7.11.2010 | 20:19
Frábær áfangi.
Stundum gerist það á stórum samkomum, þar sem margir koma saman og eru úr ólíkum áttum, að ekki næst samstaða um niðurstöðu, heldur verður til moðsuða almennra atriða sem lítið segja.
Því verð ég að segja að niðurstaða Þjóðfundar fer fram úr björtustu vonum. Ég hef áður lýst yfir áhyggjum af því að ef ekki náist breið samstaða um bitastæðar tillögur á Þjóðfundi og síðar Stjórnlagaþingi, muni ekkert gerast á vettvangi Alþingis, sem á síðasta orðið samkvæmt núgildandi stjórnarskrá.
Satt að segja kemur mér á óvart þegar ég ber þær hugmyndir, sem ég sem frambjóðandi hef sett fram, saman við niðurstöður Þjóðfundarins. Þetta er nánast alveg samhljóða og meira að segja ákvæði um sjálfbærni og rétt komandi kynslóða, sem ég hef talið mjög brýnt að sett verði í stjórnarskrá með fyrirmyndir frá öðrum löndum í huga, svo sem Finnlandi.
Jöfnun atkvæðisréttar á að vera auðveld í framkvæmd, jafnvel þótt núverandi kjördæmaskipan verði áfram, einfaldlega með því að þingmannafjöldinn í hverju kjördæmi verði í algeru samræmi við fjölda kjósenda í kjördæminu, en eins og er eru 2,5 sinnum fleiri kjósendur á bak við þingmann í Suðvesturkjördæmi en í Norðvesturkjördæmi.
Er fráleitt að kjósandi á Akranesi, sem er 40 mínútur að aka til Reykjavíkur, skuli hafa 2,5 sinnum meiri rétt en kjósandi á Hvaleyrarholti í Hafnarfirði, sem er aðeins tíu mínútum fljótari.
Einnig er fráleitt að Reykjavík skuli vera tvö kjördæmi og borgin meira að segja klofin langsum, rétt eins og íbúar öðrum megin við Hringbraut hafi aðra hagsmuni en íbúar hinum megin við götuna.
Ef skipta hefði átt borginni eðlilegar hefði skipting við Elliðaár verið niðurstaðan.
Með fækkun þingmanna verður óþarfur hinn fráleitlega hái þröskuldur atkvæða sem verið hefur og er mjög ólýðræðislegur.
Flest atriðin í ályktun Þjóðfundar voru baráttuatriði Íslandshreyfingarinnar við kosningarnar 2007, en þá snerist kosningabaráttan um að skiptingu ímyndaðs gróða af Græðgisbólunni.
Má þar nefna að ráðherrar séu ekki jafnframt þingmenn, persónukjör og ákvæðin um umhverfismálin og þjóðareign allra auðlinda.
Ég vísa svo til hugmynda minna um endurskoðun á embætti forseta Íslands og fleiri atriða sem hafa komið fram á blogginu hér og blogginu á eyjan.is
Stjórnarskrá fyrir fólkið | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Kannski er áratuga barátta þín að bera árangur ?
Sævar Helgason, 7.11.2010 kl. 20:44
Það er á þessu galli nokkur.
Við ákveðna fækkun þingmanna, jafnframt fullkominni jöfnun atkvæða er einfalt að sjá heilu kjördæmin algerlega raddlaus.
Vestfirðir, - hva 7.000 manns? Með núverandi Þingmannafjölda, - 1 stk. Með fækkun, - engann.
Höfuðborg með nærsvæði og Reykjanes, kannski 60-70% Þingmanna.
Það er nú reyndar nærri því nú þegar eftir kjördæmabreytingu hér um árið. Og að sjálfsögðu hefur sú hagsbót komið sér til góða og er sívinnandi til hins betra....
Jón Logi (IP-tala skráð) 8.11.2010 kl. 14:10
Að mínu mati er það algjör forsenda þess að hægt sé að jafna vægi atkvæða að landið verði gert að einu kjördæmi. Það gengur ekki upp í mínum huga að áfram séu við lýði kjördæmin gömlu samhliða jöfnun vægis atkvæða þar sem það muni þýða að sumir hlutar landsins verði án fulltrúa á Alþingi. Með því að gera landið að einu kjördæmi er þetta hins vegar einfalt, allir fá eitt atkvæði og allir fulltrúar á Alþingi eru fulltrúar ALLRA LANDSMANNA en ekki hagsmunapotarar sinna kjördæma.
Hjalti Finnsson (IP-tala skráð) 8.11.2010 kl. 16:35
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.