30.6.2010 | 10:36
Græn stefna er þverpólitísk.
Engin leið er til þess að skilgreina græna umhverfisstefnu sem hægri eða vinstri heldur er slík stefna þverpólitísk.
Dæmi: Í skoðankönnun um Kárahnjúkavirkjun í aðdraganda virkjunarinnar kom í ljós að fjölmennasti hópurinn sem var andvígur henni var helmingur þeirra, sem sögðust fylgja Sjálfstæðisflokknum en var þó á móti virkjuninni.
Í sömu könnun kom í ljós að þriðjungur þeirra, sem sögðust fylgja Vinstri grænum var meðmæltur virkjuninni.
Ægivald Davíðs Oddssonar og virkjanasinnanna í Sjálfstæðisflokknum réði því hins vegar að Ólafur F. Magnússon var hrakinn úr ræðustóli á landsfundi flokksins.
Á þessum tíma var góður meirihluti fylgjenda Samfylkingarinnar andvígur virkjuninni en Verkalýðsforystan og þingmenn Samfylkingarinnar á þeim tíma í Norðausturkjördæmi sveigðu þingflokkinn til fylgis við virkjunina og aðeins tveir þingmenn hennar greiddu atkvæði á móti.
Einn þingmanna hennar sagði í atkvæðagreiðslunni að hann væri umhverfissinni en greiddi samt atkvæði með mestu mögulegum óafturkræfu umhverfisspjöllum, sem möguleg eru á Íslandi!
Helstu baráttumenn fyrir umhverfis- og náttúruvernd víða um lönd koma úr öllu hægri-vinstri litrófinu.
Ef ekki hefði verið fáránlega hár atkvæðaþröskuldur í kosningunum 2007 eða ef Reykjavík hefði verið eitt kjördæmi, hefði fyrsti græni flokkurinn, sem hvorki kennir sig við hægri eða vinstri, komið mönnum á þing.
Hrikalegustu umhverfisspjöll okkar tíma voru framkvæmd í kommúnistaríkjunum annars vegar og hins vegar þar sem hið óhefta stórkapital fékk að leika lausum hala.
Hvorki vinstri menn né hægri menn geta eignað sér góða græna stefnu og þess vegna er þverpólitískur umhverfisflokkur það sem vantar sárlega hér á landi.
Myndin, er í haus bloggsíðu minnar, er tekin sumarið 2006 á botni Hjalladals, sem sökkt var þá um haustið. Þar var stórkostlegt og litskrúðugt landslag undir grænni Fljótshlíð íslenska hálendisins, og gljúfur, Stapar, stuðlabergshamar og Rauðaflúðin voru snilldarverk Jöklu, sem hún hafði búið til á innan við öld.
Myndirnar tvær á síðunni eru hins vegar teknar nú um daginn af þeim risavöxna drullupolli og rjúkandi leirum upp á tugi ferkílómetra, sem þarna eru nú og ganga undir nafnin Hálslón .
Á þeirri efri sést grilla í Sandfell og Fremri-Kárahnjúk.
Á þeirri neðri er komið nær og tvær stærstu stíflur á Íslandi, önnur langstærsta mannvirki landsins, eru inni í sand- og leirkófinu og engum manni þar vært þótt Landsvirkjun hafi með glansmyndum auglýst á sínum tíma hvílík dýrðarveröld fyrir ferðamanna byðist þarna í veðurfari eins og verið hefur að undanförnu sem 12-15 stiga hita dögum og vikum saman.
Öll þessi dýrð myndi opnast þegar þangað lægi eini malbikaði hálendisvegurinn sem er fær fyrstu vikur sumarsins.
Stórkapitalið og verkalýðsforystan lögðust á eitt við að framkvæma þetta hervirki, - sú stefna var þverpólitísk rétt eins og baráttan gegn þessu.
Umturnun náttúruverðmæta byggist á því að viðhalda vanþekkingu með þöggun og einhliða upplýsingum. Forsenda grænnar stefnu er að rjúfa þennan þöggunar- og vanþekkingarmúr og það verkefni er þverpólitiskt.
Hægri-grænir stofna flokk | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Sæll Ómar og takk fyrir yfirlitið.
Þú segir m.a.:
"Hvorki vinstri menn né hægri menn geta eignað sér góða græna stefnu og þess vegna er þverpólitískur umhverfisflokkur það sem vantar sárlega hér á landi."
Ég er sammála þér í þessu, en:
1) Telur þú að það sé fullreynt með þverpólitískan grænan flokk, að sinni?
2) Telur þú líklegt að umræddur "hægri-græni" flokkur sé hér að reyna að afla sér fylgis á fölskum forsendum? Að hann hefði t.d. frekar átt að kalla sig "Einangrunarflokkinn", "Sjálfgræðisflokkinn", "Sjálfsþurftarbúskaparflokkinn", "Einkaflokkinn", "Einokunarflokkinn" eða eitthvað þess háttar?
(Ég er ekki að grínast þótt ég grípi hér til öfgakenndra orða til útskýringar!).
Kristinn Snævar Jónsson, 30.6.2010 kl. 10:57
Ég tel ekki fullreynt með þverpólitískan grænan flokk. En þetta er spurning um réttan tímapunkt.
Vorið 2007 voru allir svo uppteknir og uppveðrarðir af gróðærinu. Íslandshreyfingin var með svipaða umbótastefnu í lýðræðis- og stjórnskipunarmálum og viðruð var í búáhaldabyltingunni en 2007 hafði enginn áhuga á því að ræða þessi mál.
Blaðamaður Morgunblaðsins sló upp sem fyrirsögn að viðtali við mig það sem ég sagði um þessi mál en fólk hafði ekki áhuga á þeim þá.
Svipað var að segja um stefnu okkar varðandi kúvendingu í umhverfismálum og nýtingu landsins.
Síðustu vikurnar hættu allir aðrir flokkar algerlega að tala um umhverfismál og önnur málefni sem við settum á oddinn og töldu greinilega að þau væru ekki "in", heldur einungis það hvernig ætti að skipta gróðanum, sem menn héldu að væri að falla þjóðinni í skaut.
Ef Íslandshreyfingin hefði fyrst komið fram í tenglsum við búsáhaldabyltinguna hefði það verið hinn rétti tímapunktur fyrir nýjan umhverfis- og umbótaflokk.
En þrátt fyrir ötula þátttöku okkar í búsáhaldabyltingunni var það okkur fjötur um fót að við vorum ekki lengur "ný".
Það var aðeins hljómgrunnur fyrir einhverju algerlega nýju og Borgarahreyfiningin naut þess.
Við í Íslandshreyfingunni áttum hlut að upphafi undirbúnings nýs framboðs en hefðum orðið að slá af stefnu okkar í umhverfismálum og þoka þeim til hliðar ef við áttum að vera með í því í sameiginlegu framboði að vinna að öðrum umbótamálum á sviði lýðræðis- og stjórnlagamálum.
Sem eini flokkurinn með umhverfismál sem grunn, gátum við ekki gert það, og vegna atkvæðaþröskuldsins háa var ljóst að sérframboð okkar hefði dreift kröftum smæstu framboðanna og komið í veg fyrir að þau næðu fólki á þing.
Við kusum því heldur, í ljósi aðstæðna, að fara í sæng með Samfylkingunni og á landsfundi hennar kom í ljós, að þess var svo sannarlega þörf, því að okkar atbeini ásamt góðu grænu fólki í Samfylkingunni, réði úrslitum í tvísýnni atkvæðagreiðslu á fundinum um stóriðju- og virkjanamál.
Þetta er alltaf spurning um tíma og aðstæður.
Ómar Ragnarsson, 30.6.2010 kl. 11:24
Vinstrimenn stukku á umhverfisvernd þegar gerðu sér grein fyrir því að þeir voru að missa tökin á verkalýðsbaráttunni. Tilvistarkreppa þeirra var orðinn svo svæsinn að þeir tóku umhverfisverndina "alla leið".
Sennilega er
Nýr sjúkdómur var skilgreindur og viðurkenndur af alþjóða læknasamfélaginu árið 2008, eftir að prófessor í sjúkdómafræði analýseraði sjúkdómseinkennin. Nýji sjúkdómurinn heitir "vistkvíði". Líklega má setja hann í flokk með "fóbíum", því hann lýsir sér í ofsadepurð og angist yfir örlögum náttúrunnar. Allt rask í náttúrunni veldur sjúkdómseinkennum, oft mjög alvarlegum.
Þórdís Gísladótttir og Þorgerður E. Sigurðardóttir fjölluðu um sjúkdóm vikunnar í þættinum Víðsjá á rás 1 í júlí 2008 og umfjöllunarefnið var Vistkvíði. Afar athyglisvert. Fyrst hélt ég að um grín væri að ræða, en svo reyndist ekki vera. Þetta skýrir ýmislegt í mínum huga, hverslags fólk er við að eiga sem heltekið er af náttúruverndarástríðunni. Ætli það þurfi ekki resept?
Öfgakennd náttúruverndarsjónarmið koma óorði á hugtakið náttúruvernd og það er eiginlega bara sorglegt. Náttúruvernd á betra skilið.
Gunnar Th. Gunnarsson, 30.6.2010 kl. 11:57
"Öfgakennd náttúruverndarsjónarmið" kallar Gunnar það að reyna að fá friðað eitt af níu virkjanasvæðum á Hengils- Hellisheiðarsvæðinu og fá friðað eitt af jarðvarmasvæðunum við Mývatn.
Hófsemdarnáttúruvernd felst hins vegar í því að virkja allt sem virkjanlegt er á Norðausturlandi fyrir risaálver á Bakka, þar með talið Skjálfandafljót og Jökulsá á Fjöllum, þar sem Dettifoss fengi að renna á hálfu afli á aðal ferðamannatímanum og logið yrði að fólki að hann væri aflmesti foss í Evrópu.
Ég telst "öfgamaður" þótt ég hafi samþykkt 25 af þeim 28 virkjunum sem þegar hafa verið gerðar en hinir teljast "hófsemdar-náttúruverndarmenn" sem vilja að framleitt verði tíu sinnum meira rafmagn en þjóðin þarf sjálf til eigin nota.
"Náttúruvernd á betra skilið" segir Gunnar. Hún á skilið að allt verði virkjað sem virkjanlegt er samanber tillögu að ályktun, sem borin var upp á landsfundi Samfylkingarinnar og munaði örfáum atkvæðum að yrði samþykkt.
Í hópi þeirra sem stóðu að þessari ályktun og standa að stóriðjustefnunni voru margir sem telja sig vera sanna umhverfis- og náttúruverndarsinna og að náttúruvernd eigi það skilið að hin hófsömu sjónarmið þeirra ráði ferðinni.
Ómar Ragnarsson, 1.7.2010 kl. 11:04
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.