25.7.2010 | 23:31
Galli á fyrirsögn góðrar fréttar.
Það eru góðar fréttir fyrir sjötugan Framara (ég var skráður í Fram sumarið áður en ég fæddist) að mínir menn skuli hafa staðið sig vel í kvöld.
Hins vegar hefur verið afar dapurlegt að hlusta á og lesa margar fréttir í dag vegna ótrúlega margra ambaga og málvillna sem vaðið hafa uppi.
"Með fjaðrabliki háa vegaleysu..." orti Jónas en nú sameinast íþróttafréttamenn um að beygja ekki orðið "blik" í nafni Breiðabliks, samanber fyrirsögnina "Öruggur sigur Fram á Breiðablik."
Í fréttum Stöðvar tvö í kvöld talaði fréttamaður um vegalengdina á milli Siglufjarðar og Ólafsfjarðar og orðaði það svona: "...vegalengdin á milli miðbæjarkjarna hvers staðar."
Fréttamaðurinn virðist ekki kunna að telja því samkvæmt þessu eru staðirnir minnsta kosti þrír því orðið hver er notað um þrjá eða fleiri en orðið hvor um tvo.
Þar að auki er hlálegt að tala um miðbæjarkjarna í ekki stærri bæ en Ólafsfjörður er. En, eins og eitt sinn var sagt, - það er stórt orð Hákot.
Málfarinu fer hratt hrakandi í fjölmiðlum og nær nýjum lægðum þegar sumarafleysingafólkið er við störf.
Öruggur sigur Fram á Breiðabliki | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Pepsi-deildin | Breytt 26.7.2010 kl. 19:36 | Facebook
Athugasemdir
Var á vellinum í kvöld. Framarar léku vel í fyrri hálfleik, ekki síst vörnin sem var mjög góð. Eftir hlé komu þeir hinsvegar inn á völlinn til að halda forskotinu, en ekki til að leika sér í fótbolta og voru heppnir að Breiðablikið setti ekki fleiri mörk.
Dingli, 26.7.2010 kl. 01:48
Svo er það heldur ekki gott þegar útvarpsmenn tala um Landeyjarhöfn. Höfnin heitir Landeyjahöfn. Ekkert R í því.
Davíð Pálsson, 26.7.2010 kl. 12:59
Rétt þegar ég sá þetta blogg Ómars í gær, var ung kona að lesa fréttir í lok sjónvarpsdagskrár. Aðeins fáeinum sek. eftir að lesturinn hófst hafði hún tvívegis sagt tveem! Illa vil ég trúa því að fréttin hafi verið skrifuð svona, nema hún hafi þá skrifað hana sjálf, en ég hoppaði upp af sófanum og skipti um rás.
Sjálfur er ég vart sendibréfsfær, en sem útvarps-sjónvarps-skips eða fangelsisstjóri yrði þeim sem svo mikið sem hvíslaði tveem við sjálfan sig á kamrinum, hent út og hýrudreginn um 2ár, þó tungu og heilalatt skrípið hafi byrjað í gær!
Dingli, 26.7.2010 kl. 22:42
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.