Skógrækt á barnsaldri.

Þótt skógrækt hafi verið stunduð á Íslandi í rúma öld er hún að ýmsu leyti ekki enn búin að slíta barnsskónum hvað það snertir að svo virðist sem lítil yfirsýn sé yfir verkefnin og verið að gera ýmis mistök. 

Í eðlilegum ákafa sínum við að planta trjám hafa ýmis fljótræðismistök verið gerð.

Ég hef áður sýnt barrtré, sem gróðursett voru í Sandey á Þingvallavatni og gott er ef ég ekki fjallað um það að sums staðar er landslag þannig, að ræktun stórra trjáa er beinlínis óæskileg. 

Sem dæmi má nefna austurhlíð ofanverðs Norðurárdals í Borgarfirði þar sem lágir klettastallar móta afar fallegt landslag, sem líkist risastórum tröppum. 

Þetta landslag yrði auðvelt að eyðileggja með plöntun hárra trjáa en vonandi verður það ekki gert.

Hér í Reykjavík eru menn nú að vakna upp við vondan draum varðandi það að setja aspir niður án þess að huga að afleiðingunum.

Nefna má tvenns konar afleiðingar: 

Rótarkerfið er miklu umfangsmeira en ætla mætti og getur valdið skemmdum líkum þeim sem orðið hafa við Landsspílann.

 Síðan er á það að líta að þessi tré verða oft svo hávaxin að þau byrja algerlega fyrir útsýni, þar sem það er mikils virði.

Í blokkaríbúðinni sem ég bý í við Háaleitisbraut hefur verið afar gott útsýni á báðar hendur. 

Nú hefur Hálfvitinn við Skúlatún tekið af okkur útsýni til Snæfellsjökul og aspir, sem gróðursettar hafa verið á lóðamörkum hinum megin við blokkina eru að taka stóran hluta útsýnisins til vesturs. 

Verkefni í skógrækt á Íslandi eru ærin og mikilsverð um allt land og því óþarfi að gera þau mistök að planta stórum trjám á svæðum þar sem þau eiga ekki við.  Nóg verkefni bíða samt fyrir það hugsjónafólk sem stundar það þjóðþrifastarf að rækta skóga.

Þegar Ari fróði sagði að landið hefði verið viði vaxið milli fjalls og fjöru merkir orðið viður vafalítið bæði hátt birki og reyni og kjarr, sem er viðartegund. 

Þegar rætt er um endurheimt landgæða sýnast mér birkitré og reynitré liggja beinast við víðast hvar. 

Einkum finnast mér reynitré vera til mikillar prýði. 

Það sem heillar erlenda gesti okkar einna mest er hið mikla útsýni sem hægt er að njóta hér á landi. 

 Þótt víðast hvar megi rækta skóg þarf að gæta þess að spilla ekki um of útsýni á þeim slóðum þar sem það er mikilfenglegast.

Velja þarf af yfirsýn og kostgæfni þau svæði, þar sem ræktun barrtrjáa og annarra stórra trjáa af erlendum uppruna á við, en forðast skipulagslausa og fljótfærnislega rækt þeirra á svæðum, þar sem þau skerða fallegt útsýni eða spilla yfirbragði landsins. 

 

 


mbl.is Aspir fjarlægðar af spítalalóð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Óskar Þorkelsson

maður fær fljótt leið á trjám.. hér í noregi er þetta eins og illgresi út um allt og birgir allt útsýni..

Óskar Þorkelsson, 27.10.2010 kl. 06:58

2 identicon

Öspin  er ágæt við sumarbústaði, sérstaklega ef maður er að rækta eldivið.

Kjartan (IP-tala skráð) 27.10.2010 kl. 08:10

3 identicon

Ég bý efst á Ártúnsholti, með stórfenglegt útsýni yfir þrjár aspir.  Þær skyggja á Viðey, sundin og fjöllin handan þeirra.  Þetta sé ég ekki lengur,  -vegna aspanna.

Í Reykjavík leyfist mér ekki að reisa háa veggi milli sín og nágranna minna.  Sama ætti að gilda um hávaxin tré.  Mér findist allt í lagi að banna aspir í þéttbýli.

Hörður Björgvinsson (IP-tala skráð) 27.10.2010 kl. 08:55

4 identicon

Eitt lítilræði hefur gleymst í þessu máli og sennilega flestum sama um þá þegar eyðileggingaröflin ráða ferð. Þeir sem eru veikir á Landsspítalanum. Það liggur fyrir marktækur tölfræðilegur munur á hraðari bata þeirra sjúklinga sem sjá það sem er lifandi og grænt út um gluggann hjá sér miðað við hina sem sjá það ekki.

Helgi Gíslason (IP-tala skráð) 27.10.2010 kl. 09:59

5 identicon

Útsýni Reykvíkinga skal vera úr eldhúsglugganum, jafnvel úr kellaraglugga. Kemur víst ekki til greina að ganga upp á einhverja hæð og horfa þaðan. Of erfitt líklega, þeir mæðast fljótt sem búa á mölinni.

Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 27.10.2010 kl. 10:00

6 identicon

Var ,,óhjákvæmilegt" að fjarlægja aspirnar við Landspítalann þó þær hafi ,,farið í lagnirnar"? Trjárætur almennt sækja sem kunnugt er í skemmdar lagnir, öspin er engin undantekning þar á, þar er sem sé næringu að hafa. Notalegra  og heilsusamlegra hefði verið í þessu Landspítaladæmi að skipta um lagnir,  en lofa öspunum að lifa áfram á sínum stað. Lítilsháttar rótarskerðing hefði ekki komið að sök.

Kristján Bjarnason (IP-tala skráð) 27.10.2010 kl. 10:16

7 Smámynd: Guðjón Sigþór Jensson

Stór tré á aldrei að gróðursetja þar sem þau trufla útsýni. Þau eru hins vegar mjög góð til að mynda skjól. Ætli margur vegfarandinn vildi ekki hafa skógarskjól undir Hafnarfjalli og á Kjalarnesi þegar hviðurnar fara í 25 metra eða jafnvel meira? En það tekur langan tíma að rækta skjólskóg á þessum erfiðu köflum. En þetta er hægt með tímanum og þrautseigju. Ætli úrtölufólkið og sauðkindin séu ekki verstu féndur skógræktar á Íslandi? Mætti segja mér það.

Við Íslendingar höfum á undanfarinni öld einungis aukið skógana okkar um 300 km2 eða 30.000 hektara. Það er 0,1 hektari á hvert mannsbarn í landinu. Meðaltaslið er því 10 fermetrar á ári eða um 2-4 tré! Það eru grátlega lítil afköst.

Við eigum mikið af landi sem væri kjörið til skógræktar sem er lítið notað til annarar landnýtingar. Við eigum að leggja áherslu á fjallshlíðarnar en þær eru kjörnar til skógræktar, einkum neðsti hluti þeirra þar sem skógurinn fellur mjög að landslaginu.

Varðandi Sandey á Þingvallavatni þá er sú skógrækt byggð á mjög gamalli ákvörðun sem kom fyrst til framkvæmda um 150 árum eftir að ákveðið var í Kaupmannahöfn að þar skyldi rækta skóg! Aðalsteinn Sigurgeirsson forstöðumaður Rannsóknarstöðvar Skógræktar ríkisins hefur dregið fram þennan fróðleik á eftirminnilegan hátt áður á blogginu þínu Ómar.

Í næsta Skógræktarriti verður grein um Þingvallaskóg eftir undirritaðan. Er þar m.a. leitast við að kveða niður þennan gamla úrtöludraug skógræktarinnar að ekki megi rækta barrtré og önnur tré af erlendum uppruna á Íslandi. Þær trjátegundir sem náð hafa af dafna hér og vaxið, hafa fyrir löngu sannað sig að þau geta orðið gildir limir í félagsskapnum sem við nefnum Íslendinga.

Mosi

Guðjón Sigþór Jensson, 27.10.2010 kl. 20:56

8 Smámynd: Aðalsteinn Sigurgeirsson

"Mér fannst Tryggva Ólafssyni myndlistamanni mælast vel, í viðtali í Morgunblaðinu í fyrra haust, þar sem hann lýsir þeim breytingum sem hann upplifir við heimkomuna til Íslands eftir nærri 50 ára dvöl í Kaupmannahöfn, en hann flutti út 21 árs og heim aftur 68 ára í miðja kreppuna – Tryggvi segir orðrétt “Þetta er voðalega þreytt lýðveldi. Það sem hefur batnað er hvað Reykjavík og Ísland eru orðin græn. Ég held að fáir menn hafi séð annan eins árangur ævi sinnar og Sigurður Blöndal og aðrir skógræktarmenn. Þeir hafa gert kraftaverk”.

En þó við tökum heilshugar undir orð Tryggva að kraftaverk hafi gerst hér í skógrækt er hins vegar enn mikið verk að vinna."

(úr ræðu Svandísar Svavarsdóttur umhverfisráðherra, 27.8. 2010)

Aðalsteinn Sigurgeirsson, 27.10.2010 kl. 22:02

9 Smámynd: Aðalsteinn Sigurgeirsson

Í fréttinni er staðhæft að „Rætur trjánna voru komnar í lagnir og því var ekki um annað að ræða“ Ég leyfi ég mér að efast um sannleikgildi þeirrar frásagnar. Öllu líklegra þykir mér að yfirmenn fasteigna hjá Landspítala-Háskólasjúkrahúss að hafi látið blekkjast af þeim flökkusögum og nútímaþjóðsögum um illt eðli og skemmdarverk asparróta sem Helgi Gíslason framkvæmdastjóri Skógræktarfélags Reykjavíkur kvað í kútinn á liðnu sumri (sjá HÉR).

Í athugasemdum við færslu ÓR segir Helgi Gíslason: „Það liggur fyrir marktækur tölfræðilegur munur á hraðari bata þeirra sjúklinga sem sjá það sem er lifandi og grænt út um gluggann hjá sér miðað við hina sem sjá það ekki.“ HÉR má lesa sýnihorn af þeim rannsóknum.

Aðalsteinn Sigurgeirsson, 27.10.2010 kl. 22:37

10 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Reykjavík er nú orðin eitt stærsta skóglendi landsins og er það vel. Það þýðir þó ekki í mínum huga að það skipti engu máli hvernig staðið er að skógræktinni.

Hverri krónu, sem varið er almennt í skógrækt er vel varið, en vegna þess hvað verkefnið er stórt á að vera í lófa lagið að stunda skógræktina með yfirsýn og að vel athuguðu máli. 

Ómar Ragnarsson, 27.10.2010 kl. 22:46

11 Smámynd: Aðalsteinn Sigurgeirsson

Ómar: Gróðursetning trjáa í húsagarða er ekki sama og "skógrækt", ekki frekar en að ræktun grasflata á sömu lóðum teljist til "landgræðslu". Reykjavík flokkast aðeins að litlum hluta sem skóglendi, þótt finna megi víða tré á lóðum í eigu stofnana, fyrirtækja og íbúanna sjálfra. 

"Skógur" (safn trjáa sem náð hafa a.m.k. 5 m hæð, sem vaxa á a.m.k. einum hektara,  með a.m.k. 10% laufþekju) þekur nú innan við 0,2% landsins. Ef farið er um vegakerfi landsins er leitun að þeim stað þar sem útsýni út um bílrúðuna er skert af völdum trjáa. Ef slíkan stað er hugsanlega einhversstaðar að finna, þarf sjaldnast að aka lengra en fáeina metra þar til útsýnið blasir við í 360°.

Ég sé ekki málefnaleg rök fyrir því að agnúast út í þá fáu og strjálu skógarreiti sem ræktaðir hafa verið á landinu (svo sem í ýmsum húsagörðum í þéttbýli eða á Sandey í Þingvallavatni), með vísan til þess að  við munum í framtíðinni (hugsanlega) lenda í þeirri "hálu brekku" að landið "drukkni í skógi".

Aðalsteinn Sigurgeirsson, 28.10.2010 kl. 00:24

12 identicon

Hér hefur hafist ágæt umræða um trjárækt í þéttbýli og skógrækt. Í fávisku minni taldi ég að yfirsýn um skógrækt væri góð. Íslensk stjórnvöld veita FAO yfirsýn um stöðu skógræktar árlega á landinu líkt og aðrar þjóðir gera og man ég ekki eftir að þaðan sé sérstaklega kvartað undan því að yfirsýn væri ekki næg hér á landi. Ómar hvað telur þú að alþjóðasamfélagið ætti að gera til að fá betri yfirsýn?

Helgi Gíslason (IP-tala skráð) 28.10.2010 kl. 13:31

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband