Hvað um flugturninn?

Fyrir þremur árum bloggaði ég um einhvert merkilegasta hús Reykjavíkur, gamla flugturninn á Reykjavíkurflugvelli, fyrsta sérsmíðaða flugturn á Íslandi, sem hýsti fyrstu flugumferðarstjórana og Veðurstofu Íslands.

Hann og flugvallarmannvirkin í Reykjavík og á Kaldaðarnesi gegndu ómetanlegu hlutverki í orrustunni um Norður-Atlantshafið sem í öllum fræðbókum um heimsstyrjöldina síðari er með svipaða umfjöllun og helstu orrustur stríðsins.

Nöfnin segja sína sögu: Atlantshafið, Moskva, Stalíngrad, Kursk, El Alamein, Sikiley, Normandí, Midway, Kóralhafið, Corregidor, Iwo Jima og Okinawa. 

Frá Íslandi flaug flugvélin sem hertók fyrsta þýska kafbátinn og færði hann til hafnar þar sem hann var rannsakaður og þar með fengin dýrmæt vitneskja um þetta skæða vopn andstæðinganna. 

Á tímabili hafði Churchill meiri áhyggjur af orrustunni um Atlantshafið en nokkrum öðrum stríðsvettangi. 

Ef sú orrusta tapaðist var stríðið tapað, því að þá væri ekki hægt að flytja matvörur, hermenn og herbúnað til Bretlands og tómt mál að tala um innrás í Normandí. 

Hér á landi eimir enn eftir að úreltri feimni og tómlæti gagnvart því sem við lögðum til í stríðinu við mestu villimennsku mannkynssögunnar.

Það sést best þegar skoðaðar eru stríðsminjar í Noregi og í Bretlandi og raunar er flugturninn og aðrar stríðsminjar við Reykjavíkurflugvöll svo og völlurinn sjálfur sameiginlegar minjar um baráttu lýðræðisþjóðanna við Norður-Atlantshaf gegn nasistum. 

Á Reyðarfirði hefur verið staðið myndarlega að varðveislu minja um stríðsreksturinn þaðan og gefa Reyðfirðingar Reykvíkingum langt nef í þessu efni. 

2007 datt mér í hug að reyna að fara í leiðangur um borgarkerfið í Reykjavík og snúa mér til flugmálayfirvalda til þess að fá leyfi til þess að mála flugturninn, sem er í algerri niðurníðslu sem er til stórrar skammar yfir okkur Íslendinga. 

Tilviljun réði því að þegar ég átti erindi í Landsbankann hitti ég Björgólf Guðmundsson í afgreiðslusalnum og hann kvaðst vera tilbúinn að styðja við þetta framtaka og meira að segja fara sjálfur með mér til að mála turninn með eigin höndum.

Á þessum tíma, 2007,  var slíkur atbeini öflugs styrktaraðila á borð við Landsbankann mikils virði og þess vegna setti ég aukinn kraft í þennan erindrekstur minn og hætti ekki fyrr en ég hafði fengið samþykki allra aðila með ákveðnum skilyrðum. 

Síðan kom Hrunið og málið hefur verið í biðstöðu síðan. 

En nú er spurningin hvort hægt sé að taka þráðinn upp aftur og  að fá samtök um að gera þetta með því að leita að sjálfboðaliðum. 


mbl.is Þingmenn máluðu húsið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Af hverju biðurðu ekki hann, ja hvað heitir hann nú aftur, Jú nú man ég það!

Hann heitir Árni og segir já, já,já,já.

Annars tek ég undir með þér, það er allt of mikið um að gamlar minjar eru látnar grotna niður og verða hálfgerður ófögnuður af viðhaldsleysi.

Það vantar ekki stórhuginn þegar á að framkvæma eitthvað nýtt eins og sönghöllina niður  við höfnina, en svo þegar að byggingin verður komin upp þá verða engir peningar í reksturinn og sennileg ekki nóg til að þvo gluggana, því að það á eftir að verða stór póstur í rekstrinum.

Á sama tíma er ekki hægt að halda vegakerfinu holulausu á landsbyggðinni. Bílar hristast í sundur allsstaðar þar sem ekki er malbikað vegna þess að það er ekki til fjármagn fyrir veghefil til að slétta þvottabrettin.

Það er talað um að byggja hátæknisjúkrahús á sama tíma og verið er að loka deildum á því sem við höfum fyrir.

Rafn Haraldur Sigurðsson (IP-tala skráð) 29.8.2010 kl. 00:49

2 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Góð áminning hjá þér Ómar, vissulega á að varðveita flugturninn og sýna honum þá virðingu sem ber. Því miður er stóra flugskýlið farið, hús sem á sínum tíma var lang stæðsta hús á Íslandi. Sem betur fer var því ekki fargað, fékk endurnýjun lífdaga á minjasafni Egils Ólafssonar að Hnjóti.

Ef stjórnvöld sjá sér ekki sóma í að varðveita gamla flugturninn á Reykjavíkurflugvelli verða ághugafélög að taka það að sér, það er varla hægt að ætlast til að einstaklingur geri slíkt.

Þegar talað er um stríðsminjar dettur mér alltaf í hug Hvalfjörðurinn. Hann var hjarta hinna miklu skipalesta milli Ameríku, Bretlands og Rússlands í stríðinu. Þar söfnuðust saman kaupskip og héldu síðan í skipalestum til þessara staða undir vernd frá herskipum. Hér í gegn fóru öll skip sem fóru til Múrmansk, sum komust ekki á leiðarenda og létu margir vaskir menn lífið á þeirri leið. Síðasti staður þeirra í land var því oft Hvalfjörðurinn. Að Hvítanesi var kafbátabryggja, þar sem kafbátar fengu vistir og þjónustu áður en þeir héldu út á Atlandshafið.

Það er skelfilegt að vita til þess að nánast allar minjar um þennann tíma er horfinn af yfirborði jarðar. Undantekningin er braggabyggðin á Litla Sandi, sem Loftur og síðan sonur hanns Kristján hafa sýnt þann sóma að halda við.

Nú er ég ungur enn (rétt rúmlega fimmtugur) en þó man ég eftir miklu af minjum sem voru í Hvalfirði frá stríðstímanum. Má þar nefna varðstöðina og vélbyssuhreiðrið við Tíðaskarð og kafbátastöðina á Hvítanesi. Þarna voru minjar sem vel hefði mátt halda við, í það minnsta verja. Þess í stað var þessu leyft að grotna niður.

Einu minjarnar sem eftir eru ennþá er braggabyggðin hjá Hval, auk þess var síðast þegar ég vissi  mjög góð ljósmyndasýning frá þessum tíma í Ferstikluskálanum.

Það er eins og það ríki einhver feimni eða skömm á þessum tíma í sögu okkar. Þó var þetta sá tími sem leiddi til mestu lífskjarabreytingar hjá okkur fram að því. Við eigum að minnast þess. 

Stríðið sjálft var skelfilegt, þar létu yfir 73,000,000 manna lífið, þar af 49,000,000 óbreyttir borgarar. Við eigum að minnast þess.

Hluti af þeirri minningu er flugturninn á Reykjavíkurflugvelli!!

Gunnar Heiðarsson, 29.8.2010 kl. 07:42

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband