Gagnlegir lekar eða óheppilegir?

Orðið "gagnsæi" er mikið notað í þjóðmálaumræðunni sem eftirsóknarvert fyrirbæri. Rætt er um nauðsyn þess að aflétta ýmiskonar leynd, svosem bankaleynd og athöfnum og samskiptum innan stofnana og fyrirtækja. 

Allir þekkja þó á eigin skinni að gagnsæi getur aldrei orðið algert.

Þannig er það hluti af friðhelgi heimilisins að ekki séu borin á torg þau samskipti sem þar eiga sér stað og ákveðin trúnaður og leynd er líka mikilsverður grundvöllur persónuverndar. 

Í lífi og starfi blaða- og fréttamanna, sem helst gagnrýna leyndarhyggju og pukur sem snertir mál sem varða almannahagsmuni, skiptist þetta í tvö horn. 

Annars vegar að aflétta takmörkunum á upplýsingum um það sem opinberir starfsmenn í þjónustu almennings og þjóða aðhafast en hins vegar að heita trúnaði og þagnarskyldu gagnvart þeim sem "leka" mikilvægum upplýsingum um vafasama, ámælisverða eða jafnvel refsiverða háttsemi. 

Mörg af helstu dæmum um stórfréttir sem þannig voru tilkomnar og ollu umróti eru af þessum meiði, og þar ekki annað en að nefna Watergate-málið í Bandaríkjunum og mál "litla landsímamannsins" hér heima sem dæmi. 

Yfirleitt er það frekar af hinu góða en hinu slæma að afhjúpuð sé leynd um mikilsverð málefni sem varða almannahagsmuni. 

Um sumt ríkir ágreiningur. Þannig eru skiptar skoðanir um það hve langt eigi að ganga í að aflétta bankaleynd. 

Ég hef lent í orðræðu við fólk, sem hefur viljað aflétta henni en þó ekki að gengið sé svo langt að aflétt sé bankaleynd um þeirra eigin bankaviðskipti. 

Í viðtali í Kastljósi nú áðan kom fram að margir af bandamönnum Bandaríkjamanna í Miðausturlöndum séu herskárri gagnvart Íran en Bandaríkjamenn sjálfir. 

Sagan geymir dæmi um slíkt að fornu og nýju. Þannig voru Austurríkismenn svo kröfuharðir gagnvart Serbum eftir morðin í Sarajevo að það hlaut að leiða til styrjaldar milli þessara tveggja þjóða. 

Austurríkismenn höfðu yfirburði í herafla í slíku stríði og því hlutu Rússar að skerast í leikinn. 

Og þar með sett af stað atburðarás þar sem öllu stórveldi Evrópu drógust inn í átökin. 

En það eru líka til dæmi um það gagnstæða. Í styrjaldaraðgerðum í Kóreustríðinu löttu Bretar og Frakkar Bandaríkjamenn mjög til stórræða sem gætu stigmagnað átökin og gert þau að heimsstríði. 

Um margt af slíku tagi vitum við af því að leynd var létt af samskiptum, sem fóru leynt. 

Fjölmiðlar eru stundum kallaðir "fjórða valdið". Aðalhlutverk þeirra er að afla nauðsynlegra upplýsinga og miðla þeim, og koma í veg fyrir að nauðsynlegum upplýsingum sé haldið leyndum fyrir almenningi.

En um þetta vald fjölmiðlanna gildir hið sama og allt vald: Það er vandasamt að fara með valdið því að vald spillir.

Fjölmiðlafólk verður að hafa í huga að það á að vinna með hagsmuni almennings í huga og fara vel og gætilega með vald sitt.  


mbl.is Dregur úr trausti Bandaríkjanna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðrún María Óskarsdóttir.

Góður pistill Ómar, eins og talað út úr mínum huga.

kv.Guðrún María.

Guðrún María Óskarsdóttir., 30.11.2010 kl. 01:55

2 Smámynd: Gísli Gíslason

Snilldarpistill

Gísli Gíslason, 30.11.2010 kl. 09:04

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband