Eðlilegt miðað við stöðuna.

Þegar úrslit borgarstjórnarkosninganna eru skoðið sést að möguleikarnir á meirihlutasamstarfi eru fáir.

Í þessari kosningabaráttu hefur það heyrst að meirilhlutasamstarf sé úrelt aðferð í stjórnun sveitarfélaga eða ríkja og að ekki eigi að leita að slíku heldur eigi allir að vinna saman og enginn formlegur meirihluti að vera myndaður. 

Víst er það svo að við sérstakar aðstæður, svo sem á stríðstímum eða alvarlegum krepputímum getur verið nauðsynlegt að mynda svonefndar þjóðstjórnir með þátttöku allra flokka. 

Á hitt verður líka að líta að málum er jafnan ráðið í stjórnum ríkja, héraða og sveitarfélaga, að í atkvæðagreiðslum ræður meirihluti atkvæða. 

Ef ekki á að ríkja stjórnleysi eða láta skeika að sköpuðu er því engin leið að komast hjá því að meirihlutar myndist í hverri atkvæðagreiðslu heldur er oftast farsælast að sami meirihluti ráði ferð þegar skoðanir eru skiptar. 

Að þessu gefnu sést að það er eðlilegt að Besti flokkurinn og Samfylkingin reyni fyrst slíkt meirihlutasamstarf í borgarstjórn Reykjavíkur. 

Það sést ef skoðaðir eru hinir möguleikarnir.

1. Besti flokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn.

Kannski ekki svo fráleitt ef miðað er við það að í skoðanakönnunum hefur Hanna Birna haft mest fylgi sem borgarstjóri.

En á móti kemur að ekki verður fram hjá því komist að D-listinn er listi Sjálfstæðisflokksins, sem var höfuðsmiður Hrunsins og óaldarinnar í borgarstjórninni á meðan á henni stóð. 

Það væri skrýtin niðurstaða hjá Besta flokknum, sem var stofnaður til að mótmæla og andæfa Hruni, borgarstjórnarfarsa og afleiðingum þessa, ef hann tæki höndum saman við þann flokk sem mesta ábyrgðina bar. 

2. Sjálfstæðisflokkurinn og Samfylkingin. Efast má um að þessir flokkar myndu þora að láta tilvist og sigur Besta flokksins sem vind um eyru þjóta með því að fara í samstarf, jafnvel þótt meirihluti kjósenda í Reykjavík stæði á bak við slíkan meirihluta. Það yrði auðvitað vatn á myllu Besta flokksins. 

3 og 4 myndu felast í því að Vinstri grænir yrðu þriðja hjól á bílnum með Besta flokknum og Samfylkingunni og ekki er auðvelt að sjá að það sé raunhæfur eða nauðsynlegur kostur. 

5. "Þjóðstjórn" í borgarstjórn. VG hefur útilokað samstarf við Sjálfstæðisflokkinn svo að þessi kostur er ekki inni í myndinni.

Besti flokkurinn stendur nú frammi fyrir því að þurfa að vinna samkvæmt landslögum að því að inna þau verk af hendi, sem þeir Reykvíkingar, sem kusu hann, hafa ráðið hann til að vinna. 

Framhjá því mun hann ekki komast, ekki einu sinni sem minnihlutaflokkur, því að hann verður að tilnefna fólk til starfa í nefndum borgarinnar. Slíkt er ekki hægt að afgreiða sem "djók". 

 

 


mbl.is Ræddu við Samfylkingu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Skúli Víkingsson

Það mun hafa verið Göbbels sem staðhæfði að lygina þarf bara að endurtaka nógu oft til þess að henni verði trúað. Borgarstjórnarfarsinn á kjörtímabilinu byrjaði með því að Björn Ingi fulltrúi framsóknar í borgarstjórn fór af stað með REI málið svokallaða, þ.e. að afhenda fyrirtækjasamstæðu sem var fremst í flokki bólunnar eignir Orkuveitunnar. Vilhjálmur Þ Vilhjálmsson var einn borgarfulltrúa sjálfstæðismanna til þess að styðja þessa hugmynd. Hinir gengu gegn henni og fengu VG með sér í það. Borgarstjórnarmeirihlutinn féll. 100 daga meirihlutinn tók við með Samf í forsæti. Samfylkingin studdi REI hugmyndir Björns Inga, en náði því ekki í gegn þar sem VG og amk. 6 borgarfulltrúar Sjálfstæðiflokks voru á móti. Það er ekki Samfylkingu að þakka að eignir Orkuveitunnar voru ekki afhentar í bólusukkið.

Skúli Víkingsson, 30.5.2010 kl. 20:40

2 identicon

Segðu mér eitt Ómar.

REI málið er kannski eitt það hrikalegasta sem kom upp á græðgistímabilinu. Ég er hinsvegar ekki vel kunnugur málinu.

Ertu sammála söguskoðun Skúla Víkingssonar fyrir ofan?

Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 31.5.2010 kl. 08:44

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband