6.11.2010 | 23:21
Hvar liggur línan?
Það er hægt að leiða að því líkum að auðvelt sé að reikna það út að það "borgi sig" fyrir þjóðarbúið að flytja alla af landsbyggðinni á Reykjavíkursvæðið og gera allt sem er fyrir norðan Akranes og austan Selfoss að sumarbústaðabyggð fyrir borgarbúa.
Til eru þeir sem telja að eina leiðin til að keppa við aðrar þjóðir í að halda fólki hér á klakanum sé að gera Ísland að borgríki. Í mesta lagi megi íhuga hvort Akureyri fengi að vera smábær en þó yrði "hagrætt" þannig að háskólastarfsemin þar yrði flutt til Reykjavíkur.
Síðan er hið öndverða sjónarmið að halda verði öllum dölum og víkum þessa lands í byggð.
Ég hygg að hvorugt sjónarmiðið sé æskilegt eða heppilegt, heldur beri að leita þeirrar lausnar þar sem leitast er við að hafa lífvænlega byggð, sem dafni á eigin verðleikum.
Nágrannaþjóðirnar hafa fengist við þetta og niðurstaðan er í grófum dráttum sú, að forsenda fyrir blómlegri byggð sem fólk vill eiga heima í sé sú að þar sé að finna sem fjölbreyttust störf og menningu, allt frá háskólastarfi til framleiðslu- og þjónustustarfa.
Ef þetta litróf er ekki fyrir hendi verður mannlífið einhæft og fólk flyst í burtu, einkum unga fólkið.
Góð dæmi um þetta eru Akureyri og Tromsö í Norður-Noregi og nú síðast Borgarfjarðarhérað með alla sína skóla og menningarstarf, sem hefur sprottið upp, svo sem í öflugri leikstarfsemi í Borgarnesi.
Ég var einmitt í gærkvöldi að skemmta laganemum í Háskólanum á Bifröst og hef sjaldan verið á jafn ánægjulegri samkomu. Þetta var hrein unun fyrir mann sem gerði hlé á laganámi í miðjum klíðum fyrir 46 árum og komst aftur í gamla gírinn góða.
Einn stóran skugga bar þó á, jafnt í hugum nemenda og rektorsins, sem þarna var, sú tilhugsun að þetta væri "síðasta kvöldmáltíðin" í skólanum.
Það er hægt að reikna út ýmislegt þegar hin svokölluðu "hreinu hagkvæmnissjónarmið" eru látin vera algild.
Þannig má reikna það út að öllu væri best komið ef allir landsbúar byggju í einu þéttu hverfi 30 hæða blokka sem reist yrði í stað "húskofanna" sem mynda að miklu leyti stóran hluta Skólavörðuhæðar í Reykjavík.
Það má líka reikna lengra og finna út að með "hrein hagkvæmnissjónarmið" í huga spöruðust miklir fjármunir með því að flytja alla Íslendinga inn í 330 þúsund manna úthverfi í erlendri stórborg.
Á síðasta landsfundi eins stjórnmálaflokksins kom fram tillaga um að banna að byggja fleiri íbúðir í úthverfum Reykjavíkur eða nágrannabæjum höfuðborgarinnar. Flutningsmenn töldu hana byggja á pottþéttum hagkvæmnisútreikningum.
Ef talið er hagkvæmt að flytja háskólann á Bifröst í raun til Reykjavíkur, af hverju þá ekki að flytja líka landbúnaðarháskólann á Hvanneyri?
Eða væri kannski ómaksins vert að athuga hvernig það kæmi út að sameina þessa tvo borgfirsku skóla?
Ósammála áformum um sameiningu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Stórkostleg færsla Ómar stókostleg.
Ragna Birgisdóttir (IP-tala skráð) 6.11.2010 kl. 23:41
Frjálsar handfæra veiðar, leysa fátæktar og atvinnu vanda Íslendinga,
þetta er skynsamlegasta leiðin fyrir þjóðina!
Aðalsteinn Agnarsson, 6.11.2010 kl. 23:42
http://www2.hr.is/lisalib/getfile.aspx?itemid=4149 þetta nám hófst í Reykjanesbæ og fór í samstarf við HR.... nú veit enginn af því að þetta hófst þar og allt komið í Reykjavík en samkvæmt þessum bæklingi stendur að öll kennsla fari að mestu fram í Reykjanesbæ. Ekki veit ég hvað varð til þess að allt fór.... Ætli það verði ekki svipað með Bifröst að þeir falli í gleymskunnar dá, hver veit
áhugasamur (IP-tala skráð) 6.11.2010 kl. 23:52
HR-fólk er ekki spennt fyrir þessu heldur, og HR er ekkert líklegt til að græða á sameiningunni. -sameinaður skóli situr uppi með þessi hús þarna í Borgarfirðinum sem enginn veit hvað á að gera við.
Eigendur skólanna eru búnir að ákveða þetta, og fyrir liggur velþóknun menntamálaráðuneytis. Sparnaður verður enginn nema starfsemin verð að mestu flutt á einn stað. Life´s a bitch and then you die ............................
Sameinist Bifröst Hvanneyri þarf HR ekki lengur að hafa áhyggjur af þessu, væri bara besta mál.
HR-ingur (IP-tala skráð) 7.11.2010 kl. 00:06
"Það er hægt að leiða að því líkum að auðvelt sé að reikna það út að það "borgi sig" fyrir þjóðarbúið að flytja alla af landsbyggðinni á Reykjavíkursvæðið...."
Það er ekkert hægt "að leiða að því líkum", Ómar, einhverju sem er með öllu óraunhæft. Nema þú ætlir einhverri allt annarri þjóð að búa í landinu.
Fyrr mun ég dauður liggja... ellegar flytja erlendis, en að láta "flytja mig" á mölina. Þar hef ég búið rúmlega helming ævi minnar og tel mig hafa tekið út mína refsingu. "Been there, done that".
Gunnar Th. Gunnarsson, 7.11.2010 kl. 00:07
Gæsalappirnar mínar utan um orðin "borgi sig" lýsa því hvaða álit ég hef á svona reikningskúnstum, sem hafa að engu frelsi fólks og gildi unaðsstunda.
Ómar Ragnarsson, 7.11.2010 kl. 00:15
Takk fyrir þessa frábæru grein, Ómar. Gríðarleg vonbrigði hvernig niðurskurðarhnífnum er beitt. Endalaus niðurskurður í mennta- og heilbrigðismálum á landsbyggðinni með meðfylgjandi atvinnuleysi, síðan á að byggja upp ný störf í virkjunarframkvæmdum og áliðnaði. Hvaða lógík er í þessu?
Hildur Hermóðsdóttir (IP-tala skráð) 7.11.2010 kl. 11:35
Að venju veltir Ómar um steinum. Og það er gott, því athugasemdir kunna að leyna á svörum.
Mitt innlegg eru nokkur stykki.
Einu sinni var það í alvöru hugleitt af baunskum ráðamönnum að flytja Íslendinga á Jótlansheiðar.
Ótrúlega margir landsbyggðarbúar eru til í það skoða nýstofnun lýðveldis sem sker höfuðborgartotuna af, ca. við litlu kaffistofuna. Ekkert grín! Meir að segja Vestmannaeyingar gantast með það að þeir stæðu best sem fríríki.
Ástæðan er e.t.v. "óeðlileg" hausatala höfuborgarsvæðisins miðað við nágrannaríki, - nú eða flest ríki. Ímyndið ykkur New York með 200 milljón manns, Berlín með 50 milljónir, London með 40...ég held ekki að það væri hægt.
Á einni hraunklessu við sjó býr jú ca 2/3 landsmanna og er að sorglega stóru leyti laus við að átta sig á því hvað "sveitavargurinn" er að hanga "þarna úti á landi" og hvers vegna fólki dettur í hug að það sé lífsins virði að veltast um á sjó eða með kalda putta á kafi í slori.
Og eins og ég er búinn að tuskast við hann Gunnar, þá finn ég taugina hans,- á mölina???? Þá verður hún erlendis.
Jón Logi (IP-tala skráð) 7.11.2010 kl. 13:31
29.6.2010:
"Framlag menningar til landsframleiðslunnar er 4%, sem er meira en öll starfsemi raf-, hita- og vatnsveitna og nær þrefalt meira en landbúnaður eða ál- og kísiljárnframleiðsla."
Hagræn áhrif skapandi greina metin
Þorsteinn Briem, 7.11.2010 kl. 14:02
"Hagvöxtur til frambúðar veltur á því að landnæði er nýtt betur, tæki og tól eru endurnýjuð til hins betra og vinnuafl nýtist betur, annaðhvort með því að láta fólki í té betri tæki eða með því að auka menntun og þar með virði vinnuframlags hvers einstaklings."
Er meiri hagvöxtur alltaf betri? - Katrín Ólafsdóttir lektor árið 2007
Menntun Íslendinga 11% undir meðaltali OECD
Um 300 manns starfa nú í höfuðstöðvum CCP í 101 Reykjavík
Þorsteinn Briem, 7.11.2010 kl. 14:03
"Árið 2009 var seld hér þjónusta til útlanda fyrir 287,3 milljarða króna en þjónusta keypt frá útlöndum fyrir 239,9 milljarða króna.
Þjónustujöfnuður var því hagstæður um 47,4 milljarða króna."
Utanríkisverslun, þjónustuviðskipti við útlönd eftir markaðssvæðum árið 2009
Árið 2009 voru fluttar hér út iðnaðarvörur fyrir um 244 milljarða króna, þar af 90% til Evrópska efnahagssvæðisins, sjávarafurðir fyrir um 209 milljarða króna, þar af um 80% til Evrópska efnahagssvæðisins, og landbúnaðarvörur fyrir um átta milljarða króna, þar af um 60% til Evrópska efnahagssvæðisins.
Gjaldeyristekjur okkar af ferðaþjónustu voru um 155 milljarðar króna árið 2009 og um 70% af erlendum ferðamönnum hér búa á Evrópska efnahagssvæðinu.
Utanríkisverslun okkar Íslendinga með vörur árið 2009
Ferðaþjónusta á Íslandi í tölum - Febrúar 2010
Rúmlega tíu milljarða króna tekjur tölvuleikjafyrirtækja hér árið 2009
Þorsteinn Briem, 7.11.2010 kl. 14:06
„Einu sinni var það í alvöru hugleitt af baunskum ráðamönnum að flytja Íslendinga á Jótlan(d)sheiðar.“
Reyndar er þessi fullyrðing afar vafasöm og finnst hvergi stafkrókur í samanlögðum prótókollum kansellísins í Kaupinhöfn í þá veru að íslensk þjóð yrði flutt suður að Norðursjó. Hugsanlega hefur einhver stungið upp á þessu í bríaríi en ekki þótt nógu merkilegt til að bóka það sem alvöru uppástungu, en líklegast að íslenskir „sagnfræðingar“ hafi logið þessu upp til notkunar í sjálfstæðisbaráttuni til að sýna fram á illmennsku danskra. Þó mun vera sá fótur fyrir þessu að til tals kom að flytja fáein hundruð þeirra sem aumastir væru úr landi á meðan á Móðuharðindunum stæði, þeim til lífsbjargar. En af framkvæmdum varð aldrei, enda allir dauðir úr hungri og hor sem þetta hefði tekið til ef átt hefði að reyna.
Og úr því ég fór að láta ljós mitt skína: Afskaplega kann ég illa við orðalagið „að leiða líkum að e-u“. Í minni sveit tekur sögnin „að leiða“ ævinlega með sér þolfall. Og aldrei dytti nokkrum manni í hug að leiða hesti til vatns. Að því má þá leiða afar sterkar líkur að menn ættu að leiða líkur að einhverju; ekki satt?
Þorvaldur Sigurðsson (IP-tala skráð) 7.11.2010 kl. 20:11
Nú er ég sammála þér Ómar, Álverið bjargaði okkur austfirðingum að þurfa ekki að flytjast hreppaflutningum á mölina og sama er um háskólann á Bifröst algjört bull að flytja þetta meira og minna til RVK miklu frekar að sammeina Hvanneyri og Bifröst það er ekki vitlaus hugmynd enda eiga kennarar hægt um vik sem búa á Hvanneyri að sækja vinnu á Bifröst.
kv.
Óskar
Óskar (IP-tala skráð) 8.11.2010 kl. 09:18
Það er að sjálfsögðu höfuðatriði að vekja athygli á vantandi "déi" í Jótlandsheiðum, svo og á Þágufallsbommertu Gunnars.
Langar mig þó að spyrja hvort að Jótlandsheiðasagan sé uppspuni eða hvað, - alltént var þetta kennt í sögu. Mig minnir nú reyndar að þetta hafi svo sem komið af góðum hug Dana, enda Íslendingum vorkunn, étandi sitt maðkamél, sargandi með ryðjárni á flóamýrum og þúfnakollum, sídeyjandi úr bólusótt og pestum, sveltandi, drukknandi, og sífellt innan skotfæris hinna morðóðu eldstöðva.
Hérna minnist Ómar á þetta:
http://blog.eyjan.is/omarragnarsson/2010/04/26/alrong-nalgun/
Og Steini Briem, - sjáðu þetta:
Vissulega er þetta bara útflutningur á vöru, ólíkt t.a.m. ferðaþjónustu sem líkja má við innflutning á peningum, en þróunin er þar t.a.m. í þessa átt:
Heildarfjöldi gistinátta var 2,9 milljónir árið 2009, en það er um 6,6% aukning frá fyrra ári. Gistinóttum fjölgaði á öllum tegundum gististaða nema hótelum og gistiheimilum. Þeim fjölgaði mest á Suðurlandi, um 20%, á Vestfjörðum um 17,6%, á Norðurlandi vestra um 17,3% og á Austurlandi um 7,8%. Gistinóttum fjölgaði um 7% á Norðurlandi eystra og Suðurnesjum en á höfuðborgarsvæðinu og á Vesturlandi var fjöldi gistinátta svipaður á milli ára.
(Tölur frá 2009)
Jón Logi (IP-tala skráð) 8.11.2010 kl. 09:26
Jón Logi!
Jón Aðils og Jónas frá Hriflu blésu þetta út, upp úr aldamótunum 1901, til að sýna fram á illmennsku danskra, en sýnt hefur verið fram á af nútímasagnfræðingum, ss Gunnari Karlssyni og Gísla Gunnlaugssyni, að þetta er mjög orðum aukið og eiginlega varla flugufótur fyrir því.
Hitt er svo sérkennilegur lestur að finna út að déið og þágufallið, sem reyndar er hjá Ómari, sé aðalatriði minna skrifa.
Þorvaldur Sigurðsson (IP-tala skráð) 8.11.2010 kl. 10:55
Það er kannski nær að tala um niðurlag frekar en höfuðatriði þar sem þetta kemur fram neðst. En ég er bara svo kerskinn á stundum að ég ræð ekki við púkann í mér. Og leiðrétt skal að þágufallið var bommerta Ómars og feitletruð hjá Gunnari, hvar ég sá hana.
Ég vissi að þetta kom fram í Íslandssögu Jónasar, en ekki hafði ég heimildir fyrir því að þetta væri fabúlering, né þá skoðun að ef satt væri, þá væri það á illgirni byggt, eins og fram kemur í texta mínum.
Sem er svo á skjön við þá fyrrverandi stjórnarstefnu Dana varðandi einokun þeirra sem gerði þeim kleift að halda mörlandanum í enn meiri svelti um árhundruða skeið er annars hefði verið. Enda sást ekki almennilega til sólar fyrr en amboð og efni voru aðfáanleg úr annarra höndum en baunskra. Dugðu þá hvorki frostavetur, eldsumbrot né vesturflutningar til að koma erfðarmenginu niður fyrir það sem það sem það var þegar einhver talaði kannski eitthvað um Jótlandsheiðar.
Jón Logi (IP-tala skráð) 8.11.2010 kl. 12:49
„Sem er svo á skjön við þá fyrrverandi stjórnarstefnu Dana varðandi einokun þeirra sem gerði þeim kleift að halda mörlandanum í enn meiri svelti um árhundruða skeið er annars hefði verið.“
Og enn kemur söguskoðun Jónasar fram. En svo var raunar ekki; þessi kenning er á illgirni byggð. Þeir Gísli Gunnarsson og Gunnar Karlsson hafa sýnt fram á að í rauninni var þetta öfugt; íslenskur aðall reyndi að halda almúganum niðri jafnóðum og danskir reyndu að draga hann upp úr skítnum. Og einokunarverslun var ekki uppfinning Dana heldur tíðkaðist hún hvarvetna í Norðurálfu, sem grein af svokölluðum merkantilisma og þjónaði þeim tilgangi að hagnaður atvinnuveganna rynni ekki út úr landinu og yrði því til uppbyggingar heima fyrir. Til að hamarka hagnaðinn reyndu Danir að stofna kaupstaði en ríkir bændur börðust gegn því til að missa ekki vinnuaflið. Eymd Íslendinga frá siðaskiptum var örugglega að mestu heimatilbúin, enda vita Danir sem hagsýn þjóð að vel alin kýr mjólkar meir en svelt.
Þorvaldur Sigurðsson (IP-tala skráð) 8.11.2010 kl. 14:13
AHA!
Einokunarverzlun baunskra hefur sem sagt best þjónað mörlandanum með því að halda að þeim öllu hinu besta og halda grönum þeirra yfir flóandi mykju. Það að eymd Íslendinga skuli parast fullkomlega á tímaskala einokunarverslunarinnar svo og að upprisa fólksfjölda og verkmenningar virðist fara vel með afléttingu hennar vekur því rökfræðilega furðu.
Mín niðurstaða er nú reyndar tvenn, enda málin tvö. Ekki byggð á illgirni gagnvart frænþjóð vorri, heldur einnig á grúski og svo minningum frá fólki sem ég náði að kynnast og hafði minningar beint eftir öðru gömlu fólki frá bauns-stjórn mörlandans. Minningar um Skozka ljái, skútuverzlun og þess háttar, sem ekki áður var hægt.
Hér er hún
1: Einokunarverslunin hélt þjóðinni niðri.
2: Dæmið um Jótlandheiðar sýnir ekki endilega illgirni nýlenduherranna.
Jón Logi (IP-tala skráð) 8.11.2010 kl. 15:08
„Það að eymd Íslendinga skuli parast fullkomlega á tímaskala einokunarverslunarinnar svo og að upprisa fólksfjölda og verkmenningar virðist fara vel með afléttingu hennar vekur því rökfræðilega furðu.“
Það er hin mesta skemmtun að skrifast á við þig. Þessi klausa sem þú setur á skjá virðist skotheld. En þegar öllu er á botninn hvolft verður að taka fleira með í reikninginn. Á þessu tímabili ríkti versta tíðarfar sem um getur í gervallri Íslandssögunni og setti það íslenska þjóð á hausinn svo um munaði og þar að auki gengu þá verulega erfiðir sjúkdómsfaraldrar svo sem Stóra bóla og ekki má gleyma Móðuharðindunum. Það er svo enginn kominn til með að segja að hagur almennings hafi verið hótinu betri fyrir Siðaskipti en hins vegar þjónaði það ekki pólitískum hagsmunum Íslendinga í lok 19. aldar að halda slíku á lofti. Með afléttingu einokunarverslunar 1787 urðu svo engar stökkbreytingar heldur efldist hagur almennings ekki fyrr en í upphafi 20. aldar með nútímatækni. Stofnun einokunar og síðar aflétting breytti svo sem engu fyrir venjulegt fólk, það liðu amk. 100 ár, og kannski nær 150, frá því hún var aflögð þar til kjör almúga breyttust. Það er líka eftirtektarvert að öll dæmi um illmennsku einokunarkaupmanna er frá tuttugu og fimm ára ára tímabili; sem sagt verslun Hörmangara sem stóð í 15 ár og Almenna verslunarfélagsins sem stóð í tíu, og gleymum því ekki að það voru dönsk stjórnvöld sem boluðu þessum verslunarfélögum frá vegna kvartana landsmanna. Sjálf stóð einokunarverslunin í 185 ár. Lengst af var hún sem sagt bara sæmilega farsæl enda ljóst af samtímaheimildum að stjórnvöld vildu vel. Alltént er ljóst að hún tryggði búsetu um land allt, en ef ekki hefði verið skylda að versla allstaðar hefðu útkjálkabyggðir örugglega lagst af og þar með hefði landsmönnum vafalítið fækkað enda bar landið, miðað við þeirrar tíðar búskaparhætti ekki fleiri. Gleymum því ekki að íslenskir börðust gegn stofnun sjávarútvegskaupstaða, sem hefði gefið færi á framfærslu miklu fleiri, en ekki danskir, jafnvel allt til loka 19. aldar. Danir leystu vistarbandið hjá sér í lok 18. aldar en Íslendingar, og þeir réðu þessu alveg sjálfir, ekki fyrr en rétt fyrir aldamótin 1901.
Sem sagt; viðtekin söguskoðun á einokunarversluninni er í besta falli verulega vafasöm.
Þorvaldur (IP-tala skráð) 8.11.2010 kl. 16:05
Skemmtunin er ekki síður mín megin, - alltaf gaman að fá svona vönduð svör.
Ég mun koma með enn magnaðra rétt síðar, en tilhlökkun við því skyldi geymast í nokkra tíma sökum vistarbands míns.
Jón Logi (IP-tala skráð) 8.11.2010 kl. 16:24
Gaman að fylgjast með þessu! Ég hallast nú heldur á sveif með Þorvaldi. Sjáum hvað setur.
Gunnar Th. Gunnarsson, 8.11.2010 kl. 18:50
Það er alveg ljóst að bændaaðallinn á Íslandi hélt þéttbýlisþróuninni niðri. Hún var þeim í óhag vegna manneklu.
Gunnar Th. Gunnarsson, 8.11.2010 kl. 18:52
Nýsloppin er ek úr vistarbandi dagsins, en er nauðugur í brúseríngu. Á meðan á þeirri afplánun stendur kastast til Gunnars bein nokkurt, og í því felst skoðun þess um þá kosti þess að hafa einn kaupanda.
Jón Logi (IP-tala skráð) 8.11.2010 kl. 19:19
Hérna kemur svo konfektið. Það er jú fátt skemmtilegra en að spegla kosti og galla einokunarverslunar, og hvað þá að inni í dæminu er debattéring um hvort Danir hafi virkilega hugleitt það að evakúera skerið. Sem er, eins og ég benti á, líklega af góðum hug. Verður þó að hafa í huga að Danir höfðu eitt sinn þrælanýlendu. "Slavekoloni" heyrðist mér það vera. Og svo "höfðu" þeir Ísland.
En hvað um það. Aumt var ástandið hér á seinni hluta átjándu aldar. Einmitt á þeim tíma sem meintur gjörningur Dana um hugsanlegan flutning mörlandans á allminna harðbýlissvæði á Jótlandi átti sér stað.
Það höfðu gengið yfir manndrápspestir nokkrar, sem gjarnan drápu drjúgan hlut af pöpulnum, svartidauði, bólusótt, ormaveiki, berklar, innanmein allslags, og lífslíkur ekki allmiklar. Á 19 öld var svo komið að ævilíkur kvenmanns voru 40 ár, en karlmanns allminna, - Þar verður þó að reikna með sjódauða sem virðist hafa vigtað sem stærra stykki hjá sláttumanninum heldur en barnsfarasótt. 36 ár eða svo fyrir kallinn.
Að ofangreindu get ég ekki séð að einokunarverslun hafi bætt úr. Þvert á móti. Hið fyrsta atriði er að viðskiptastaðan þar er algerlega ömurleg. Einn seljandi, einn kaupandi. Hann ákvarðar verðið og dæmir vöruna. Niðurstaðan hin margfræga, - ryðjárn, fúaspýtur, og maðkamjöl. Nú eða ekkert. En...það þurfti að halda kúnnanum á lífi, - hann má jú ekki deyja út, - dauður kúnni gerir ekki neitt. En sleppt var af klónni eftir móðuharðindi nokkuð svo, og það tiltekur e.t.v. upphaf sjálfstæðisbaráttu Íslendinga.
Frá viðskiptalegu sjónarmiði er þetta eitthvað sem kemur við kaunin á Gunnari, sem mærir kost þess að hafa helst einn stórkaupanda. Það er bara ekki svo. Um leið og fleiri eru um hituna er frekar hægt að velja eftir verði. Og þjóð sú sem okkur var (svobestégveit) möguleg í verslun vs. Dani voru Bretar. Enda mun nær landfræðilega og flotaveldi mikið. Eitthvað gæti tusk Breta og Dana á tímum Nelsons kunna að hafa haft áhrif á aðdrætti hingað, svo eitthvað sé nefnt.
En hitt er víst, að þegar Íslendingar gátu farið að versla við Franskar skútu-útgerðir, selja sauði til Breta fyrir gull, og svo fá sér almennilegt stál í ljái og önnur amboð, frekar en að eiga einungis afgangsframboð það er Danskir buðu uppá, þá tók þjóðin fjörkipp mikinn.
Niðurstaða mín er því sú, að einokunarverslun Dana hafi haft neikvæð áhrif á þrif þjóðarinnar. Og er þá hringnum lokað, nema fullyrt verði að okkar orkusölu sé best borgið með einum kaupanda sem sjálfur ákveður verðið.
Jón Logi (IP-tala skráð) 9.11.2010 kl. 11:28
Hver skyldi nú hafa fullyrt það?
Gunnar Th. Gunnarsson, 9.11.2010 kl. 16:58
Um þessi efni er heppilegast að lesa hina ágætu bók Gísla Gunnarssonar Upp er boðið Ísaland. Vitaskuld má deila um einokun bólu og sult en þá verður að hafa í huga að það sem Íslendingum var boðið á þessum tíma var ekki hótinu verra en almenningur allra Evrópulanda mátti þola á sama tíma. Og sömuleiðis það að efnahagslegar framfarir í lok 19. aldar náðu ekki til almúgans. Ég er einmitt að lesa ævibók Theodórs Friðrikssonar sem var uppi um og eftir aldamót og lýsing hans á kjörum fátæklinga er hjartaskerandi. Framfarirnar með verslunarfrelsinu leiddu nefnilega einkanlga til þess að þeir sem efnaðir voru urðu ríkir en hinir máttu snapa gams. Raunverulegar efnahagsumbætur sem komu venjulegu fólki til góða verða ekki fyrr en í kjölfar stofnunar verkalýðsfélaga og þegar liðið er á 20. öld. Gleymum því ekki að í reykjavík var búið í bröggum fram um 1970 og úr síðasta torfbænum var ekki flutt, og hann rifinn fyrr en laust fyrir 1980. Um þetta er hins vegar yfirleitt ekki fjallað í sögubókum sem ætlaðar eru betri borgara börnum og því minntist Jónas ekki á þetta í Íslandssögu sinni sem mótað hefur söguskoðun Íslendinga meir en önnur rit á nýliðinni öld.
Þorvaldur Sigurðsson (IP-tala skráð) 9.11.2010 kl. 21:47
Ég ætla nú ekki að halda því fram að það hafi verið einhver sérdanskur kvalalosti sem setti okkur í höft einokunarverslunar, - þetta var nú bara svona þá.
Ég ætla hins vegar að halda því fram að þetta hafi ekki verið til bóta fyrir fátæka þjóð í harðbýlu landi. Og þá niðurstöðu mína byggi ég svo (sem fyrr) á þeim einföldu rökum, að það að hafa einn kaupanda og seljanda að flestöllu sem till nauðsynja telst, og að sá ráði verðinu og úrvalinu er afar slæm samningsstaða. Það er alveg sama hvaða þjóð eða "blokk" á þar í hlut, og fyrirbrigðið er tímalaust.
Svo að maður regði sér svo yfir í sögulegar staðreyndir, þá var virkilega súrt í mörgum Íslendingum út í Dani út af þessu, ég held að það þræti fæstir um það. Sjálfur er ég alinn upp af kynslóð sem man í gegnum sína áa hvernig þetta var, og skilaði því frameftir. Það voru nokkur atriði sem komu verulega einbeitt fram og ég skal nefna nokkur:
- Fólkið minntist þess hversu miklar framfarir urðu í verslun við það að fá Fransmenn sem kúnna, - alvöru kúnna. T.d. á Fáskrúðsfirði.
- Þess var líka minnst hversu miklar framfarir urðu eftir að hægt var að versla við Breta, og hvaða stökk t.d. landbúnaður tók við það að fá alvöru bitstál til notkunar, og svo að fá almennilega greitt fyrir lífpening, sem kom m.a. til af því að mögulegir kaupendur voru fleiri en einn.
Pillan um einn kaupanda, var byggð á nokkru sem Gunnar mærði, - um kosti þess að hafa sem stærstan einn kaupanda, en prinsippið er nánast það sama. Það er betra að selja ef fleiri bjóða, og það er betra val í kaupum ef fleiri en einn bjóða. Bara lögmál.
Jón Logi (IP-tala skráð) 10.11.2010 kl. 12:27
Við erum vitaskuld að flestu leyti sammála. En þó verðum við að gæta þess að viðhorf til einokunarverslunar er barn hvers tíma og einokunin var barn síns tíma. Einokunin var ekki sett á vegna kvalalosta, hvort sem hann var sérdanskur eða ekki, heldur vegna þess að að bestu manna þess tíma yfirsýn þótti þetta hentugasta hagkerfið og ylli mestri hagsæld þegna hvers ríkis. Nútímamenn telja sig vita betur; að þeim mun sem frelsið er meira þess meiri verði hagsældin. Þó hafa runnið tvær grímur á suma upp á síðkastið.
Og það er svo alveg borðleggjandi að viðhorf nýlega genginna kynslóða til einokunarverslunar er miklu fremur byggt á innrætingu Jónasar frá Hriflu en staðreyndum málsins. Þetta þekki ég vel af eigin skyldmennum. Mergurinn málsins er sem sagt að þótt vitaskuld væri einokunin gölluð þá hefur hún ekki átt öll þau eftimæli skilin sem hún hefur fengið.
Og hvað snertir almennilegt járn og sauðagull á ofanverðri 19. öld má miklu fremur tengja það framförum í tæknilegum efnum og málmsmíði og vélvæðingu og þar með skipakosti sem gerði kleift að flytja fé á fæti milli landa í stórum stíl. Það hljómar heldur ekki sérlega líklega að Danir hafi átt kost á að selja íslenskum almennilegt járn en látið það hjá líða. Vitaskuld hlaut það að vera hagsmunir danskrar verslunar, jafnt og íslenskrar, eða enskrar, að framleiðni ykist. Bættur hagur á Íslandi tengdist tvímælalaust almennt batnandi hag í Evrópu og almennum framförum í vísindum, og þar með vitaskuld félagsvísindum (og nú mætti nefna Marx sáluga sem tengist stofnun kaupfélaga beint og óbeint) fremur en því hvers lenskur kaupmaðurinn var.
En öll er þessi umræða áhugaverð og afar skemmtileg. Má ég benda á hinar ágætu bækur Þorsteins Thorarensen um aldamótalífið?
Þorvaldur Sigurðsson (IP-tala skráð) 10.11.2010 kl. 15:47
Þú hlýtur að átta þig á því, Jón Logi, að það að selja mikið rafmagn í jöfnu magni, á einn stað, á móti því að selja mismikið í smákömtum út um allar tryssur, eru ólíku saman að jafna.
Gunnar Th. Gunnarsson, 10.11.2010 kl. 22:10
Tja, vitanlega erum við sammála um sumt, en það er best að draga upp nokkra parta sem eru fullkominn ágreiningur. Ég nota gæsalappaaðferðina frekar en gæsagang.
"Einokunin var ekki sett á vegna kvalalosta, hvort sem hann var sérdanskur eða ekki, heldur vegna þess að að bestu manna þess tíma yfirsýn þótti þetta hentugasta hagkerfið og ylli mestri hagsæld þegna hvers ríkis"
Þarna hnýt ég um "þegna hvers ríkis", og vanskilning á minni fullyrðingu um það að sá sem ræður fullkomlega um viðskiptafyrirkomulag er að sjálfsögðu jálfum sér greiðugastur. Samningsstaða Dana með einokun tryggði þeim það vald að kreista til sín eins mikil verðmæti og hægt var af Íslendingum, - eina fasta hindrunin var sú að pöpullinn þurfti að lifa af. Sum svín eru nefnilegra jafnari en önnur. Veldur hver á heldur. Fullkomin samningsstaða á einni hendi veitir hinni sömu svipuna. Dauðeinfalt.
Svo:
"Og það er svo alveg borðleggjandi að viðhorf nýlega genginna kynslóða til einokunarverslunar er miklu fremur byggt á innrætingu Jónasar frá Hriflu en staðreyndum málsins. Þetta þekki ég vel af eigin skyldmennum."
Ég þekki þetta alveg þveröfugt af mínum. Og enginn aðdáandi Jónasar þar í hópi, - þvert á móti. Mínir áar voru nú reyndar flestir bændur og sjómenn, - veit ekki með þína.
"Og hvað snertir almennilegt járn og sauðagull á ofanverðri 19. öld má miklu fremur tengja það framförum í tæknilegum efnum og málmsmíði og vélvæðingu og þar með skipakosti sem gerði kleift að flytja fé á fæti milli landa í stórum stíl."
Þeir sem keyptu sauði og greiddu fyrir með gulli voru Bretar, og þeirra flutningsgeta var á sjó ætíð margföld á við Danskra, svo og það að vegalengdin er verulega styttri. Ekki bætti það svo flutningsgetu Danskra þegar Bretar sökktu nokkru af skipum þeirra og bombuðu eitthvað á Kaupmannahöfn. Maður myndi ætla að á þeim tímum hafi íslandsfart ekki hafa staðið í fyrirrúmi. Það þurfti ekki vélskip til sauðaflutninga, hvað þá hrossaflutninga, sem hófust furðu snemma. Reyndar furðu snemma eftir fyrstu tilslökun einokunar, sem er aftur furðu stuttu eftir þann móðuharðindatíma sem skildi einungis eftir ca. 500 lifandi merar á landinu. (Þær heimildir sem ég hef eru sennilega ekki skráðar hérlendis og komu mér alldeilis á óvart)
Viðurkennt verður þó með gleði, að mótorvæðing skipa setti heldur betur strik í reikninginn fyrir okkur. En hún átti sér stað eftir einokun, og spor einokunarinnar þurrkuðust ekki út á einum degi.
"Það hljómar heldur ekki sérlega líklega að Danir hafi átt kost á að selja íslenskum almennilegt járn en látið það hjá líða. Vitaskuld hlaut það að vera hagsmunir danskrar verslunar, jafnt og íslenskrar, eða enskrar, að framleiðni ykist."
Þarna er ég aftur ósammála. Þarna gleymast 2 prinsipp. Annað er forgangur á gæðavöru, sem setur okkur þarna aftast á merina. Hitt er skammtímagróði, sem er ennþá stórvandamál í nútíma viðskiptum. Hver er að spá í framleiðni einhvers aula, sem mun aldrei skila neinu fyrr en maður er löngu dauður? Miklu nær að nota aðstöðuna til að pressa inn einhverju sem varla selst, og græða eins mikið og hægt er, - take the money and run.
Í sögunni er það svo viðurkennt að þegar hægt var að kaupa almennilegt stál af Skotum frekar en Dönum, þá var ekki lengur verið að hjakka með handónýtu og fokdýru stáli á flóafen, þúfur og vallendisbakka, heldur var verið að vinna með miklu betri verkfæri. Þetta þekki ég allt of vel úr eigin lífi, og svo þarf ég enga Hriflubækur til að kenna það, - það dugar mér það sem afar mínir sögðu mér eftir öfum sínu, - það er ekki lengra liðið en svo.
Talandi um afa-afa, þá lenti einn þeirra í þeim óskemmtilegheitum að fara með fé um hudruði kílómetra til kaupmanns, sem notaði stöðu sína sem eins kaupenda að lækka verð á rampinum. Þar sem það var eftir einokun var það ekki henni alveg um að kenna, en vel eimdi eftir af tækninni. Og samningsstaðan góð til að ákveða verðið.
En....sá gamli var svalur. Hann kvaddi og rak fé sitt aftur sína nokkur hundruð kílómetra og setti á sem hann gat. Hann var nefnilega aðeins betur stæður en kaupmaður hélt.
Samningsstaða var það.....
Jón Logi (IP-tala skráð) 11.11.2010 kl. 11:35
"Þú hlýtur að átta þig á því, Jón Logi, að það að selja mikið rafmagn í jöfnu magni, á einn stað, á móti því að selja mismikið í smákömtum út um allar tryssur, eru ólíku saman að jafna."
Ég man þegar startið á "Jafna magninu" sló út straumi. Ég tók líka eftir því að ég þarf að borga sér fyrir "smáskammtinn" minn vegna dreifingar. Ég hef einnig tekið eftir því að samt sem áður, og þrátt fyrir áratuga viðskipti þarf ég að borga miklu meira fyrir sama skammt. Ég man líka eftir prinsippinu um það að betra er fyrir seljanda að hafa fleiri kaupendur. Og einnig prinsippinu um að betra er fyrir kaupanda að hafa hreðjatak á seljanda. En skilur þú þetta Gunnar?
Jón Logi (IP-tala skráð) 11.11.2010 kl. 12:10
Nú erum við að verða í prinsippinu ósammála.
Ég ætla þó að reyna einu sinni enn. Innræting Jónasar frá Hriflu var ekki einskorðuð við framsóknarmenn. Forfeður mínir voru íhaldsmenn og hötuðu Jónas. En, íslandssögubók hans var kennd í skólum landsins frá 1912 til 1974 og af henni lærðu allir, og þar með taldir áar þínir, hverskonar skepnur Danir voru.
Alvöru útflutningur á sauðum og hrossum hófst ekki fyrr en með gufuskipum. Um það þarf ekki að deila þótt kannski færu seglskip á milli landa með örfáar skepnur í senn. Það er nefnilega óðs manns æði að ætla sér að flytja mörg hundruð skepnur með skipi nema vita nákvæmlega hvenær það nær landi hinu megin.
Og almenn velmegun hófst ekki fyrr en 100 árum eftir að einokunarverslunin var af tekin og er því langsótt að þakka það þeim atburði. Hins vegar er ég hjartanlega sammála því að kapítalismi hefur aldrei verið smælingjum hollur og samgleðst forföður þínum að hafa getað sett kapítalistanum stólinn fyrir dyrnar. En sá var ekki einokunarkaupmaður því aðrir hefðu getað boðið betur.
Svo sé ég ekki fram á að við verðum sammála svo best er að hætta hér.
Þorvaldur Sigurðsson (IP-tala skráð) 11.11.2010 kl. 13:25
Það er hagnaður af sölu raforku til stóriðju og hún er reyndar hornsteinn þess að orkuverð til almennings hér er hlægilega lágt, þegar tekið er tillit til dreifingakostnaðar.
Og þetta með að hafa "hreðjatak á seljanda".
Það þýðir ekkert að koma með svona frasa inn í umræðuna. Afkomutölur t.d. Landsvirkjunar, taka ekki undir svona fullyrðingar.
Gunnar Th. Gunnarsson, 11.11.2010 kl. 17:09
Með þessu er ég þó ekki að segja að orkuverðið til stóriðju sé hafið yfir gagnrýni. En það verður þó að hafa í huga, að þeir sem standa á hliðarlínunni og gagnrýna allt og alla, án þess að þurfa nokkurn tíma að standa við stóru orðin... þeir eru ekki ýkja marktækir að mínu mati.
Gunnar Th. Gunnarsson, 11.11.2010 kl. 17:23
Það hefur verið hrópað of mikið "úlfur!, úlfur!" af hálfu umhverfissamtaka (aðallega). Umræðan ber þess merki.
Gunnar Th. Gunnarsson, 11.11.2010 kl. 17:27
Ef hagnaðurinn er svo mikill sem fullyrt er af Gunnari er enginn hornsteinn til þess að eitt einasta Watt sé dýrara til landans, og skal það þá ítrekað að dreifingin er innheimt sér. SÉR!
Að hafa allt að því hreðjatak á seljanda með magnið í kaupum og þar með allt að því einokunarvald á bak við sig er enginn "úlfur úlfur" eða einhver vitleysa frá hinum ógurlegu umhverfisverndarsinnum, heldur mjög einföld hagfræðileg staðreynd.
Það er því helber móðgun við við landann að bjóða orku á lægra verði til korpórata en hér er greidd. Þetta er best gegnumljóst á því hvað orkan annarsvegar og dreifingin hinsvegar er skilmerkilega aðgreind í rukkun. Og hvað þá að hækka innlend verð á meðan staðið er í prangi með orku frá virkjunum sem þurfa stórskuldbindingar svo þær verði yfirleitt til.
Jón Logi (IP-tala skráð) 11.11.2010 kl. 17:57
Samanlagt orkuverð til almennings fyrir framleiðslu og dreifingu, er mjög lágt hérlendis, þrátt fyrir að dreyfingarkostnaður sé sennilega hvergi hærri í Evrópu, per. einstakling.
Hvernig getur staðið á þessu?
Gunnar Th. Gunnarsson, 11.11.2010 kl. 19:25
Ég er fullkomlega meðvitaður um það Gunnar að við greiðum hér samanlagt mun lægra orkuverð per meðaltal (sumir eru jafnari en aðrir) heldur en t.a.m. Evrópubúar. Enda bjóðum við okkur fram sem orkusöluland á Afríkutaxta.
Dreifingarkostnaður er eðlilega hærri en víðast hvar (þó að ég sé súr útí hæstagjald með spennistöðina fyrir augunum), en það verkast jú af vegalengdum hér á haus, og hefur þú þar þitt svar.
Þú hefur þó hálkast fimlegar en nokkurt sleipefni frá því að útskýra það af hverju hækka þarf á "okkur" (án dreifingar, Nota Bene) á meðan verið er að bjóða lægra verð út úr landi.
Ég skal fullyrða það, og styðja með tölum ef þarf, að þar sem ég bý er hagstæðara að rækta repju eða brennsluefni annað til brennslufýringar, nú eða setja upp rellu til að hlaða elementið, heldur en að kaupa straum af heilu spennuvirki sem er í minna en 2 km fjarlægð til kyndingar. Sá eini fídus sem getur breytt því frá + í - er kapítalið og vextirnir af því.
Ég er alltaf jafn móðgaður yfir því að horfa á margfaldan taxta miðað við þau verð sem verið er að semja um við mögulega sölu. Gaman væri svo að sjá tölur um hversu landsmenn greiða mikið miðað við stóriðjuna í heild. Einhvern veginn eru þær tölur illa séðar uppi á borði.
Jón Logi (IP-tala skráð) 11.11.2010 kl. 21:39
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.