Jafn hættulegt og ölvun.

Svefn undir stýri er hugsanlega jafn hættulegt ástand og ölvun og slysin af völdum sofandi ökumanna fleiri en upplýst er um vegna þess að í blóðsýni er hægt að sjá hvort viðkomandi hafi verið ölvaður, en ekki hvort hann hafi sofnað undir stýri.

Það þarf að gera jafn mikið átak í að minnka þessa hættu og að koma í veg fyrir ölvunarakstur, - nú þegar! 

Höfuðástæðan er sú að ef ökumaður sofnar undir stýri og sveigir í veg fyrir umferð á móti, hlýst af umferðarslys af verstu gerð, árekstur tveggja bíla, sem koma úr gagnstæðri átt. 

Nokkrar staðreyndir þarf að auglýsa rækilega: 

1. Hitinn í bílnum virkar svæfandi. Því minni hiti, því minni hætta á að sofna.Þetta sést vel ef menn gera loftið kalt í bílnum, opna gluggann eða stinga höfðinu út um hann. Stundum hressast menn við að stöðva bílinn, fara út og fríska sig nokkrar mínútur og halda síðan áfram. En þetta getur veitt falskt öryggi því að líkaminn kallar samt á svefn. 

2. Ef ökumaður er þreyttur eða vansvefta þegar hann hefur akstur, ætti hann að hafa sérstakan vara á og helst að hætta við að aka, nema að fresta ferðinni og leggja sig fyrst í nægilega langan tíma til þess að vera fær um að stjórna bílnum af öryggi alla fyrirhugaða leið.  

3. Um leið og ökumaður verður var við það, jafnvel þótt það sé aðeins eitt augnablik, að hann missir stjórn á hugsunum sínum, - fer að hugsa eitthvað annað en hann ætlaði sér, er slíkt órækt merki um að hann er á fyrsta stigi svefns. Hann á að stöðva bílinn við fyrsta tækifæri og grípa til eina ráðsins, sem völ er á, - að sofna í kyrrstæðum bílnum. 

4. Ef ökumaðurinn er mjög þreyttur og hefur bílinn í gangi og miðstöðina sömuleiðis kann svefninn að vara í 1-2 klukkutíma.  Glataður tími?  Nei, þetta er órækt merki þess hve mikinn lágmarkssvefn ökumaðurinn þurfti. Ef ökumaðurinn vill ekki sofna svona lengi, getur hann vakið sig á tvennan hátt: 

A. Drepið á bílnum og láta kuldann eftir að slökkt er á miðstöðinni, vekja sig. 

B. Notað farsímann til að vekja sig. 

Spurningin er einföld og valið augljóst : Hvort viltu sofna í smástund og vakna síðan og aka áfram -  eða sofna svefninum langa og taka fleiri með þér inn í þann svefn? 

Ég hef margsinnis verið þreyttur og illa upplagður til aksturs á ca 1,5 milljón kílómetra akstursferli. 

Ég hélt, eftir að hafa sloppið við afleiðingar þessa, að eftir akstur í 41 ár væri ég hólpinn. 

Síðan gerðist það í apríl 2006 þegar ég dró bátinn Örkina af stað austur á land eftir stranga vinnutörn dagana á undan að ég þurti að fara af stað seint að kvöldi og aka alla nóttina. 

Ég sofnaði í kyrrstæðum bílnum á útskoti á Háreksstaðaleið í 20 mínútur, hélt síðan áfram og við tók akstur upp á Brúaröræfi um morguninn, allan þann dag og basl í akstri á snjó fram á næstu nótt.

Þegar komið var snemma að morgni niður sneiðingana krókóttu, erfiðu og bröttu niður í Fljótsdal og beinn vegur tók við, hélt ég að ég væri hólpinn, - allt það erfiðasta væri að baki og beinn og breiður vegur framundan,  - aðeins hálftíma akstur eftir að afloknum erfiðum akstri í einn og hálfan sólarhring. 

Ég hafði ekki ekið nema nokkur hundruð metra þegar ég sofnaði undir stýri á nokkrum sekúndubrotum og vaknaði fyrir utan veg í móamýri. 

Það þurfti að draga mig upp úr mýrinni og ég hugsaði með skelfingu til þess hvað hefði gerst hefði ég verið að mæta bíl. 

Niðurstaða:

1. Enginn er óhultur, aldrei. 

2. Þú þarft ekki nema nokkur hundruð metra akstur til að sofna.

3. Það er alveg sama hvað þú hefur sloppið vel fram að þessu og hve vel þér hefur tekist, jafnvel í áratugi, - ein sekúnda getur breytt því öllu, - jafnvel um eilífð.  


mbl.is Hafnaði sofandi úti í á
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll Ómar

Vill benda þér á ráð sem gagnast mér vel ef ég lendi í þeirri að stöðu að vera sofna undir stýri. Þessi aðferð hefur bjargað mér frá að sofna undir stýri nokkru sinnum. Dugar miklu betur og skjótvirkari en að stoppa og viðra sig þó það sé líka gott og gilt. Ef ég er orðin þreyttur, þá virkar vel að fá sér Kóladrykk (T.d.Pepsí eða Kók) og súkkulaðibita . Kóladrykkurinn gefur koffein sem vekur mann og og líka orku ef hann er ekki sykurlaus. Súkulaðið gefur orku. Orka og koffein vekja þreyttan mann. Oftast nægir Kóladrykkurinn en súkkulaðibit(nammi) gefur líka extra orku í að halda syfunni frá. Einnig nauðsynlegt að láta miðstöðina blása fersku og frekar köldu lofti beint í andlitið, þá er maður góður komin með sykur og koffein í æðarnar og staupar sig á kólanu (ekki kókinu) þangað til maður er kominn á áfangastað..

Ég hreinlega fer ekki í langferð án þess að vera með kóladrykk í bílnum ef ég lenti í þeirri aðstöðu að sofna og þetta allveg svínvirkar.

Mælir með því að þú prófir þetta og látir vita á bloggsíðunni þinni hvernig þetta virkaði.

Kveðja; Stefán Jónasson

Stefán Jónasson (IP-tala skráð) 28.6.2010 kl. 01:40

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ég berst við koffein- og hvítasykursfíkn í formi coladrykkja og áður fyrr súkkulaðis. Ég hef svo sannarlega notað þetta ráð og auðvitað hjálpar það.

Best hefur þó gefist mér, þótt ótrúlegt megi virðast, að vera að semja eitthvern krefjandi texta eða lag og hafa margir textar mínir orðið til á þennan hátt. 

Ef verkefnið er nógu krefjandi heldur það manni vakandi út af fyrir sig og fyrir þrautvanan bílstjóra er það ástand skárra en að vera að dotta undir stýri. 

Ómar Ragnarsson, 28.6.2010 kl. 03:03

3 Smámynd: Klukk

Vandamálið með allar þessar aðferðir sem eiga að halda manni vakandi við akstur er að þær virðast virka fínt alveg þangað til einn góðan veðurdag að ... zzzzzzzzz.

Eina leiðin til að sofna ekki undir stýri, og þá meina ég ALDREI, er að leggja sig þegar syfjan gerir vart við sig og sofa þar til syfjan er farin. Allar aðrar aðferðir eru bráðabirgðalausnir sem virka ekki til lengdar.

Klukk, 28.6.2010 kl. 03:08

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband