 30.5.2010 kl. 10:26
Sæll Ómar
Voðalega ertu orðin spéhræddur um hvað útlendingum fynnst um okkur!!..
Polli (IP-tala skráð) 30.5.2010 kl. 11:06
Þakka þér Ómar, við erum með ríkisstjórn sem eingin tekur mark á, hvorki hér heima né annarstaðar og nú fáum við borgarstjórn sem eingin tekur mark á og það besta við þetta allt er að það er hvorki mér að kenna eða þakka.
Ég var ekki spurður frekar en þú Ómar. Næstu skref okkar eru að halda í horfi á meðan lifum til hags fyrir konur, því til verndar þeim og byrðum þeirra erum við skapaðir. Ég ætla ekki að ergja mig á þessu frekar, því þeir brenna sig á eldinum sem kunna ekki með hann að fara.
Því miður Þá brenna og líka saklausir.
Hrólfur Þ Hraundal, 30.5.2010 kl. 11:42
Kjósendur létu lýðræðislegan vilja sinn í ljós í gær. Þeir opinberuðu enn fremur að lýðræðislegur þroski fer ekki endilega saman við lýðræðislegan vilja. Langt er enn í land i þeim efnum á Íslandi.
Ég þakka fyrir góðan pistil, Ómar.
Ragnhildur Kolka, 30.5.2010 kl. 11:46
Góður og sannur pistill. Ég hafði einmitt bloggað um þetta sama fyrir kosningar og því miður er þetta nú orðið staðreynd.
Nú hlýtur að verða mikið grín og mikið gaman.
Axel Jóhann Axelsson, 30.5.2010 kl. 12:12
Hví hefur þú svona miklar áhyggjur af áliti þeirra sem erlenda jörð byggja, er þetta ekki lýsandi hugsunarháttur 4 flokkanna, landið er í rúst og þeir gera ekki neitt til þess að hjálpa þjóðinni heldur einblína á hvað þeir geta gert til þessa að friðþægja erlenda djöfla sem svívirða landið og misnota völd sín og stöðu.
Þjóðin hefur talað í lýðræðislegum kosningum, ,, sjáið okkur" hjálpið okkur áður en þið seljið þjóðina lítið blindum augum á sölu á auðlindum meðan heimili og velferð landans situr á hakanum.
Þetta er byrjunin, og stór skilaboð um að ,,VALDIÐ ER HJÁ FÓLKINU" ekki brún nefjum og höfðingja sleikjum Evrópu sinna.
Síðast þegar ég athugaði, þá er Ísland ennþá land mitt og þitt ef það skildi hafa farið fram hjá þér. Það er bylting hafin í landinu með þessum kosningum, núna mun koma í ljós hverjir hafa þor og dug að standa í fæturna og segja hingað og ekki lengra.
ÍSLENDINGAR FYRST!. Ætti að vera slagorð okkar allra.
Vona að þú notir orð þín í framtíðinni til að vekja hugrekki ekki að rakka niður þá von sem sem þjóðin er að reyna koma á framfæri með sínum lýðræðislega rétti. Von um breytingar, von um bjartari framtíð.
Framtíðin er óskrifuð, hvernig sem á það er litið, gefðu henni smá sjens.
Linda (IP-tala skráð) 30.5.2010 kl. 12:35
Það er alveg klárt að Besti flokkunin er grín og ætlar að stjórna með gríni. Þannig á það að vera. Grínið er best og það á heima í besta flokknum.
Það er eins og margir haldi að allt í einu hætti grínframboðið að vera grín og einhver alvara taki við. Það mundu vera mikil svik við kjósendur ef það gerðist. Alvaran er hundleiðinleg og óheiðarleg þar að auki.
Og hver segir að ekki sé hægt að stjórna litlu sveitarfélagi á borð við Reykjavík með gríni? Sérstaklega þegar tekið er tillit til þess að það sem hefur verið að gerast og átti að vera alvara, var bara skoplegt.
Svanur Gísli Þorkelsson, 30.5.2010 kl. 12:45
orðið "aumingjar" er langbesta orðið sem hægt er að nota um íslenska stjórnmálamenn.. Gnarr notaði bara orð sem er almennt í umræðunni um stjórnmál hér á Íslandi.
að fólk sé að halda því fram að þótt Gnarr og co séu grínistar og þar afleiðandi ekki marktækir eins og lesa má úr orðum margra "virðingarverðra" manna og kvenna hér að ofan lýsir einmitt aumingjahætti, fordómum og heimsku viðkomandi..
Ég treysti Gnarr til allra góðra hluta.. það get ég ekki sagt um siðlausa skrílinn í sjálfstæðisflokknum.. eða samfó
Óskar Þorkelsson, 30.5.2010 kl. 13:37
Besti flokkurinn fékk 20.666 atkvæði í Reykjavík í kosningunum í gær og sex borgarfulltrúa en Íslandshreyfingin fékk 5.953 atkvæði á öllu landinu í alþingiskosningunum vorið 2007, þar af 3.386 í Reykjavík, og engan þingmann.
Munurinn á atkvæðafjölda þessara flokka í Reykjavík er því sexfaldur, eða 17.280 atkvæði.
Ég kaus nú ekki Besta flokkinn en hefur Ómar Ragnarsson einhverja sérstaka ástæðu til að ætla að flokkurinn sinni ekki umhverfismálum og öðrum málum í Reykjavík af sinni bestu getu og samvisku?!
Grínistinn Ómar Ragnarsson er hins vegar löngu hættur að vera fyndinn.
Því er nú verr og miður.
Þorsteinn Briem, 30.5.2010 kl. 14:52
Ég tek undir hvert orð hjá þér Ómar. Þetta voru orð í tíma töluð, - reyndar er skaðinn skeður og alvaran hefur tekið við.
Ágúst H Bjarnason, 30.5.2010 kl. 15:11
Þó svo að ég sé nú ekki sammála Ómari í einu og öllu í þessum pistli hér, þá skil ég ekkert í þessari athugasemd hér beint að ofan.
Án þess að þekkja viðkomandi nokkuð, þá ímynda ég mér nú, að Steini Briem sé töluvert langt frá því að vera skarpasti hnífurinn í skúffunni.
Jón (IP-tala skráð) 30.5.2010 kl. 15:25
Kjósendur hafa réttinn til að kalla yfir sig hvað þeir vilja. Gallinn er oft sá að það sést ekki fyrr en eftirá hvað menn hafa kosið yfir sig.
Varðandi spaugið; betra er illt umtal en ekkert
Steinmar Gunnarsson, 30.5.2010 kl. 16:18
Jón.
"Án þess að þekkja viðkomandi nokkuð, þá ímynda ég mér nú, að Steini Briem sé töluvert langt frá því að vera skarpasti hnífurinn í skúffunni."
Mér er alveg nákvæmlega sama hvað þér finnst og þú ímyndar þér um mig og annað fólk sem þú þekkir ekki neitt.
Ómar Ragnarsson er opinber persóna sem stofnaði hér stjórnmálaflokk, var í framboði fyrir flokkinn og ég hef fylgst með skrifum hans hér frá upphafi.
Og það er mín órökstudda skoðun að hann sé ekki lengur fyndinn en ég sé enga sérstaka ástæðu til að rökstyðja þessa skoðun mína.
Eins og Ómar flutti ég þjóðinni alls kyns fréttir árum saman, þó mun skemur en hann, og hef oft verið gáttaður á alls kyns órökstuddum og beinlínis röngum fullyrðingum hans hér um menn og málefni, sem ég hef margoft gagnrýnt með rökstuddum fullyrðingum.
Þorsteinn Briem, 30.5.2010 kl. 16:56
Allt er betra en VG, sem er skaðlegasti ´flokkur´landsins, ef flokk skyldi kalla.
Björn Emilsson, 30.5.2010 kl. 18:56
Íslenskir glæpamenn og stjórnmálamenn eru til skammar erlendis, við þegnarnir vorum ekki spurð.
Elle_, 30.5.2010 kl. 19:36
Hverju máli skiptir íslensk hreppapólitík "útlenska"?
Nær væri að landsmálapólitíkusar legðust undir feld og hugsuðu sitt ráð í tíma fyrir næstu alþingiskosningar.
Það er þar sem utanríkismálin eiga heima.
Kolbrún Hilmars, 30.5.2010 kl. 19:43
"Orðstír deyr aldreigi, hveim sér góðan getur." Viðskiptavild þjóða má virða í þúsundum milljarða króna.
Fornmenn töluðu stundum um að verk manna yrðu uppi meðan land byggðist.
Á allt þetta sé ég að sumir telja lítils virði í athugasemdum hér að ofan. Það er íhugunarefnni út af fyrir sig.
Í athugasemd hér að ofan sé ég lagt á þann hátt út af pistli mínum að ég vilji að við skríðum fyrir útlendingum og seljum þeim eða gefum hvað sem vera skal til þess að þeir fái álit á okkur.
Ekkert er fjarri sanni, - þetta er þveröfugt. Ég hef andæft þessu og bent á hvernig við stundum þá þjóðarlygi að nýting orkulindanna hér sé sjálfbær, endurnýjanleg og hrein þegar það liggur fyrir að við dælum að meðaltali þrefalt meiri orku upp úr jarðhitasvæðunum en þau afkasta til framtíðar.
Það kallast rányrkja á góðri íslensku að ræna kynslóðir framtíðarinnar á þennan hátt.
Sagt hefur verið að þjóðir fái þá ráðamenn sem þær eigi skilið. Það virðist hafa átt við hér á landi í aðdraganda Hrunsins, Hruninu sjálfu og eftir Hrun.
Ómar Ragnarsson, 30.5.2010 kl. 20:12
Ómar, þjóðir fá oft þá ráðamenn sem þær eiga ekki skilið. Við gerðum ekkert til að verðskulda allar lygarnar og svikin við kjósendur af núverandi valdhöfum. Níðst hefur verið á þjóðum víða af ólýðræðislegum valdníðslustjórnum eins og núverandi stjórn, þó er þetta einsdæmi í hinum vestræna heimi. Persónlega finnst mér ömurlegt að fólk skyldi ekki heldur kjósa F eða H, heldur en Æ til að losna við spillingarflokka og valdníðslustjórn. Sorglegt að mínum ómi, lýðræði í örvæntingu gegn bæði erlendum og íslenskum yfirgangi valdhafa.
Elle_, 30.5.2010 kl. 20:28
Ómar, Jón Gnarr ber af sér góðan þokka, hann er drengur góður og fólk treystir honum, það er meðal þeirra ástæðna sem fólk er tilbúið að kjósa hann. Það treystir ekki fjórflokkunum
Þetta snýst ekki bara grínið, mér leiðist þetta viðhorf sem margir hafa að fólk hafi eingöngu kosið Jón vegna þess að hann er fyndinn.
Jón Bjarni Steinsson (IP-tala skráð) 30.5.2010 kl. 20:36
Vin sínum
skal maður vinur vera
og gjalda gjöf við gjöf.
Hlátur við hlátri
skyli höldar taka
en lausung við lygi.
Jón Bjarni Steinsson (IP-tala skráð) 30.5.2010 kl. 20:39
Ég tek undir það að Jón Gnarr býður af sér góðan þokka og sé drengur góður.
Hann er hæfileikaríkur maður og ég tek ofan fyrir honum sem humorista, mannvini og þýðingarmiklu hlutverki hans í þjóðlífi okkar.
Menn eins og hann eru stundum eru kallaðir grínistar í neikvæðum tóni í stað þess að taka undir orð Shakespeares um þýðingu þeirra og verðleika og mikilvægi í þjóðfélaginu.
Löngu er tímabært að leggja árangur og afrek slíkra manna að jöfnu við það sem ber með sér alvörukenndan blæ.
Ég óska borgarfulltrúum Besta flokksins velfarnaðar og veit að þar fer gott og gegnt hæfileikaríkt fólk.
Alþingi og borgarstjórn eiga að vera skipuð fólki af öllum stigumn þjóðfélagsins og nýliðar Besta flokksins og í öðrum flokkum gegna hlutverki að því leyti.
Hins vegar getur verið varasamt að halda að viðvaningar eða fólk sem hefur áður ekki haft áhuga á stjórnmálum og þeim viðfangsefnum, sem borgarstjórn fæst við, geti ráðið eitt og óstutt við stjórn borgarinnar.
Þá hrekkur grínið skammt.
Ómar Ragnarsson, 31.5.2010 kl. 00:26
Sæll Ómar
Þið Jón Gnar eruð ótrúlega líkir!! Báðir rauðhærðir, báðir hafið þið ánægju af að fíflast með grín fyrir áhorfendur, báðir stokkið af stað í stjórnmál á gamals aldri, báðir ofvirkir, ég myndi ekki vera tala mikið niður til Jóns ef að ég væri þú, þið eruð nefnilega eins, Jón er bara næsta kynslóð Ómars Ragnarssonar.
Polli (IP-tala skráð) 1.6.2010 kl. 04:11
Eftir þó nokkra umhugsun, Ómar, verð ég að játa að það var ekki bara ömurlegt, heldur líka skammarlegt hvað Æ flokkurinn, gersamlega óþekktur, fékk mikið fylgi. Fólk hefði getað farið öðruvísi að því að losa okkur við spillingarflokkana. Skilað auðu eða kosið litlu, óspilltu flokkana.
Elle_, 5.6.2010 kl. 14:43
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.