6.9.2010 | 09:02
Drulla hér og drulla þar.
Aurframburður íslenskra jökulfljóta er það sem greinir þennan þátt íslenskrar náttúru einna helst frá vatns- og hafbúskap annarra landa.
Þótt tugþúsundir ferkíómetra á suðurströndinni og inni á landi beri þessa sérkennis merki er eins og Íslendingar hafi enn ekki gert sér fulla grein fyrir þessu.
Þannig höldum við áfram að ræða um orku íslenskra fallvatna eins og hún sé alveg sambærileg við orku fallvatna í Noregi eða öðrum fjallalöndum, þar sem þessi orka er fullkomlega endurnýjanleg og framkvæmdirnar afturkræfar.
Nú sést munur á innsta hluta Sultartangalóns ár frá ári, enda mun það fyllast upp á nokkrum áratugum og vatnsmiðlunin þar því að mestu verða ónýt.
Aurburður Kringilsár og Jöklu í Hálslón var áætlaður um tíu milljón tonn á ári, hinn 25 kílómetra langi og 180 metra djúpi Hjalladalur myndi fyllast upp á 3-400 árum og Töfrafoss kaffærast í auri á einni öld.
Efri myndin er af hluta af því gráa og brúna 35 ferkílómetra nýja aurflæmis sem blasir við snemmsumars innan við Kárahnjúka þar sem áður var hin grængróna 15 kílómetra Fljótshlíð íslenska hálendisins, Hálsinn, sem lónið er kennt við.
Eftir að hafa fylgst með aurburðinum á hverju voru er það morgunljóst að aurburðurinn er miklu meiri í hlýnandi loftslagi vegna bráðnunar jöklanna en menn gerðu ráð fyrir, enda hálffylltist gljúfrið neðan við Töfrafoss upp að hálfu á aðeins tveimur árum.
Neðri myndin er tekin inn gljúfrinu á öðru vori eftir myndun lónsins og eru nú flatar jökulleirur þar sem áður var gljúfur með flúðum og fossum.
Þrátt fyrir þessa sérstöðu íslenskra jökulfljóta göpum við það upp í útlendinga að orkan sé endurnýjanleg og sjálfbær.
Reisa varð aukastíflu fyrir neðan Kárahnjúkastíflu til að koma í veg fyrir fossinn á yfirfalli stíflunnar græfi ekki gljúfrið í sundur fyrir neðan hana.
Áin er talin hafa grafið hið magnaða 150 metra djúpa og 14 kílómetra langa gljúfur með sverfandi aur sínum á aðeins 700 árum.
Gosið í Eyjafjallajökli átt að vera fyrirsjáanlegt eftir allar þær vísbendingar um það sem komið hafa frá í meira en tíu ár um að það væri yfirvofandi eftir 170 ára goshlé.
Og við bíðum eftir Kötlugosi með margfalt meiri aurburði út í sjó.
Askan úr Eyjafjallajökli var miklu fíngerðari en dæmi eru um áður og þar af leiðandi getur Herjólfur sullað í drullunni áður en hann festist alveg.
Fyrir austan Vík er stór og viðfeðm sandalda sem nefnist Höfðabrekkujökull. Hún varð til í Kötlugosinu 1918. Allt sandflæmið norðan Vatnajökuls ber merki hamfarahlaupa úr jöklinum.
Líkast til eru ekki nema 2-3000 ár síðan sjór náði langleiðina upp að Síðufjöllum við Kirkjubæjarklaustur.
Landeyjahöfn er aðeins örskammt vestan við útfall Markarfljóts og eftir mikið blíðviðrissumar er nú að hefjast sá árstími þar sem hafalda og straumar bera fíngerðan aurinn ofan af Markarfljótsaurum og undan skriðjöklum Eyjafjallajökuls og Mýrdalsjökuls.
Ef menn kjósa að líta á það viðfangsefni sem við blasir í höfninni sem nokkurs konar keppni manna við náttúruöflin má búast við spennandi viðureign.
Herjólfur hægði á sér í drullunni | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Sæll Ómar já þessi höfn er ein stór mistök!
Sigurður Haraldsson, 6.9.2010 kl. 09:20
Skást hefði verið ef opið væri á víxl fyrir flug og siglingu frá Bakka en því miður fer það oftast saman í suðaustan eða sunnan hvassviðri og rigningu að ófært er bæði á sjó og í lofti.
Flugvöllurinn er lokaður af tveimur ástæðum: Misvindi ofan af Sæfellinu eða þoku á vellinum vegna þess að hann er í um 100 metra hæð yfir sjó.
Er oft þoka á vellinum þótt það sé þokulaust niðri í Vestmannaeyjabæ og niðri við sjóinn.
Mér datt í hug fyrir löngu að hægt yrði að gera um 5-600 metra langa flugbraut niðri við sjó þar sem ekið er út í Stórhöfða og sneri sú braut í suðaustur.
Í miklum vindi myndi skammbrautarvél eins og Twin Otter geta lent þar auðveldlega eftir að hafa gert aðflug úr vestri alveg niður undir sjó.
Ómar Ragnarsson, 6.9.2010 kl. 09:42
Ómar: Ef þú telur að Höfðabrekkujökull hafi orðið til í Kötlugosinu 1918 þá ættir þú að lesa þig betur til um Kötlugos.
Gissur Jóhannesson (IP-tala skráð) 6.9.2010 kl. 10:09
Það var ekkert ,,ófyrirsjáanlegt" við eldgosið. Menn hafa beðið eftir hamfaragosi á Kötlusvæðinu í áratugi, og það er vel þekkt og vitað að gosefni myndu berast niður á suðurströndina. Hafa menn gleymt ríkjandi straumum ?, það er bara talað um vindáttir, en hvað með sterka strauma til vesturs, sem flytja sand vestur eftir ströndinni ?
Börkur Hrólfsson, 6.9.2010 kl. 13:10
Ég þurfti ekkert að fletta upp í neinu um Kötlugos heldur hringdi í Reyni Ragnarsson sem gerir flugvél sína út frá flugbraut á jökulöldunni sem hlaut nafnið Höfðabrekkujökull eða Jökullinn þegar þessi auralda hlóðst upp í Kötluhlaupinu 1918 og fékk frá þessum næsta nágranna Höfðabrekkujökuls staðfestingu á því sem ég taldi mig muna frá því að ég gerði hálftíma þátt um Vík og Kötlugos fyrir Sjónvarpið fyrir um 35 árum.
Reynir staðfestir það sem ég er að segja. Á tímabili myndaðist smá ruglingur varðandi þessa nafngift vegna þess að skriðjökullinn Kötlujökull hefur líka haft þetta nafn, en það misræmi er úr sögunni, skriðjökullinn heitir Kötlujökull og jökulaldan fyrir neðan Höfðabrekku Höfðabrekkujökull.
Ég vísa því til föðurhúsanna til Gissurs Jóhannessonar að "lesa sér betur til um Kötlugos."
Ómar Ragnarsson, 6.9.2010 kl. 13:29
Þakka þér fróðleikinn Ómar um Hálsalón og sitt hvað fleira.
Nú eru margar hafnir víða um heim byggðar í mynni stórfljóta. Spurning er hvort ekki hefði verið lausn á vandanum við Bakkahöfn að veita öðruhverju vænum slatta af Markarfljóti um höfnina og skola þannig út sandinum. Hanna hefði þurft höfnina með tilheyrandi inntakslokum og fl. Sjá nánar bloggið mitt um þetta mál. Er þar vísað t.d. til Hornafjarðar og þó svo að aðstæður þar eru mjög ólíkar þá er stöðug "hreinsun" á innsiglingunni þar vegna sjávarfalla og Hornafjarðarfljóts.
Með bestu kveðjum
Mosi
Guðjón Sigþór Jensson, 6.9.2010 kl. 16:53
Ísland þúsund ár.Heiti þitt á bloggi þínu,vekur mann til umhugsunar hvað landið Ísland hefur breyst á þúsundum árum.Ef einungis er litið til suðurlandsins verður maður hugsi um höfða og fjalla ,sem áður hafa verið eyjar.
Það hafa meðal annars fundist steingerfingar af fiskum í Hestfjalli.Hestfjall er um 30 km frá ströndinni.
Þegar Björgun hf.var við leit af "gullskipinu" var leitað langt inn á landinu.Þannig hefur framburður markað stækkun undirlendsins.
Af því sögðu,getur maður ímyndað sér hvað Landshöfn verði komin langt inn á landið,innan ekki margra tugi ára.Framburður leggst að görðunum og myndar þar nýtt land.
Ingvi Rúnar Einarsson, 6.9.2010 kl. 17:20
Í framtíðinni sér maður fyrir sér að kannski koma þarna svifnökkvar sem bruna yfir í eyjarnar á smá tíma. Er þetta raunhæft?
Ólafur Þórðarson, 7.9.2010 kl. 01:29
Það hafa líka fundist steingerfingar af fiskum, hvölum og skeldýrum mun hærra, bæði hérlendis og erlendis. Sjávardýr í Andesfjöllum. Því náttúran fer sínar leiðir.
Talandi um svifnökkva, þá var það prófað, en rak sig ekki almennilega. Hefði kannski rekið sig með styrk upp á það sama og vaxtakostnaðinn af Landeyjahöfn, - sem samt hefði verið höfn, - bara þjónustan og ekki framkvæmdin.
Annars má benda á það að reist var höfn að sandfjörunni við Normandy árið 1944, og þótt hún sé löngu farin að því ég best veit (hún átti bara að notast stutt) þá var hún sett upp í einum grænum og notuð fyrir allstór skip og mikla flutninga. Þarna er sandur og straumasamt mjög, og oft gróft í sjó. Sandur við ármynni og flóa er ekkert sér-Íslenskt fyrirbrigði, og á mörgum hafnarmynnum jarðkúlunnar er stöðugt tusk við náttúruöflin. Ekki kæmit.d. á óvart að það myndaðist rif austan við Bakkahöfn...
Það undrar mig því að ekki skuli hafa verið að vinna við dælingu/dýpkun í sumar þegar vel viðraði, því ekki gat ég séð betur en að það drægi að og grynnkaði.
Það var einnig flausturslegt að loka aðstöðunni í Þorlákshöfn, þar sem vitað var að SA eða SSA áttir myndu reynast erfiðar á Bakka, og þurfti þá ekki sand til að stoppa siglingu.
En þetta er ekki búið, - vonandi læra páfarnir af því að setja öll eggin í ókunnuga körfu...
Jón Logi (IP-tala skráð) 7.9.2010 kl. 21:41
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.