1.1.2011 | 15:13
Hin nöturlega lýsing skaupsins.
Í áramótaskaupinu í gærkvöldi var ágæt háðsádeila á þá mynd, sem almenningi birtist af störfum Alþingis í gegnum fjölmiða og Þráinn Bertelsson lýsir til dæmis ágætlega í blaðaviðtali sem málfundaræfingum og hálfgerðum fíflagangi oft á tíðum.
Gallinn við fjölmiðlun af störfum Alþingis er sá að aðeins er sjónvarpað beint frá hinum daglegu umræðum en ekkert frá meginstarfi þingsins sem eru nefndarfundirnir og eftir atvikum þingflokksfundirnir.
Upp úr þessum umræðum í þingsal grípa fjölmiðlar síðan oft á tíðum það sem sker sig úr og þykir vera mestur hasar og smám saman verður þetta sú mynd sem fólk fær af þinginu.
Þótt þingmenn geti ef til vill borið sig upp undan því að þessi mynd gefi ekki rétta heildarmynd af þinginu og störfum þess geta þeir einfaldlega sjálfum sér um kennt, því ef þeir hegðuðu sér öðruvísi í ræðustól þingsins og temdu sér betri framkomu þar myndi sú mynd breytast sem hefur skapað minna traust á Alþingi en flestum ef ekki öllum öðrum stofnunum landsins.
Á sínum tíma var núverandi forseti sjálfur þingmaður og fór oft mikinn í ræðustóli. Síðan hafa árin liðið og nú horfir hann og hlustar eins og við hin á þá illmælgi og offors sem allt of oft litar hina nauðsynlegu umræðu sem verður að fara fram um hagi lands og þjóðar, þar sem rök og yfirvegun þarf að ríkja í stað lýðskrums og uppsláttartilhneigingar sem hefur orðið til þess að þingið hefur sett niður í hugum þeirra sem kusu alþingismenn.
Segir það ábyrgð þingmanna að leiðrétta ranghermi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.