Vonandi góð kjörsókn. 9365.

Kosningarnar til Stjórnlagaþings eiga sér ekki fordæmi í íslenskri sögu og raunar heldur ekki þingið eða Þjóðfundurinn, sem nýlokið er.

Ég tel mjög mikilsvert að þetta tækifæri til virkari og breiðari þáttöku almennings í stjórnmálum verði nýtt, enda rímar það vel við málflutning minn um þessi efni allt frá því ég ákvað að taka opinberlega þátt í stjórnmálum haustið 2006. 

Fyrirsögn viðtals við mig í Morgunblaðinu fyrir þær kosningar var: "Allt, sem þjóðina varðar." 

Þar var ég að útlista hugmyndir um beint lýðræði með þjóðaratkvæðagreiðslum, og um að tryggja sjálfstæði og jafnræði framkvæmdavalds, löggjafarvalds og dómsvalds. 

Ég ætlaði ekki að fara fram vegna Stjórnlagaþingsins, -  en viku fyrir lok framboðsfrests áttaði ég mig á því að ekki væri verjandi að sitja hjá, þótt ekki væri nema aðeins vegna þess, að mitt hjartans mál er að tryggja rétt komandi kynslóða í stjórnarskrá eins og gert er í stjórnarskrám margra annarra ríkja, svo sem Finna. 

Þar eru ákvæði um vandaða málsmeðferð og auknar kröfur varðandi aðgerðir og framkvæmdir sem geta haft óafturkræf áhrif, og þau oft neikvæð á rétt og hag milljónanna, sem eiga eftir að byggja landið í framtíðinni. 

Síðan 2006 hef ég haldið fram nauðsyn jöfnunar vægis atkvæða en þó þannig að hafa í huga hagsmuni og rétt einstakra landshluta. Það er hægt að útfæra á ýmsan hátt og kemur til kasta stjórnlagaþingsins að velja leið. 

Ég hef líka talið rétt að íhuga, hvort ekki eigi að sameina embætti forseta og forsætisráðherra í eitt embætti þjóðhöfðingja sem jafnframt gegnir oddvitaembætti í ríkisstjórn sem valdamesti maður landsins. 

Þó verði þingræðinu ekki kastað fyrir róða og skoðaðar mismunandi útfærslur á því hvernig að því verði staðið, svo sem með því að huga að reynslu Finna og Frakka. 

Afstaða mín til eignarhalds yfir auðlindum landsins er og hefur verið skýr: Það á á að vera í höndum þjóðarinnar.

62. grein stjórnarskrárinnar hefur þverklofið þjóðina og stjórnmálaflokkana fram að þessu og þess vegna eru það tíðindi að Þjóðfundurinn leggur fyrir Stjórnlagaþingið að aðskilja ríki og kirkju. 

Ég hef verið Fríkirkjumaður alla tíð og tel 62. greinina leifar úreltrar skipunar sem beri að afnema, enda sé þróunin öll á einn veg og því best að koma þessu deilumáli út úr heiminum. 

Eftir sem áður er yfirgnæfandi meirihluti þjóðarinnar tilheyrandi hinni evangelisku lútersku kirkju, sem gegnir mikilvægu þjónustu- og menningarhlutverki og á sér djúpar rætur í sögu og þjóðmenningu. 

Ég tel raunar að það verði hollt fyrir kirkjuna að þetta skref sé stigið og muni geta eflt hana ef rétt er á málum haldið. 

Það er til lítils að fara í framboð ef enginn veit af því. Þess vegna fylgir þetta með:

Númerið það er, simmsalabimm,

níutíu og þrír sextíu og fimm. 

Og ég hvet fólk til að fara inn á vefinn kosning.is og kynna sér frambjóðendur og helstu stefnumál þeirra. 


mbl.is Rúmur helmingur ætlar að kjósa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband