11.7.2010 | 17:03
Farið í kringum lögin og tilgang þeirra.
Það er túlkunaratriði og raunar orðaleikur hvort það teljist ráðleggingar þegar iðnaðarráðuneytið fer með Magma Energy yfir alla lagalega möguleika á því hvernig erlent fyrirtæki geti eignast íslenskt orkufyritæki.
Minna má á það að í lögfræðilegum álitaefnum er oft grafist fyrir um tilgang viðkomandi laga og tilgangur laganna er skýr um að aðilar utan Evrópska efnahagssvæðisins megi ekki eignast orkufyrirtæki hér á landi.
Það er augljóslega farið á svig við þennan tilgang með því að dótturfyrirtæki Magma í Svíþjóð sé látið eiga HS orku á pappírnum. Vilmundur heitinn Gylfason notaði um gjörðir af þessu tagi orðin: "Löglegt en siðlaust".
Línurnar eru raunar skýrari en lítur út fyrir í fljótu bragði ef maður raðar saman ýmsum ummælum ráðamanna á þeim tíma sem málið hefur verið í meðferð.
Ég man ekki betur en að Steingrímur J. Sigfússon hafi sagt eitthvað í þá veru þegar hann var spurður hvort ekki væri einsýnt að íslenska ríkið myndi taka yfir HS orku að þeir milljarðar, sem til þess þyrfti, yrðu ekki teknir upp af götunni.
Eftir það var nokkuð ljóst hvert stefndi þrátt fyrir gelt og gelt af og til um að svona mætti ekki fara.
Vinstri grænir geta ekki fylgt gelti sínu eftir vegna þess að stjórnmál snúast um það að reyna að hafa eins mikil áhrif og völ er á. Ef þeir sprengja ríkisstjórnina standa þeir frammi fyrir tveimur kostum:
Annars vegar að fara í stjórn með Sjálfstæðisflokknum sem mun að sjálfsögðu verða enn verri viðskiptis varðandi stóriðju- og orkumál en nokkur annar nema kannski Framsóknarflokkurinn.
Með því myndi VG þar að auki taka þann flokk í sátt sem mestu olli um Hrunið og veita honum syndakvittun, flokknum þar sem þingmenn ofurstyrkja og tengsla við Hrunvaldana sitja sem fastast og formaðurinn er ekki alveg frír heldur.
VG gæti ekki réttlætt stjórn með Sjálfstæðisflokknum með því að þannig fengju þeir örugglega fram stefnu sína í ESB-málinu því að staðan er þannig nú, hvað skoðanakannanir varðar, að eins og er virðist þjóðin hvort eð er ekki fara inn í ESB.
Hins vegar er sá möguleiki VG að fara í stjórnarandstöðu og verða gersamlega áhrifalaus að öllu leyti og horfa upp á enn verri stjórnarstefnu að eigin mati en þá, sem núna er fylgt.
Nokkuð ljóst er að í landinu situr í raun minnihlutastjórn í stórum málum og að hér er sérkennileg stjórnarkreppa.
Erfitt er að sjá hvernig þetta geti breyst fram til næstu kosninga eða að hægt verði að koma í veg fyrir það að útlendingar eignist orkuauðlindir Íslands meðan ástandið er þannig að peningar til að þjóðin eigi sjálf orkulindirnar landsins verða ekki teknir upp af götunni eins og það er orðað.
Ræddu hvernig lögin virkuðu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Sæll Ómar.
Þakka þér fyrir að standa vaktina í umhverfismálunum. Ég velti því fyrir mér hvort ekki sé kominn tími til að viðurkenna að Íslandshreyfingin átti aldrei að ganga til liðs við Samfylkinguna. Umhverfissinnar í Samfó, þ.a.m. Græni her Marðar hafa einfaldlega ekki fallið í kramið hjá yfirstéttinni og þið virðist dingla með sem einhvers konar nytsamir sakleysingjar. Málefni ykkar eru miklu mikilvægari en svo að þau megi verða fórnarlömb fjórflokkastjórnmálanna. Samfylkingin hefur nú snúið hinum kjarnyrta frasa Vilmundar Gylfasonar á haus og lýsir því yfir kokhraust á nánast hverjum degi, "Siðlaust en löglegt, því gerum við það".
Gangi þér vel í baráttunni.
Þór Saari
Þór Saari, 12.7.2010 kl. 11:59
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.