8.12.2010 | 15:04
Ómöguleg sögn: Að úða ?
Íslensk tunga á ágætt orð yfir ensku sögnina sem trónir í fyrirsögn í tengdri frétt þegar sagt er: "Spreyjaði piparúða á lögregluþjóna." Það er sögnin "að úða." Hvers vegna ekki er hægt að nota þetta ágæta íslenska orð en í þess stað að segja "spreyjaði piparúða" er mér hulin ráðgáta, einkum þegar íslenskur fjölmiðill eins og Morgunblaðið á í hlut.
Ef ætlunin með því að nota enska orðið er sú að komast hjá því að nota orðmyndina úði / úða tvisvar í sömu setningunni á íslenskan líka ágæt orð yfir það og þá hefði fyrirsögnin getað orðið svona á þrjá vegu:
1. Sprautaði piparúða á lögregluþjóna.
2. Dældi piparúða á lögregluþjóna.
3. Úðaði piparúða á lögregluþjóna.
Allar setningarnar lýsa því að efninu var úðað á lögregluþjónana af því að orðið piparúði lýsir því þótt annað orð sé notað um handbrögðin við að tæma brúsann.
Ekki var látið við það sitja að nota enska orðið einu sinni í stuttri frétt heldur tvisvar.
Hægt er að nefna hliðstæðu við ofangreint dæmi þar sem úðað hefði verið froðu á lögregluþjóna.
Er næst á dagskrá að orða það svona: "Fómaði froðu á lögregluþjóna" af því að enska orðið "foam" þýðir "froða"?
Við eigum heima á Íslandi og notum íslensku nema annað sé óhjákvæmilegt.
Ég fæ ekki séð að enskan hafi verið neitt betri í þessu tilfelli.
Nú rétt áðan var ágætur útvarpsþáttur um Bjarna Fel og áhrif hans á íslenska málnotkun.
Bjarni er gott dæmi um það að íslenskan dugar oft best til þess að lýsa hlutum og ættu fleiri en íþróttafréttamenn að taka sér Bjarna til fyrirmyndar.
Ef Eiður vinur minn Guðnason tekur þetta dæmi líka til meðferðar í hinum stórgóðu pistlum sínum um íslenskt mál er það bara í góðu lagi. Góð vísa er aldrei of oft kveðin.
Ég vona að Davíð taki þetta mál til athugunar.
Spreyjaði piparúða á lögregluþjóna | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Ég get alveg tekið undir þetta hjá þér, en er þó enginn "málfars-fasisti".
Mér finnst samt orðið:"spreyja" ekki vera alslæmt orð, þó beygingamynd þess sé ekki falleg. Sum orð ölast "þegnrétt" smátt og smátt í málinu."Spreyja" er í umsóknarferlinu
Gunnar Th. Gunnarsson, 8.12.2010 kl. 15:12
Við munum t.d. seint heyra konur tala um "hárúða"... er það ekki?
Gunnar Th. Gunnarsson, 8.12.2010 kl. 15:15
Ómar, er ekki orðið "sprauta" dönskusletta? Ef ég fengi að ráða (án þess að vera fasisti), mundi ég hafa fyrirsögnina "Beitti piparúða á lögregluþjóna".
Vendetta, 8.12.2010 kl. 15:41
Það þarf ekki endilega að úða piparúða. Maður talar um að úða málningu eða einhverjum öðrum vökva. Með úðabrúsanum breytist vökvinn í úða.
Því mætti vel skrifa:
Úðaði piparvökva á lögregluþjóna.
Í brúsanum er nefnilega einhver vökvi en ekki úði.
Ágúst H Bjarnason, 8.12.2010 kl. 16:59
Puðraði hann ekki bara piparvökva yfir fjendurna?
Jón Logi (IP-tala skráð) 8.12.2010 kl. 19:01
Augnablik, mig grunar að pipar sé líka tökuorð.
Hjalti Rúnar Ómarsson, 8.12.2010 kl. 19:40
Satt er það, að mörg eru tökuorðin í þjóðtungu okkar og hafa öðlast þar þegnrétt.
Á hinn bóginn má það ekki verða til þess að við tökum smám saman upp annað tungumál eftir því sem við leyfum hverju "tökuorðinu" af öðru að komast inn í málið alveg að nauðsynjalausu.
Annað hvort er íslenska þjóðtunga á Íslandi eða ekki og ég tek undir það með Gunnari, að það þarf ekki fasista til að vera þó ekki nema örlítið á verði fyrir að taka upp hvaða málleysu sem er.
Ómar Ragnarsson, 8.12.2010 kl. 23:05
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.