13.9.2010 | 20:52
Ömurlegt tómlæti.
Þær þjóðir, sem lögðu sitt af mörkum í seinni heimsstyrjöldinni til að þess að berjast við stórfelldustu villimennsku allra tíma, nasismann, hafa átt um það nokkrar minjar á Íslandi sem hafa í áranna rás ýmist verið eyðilagðar ein af annarri eða vanræktar vegna tómlætis okkar Íslendinga um þær.
Hér í Reykjavík hafa að vísu verið látnar í friði stríðsminjar í Öskjuhlíð, hlaðin vígi og braggar, en á sama tíma hefur gamli flugturninn sem er stórmerk bygging, sú fyrsta sinnar gerðar hér á landi og einhver merkasta bygging Reykjavíkur, verið látinn drabbast niður.
Ýmsir aðilar hafa ýmist haft horn í síðu hans eða sýnt undarlegt tómlæti gegn mannvirki, sem var hluti af búnaði og mannvirkjum bandamanna í orrustunni um Atlantshafið sem er í öllum sagnfræðibókum nefnd í sömu andrá og Stalingrad, El Alamain, Midway, Normandy o. s. frv.
Í nágrannalöndum okkar má sjá merki um það hve mikils virði þær þjóðir telja svona minjar.
Ég hef áður bloggað um gamla flugturninn og tel að það þurfi að gera heildstæða rannsókn á sögu þeirrar "viðbyggingar" sem nú hefur verið rifin sem og öðrum mannvirkjum frá stríðsárunum sem enn standa á flugvellinum.
Í fyrirsögn fréttar mbl.is um þetta er þriggja hæða hús sem reist var við hliðina á flugturninum og er nú verið að rífa nefnt "skúr".
Gerast "skúrar" nú býsna stórir en nafngiftin sýnir hvaða augum með gamlar byggingar eru oft litnar.
Á grundvelli rannsóknar á þessum byggingum öllum þurfi síðan að standa myndarlega að því að varðveita stórmerkar sögulegar minjar sem varða sögu þjóðannar við Norður-Atlantshaf.
P. S. Þess ber að geta sem vel er gert. Reyðfirðingar gefa höfuðborgarbúum langt nef með því að varðveita af myndarskap stríðsminjar, sem þar eru, á flottu safni.
Það er þeim og Austfirðingum til mikils sóma. Á Hnjóti í Patreksfirði er varðveitt Vatnagarðaflugskýlið sem var á sínum tíma stærsta bygging á Íslandi. Þar er einnig að finna minjar frá veru Breta á Reykjavíkurflugvelli.
Sitthvað má líka finna frá þessum tímum á Flugminjasafninu á Akureyri.
Skúr við gamla flugturinn rifinn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Sagnfræðiáhugi Íslendinga er lítill sem enginn nema fram að byrjun 19. aldar. Flest sem minnir á bændur, styrjaldir og sjósóknir á 20. öld er vart að finna hérlendis.
Guðmundur Jónsson, 13.9.2010 kl. 21:25
Það er ekki hægt að bjarga öllu, Ómar. Þessi "viðbygging" átti engan veginn heima þarna.
Ef menn vilja sjá vel varðveittar stríðsminjar á Íslandi, þá eiga þeira að koma til Reyðarfjarðar, í "Stríðsminjasafnið" í "Spítalakampinum".
Gunnar Th. Gunnarsson, 13.9.2010 kl. 21:58
Sammála síðasta ræðumanni. Þú virðist vera á móti öllum breytingum, sama hvort þær tengjast uppbyggingu (Kárahnjúkar) eða niðurrif. Ef þú fengir að ráða þá er ég viss um að þetta land myndi staðna svo rosalega að ég er viss um að við enduðum í Torfkofum.
Örvar Ingi Jóhannesson (IP-tala skráð) 13.9.2010 kl. 22:28
Stríðsminjarnar frá Kárahnjúkum eru sennilega það eina sem er áhugavert á þessu sorglega austur plássi.
Eyjólfur Jónsson, 13.9.2010 kl. 23:04
Sammála þessu Ómar.
Þvílík skammsýni að hafa rifið þúsundir smáhýsa í Reykjavík. Ekki einungis tengdum sögu stríðsins, heldur beinlínis verið að rífa sögu Íslands. Í staðinn blasa við kaldranalegar eyðigötur og hraðbrautaspaghetti þar sem allt er einsleitt og afar fjarri mannsandanum.
Ólafur Þórðarson, 14.9.2010 kl. 01:16
Gunnar ... en það þarf heldur ekki að eyða öllu.
Gamli flugturninn er stórmerkileg bygging og þessi hluti sem nú var rifinn var það líka.
Ég er sammála þér í þessu Ómar.
Karl Jóhann Guðmundsson (IP-tala skráð) 14.9.2010 kl. 02:08
Smá leiðrétting Ómar,
"Stórfelldasta villimennska allra tíma" var ekki nasisminn heldur valdatíð Mao Tse Tungs í Kína. Frá því að hann náði völdum 1937 í Yen'an héraðinu í Vestur-Kína, og þar til hann lést 1976, þá er (varlega) talið að rúmlega 70 milljónir manna hafi verið myrtir að hans undirlagi, nánast allir í stríði hans gegn EIGIN ÞJÓÐ. Aðeins örfá hundruð þúsunda þessara milljóna féllu í stríði við aðrar þjóðir (Kóreustríðið), allir hinir fórust í heimatilbúnum hungursneyðum (þar af um 30 milljónir á aðeins 3 árum, 1958-59-60, og mun fleiri fórust í fangabúðum Maós en í Gúlageyjaklasa Stalín. Hvorki Hitler né Stalín datt í hug að reyna ð þurrka út fyrri tíma menningu sinnar þjóðar, en þetta lagði Maó stund á áratugum saman, og tókst nánast að afmá öll sýnileg merki hennar vítt og breytt um landið.
Hið merkilega er að þessi hryllingur er nánast óþekktur enn þann dag í dag, jafnt í Kína sem utan þess!
En besta heimild um hann er bókin: "Mao, The Unknown Story" eftir J. Chang og J.Halliday
Björn Jónsson (IP-tala skráð) 14.9.2010 kl. 09:09
Ómar,
Það er synd að sjá hvernig Flugmálastjórn, Flugstoðir og núna Ísavia hafa gengið um Reykjavíkurflugvöll og eyðilagt fórnarminjar frá árum síðari heimsstyrjaldarinnar. Það er nu ekki rétt rúmlega ár síðan að verslunarhús breskra hermanna (NAAFI) var rifið þar sem það stóð skammt frá flugskýli Landhelgisgæslunar. Ég skil ekki hvernig hægt er að tala hér um "skúr" við gamla flugturninn því þessi "viðbygging" er ekkert annað en hluti flugturnsins og hefur verið þarna frá byrjun. Nei, hlutirnir hafa verið eyðilagðir og fjarlægðir í stað þess að gera snyrtilegt í kring og láta húsin standa áfram. Þess er ekki langt að bíða að gamli flugturninn hverfi. Hann á eftir að hrynja einn góðann veður dag því hiti hefur ekki verið á húsinu í meira en áratug og síðast var hann málaður, þá í sjálfboðavinnu af félögum í Flugklúbbi Reykjavíkur, árið 1986!
með flugkveðju,
Pétur P. Johnson
Pétur P Johnson, 14.9.2010 kl. 13:11
Ég fer ekki ofan af því að nasisminn var hryllilegasta villimennska sögunnar. Ástæðan er sú að takmark hans var beinlínis að taka af lífi þær sex milljónir Gyðinga sem drepnir voru, en takmarkið var að útrýma öllum Gyðingum, eða jafnvel tvöfalt fleiri en drepnir voru.
Þess utan áttu þjóðir í austanverðri Evrópu að verða undirmálsþjóðir sem máttu þess vegna vel verða sveltar til bana.
Þótt aðgerðir Stalíns og Maós hafi drepið fleiri byggðust þessi ógnardráp að hluta til á oftrú þeirra á því hvað þeir væru að framkvæmda nytsamar byltingar.
Og hugsuninni sem kristallaðist í orðum Stalíns: "Þegar einn maður er drepinn er það morð, - þegar milljón manns eru drepnir er það tala."
Ómar Ragnarsson, 14.9.2010 kl. 20:01
Evrópumenn hafa hagað sér eins og villdýr í öðrum heimsálfum, þar sem heilu þjóðunum hefur verið útrýmt, fólk selt sem þrælar eða menning gereyðilögð. Stalín, Hitler og Maó voru uppi á svipuðu skeiði og komu í framkvæmd óheyrilegum mannlegum hörmungum sem erfitt er að gera sér grein fyrir. Stríðsrekstur 19. aldar er ekkert til að hrópa húrra fyrir ef út í það er farið.
Að segja að einn hafi vinninginn yfir hinn er bara álitamál, því allt ber þetta að sama meiði þó undir mismunandi formerkjum sé.
Allavega er ég sammála að flugturninn muni einn dag verða rifinn, hljóta sömu örlög og stór hluti fíngerðs menningararfs okkar Íslendinga.
Ólafur Þórðarson, 14.9.2010 kl. 23:09
Jamm Ómar,
Að drepa 6 milljónir í gasklefum (eða jafnvel allar þær rúmlega 12 sem Gyðingar töldust á stríðsárunum, ef það hefði tekist) það hefði Maó ekki þótt merkilegar tölur.
Og bara aðferð þeirra bara mannúðleg (en frekar dýr í framkvæmd, því hefði Maó aldrei tímt) miðuð við þá sem hann notaði (ókeypis), nefnilega að svelta fólk í milljónavís til bana á stórum landsvæðum og í fangabúðum, sem langflestar voru staðsettar á köldustu svæðum Kína, svo sem í Mansjúríu, þar sem fangarnir annaðhvort fórust úr hungri eða frusu í hel þar sem þeir voru nánast klæðlausir eða jafnvel naktir.
Þeir örfáu ferðamenn sem gátu ferðast um Kína á þessum árum (nánast eingöngu sovéskir "ráðgjafar") sáu í sveitum landsins mannlegar beinagrindur klifra hudruðum saman upp í tré til þess að éta lauf af blöðum trjánna, og þá sem ekki gátu klifrað vera að reyna að éta börkinn af trjánum sér til næringar áður en hvorutveggja hrundu niður á jörðina og drápust þar eins og flugur. Voru Auschwitz og Birkenau bara ekki allgóðir staðir miðað við þetta víti, dauðastríðið tók jú allaveganna skjótt af?
Þjóðarmorð? Og þess vegna viðurstyggilegt? Þótt langflestar þeirra 70 milljóna sem þarna fórust í Kína, hafi verið samlandar fjöldamorðingjans sem fyrirskipaði útrýminguna (Maó), þá var hafði hann heldur ekkert á móti þjóðarmorðum og hófst handa við það 1959 að útrýma menningu og tíbetsku þjóðinni sjálfri (6 milljónir), og eins og íslenski ferðamaðurinn Tolli sagði eftirminnilega frá blaðagrein fyrir skemmstu, þá er verkinu svo gott sem lokið, og Han-Kínverjar nú orðinn meirihluti í landinu.
Eftirmenn Maós hafa nú beint sjónum sínum að Uigúrum (11 milljónir), múslimum sem búa í Sinkiang vestast í Kína, þar sem innfæddum er bolað í burtu, eða sendir í fangabúðir og Han Kínverjum hrúgað inn í landið í lestarförmum í staðinn. Hvað skildi líða langur tími áður en menning og þjóð Úígúra heyrir sögunni til?
Nei Ómar, þýsku nasistarnir voru aðeins byrjendur og brautryðjendur í greininni, Sovét-kommúnisminn undir Stalín "lengra-komnir", en meistararnir, heimsmeistararnir mætti frekar segja voru og ERU Kínverjar, þar sem hryllingurinn, gagnstætt hinum tveim fyrrnefndu, heldur áfram enn þann dag í dag.
Björn Jónsson (IP-tala skráð) 15.9.2010 kl. 11:19
Mergjað innlegg, Björn Jónsson
Gunnar Th. Gunnarsson, 15.9.2010 kl. 15:53
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.