10.6.2010 | 18:16
Næstum eins og að vera áfram heima.
Ég hef þrívegis komið til Þrándheims og ævinlega finnst mér það líkjast því sem ég sé ennþá heima á Fróni. Ástæðuna hef ég áður nefnt hér á blogginu.
Þrándheimur er með álíka íbúafjölda og Reykjavík og Þrændalög álíka fjölmenn og byggðirnar á suðvesturhorni Íslands, frá Borgarnesi til Hvolsvalla.
Menning, þjóðlíf og lífskjör eru líkari því sem er í Reykjavík en í nokkru öðru erlendu byggðarlagi og þar að auki eru borgirnar á sömu breiddargráðu með svipað loftslag.
Að vísu eru sumrin heldur hlýrri og veturnir aðeins kaldari en munurinn er lítill.
Í Þrándheimi angar borgin af sameiginlegri sögu og tengslum Íslendinga og Norðmanna.
Þarna er dómkirkja sem vísar til þess tíma þegar erkibiskupinn í Niðarósi hafði umráð með málefnum kirkjunnar á Íslandi.
Hægt er að fara niður að ánni Nið og sjá þann stað þar sem Ólafur konungur Tryggvason þreytti sund við Kjartan Ólafsson, koma að lítilli kirkju á svipuðum slóðum og Grettir Ásmundsson mistókst að sverja eið á réttan hátt vegna sakargifta þess efnis að hann hefði brennt inni menn í kofa að vetrarlagi.
Eins og í Bergen eru stórkostleg bryggjuhús í Þrándheimi og í þessum borgum sátu æðstu ráðamenn Íslands.
Íslenskir ráðamenn og skáld sóttu hin norsku yfirvöld heim og þáðu af þeim valdastöður og skáldalaun áður en Ísland lenti undir Danakonungi.
Frá Þrándheimi er frábært að fara að Stiklastöðum þar sem Ólafur konungur helgi og Þormóður Kolbrúnarskáld féllu í bardaga sem enn er minnst á stórkostlegan hátt á hverju ári.
Ef tími vinnst til er líka hægt að fara á þann stað þar sem þeir börðust Gunnlaugur Ormstunga og Hrafn, en Norðmenn sinna minningu helstu atburða fyrr á tíð af miklum myndarskap og setja þá á svið.
Hér heima mætti gera slíkt, svo sem við Örlygsstaði eða á þeim stað þar sem Bolli vó Kjartan.
Icelandair til Þrándheims | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
...og ekki má gleyma að í Þrándheimur er með lang hæstu greindavísitölu af öllum bæjum í Noregi, sérstaklega á haustin og fram á vor þar sem íbúum fjölgar til muna á þessum tíma vegna Háskólanema frá öllum kimum Noregs og frá hinum ýmsu heimshornum (skv. íbúum Þrándheims)
Dagbjört L. Kjartansd. Bergmann, 10.6.2010 kl. 18:57
Að sönnu gæti mönnum nú dvalist í Noregi ef þeir ætluðu sér að koma örugglega á Dinganes hvar þeir börðust Gulli og Krummi. Sannleikurinn er nefnilega sá að enginn veit hvar sá staður er.
Þorvaldur Sigurðsson (IP-tala skráð) 10.6.2010 kl. 19:56
Já þið segið nokkuð, ég bý rétt innan við Kristiansand (30km inn í landi) og tek undir það að það er ekki fyrr en maður kemur á vesturströndina, frá Stavanger og uppeftir, að maður finnur sérstaklega fyrir tengslunum, Suður Noregur er meira undir áhrifum frá Danmörku og meginlandinu, án þess að það sé nokkur löstur í sjálfu sér.
Heimsótti Þrándheim í fyrsta og eina (ennþá) sinn árið 2005 í sambandi við 30 ára afmæli ACCN "American Car Club of Norway" sem ég og sonur minn erum meðlimir í, en þeir tóku ALLANN ! bæinn í notkun fyrir þetta afmæli, Mustang og Thunderbird stillt upp við Niðarós Dómkirkjuna, Lincoln og Cadillac í miðbænum,Corvette niður við höfn osfrv., tónleikar og götukappakstur út í iðnaðarhverfinu laugardagskvöld, svo endaði allt með risastórri sýningu og verðlaunaafhendingu við stærstu verslunarmiðstöðina í bænum City Syd, Glæsilegt.!!
Og það besta af öllu var að ekki vottaði fyrir “kúltúr” árekstrum þrátt fyrir jafnólíka hluti og bíla og miðaldamenningararf eins og við dómkirkjuna og í miðbænum, fordómalítið fólk “Þrándarar” :)
En við vorum nokkra auka daga umfram hátíðahöldin og skoðuðum bæinn og umhverfi vel, og hrifumst af bæði fólki og bænum sjálfum, svo Húrra ! Icelandair og góðir samlandar ! notið tækifærið og heimsækið Þrándheim.
MBKV að "utan"
KH
Kristján Hilmarsson, 10.6.2010 kl. 20:13
Já !! fyrir bílaáhugamenn, HÉR er linkur á "Hot August Nights" sem er tilsvarandi afmælishátíðinni sem nefnd er í innlegginu á undan.
MBKV
KH
Kristján Hilmarsson, 10.6.2010 kl. 20:18
Og allir tónlistaráhugamenn fara svo á Ringve museum, eitt alskemmtilegasta tónlistarsafn heims.
Matthías (IP-tala skráð) 11.6.2010 kl. 12:37
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.