24-32 þúsund km af slóðum.

Giskað hefur verið á að á Íslandi séu vegaslóðar alls á bilinu 24.000 til 32.000 km að lengd. Þegar þykk snjóþekja liggur yfir hálendinu á veturna eru leiðirnar, sem hægt er að aka á snjó enn fleiri.

Til samanburðar má nefna að í eina þjóðgarðinum í Bandaríkjunum, þar sem gert er út á jeppaumferð, eru slóðarnir 1600 km og blátt bann og sektir við því að fara út fyrir þá.

Þetta er þjóðgarðurinn Canyonlands eða Giljalönd. 

Þess vegna ætti að vera ástæðulaust fyrir jeppakarla eins og mig að aka utan íslenska slóðakerfisins eða  á þeim skíðasvæðum á veturnar þar sem gangandi fólk vill vera í friði fyrir vélknúinni umferð og því lagt bann við umferð vélsleða og jeppa. 

Um daginn hélt hópur jeppamanna samkomu við sunnanvert Vonarskarð til þess að staðfesta það, að ferðafrelsi á Íslandi hefði verið jarðað. 

Ferðafrelsið samkvæmt þessari skilgreiningu var þó jarðað mun fyrr þegar umferð vélknúinna farartækja var bönnuð á Öræfajökli.  Og jafnvel enn fyrr, fyrir nokkrum áratugum, þegar hætt var við að leyfa akstur bíla niður Almannagjá.

Bann við vélknúinni umferð á Öræfajökli var sjálfsagt og eðlilegt því að æ fleiri ferðamenn hafa gengið á jökulinn til þess að upplifa einstakt útsýni og kyrrð og frið öræfanna. 

Hvergi þar sem ég þekki til er ótakmarkað ferðafrelsi í þjóðgörðum, ekki einu sinni í jeppaþjóðgarðinum í Ameríku þar sem stór svæði eru tekin frá fyrir gangandi fólk og umferð jeppanna bönnuð þar. 

Þegar litið er á hnattlíkan sést að Ísland er ekki stórt, heldur lítið.

Með auknum fjölda ferðamanna eykst þörf á því að sinna mismunandi þörfum þeirra sem vilja njóta hinnar einstæðu náttúru. 

Ég tel að við jeppamenn getum ekki lengur krafist ótakmarkaðs ferðafrelsis alls staðar. 

Meira en 20 þúsund kílómetrar af jeppaslóðum ættu að nægja fyrir okkur. 

Það breytir ekki því að ævinlega kann vera umdeilanlegt hvar aðeins skuli leyfð umferð gangandi fólks og á það einnig við um þau svæði, sem stjórn Vatnajökulsþjóðgarðs vill taka frá fyrir göngufólk. 

Og nauðsynlegt er að hafa mikið samráð og gott við alla aðila málsins. 

Raunar má í sumum tilfellum leitast eftir ákveðnum sveigjanleika. Þannig myndi ég vilja láta reyna á það hvernig það væri að gefa umferð niður Almannagjá frjálsa í einn til tvo klukkutíma í hverri viku. 

Fyrsta magnaða upplifun mín af hrikalleik íslenskrar náttúru fólst í því þegar rútan ók ofana í gjána og hamraveggurinn hvelfdist yfir rútuna. 

Þá var ég aðeins fjögurra ára gamall og æ síðan var þetta stórkostleg upplifun á meðan það var leyft.

Það er ekki lengur ótakmarkað rými fyrir mismunandi hópa hér á landi. 

Þannig er það ekki sjálfgefið að í lagi sé að ríða með hundrað hesta stóð inn að Strútslaug eða þvert í gegnum Lakagíga eins og gert hefur verið undir þeim formerkjum að frá landnámstíð hafi verið óskorað frelsi til þess að fremja slík hervirki á hestum. 

Það er heldur ekki sjálfgefið að vélhjólamenn láti sér ekki nægja 24-32 þúsund kílómetra slóðakerfi heldur megi nota hvern þann gönguslóða og kindastíg sem finnanlegur er til þess að þeysa um hann á torfæruhjólum. 

Þegar komið er í þjóðgarðinn Harðangursheiði í Noregi þakkar maður fyrir það frelsi sem þó er hér á landi. Öll vélknúin umferð er bönnuð um þennan 4000 ferkíómetra þjóðgarð allt árið um kring. 

Þótt ég kæmi á jöklajeppanum mínum með GPS-tæki og vildi aka á fimm metra þykkri snjóþekjunni ofan á hinum malbikaða vegi, sem liggur þvert með norðurjaðri þjóðgarðsins, yrði það ekki leyft.

Sagt hefur verið að munurinn á Noregi og Íslandi sé sá, að í Noregi sé allt bannað nema það sé leyft en á Íslandi allt leyft, nema það sé bannað.  Kannski kristallast hér munur á milli þjóðanna sem hefur verið ríkjandi allt frá því að forfeður okkar brutust undan valdi Haraldar hárfagra og fundu frelsisins land langt úti í hafi. 

Ég hallast að íslensku leiðinni þótt frelsi einstaklingsins nái ekki lengra en svo að það skerði ekki frelsi annars. 

Nú eru hné mín farin að gefa sig og því á ég ekki neinna hagsmuna að gæta sem göngumaður, heldur verð að láta jeppamennskuna duga. En eftir að hafa skoðað mig um í 26 þjóðgörðum erlendis sýnist mér að ekki sé hægt að verða við þeirri kröfu, sem einn bloggari setti fram nú um daginn: "Ég er frjáls maður í frjálsu landi og keyri því hvar sem er og hvenær sem er eins og mér sýnist."


mbl.is Ítreka bann við utanvegaakstri í Bláfjöllum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þakka þér fyrir hófstillta umræðu um ferðafrelsi. Þetta er mjög nauðsynleg umræða. Vil gjarnan koma með nokkra punkta.

Hér á landi er líka bannaður akstur utan vega. Þar liggja við sektir. Um það er góð sátt og alveg óþarfi að breyta því.

Ég er ekki sammála því að banna akstur á Öræfajökli. Sjálfsagt að banna akstur á gönguleiðinni og á Hvannadalshnjúki, en Öræfajökullinn er afar fáfarinn jeppaleið og gríðarlega stór íshella þannig að hæpið er að göngumenn verði fyrir truflun. Hef engar sögur heyrt af því.

Vonarskarðið er fyrst og fremst áhugaverð leið til að fara á jeppa. Þarna liggur leið um sanda og ógróna mela. Ef leiðin er vel merkt með stikum ætti enginn að villast út fyrir slóða. Það verður að huga að tilgangi með þjóðgarði. Tilgangurinn að mínu mati á að vera að auka aðgengi á meðan náttúran er vernduð. Sjálfsagt að loka svæðum sem hafa sérstakar jarðmyndanir, gróðurfar eða eru viðkvæm að öðru leiti.

Ef einhversstaðar ætti að banna umferð vélknúinna tækja ætti kannski að byrja í þéttbýlinu, þar er raunveruleg truflun - slysahætta og mengun.

Þrándur (IP-tala skráð) 2.11.2010 kl. 14:11

2 identicon

Sæll Ómar.

Eitthvað hafa nú tölurnar breyst síðan ég sagði þér fyrir rúmu ári, að samanlögð vegalengd mældra slóða hjá vegagerðinni, Landmælingum, Landsvirkjun og Ferðaklúbbnum 4x4 væru um 23,000 km. Inni í þessari tölu eru allir línuvegir, virkjanavegir, fjallvegir, upprekstraleiðir, veiðimannaleiðir, fjallvegir, leiðir rannsóknarmanna að jarðskjálftamælum og öðrum mælum, vegir inni á löndum bænda og fleira sem okkur sem unnum í mælingaverkefnum með LMÍ var kunnugt um. Sjálfsagt vissum við ekki um alt, en ekki er mér kunnugt um verulegar viðbætur við þetta.

Ég skil ekki áráttu þeirra sem fara með bíla á skíðasvæði til að keyra vélsleða eða bíl í snjónum, en líklega er það vegna vankunnáttu, því margir borgarbúar þekki ekki snjó á öðrum svæðum nú á þessum tímum.

