18.11.2010 | 20:09
Viðbrögð ráðherra við ógn við réttarríkið.
Það kann að virðast á skjön að settir séu auknir fjármunir í dómskerfið á sama tíma sem dregið er úr brýnni þjónustu í heilbrigðisstofnunum.
En munurinn á þessu tvennu er þó sá að verkefni dómskerfisins hafa stóraukist svo að til vandræða horfir.
Ekki vegur það minna að ógn steðjar að réttarríkinu og réttarörygginu og slíkt getur haft ófyrirsjáanlegar afleiðingar í för með sér. "Ef vér slítum í sundur lögin þá slítum vér og í sundur friðinn" var sagt forðum.
Jón Steinar Gunnlaugsson hæstaréttardómari skrifaði fróðlega blaðagrein um daginn um þann ágalla sem felst í því að hæstaréttardómarar séu of fáir og verkefni hæstaréttar of víðfeðm og rökstuddi hvernig slíkt getur skapað réttaróvissu.
Í andrúmslofti sem er lævi blandið og órói liggur í loftinu varðar miklu að dómskerfið valdi verkefni sínu.
Ef ég næ kjöri á Stjórnlagaþing (9365) mun ég beita mér fyrir því að dómsmálin verði skoðuð alvarlega, ekki til að flækja mál eða gera stjórnarskrána of flókna, heldur til að skapa ramma fyrir hugsanlegar umbætur, svo sem þeim að setja á fót þriðja dómstigið.
Dómurum fjölgað tímabundið | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Ég mundi glaður kjósa þig Ómar ef þú værir ekki svona hallur undir ríkiskirkjuna. Aðskilnaður ríkis og kirkju er eitt af stóru málunum sem verður að tryggja að sátt náist um svo það kemur ekki til greina í mínum huga að kjósa menn og konur sem ekki vilja breyta því
Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 18.11.2010 kl. 20:49
Það er vissuleg nokkuð til í því sem þú ert að segja Ómar að álag á dómskerfið hefur þyngst talsvert í seinni tíð og nær örugglega á öllum dómsstigum ekki bara á efsta stigi þ.e.a.s hæstarétti. en ég átta mig ekki alveg á hvað þú átt við þegar þú segir "ógn steðji að réttarríkinu og réttarörygginu" . Og svo er á hitt að horfa , að þó aukin afbrotatíðni, ( eða jafnvel hugsanlega meiri skilvirkni löggæslunnar ) sé sennilega orsakavaldurur þessa , þá getur einnig ofvirkur löggjafi haft sömu áhrif , með því að "kriminalisera" stöðugt fleiri mannlegar athafnir , ekki endilega af því að slík ofvirkni eigi ekki sér ekki rót í góðri meiningu og tilraun til að bæta samfélagið , en er af líka öðrum þræði líka kominn frá þeirri tilhneigingu að kjörnir fulltrúar vilja eins og arkitektar skilja einhverja byggingu eftir með nafninu sínu á , eða eitthvað slík, og hugsa svo sem ekkert út í hvernig eftirleikurinn virkar á kerfið sem fyrir er. Svon einskonar Parkinson lögmál í gangi í þessu tilliti eins og öðru.
Nú ég hef ekki séð þess blaðagrein Jóns Steinars minnist á og finn ekki út úr hvar hún er , það er ágæt regla að tiltaka birtingaraðila og dagsetningu birtingar þegar slíkt er gert, jafnvel þó ekki sé vitnað beint í viðkomandi grein, bara svona fyrir okkur sem vilja kannski lesa það sem þú ert að benda á sé gott.
Þriðja dómsstig ? hljómar vel og er hugsanlega einhver góð og fær leið til að straumlínulaga dómskerfið , en hvað ertu nákvæmlega að hugsa í því máli og hvernig, er þetta eitthvað sem þú , eða einhver annnar velt upp og tekið fyrir í einhverjum hugrenningum um útfærslu og ef svo er er þá einhvers staðar eitthvað efni til um það sem r sæmilega aðgengilegt .?
Bjössi (IP-tala skráð) 18.11.2010 kl. 21:14
Jóhannes Laxdal Baldvinsson hefur greinilega ekki lesið svör mín við spurningum um 62. grein stjórnarskrárinnar né heldur blogg mitt á þremur bloggmiðlum um það efni.
Ég vil að 62. greinin verði afnumin. Hún er í mínum huga úreltar leifar af lögþvingun í trúmálum frá fyrri öldum.
Ég er fríkirkjumaður og hef alla tíð viljað aðskilnað ríkis og kirkju þannig að fullkomið jafnrétti ríki milli trúfélaga
Ómar Ragnarsson, 18.11.2010 kl. 23:33
Sæll Ómar
Ekki gleyma því að ríkisstjórn og þing kemst því upp með að túlka stjórnarskrána eins og þeim einu sinni hentar. Komi upp álitamál hvort lög eða lagagrein, samningur við erlend ríki eða aðrar stjórnarathafnir brjóti í bága við stjórnarskrána þá er mat þingmanna sem sitja í stjórn á hverjum tíma látið ráða. Í öðrum lýðveldum Evrópu þá úrskurða sérstakir stjórnlagadómstólar í slíkum álitamálum.
Afleiðing þessa að hér er engin stjórnlagadómstóll blasir við. Stjórnskipan Íslands er í engu samræmi við texta stjórnarskrárinnar enda sagði Sigurður Líndal fyrr. lagaprófessor í síðasta viðtali hans í rúv eitthvað á þessa leið:
"Það væri allt í lagi með íslensku stjórnarskrána ef það væri farið eftir henni."
Þetta er kjarni málsins. Þar er ekki farið eftir stjórnarskránni og það er tilgangslaust að þjóðin fari að setja sér nýja stjórnarskrá er það verður ekki heldur farið eftir þeirri nýju.
Þess vegna verður að setja hér á fót stjórnlagadómstól. Sjá nánar þessa grein hér og í farmhaldi draga íslensku lögmannastéttina inn í nútímann og koma hér á fót millidómstigi að Evrópskri fyrirmynd. Millidómstigi sem Ögmundur sagðist fyrir örfáum dögum ætla að setja á fót.
Friðrik Hansen Guðmundsson, 19.11.2010 kl. 00:11
Það hlýtur að koma til athugunar hjá Stjórnlagaþinginu að setja annað hvort á fót sérstakan stjórnlagadómstól eða ákvæði sem tryggir það að mál af því tagi, sem þú talar um, komi til kasta Hæstaréttar.
Ómar Ragnarsson, 19.11.2010 kl. 01:23
Hverjir eiga að fiska fyrir öllu þessu ríkisbákni ? Ómar það þarf að setja í Stjórnaskrá Íslands að í hverju frumvarpi sem lagt er fram á Alþingi sem felur í sér útgjöld fyrir ríkissjóð skal ávalt fylgja nákvæm lýsing hvar og hvernig á að taka peninginn inn til að standa undir útgjöldunum sem frumvarpið kallar á úr ríkissjóði ef það fær blessun Alþingsins.
Baldvin Nielsen Reykjanesbæ
B.N. (IP-tala skráð) 19.11.2010 kl. 02:40
Ómar ég bið forláts. Nú er ég glaður að hafa misskilið þig Þú ert rökfastur og fylginn þér svo það er ekki spurning að auðvitað kýs ég þig kallinn minn. Það var aldrei spurning.
Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 19.11.2010 kl. 04:32
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.