30.7.2010 | 09:08
Hvað hefur breyst í 60 ár ?
Þetta er 52. verslunarmannahelgin þar sem ég verð að skemmta einhvers staðar á landinu. Ég man eftir þessum mestu ferðahelgum sumarsins í 60 ár. Hefur eitthvað breyst á þessum tíma?
Við fyrstu sýn kann svo ekki að vera. Þá eins og nú hafði fólk hug á að gera sér eitthvern dagamun. Breytingarnar hafa gerst hægt og bítandi og maður verður ekki svo mikið var við slíkar breytingar.
En þetta eru þó gerbreyttar aðstæður. Fyrir 60 árum var öll venjuleg verkamannavinna unnin sex daga vikurnnar og það var líka dagvinna á laugardögum, þótt unnið væri styttra þann dag.
Nú eru allar helgar sumarsins verslunarmannahelgar hvað lengd frítímans snertir.
Fólk fór því ekki af stað út úr borginni seint á föstudegi og kom ekki aftur fyrr en á sunnudagskvöldi. Bílaeign var ekki almenn og þaðan af síður áttu menn tjaldvagna, fellihýsi eða hjólhýsi.
Stórar samkomur voru sjaldgæfar. Það var þá helst landsmót ungmennafélaganna sem komst í hámæli 1949 vegna þess að þá voru fylliraftar gerðir óvirkir á mótinu með því að stinga þeim í strigapoka.
Fræg var mikil óreglusamkoma við Hreðavatn og 15 árum síðar í Þjórsárdal.
Seint á sjöunda áratugnum fóru stórar útihátíðir að verða áberandi um verslunarmannahelgina, þær stærstu í Atlavík, Vaglaskógi, Húsafellsskógi, Galtalækjarskógi og í Vestmannaeyjum.
Nú sogar Þjóðhátíðin í Vestmannaeyjum til sín flest fólk og Atlavík, Vaglaskógur, Húsafellsskógur og Galtalækjarskógur eru vettvangur fjölskyldufólks og almennra ferðamanna.
Almennt finnst mér bragur á fólki hafa batnað síðustu 60 ár. Þjóðinni hefur fjölgað um helming á þessu tímabili en í heildina er minna um vandræði og vesen en var á þeirri tíð þegar allt fór stundum úr böndum á einhverri hátíðinni.
Gát og gaman um helgina | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Svo munum við eftir svalli um hvítasunnu of í kulda og drullu. Það var heldur ókræsilegar samkomur á Húsafelli, Laugarvatni og víðar.
Ég er sammála þér, mér finnst ástandið hafa batnað. Sumt af því er betri aðbúnaði að þakka, annað öðruvísi drykkjusiðum, og líklega mest vegna betra skipulags á þeim svæðum sem auglýsa samkomur.
Hólmfríður Pétursdóttir, 30.7.2010 kl. 19:24
Uss,ekki lÿst mér á Vestmannaeyjar, er hræddur um ad allt fari úr böndunum vegna fjõlda, en vona thad besta.
Rafn Haraldur Sigurðsson (IP-tala skráð) 30.7.2010 kl. 22:16
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.