Krónan 1% af verðgildinu 1981.

1977 var krafa verkalýðshreyfingarinnar að lágmarks mánaðarlaun yrðu 100.000 krónur. 1980 þótti verðgildi krónunar orðið svo hræðilega lítið að rétt væri að hundraðfalda gildi hennar, - skera tvö núll aftan af henni.

Á þeim tíma fannst mér þetta of lítið og að miklu þægilegra hefði verið að skera af henni þrjú núll. 

Þá hefði milljarður breyst í milljón og þúsund milljarðar í milljarð og því miklu auðveldara að gera sér glögga og snögga grein fyrir upphæðum í umræðum um fjármál heldur en ef krónan yrði 1% af fyrra verðgildi. 

Nú, þremur áratugum síðar hefur krónan fallið ofan í svipað verðgildi og í kringum 1980. Upphæðirnar, sem nú eru í umræðunni, eru svo stjarnfræðilega háar að venjulegt fólk verður dofið við að heyra þær, - tugir, hundruð og þúsundir milljarða. 

Hafi verið ástæða til að taka núll aftan að krónunni 1980, er hún enn meiri nú. 

Það eru litlar líkur til að það verði gert, - virkar bara broslegt í ljósi ástandsins, - en ef það yrði gert ættu menn að taka þrjú núll aftan af henni. 

Ef slíkt hefði verið gert 1980-81 væru upphæðirnar, sem dynja í eyrum okkar núna mun skaplegri en þær eru. 


mbl.is Lægstu laun yfir 200 þúsund
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Rögnvaldsson

Sæll Ómar

Sterlings pundið er einungis 9% af verðgildi þess árið 1971. Þetta veldur ekki vandræðum þar. Líran var einnig lítil mynteining. Sama er að segja um Yen. 

Gunnar Rögnvaldsson, 29.11.2010 kl. 20:27

2 Smámynd: Sumarliði Einar Daðason

Frá því að íslenskan krónan var aðskilin frá danskri krónu árið 1925 er verðbólgan í dag á bilinu ca. 2200-4400%. Það eftir því við hvaða erlenda seðlabanka er miðað en flestir hættu að taka mark á íslensku krónunni við hrunið og hættu þar af leiðandi að skrá hana. Algengt er að það þurfi að borga 250-300 ISK fyrir eina evru á svokölluðum aflandsmörkuðum.

Kjarni málsins að ISK er fyrir löngu dautt fyrirbæri nema innanlands og þá sem stjórntæki til þess að dempa áhrifin af efnahagslegu hruni Íslands á almenning. Það vita þetta vel hugsandi hagfræðingar en það má bara ekki tala um það opinberlega.

Sumarliði Einar Daðason, 29.11.2010 kl. 22:38

3 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Verðbólga má segja að sé annað orð yfir gjaldmiðilsrýrnun, þ.e.a.s. minna fæst keypt fyrir hverja einingu af gjaldmiðlinum. Ef ráðstöfunartekjur fylgja ekki sömu þróun heldur standa í stað þá felur þetta í sér kaupmáttarskerðingu fyrir venjulegt launafólk. Í frjálsu markaðshagkerfi getur gjaldmiðilsrýrnun meðal annars stafað af offramleiðslu á peningum í formi óábyrgra útlána, og hér á landi er hún enn fremur tryggð með verðtryggingu lána og verðbólgumarkmiði seðlabankans samkvæmt undirrituðu samkomulagi við íslensk stjórnvöld. Launin okkar verða því sífellt minna virði, eftir að verðtrygging þeirra var afnumin á sínum tíma. Lykilatriðið er að ekkert af þessu er náttúrulögmál eða grafið í stein, heldur eingöngu spurning um þær reglur sem við setjum okkur sem þjóðfélag, t.d. með löggjöf Alþingis, peningamálastefnu Seðlabankans og kjarasamningum á vinnumarkaði.

Þetta er heldur ekki spurning um hvort krónan sé dautt fyrirbæri eins og haldið hefur verið fram. Krónan gæti þjónað þörfum okkar fullkomlega svo lengi sem hagkerfinu væri skynsamlega stjórnað, en á því hefur hinsvegar oft orðið misbrestur svo vægt sé til orða tekið. Stór hluti af vandamálinu liggur í grunngerð peningakerfisins, þar sem meirihlutinn af því sem við köllum peninga en er í raun ekkert annað en bankainnstæður, eru búnar til úr lánsfé. Til þess að hægt sé að endurgreiða höfuðstólinn og vextina af lánsfénu þarf sífellt að framleiða meiri peninga fyrir vöxtunum. Þetta er tiltölulega einföld stærðfræðijafna ef við köllum höfuðstólinn P og vextina I þá sést að: P ? P + I , og dæmið gengur augljóslega ekki upp nema með sífelldri peningaprentun, sem þarf meira að segja að að fara sífellt hraðar vaxandi, en slíkur vöxtur er vel þekkt að er ekki sjálfbær.

Ein leið til að breyta þessu er að taka upp nýtt og öðruvísi gjaldmiðilskerfi. Ekki annan gjaldmiðil hvort sem hann heitir Evra eða Dollar, því þeir eru allir byggðir á samskonar fyrirkomulagi og ef litið er til þeirra svæða sést að kerfið er ekkert að virka mikið betur þar. Dæmi: frá því að miðstýrt seðlabankakerfi byggt á skuldsetningu var tekið upp í Bandaríkjunum með stofnun Federal Reserve kerfisins árið 1913 hefur dollarinn tapað meira en 98% af upphaflegu verðgildi sínu, þrátt fyrir að eftirspurn eftir honum í alþjóðaviðskiptum hafi verið knúin duglega áfram með sífelldum stríðrekstri.

Ef hugsað væri út fyrir rammann er vel hægt að láta sér detta í hug aðrar leiðir að útfæra peningakerfi þannig að ávinningurinn af viðskiptum skili sér til þjóðfélagsins en ekki beint í vasa fjármagnseigenda. Það getur svo hinsvegar verið pólitísk ákvörðun hvernig eigi að útdeila þeim ávinningi, með útfærslum á skattkerfi og bótakerfi o.s.frv., en þá væri það líka í lýðræðislegu ferli sem almenningur fengi að kjósa um a.m.k. á fjögurra ára fresti.

Núverandi fyrirkomulag er handónýtt vegna þess að alveg sama hvað við kjósum þá er innbyggt í kerfið að það gengur ekki upp, heldur skapar óstöðugleika. Þeir sem græða á því veita svo hluta af sínum ávinningi í dulinn áróður til að telja okkur hinum trú um að þetta sé eina mögulega leiðin til að byggja upp efnahagskerfi, þrátt fyrir að sannleikurinn sé allt annar. Dæmi um slíkan dulinn áróður er að hvergi í námsefni grunnskóla er nemendum kennt um peningamál eða neitt sem getur hjálpað þeim að hafa upplýsta skoðun á þessu þegar þau öðlast kosningarétt.

Þetta fyrirkomuleg er nánast eins og hannað til að stýra okkur inn í hólf þar sem við erum alltaf að hamast við að vinna fyrir vöxtunum af öllum peningunum sem eru lánaðir inn í kerfið, mest af þeim til útvalinna viðskiptajöfra. Og þurfum svo að berjast sífelldri baráttu fyrir einhverskonar leiðréttingu á launakjörum almennings til að halda í við þróunina. Hvers vegna ætti þjóð sem býr í einu ríkasta landi í heiminum miðað við áþreifanleg auðæfi, að þurfa að vera í sífelldu basli? Við búum yfir öllu því sem þarf til að byggja upp velmegun í okkar þjóðfélagi, ef við bara nýtum það rétt. Við höfum líka hugvitið til þess að útfæra kerfið þannig að það feli í sér stöðugleika, ef við bara ákveðum það.

Fræðsla, gegnsæi og einfaldleiki eru grundvallarforsendur fyrir því að venjulegt fólk geti nálgast þessi mál ef einhverju viti. Þjóðfélag sem skilur ekki hvernig peninga- og verðmætasköpun virkar er ófært um að geta af sér velmegun. Að lokum vil ég benda áhugasömum á að kynna sér: Icelandic Financial Reform Initiative (IFRI), hóp áhugafólks um úrbætur á fjármálakerfinu.

Góðar stundir.

Guðmundur Ásgeirsson, 30.11.2010 kl. 03:08

4 Smámynd: Sumarliði Einar Daðason

Þetta er rétt hjá Guðmundi. Það sem ég vil bæta við er að hér á Íslandi er þetta sérstaklega slæmt út af afar lélegri hagstjórn. Það er betra að vera með evru heldur en ISK. Einfaldlega út af því að evran rýrnar margfalt hægar heldur en ISK og við erum háð inn- og útflutningi. Það er lítið sem ekkert framleitt hér á landi (verðmætasköpun) sem er óháð innflutningi - ekki einu sinni landbúnaður eða sjávarútvegur.

Öll fyrirtæki eru dæmd til þess að verða gjaldþrota með reglulegu millibili og núverandi lífeyrissjóðsfyrirkomulag getur ekki gengið upp.

Það er hins vegar ekki til gjaldeyri til þess að skipta yfir í evru en það er hægt að festa krónuna strax við evru. Gjaldeyrishöftin er í raun og veru veik tilraun til þess að gera það, en það má víst ekki kalla hlutina réttum nöfnum.

Sumarliði Einar Daðason, 30.11.2010 kl. 08:30

5 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

"Það er betra að vera með evru heldur en ISK. Einfaldlega út af því að evran rýrnar margfalt hægar"

Það er líka hægt að taka einfaldlega ákvörðun um það að láta íslensku krónuna rýrna hægar. Í rauninni er ekkert því til fyrirstöðu að afnema verðbólgu með öllu, þ.e. að færa hana niður í 0%, og það getum við miklu frekar gert með eigin gjaldmiðli sem við getum stjórnað sjálf. Að láta einhverjum öðrum eftir að stjórna gjaldmiðlinum sem við notum er í raun uppgjöf fyrir vandamálinu, en ekki lausn í sjálfu sér.

"það er hægt að festa krónuna strax við evru"

Ég vil frekar leyfa krónunni að halda áfram að rísa og alls ekki festa hana Evruna sem er núna á hraðri niðurleið. Þegar skip hefur nánast sokkið en bjargast á síðustu stundu og nýbúið að ausa það, þá er það vitlausasta sem hægt er að gera að binda það fast við annað sökkvandi skip. Ef krónan væri föst við Evru myndi verð á ýmsum innfluttum vörum hækka ennþá hraðar en það gerir nú þegar. Svo má loks nefna að gengi gagnvart öðrum gjaldmiðlum er ekki það sem hefur áhrif á gjaldmiðilsrýrnun heldur er það afleiðing hennar. Ástæða gengisfallsins var gríðarleg offramleiðsla á krónum í erlendum útiúum íslensku bankanna, sem þjónaði engum tilgangi nema að blása út pappírseignir bankanna sem voru einskis virði því allir bankar eru tómir. Til þess að rétta við gengi krónunnar þarf einfaldlega að endurheimta þessa fjármuni og taka þá úr umferð, en vegna þess að við höfum ekki vald til eignaupptöku erlendis þá eru gjaldeyrishöftin næstbesti kostur í stöðunni.

P.S. Ómar: Til hamingju með kosninguna! Vonandi hefurðu eignarréttarákvæði mannréttindakafla stjórnarskrárinnar vel í huga þegar þú lest þessar athugasemdir mínar. Með því að viðhalda í reynd ólögmætu tvöföldu myntkerfi með einhliða verðtryggingu lánsfjár, og stuðla svo beinlínis að verðbólgu eru ríkisvaldið og seðlabankinn að ræna okkur hljóðlega og stinga ránsfengnum í vasa bankanna. Þannig er eignarrétturinn brotinn á hverjum einasta degi, á hverjum einasta íslenskum ríkisborgara! En svo hika bankarnir ekki við að skýla sér á bak við þetta sama ákvæði þegar kemur til tals að endurheimta þýfið. Ný stjórnarskrá verður að taka af öll tvímæli um fyrir hvern hún er skrifuð: fólkið eða fjármálafyrirtækin.

Guðmundur Ásgeirsson, 1.12.2010 kl. 06:42

6 Smámynd: Sumarliði Einar Daðason

Það er búið að berjast við það að láta krónuna rýrna hægar í marga áratugi. Það hefur engan árangur borið hingað til og það er ekkert sem bendir til þess að slíkum árangri verði náð á næstu árum (miðað við stefnuleysi stjórnvalda og spillingu almennt). Hrunið á ennþá eftir að skila sér miklu verðbólguskoti á næstu misserum.

Evran er ekkert á hraðri niðurleið. Þó svo hún lækki eitthvað gagnvart dollar þá tryggir hún ávísun á verðmæti innan sama myntsvæðis. Stærsti hluti viðskipta okkar er í evrum og við erum MJÖG háð inn- og útflutningi. Þetta flökt á milli evru og dollars er minna heldur en verðhækkanir og -lækkanir sem bensínstöðvar bjóða íslendingum uppá dag frá degi.

Í raun mætti gjaldmiðillinn hér vera dollar frekar - bara ekki ISK. Hins vegar líkar mér persónulega betur við metrakerfið og evru.

Sumarliði Einar Daðason, 1.12.2010 kl. 17:41

7 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Sumarliði: það er svosem alveg skoðun út af fyrir sig...

Guðmundur Ásgeirsson, 2.12.2010 kl. 22:58

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband