29.10.2010 | 22:29
Blaðamenn illa séðir í Marokkó.
Ég hef ekki orðið var við það að stjórnarfar eða stjórnarhættir í Marokkó hafi breyst mikið síðan ég kom þangað fyrst árið 1967 og síðan aftur 1975 og 1986.
Þessir stjórnarhættir eru ekki til að hrópa húrra fyrir hvað snertir lýðréttindi og frelsi.
1975 flugum við hjónin frá Kanaríeyjum til Marrakesh, sem er inni í landinu, en okkur skildist að ekki væri hægt að kynnast þessu landi í raun nema fara þangað í stað þess að koma til Tanger og Tetuan, sem eru gegnt Spáni við Gíbraltarsundið.
Ég álpaðist til að skrá mig sem blaðamann þegar ég fór þangað 1975 og allt fór á annan endann.
Seinna sögðu mér kunnugir að þetta hefðu verið arfamistök hjá mér, því að blaðamenn og fréttamenn væru afar illa séðir í landinu.
Það kemur mér þvi ekki á óvart að Al-Jazeera lendi í útstöðum við yfirvöldin þarna ef sú stöð hefur ekki makkað rétt við yfirvöldin.
Í sumar var ég í slagtogi með sjónvarpsfólki frá sjónvarpinu í Marokkó við Mývatn og tók það viðtöl við mig og flaug með mér.
Mér leist alveg prýðilega á þetta fólk og vinnubrögð þeirra og þau hafa líklega ekki lent í neinum vandræðum með að skila þessu myndefni til þjóðar sinnar, enda verið að fjalla um fjarlægt land og ekki stigið ofan á neinar tær ráðamanna landsins.
Ég vann líka mikið með sjónvarpsmönnum frá Al-Jazeera og öll vinnubrögð og umfjöllun þeirrar stöðvar var eins og best verður á kosið, enda valinn maður í hverju rúmi, tækjakostur frábær og metnaðurinn mikill.
Ég játa að ég veit ekki um málavöxtu í samskiptum Al-Jazeera og stjórnvalda í Marokkó en ólíklegt þykir mér að stjórnvöldin hafi batnað mikið síðan 1975.
Starfsemi Al-Jazeera stöðvuð í Marokkó | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
„Ég álpaðist til að skrá mig sem blaðamann þegar ég fór þangað 1975 og allt fór á annan endann.“
Ekki ertu að gefa í skyn að þú hefðir átt að villa á þér heimildir og sigla undir fölsku flaggi?
Þorvaldur Sigurðsson (IP-tala skráð) 30.10.2010 kl. 08:15
Nei, ég gaf það upp að ég væri "television-journalist" sem ég sannarlega var, fréttamaður og dagskrárgerðar maður hjá Sjónvarpinu.
Mér var sagt síðar af kunnugum, að hvers kyns fjölmiðlamenn væru illa séðir í Marokkó.
Geturðu annars sagt mér, Þorvaldur, hvað ég hefði átt að gefa upp annað en "television-journalist"?
Eða er það búinn að vera einhver misskilningur hjá mér í 40 ár hvað
Ómar Ragnarsson, 30.10.2010 kl. 16:39
Fyrirgefðu, Þorvaldur, að ég las athugasemd þína ekki rétt og athugasemd mín ér á undan er því á misskilningi byggð. Jú, mér var ráðlagt að segjast bara vera venjulegur ferðamaður en ég vildi hins vegar skrifa á blaðið hið sanna, hvaða atvinnu ég stundaði á Íslandi.
Ómar Ragnarsson, 30.10.2010 kl. 16:42
Já, það sem ég átti við var að vitaskuld fórstu heiðarlega fram en ekki að ráðum þeirra sem vildu að þú skráðir þig sem kennara eða langferðabifreiðarstjóra. Heiðarleiki borgar sig nefnilega alltaf þegar til lengdar lætur.
Þorvaldur Sigurðsson (IP-tala skráð) 31.10.2010 kl. 09:35
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.