Úlfar var magnaðri.

Sagan af norska lækninum sem stakk af frá læknavakt til að fara á rokktónleika minnir á söguna af Úlfari Þórðarsyni augnlækni sem var vinsæll og eftirsóttur sem augnlæknir á sinni tíð. 

Afar fjörugur, lífsglaður og skemmtilegur maður Úlfar.

Hann hafði gaman af því að spila badminton en eitt sinn vildi svo illa til að mikilvæg viðureign var á sama tíma og viðtalstíminn á biðstofunni hjá honum.

Úlfar dó ekki ráðalaus en hafði með sér íþróttatöskuna á biðstofuna.

Þegar tíminn var kominn tók hann einn viðskiptavininn inn á stofuna, læsti henni og bauð manninum samkomulag sem hann gæti ekki hafnað um að vera inni í herberginu þangað til hann kæmi aftur eftir að hafa skroppið frá smástund.

Skyldi maðurinn gæta þess að opna ekki fyrir neinum en fengi í staðinn vildarmeðferð ókeypis.

Smeygði Úlfar sér síðan samkvæmt sögunni eldsnöggt út um gluggann, þeysti til íþróttasalarins þar sem hann tók spilaði leikinn og kom síðan til baka sömu leið og hann hafði farið.

Þá kláraði hann að skoða undrandi manninn, sem spurði hvernig honum hefði dottið í hug að komast upp með þetta.

Svar Úlfars var víst svipað og hins norska starfsbróður hans. "Þetta er nú einu sinni biðstofa og fólk er því vant því að bíða." 


mbl.is Hvort eð er alltaf biðröð á læknavaktinni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Hvernig geta menn litið upp til svona manna og kallað framkomu þeirra flotta.

Svona uppátæki er ekkert annað en argasti dónaskapur gagnvart sjúklingum, og ekkert til að montast af. En það merkilega er að þetta virðist falla í kramið hjá mörgum Íslendingum, sem finnst svona hegðun viðkomandi persónu jafnvel til prýði. Skiljanlegt að margt sem miður fer á skerinu breytist seint eða aldrei.

Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 12.8.2010 kl. 21:41

2 identicon

Góður húmor sem ekki er annað en hægt að brosa að.

Rafn Haraldur Sigurðsson (IP-tala skráð) 12.8.2010 kl. 22:05

3 identicon

Það er greinileg ekkert skemmtilegt að vera þarna að mæta hópum af ölvuðu og dónalegu fólki sem er búið að bíða, misstíga sig á háum hælum og lenda í slagsmálum og bíða þarna klukkutímum saman þar sem smábörn og alvarlega alvöru veikt fólk eru sífellt teknir fram yfir það.

Þetta er eins og Slysadeildin hér þar sem dreggjar samfélagsins mæta til að grenja út róandi lyf eða slagsmálahundar bæjarins mæta þarna éta úr sjálfsölunum, pissa, kaupa sér smokka og ná sér í leigubíl eða ofurölfa kvennfólk sem misstígur sig á háum hælum hitta sína sálufélaga.

Það kostar lítið að mæta og biðtíminn er í raun það sem takmarkar aðsóknina.

Fólkið sem er að reyna að sinna þessu fólki læknar, ritarar og hjúkrunarfólk er síðan skammað og röflið og yfirgangurinn er þvílíkur og flest þetta fólk gæti þess vegna sofið úr sér vímuna og mætt daginn eftir en þá er úr þeim sem oftast allt loft.

Gunnr (IP-tala skráð) 12.8.2010 kl. 23:02

4 identicon

Úlfari kynntist ég stuttlega, og þetta var enginn smá karakter ;)

Hann var nú frægur fyrir eina aðra brellu, - var það ekki kviðslits-tékk?

Jón Logi (IP-tala skráð) 13.8.2010 kl. 09:32

5 identicon

Skemmtileg saga hjá þér Ómar!...Úlfar bjargaði eitt sinn sjóninni hjá mér..Ég þurfti lítið að bíða og hann var snöggur að þessu!

Kári Elíson (IP-tala skráð) 13.8.2010 kl. 11:19

6 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ég tek það sem réttmæta gagnrýni á orðaval mitt að vera ekki sáttur við að nota orðið "flottur" um Úlfar og hef núna breytt því með því að nota orðið "magnaður."

Mér skilst að Úlfar hafi afgreitt alla sjúklinga sína í umrætt skipti og þessi saga af honum er fyrst og fremst brosleg úr því að enginn bar skaða af.

Ómar Ragnarsson, 13.8.2010 kl. 19:28

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband