Ánægjuleg fyrsta ferðin fyrir pistlana "Á flandri".

Um 30 ára skeið hefur það verið ómissandi þáttur í lífi mínu að fara með Helgu á árlega flugsýningu og flughátíð á Akureyri.

Síðustu 15 ár hefur Íslandsmótið í listflugi verið hluti af sýningunni og síðustu árin hafa verið uppákomur í flugsafninu, sem þarna er.

Klúbburinn, sem heldur þessa sýningu heitir því skemmtilega nafni "Flugklúbbur Íslands, Akureyri".

Í þetta sinn fór ég norður með Andra Frey Viðarssyni í jómfrúarferð útvarpspistlanna "Á flandri, - Ómar og Andri", sem sendir verða í beinni útsendingu frá ýmsum stöðum um landið í dagskrá Rásar 2 á föstudögum milli klukkan þrjú og fjögur.

Þetta var frumraun og ýmislegt sem þurfti að yfirstíga en allt gekk þó nokkurn veginn upp.

Veðrið var sérstaklega heppilegt, ágætis veður í Reykjavík en batnaði sífellt á leiðinni og endaði í 22ja stiga hita, logni og heiðríkju á Akureyri.

Útsendingarnar voru þrjár, - af Moldhaugahálsi, frá Ráðhústorginu og loks Flugsafninu á Akureyrarflugvelli.

Við tókum upp nokkra pistla á leiðinni, meðal þeirra viðtal við Þjóðverja, sem er að hjóla á lágri þriggja hjóla grind hringinn í kringum landið.

Þessir pistlar verða sendir út eftir hádegi á morgun á Rás tvö og svona verður þetta í sumar, ef Guð lofar.

Stef þáttarins er unnið upp úr laginu "Hit me with your rythm stick" og við syngjum það svona:

 

Á flandri!  Á flandri! -  Ómar og Andri!

Úti á landi !

Alltaf í bandi!

Óstöðvandi!

Alltaf í stand!

Hitta allt fólkið!

Hvað er að gerast!

Hvert á að fara?!

Láta það berast!

 

Á flandri!  Á flandri!  - Ómar og Andri!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Eyjólfur Jónsson

Sæll Ómar, ég sem ætlaði að einmitt hlusta á ykkur á föstudag en gleymdi öllu saman þar sem ég fór með "mína frú" í bil og göngutúr á bak við Keilir. Undraveröld opnast manni 10 mínútna ferð frá Hafnarfyrði. Bara fuglar og kindur! Þar sá frúin þennan "nýja" fugl sem er með rautt sitthvoru megin á hálsinum. Kindurnar já, ein með 3 hornum,ein með 4 hornum og allt öðruvísi í framan en þær sem maður á venjast. Búfénaður huldufólks? Forustufé mundi ég halda að væri nærtækast, dökk flekkótt. Hlusta á ykkur næsta föstudag.

Eyjólfur Jónsson, 18.6.2010 kl. 23:45

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband