30.11.2010 | 19:02
Þjóðfundurinn og þjóðin eru baklandið.
Þegar menn reyna fyrirfram að gera lítið úr því sem koma mun frá nýkjörnu Stjórnlagaþingi ættu þeir að huga að því að bakland þess er Þjóðfundurinn á dögunum, sem var 1000 manna samkoma, valin með slembiúrtaki úr þjóðskrá, og því engan veginn hægt að efast um hún gæfi rétta mynd af þjóðinni.
Þanbnig var þjóðin sjálf bakland Þjóðfundarihns sem lagði ákveðnar línur.
Þær tilögur komandi Stjórnlagaþings, sem eiga samsvörun við helstu línurnar sem Þjóðfundurinn lagði, hafa því meira vægi en margir munu vilja vera láta.
Ég hef í skrifum mínu í aðdraganda kosninganna lagt áherslu á breiða samstöðu Stjórnlagaþingsins og samhljóm við þjóðina og tillit til minnihlutahópa auk þess sem hugað verði að því að við verðum ekki áfram nánast eina þjóðin í okkar heimshluta sem ekki hefur nein ákvæði í stjórrnarskrá sem hugar að hagsmunum komandi kynslóða.
Þegar hafa heyrst raddir um að frumvarp Stjórnlagaþingsins verði einhliða í þágu þéttbýlsins á suðvesturhorni landsins vegna þess að 22 fulltrúar eigi þar búsetu.
Ekki þarf annað en að líta á ýmis skrif mín í aðdraganda kosninganna til að sjá að búsetan ein ræður ekki öllu, því að ég hef reifað ýmsar hugmyndir í þá veru að ekki verði gengið á rétt einstakra landshluta í henni, til dæmis með ýmsum útfærslum á blöndu af landinu sem einu kjördæmi og hins vegar nokkrum einmennings- eða tvímenningskjördæmum, sem skiluðu 9-12 þingmönnum á þing til að koma í veg fyrir að einstakir landshlutar fái engan fulltrúa á Alþingi en jafnframt að þessir sérstöku fulltrúar verði það fáir að ekki sé hægt að segja að um misvægi atkvæða sé að ræða.
Ég tel líka að úrslitin í þessum kosningum þurfi ekki endilega að þýða það að hlutföllin verði svona í hlutfallskosningum með landslistum í landinu öllu sem einu kjördæmi, því að væntanlega myndu einstök framboð huga að því að hafa ekki misvægi á sínum listum.
Að lokum vil ég í þessum pistli þakka það traust sem mér var veitt í þessum kosningum og er mér dýrmætt veganesti inn á Stjórnlagaþing.
Mér líst vel á það fólk sem þar verður og þar ríður á miklu að allir séu jafningjar og komist sameiginlega að sem bestu niðurstöðu, sem hafi breiðan stuðning.
Þing allrar þjóðarinnar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Til hamingju með kjörið Ómar minn. Ég bind miklar vonir við þig á þinginu.
hilmar jónsson, 30.11.2010 kl. 19:07
Það sem ég tel mikilvægast í nýrri stjórnarskrá eru skýr lög um kynferðislegt ofbeldi.
Samkvæmt konum sem mest vit hafa á kynferðislegu ofbeldi hafa nánast allar konur verið beittar kynferðislegu ofbeldi af einhverju tagi (síðast í dag, til dæmis, sáum við vitnisburð konu sem brotið hafði verið á m.a. með augnaráði sem gaf til kynna að hún væri ekki lengur barn, og setningunni: "þú ert ekki lengur stelpa þú ert kona". Það brot gegn konunni (þessi setning) átti sér stað 11. jan 1986.
Það kynferðisbrot sem fólst í augnaráði sem gaf til kynna að hún, brotaþolinn, væri ekki lengur barn átti sér stað þegar brotaþoli var á bilinu 15 til 19 ára - og væntanlega einnig eftir það.
Fyrst það er svo að nær allar konur hafa verið beittar kynferðislegu ofbeldi af þessu eða öðru tagi þá gefur augaleið að nær allir karlmenn eru sínkt og heilagt að beita þær kynferðislegu ofbeldi. Samt ganga nær allir karlmenn, já allir þessir glæpamenn lausir! Ég spyr: á það að viðgangast endalaust?
asdis o. (IP-tala skráð) 30.11.2010 kl. 19:11
Um leið og ég óska þér Ómar velfarnaðar á stjórnlagaþinginu tek ég undir það að fólk eigi að vera vongott um árangur á þessu þingi.
Samt brá mér í brún þegar ég sá þessa frétt sem þú bloggar við. Þarna tjáir nýkosinn stjórnlagaþingmaður sig um hvað þingið komi til með að fjalla um eins og hann ráði því einn.
Það sem ég óttast er að hann sé að reyna að ná kjöri sem forseti þingsins og verði þar með formaður forsætisnefndarinnar. Hann virðist halda að atkvæðafjöldinn sem hann fékk setji hann skör hærri en aðra þingmenn.
Það kemur hvergi fram í lögum um stjórnlagaþing að mestur atkvæðafjöldi skuli veita aðilanum sérstakt umboð til eins eða neins annasr en setu á þinginu.
Svanur Gísli Þorkelsson, 30.11.2010 kl. 19:21
Hmhmhm...
Ég get ekki talið sjálfann mig sem bakland fyrir þjóðfundinn svokallaða...
Í mínum huga er þjóðfundur þar sem fólk er töluvert fleirra en 1000 af yfir 300.000 manna þjóðfélagi.
Að sama skapi er ég ekki sáttur við að þetta stjórnlagaþing sé þéttsetið af 101 fólki.
Með réttu mun þetta því vera þing 101 með 3 áheyrnarfulltrúum frá landsbyggð...
Það er ekki vegna þessarrar dreyfingar sem ég fór á kjörstað...
Hins vegar óska ég þér til hamingju með að hafa náð kjöri.
Með kveðju
Ólafur Björn Ólafsson, 30.11.2010 kl. 19:47
Gangi þér vel Ómar og ég vona að þú og það fólk sem var kosið hlusti ekki á hatursraddir heldur einbeiti sér að verkefninu og vinnið það með sóma.
Hörður Sigurðsson Diego, 30.11.2010 kl. 20:01
Til hamingju kæri bloggfélagi
Rafn Haraldur Sigurðsson (IP-tala skráð) 30.11.2010 kl. 20:01
Heimilisfang og titill segja ekki allt um það hver sé landsbyggðarmaður. Ég á ekki heima í 101 Reykjavík og tel að ferill minn og skrif mín í aðdraganda kosninganna sýni að ég er allt eins landsbyggðarmaður og á rætur að Hvammi í Langadal, þar sem ég var í sveit, rétt eins og úr Reykjavík.
Margir fleiri af þeim sem eru skráðir til heimilis í Reykjavík eiga sterkar rætur á landsbyggðinni.
Dæmi um það hve valt er að fella svona dóma er að sumir þingmenn, sem hafa átt heima á höfuðborgarsvæðinu hafa verið taldir til landsbyggðarþingmanna.
Einn fyrrverandi ráðherra fæddist, ólst upp og hefur lifað allan sinn aldur á höfuðborgarsvæðinu en var samt landsbyggðarþingmaður og þar af leiðandi fulltrúi Hornfirðinga. Hann flutti lögheimili sitt austur fyrir Fjall til að krækja í aukinn styrk upp á milljón á ári en bjó auðvitað áfram á höfuðborgarsvæðinu.
Það breytir ekki því að ég hefði viljað sjá fleiri af landsbyggðinni í hópnum. En áberandi var hvað kjörsókn víða á landsbyggðinni var lítil og kjósendur þar eiga því líka sinn þátt í hvernig fór.
Ómar Ragnarsson, 30.11.2010 kl. 21:11
Held að þetta sé frábær hópur af skynsömu fólki sem Ómar fer að vinna með,
til hamingju Ómar.
Aðalsteinn Agnarsson, 30.11.2010 kl. 21:26
Til hamingju með kjörið Ómar, ég styð þig áfram til góðra verka á þinginu.
Axel Jóhann Hallgrímsson, 30.11.2010 kl. 22:01
Já Ómar, verð ég nú að viðurkenna að ég er þó sáttur við þitt nafn þarna inni en mér þykir miður hve fáir mættu á kjörstað.
Vegni þér svo sem allra best í störfum þínum fyrir þjóðina
Kveðja
Ólafur Björn Ólafsson, 1.12.2010 kl. 00:13
Þakka ykkur fyrir góðar kveðjur. Nú er bara að standa undir þessu og reyna að gera eitthvert gagn.
Ómar Ragnarsson, 1.12.2010 kl. 00:23
Til hamingju, Ómar minn!
Í alþingiskosningunum í fyrra voru að meðaltali 2.888 atkvæði á bak við hvern þingmann á öllu landinu en 1.848 atkvæði í norðvesturkjördæmi.
Munurinn er 56%!!!
Þorsteinn Briem, 1.12.2010 kl. 06:08
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.