Samanburður á aðstæðum í Noregi og Íslandi er áhugaverður og einnig menningarlegur munur á þessum þjóðum. Víða í Noregi eru lokuð svæði sem almenningi er bannað að fara akandi um og er þetta á eignarlöndum þjóðgörðum og öðrum svæðum. Einnig en heimil umferð vélsleða og snjóbíla, þar sem bílum er ekki heimil umferð, enda tíiðkast ekki í Noregi að nota breyttan bíl eins og snjóbíl. Akstur utanvega í Noregi er heimil bændum, skógarhöggsmönnum, línu og virkjunarmönnum á umsjónarsvæðum þeirra, en ekki ferðafólki.

Hinsvegar er hér á landi lög sem banna eigendum jarða að loka fyrir umferð í gegnum sýn eignarlönd, þannig að samanburður á einstökum þjóðgörðum seigir ekki alla söguna og er markt sem ber að athuga.

Takk fyrir þessi skrif Ómar og er umræða um þessi mál þörf í okkar samfélagi.

 Kveðja Dagur Bragason

Dagur Bragason (IP-tala skráð) 2.11.2010 kl. 18:58

3 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Það getur verið afar hljóðbært í öræfakyrrðinni og því getur verið erfitt að samræma þarfir göngufólks, sem sækist eftir kyrrð og hins vegar þarfir okkar jeppamanna sem getum ekki annað en látið í okkur heyra.

Gallin við að leyfa vélknúna umferð á Öræfajökli er sá að hún verður eðli málsins mest þegar best er veður og þá vilja auðvitað allir komast þangað. 

Ómar Ragnarsson, 2.11.2010 kl. 19:02

4 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Höldum okkur þá bara við 23 þúsund kílómetra. Ég sé ekki betur en að þetta sé drjúg vegalengd samt.

Ómar Ragnarsson, 2.11.2010 kl. 19:06

5 identicon

Einhver misskilningur hér á ferðinni. G.p.s mældar slóðir og þjóðvegir voru líklega um 23000 km vorið 2008. Eftir það g.p.s mældum við sumarið 2009 og eru mældir vegir og slóðar því líklega um 25000 km, þetta eru allir vegir þjóðvegir, landsvegir og slóðar. Að vísu er g.p.p mælingarverkefninu hvergi nærri lokið. Enda voru þær mælingar sem við gerðum 2007-2009 aðalega ofan við miðhálendislínuna. 

Ferlaráð Ferðaklúbbsins 4x4 

Jón Garðar Snæland (IP-tala skráð) 2.11.2010 kl. 20:00

6 identicon

Ágætur pistill Ómar.  Þess má geta að akstursbannið á Öræfajökli gildir frá 20. apríl til 15. september og er dregin lína rétt norðan við Hvannadalshnjúk.  Þessi regla hefur verið í gildi frá því Skaftafellsþjóðgarður var stækkaður fyrir nokkrum árum og um þessa niðurstöðu ríkti nokkuð góð sátt bæði meðal göngumanna og jeppamanna, enda er með þessu komið nokkuð til móts við þarfir allra hópa.  Fram til 20. apríl er hægt að fara akandi um Öræfajökulsöskjuna, keyra að Hnöppunum og njóta þar stórfengis útsýnis, en eftir þá dagsetningu er hægt að ganga á Hnjúkinn án þess að mæta bíl eða vélsleða.

Í ljósi þess að þarna tókst að samþætta þarfir þessara hópa voru það vonbrigði að stjórn Vatnajökulsþjóðgarðs teldi ekki ástæðu til að fara svipaða leið varðandi Vonarskarð, heldur lætur akstursbannið gilda allt árið og þar með á haustin á þeim tíma sem flestir og líklega allir göngumenn eru horfnir á svæðinu en aðstæður mjög heppilegar til að ferðast þarna á jeppum.

Akstur á skíðasvæðum sem fjallað er um hér í fréttinni er hins vegar með öllu óásættanlegur og ég held ég geti fullyrt að allir jeppa- og sleðamenn sem hafa eitthvað örlítið af skynsemi í kollinum fordæmi slíka hegðun.

Skúli H. Skúlason (IP-tala skráð) 2.11.2010 kl. 20:38

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband