Þrjár betri tegundir vítaspyrna hjá Stjörnuliðinu.

Vítaspyrna Calvente er líkast til ein besta vítaspyrna í landsleik eða í alvöru leik í landsmóti í knattspyrnu, sem tekin hefur verið.

Ég, og aðrir sem á horfðu hér heima, minnast hins vegar þriggja tegunda af vítaspyrnum liðsmanna Stjörnuliðsins míns, sem lék marga tugi leikja eftir að það var stofnað á áttunda áratugnum.

Fljótlega varð það að föstu atriði í þessum leikjum að hafa fimm spyrnu vítaspyrnukeppni í lok leikjanna, hvernig sem þeir höfðu farið. Þá urðu til eftirfarandi þrjár tegundir vítaspyrna. 

1.images-5.jpg

Albert Guðmundsson. Snillingurinn gekk rólega að boltanum sem hafði verið lagður á vítapunktinn og beygði sig niður til að hagræða boltanum með hendinni. Um leið og hann snerti boltann með hendinni rak hann tána, að því er virtist óvart, í boltann sem þaut eldsnöggt upp í markhornið, óverjandi fyrir markmanninn! 

Auðvitað rak Albert tána ekki óvart tána í boltann eins og mönnum sýndist, en þetta og margt annað sem hann gerði á vellinum sýndi og sannaði að það var rétt sem erlendir fjölmiðlar sögðu um hann þegar hann gerði garðinn frægan erlendis, að hann gæti látið boltann gera hvað sem er,  nema tala.  3043910921_0a15ea74b3.jpg

2.

Laddi, hugmyndaflug og grísheppni í sérflokki. 

Laddi stillti boltanum upp á vítapunkti, hljóp síðan yfir á hinn enda vallarinn og kom þaðan á miklum 100 metra spretti eftir endilöngum vellinum. Þegar hann fór að nálgast boltann var augljóst að hann hafði lagt allt of mikinn kraft í hlaupið, því að hann missti stöðugt ferðina, fór að verða óstöðugur á fótunum og var orðinn aðframkominn og "sprunginn" þegar hann skjögraði síðustu skrefin að boltanum. 

Þegar um eitt fet var eftir var þrekið gersamlega þorrið, hann féll endilangur niður á vinstri hliðina á völlinn eins og dauður væri. Á því andartaki sem hann lá þarna á vinstri hliðinni gerðist það sem heitir á íslensku síðasta andvarpið eða dauðateygjurnar, en Bandaríkjamenn kalla "kick the bucket": Dauðateygjan hjá Ladda kom í hægri fótinn sem rak tána í boltann svo að hann þaut í hægra markhornið ! 

Þegar Laddi hætti í liðinu vegna hnémeiðsla tók ég að mér að framkvæma spyrnu hans því að hún var orðin ómissandi hluti af leik Stjörnuliðsins. En þessi frábæra hugmynd Ladda og framkvæmd hennar var auðvitað jafn einstæð og maðurinn sjálfur.

3.

Þorfinnur Ómarsson. Í vítaspyrnukeppni á Shell-mótinu í Vestmannaeyjum stillti markvörður andstæðinganna sér áberandi upp í annað markhornið til þess að "gefa" Þorfinni hitt hornið, greinilega með þeim ásetningi að spyrnin færi örugglega í þá átt. 

Þá tók Þorfinnur fáránlega áhættu, sem kom öllum á óvart. Í stað þess að spyrna í auða hornið skaut hann firnaföstu ristarskoti beint upp í markvinkilinn rétt ofan við höfuð markmannsins ! 

Þetta kom honum svo á óvart að hann fékk ekki vörnum við komið. 

Ég minnist líka margra frábærra og skrautlegra vítaspyrna snillingsins Hermanns Gunnarssonar, sem voru í öllum regnbogans litum. 

 


mbl.is Ótrúleg vítaspyrna Calvente, myndband
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hrannar Baldursson

Ég sá einu sinni leik með ykkur á Laugardalsvelli. Hann var stórskemmtilegur. Man ekki hverjir andstæðingarnir voru. Það sem mér fannst merkilegast var að langbesti maður vallarins, Albert Guðmundsson, stóð nánast alltaf á sama punkti, en einhvern veginn lenti boltinn alltaf hjá honum og hann skilaði honum frá sér snilldarlega.

Þið voruð Harlem Globtrotters knattspyrnunnar.

Hrannar Baldursson, 27.7.2010 kl. 05:14

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband