Stöðutáknin eru alþjóðleg.

Í fornsögunum er miklu rými varið í lýsingar á ytri búnaði söguhetjanna, ekki síður en útliti þeirra og atgerfi. Lýst er fatnaði þeirra og vopnum og hestunum sem þeir sátu í smáatriðum. 

Allt er þetta liður í að þjóna ímynd söguhetjanna. 

Árið 2007 náði þessi hugsun hámarki hér á landi. Ef að fornu var sögupersónunni þannig lýst: "Hann var á hvítum hesti, gæðingi miklum, klæddur í bláa skikkju með gullbryddað belti um sig miðjan og gyrður stóru sverði með silfurslegnum hjöltum..." er lýsingin á okkar dögum: "Hann var á silfurlituðum stórum sjálfskiptum átta strokka Landcruiser með stigbrettum og álfelgum á 36 tommu dekkjum...o.s.frv...imgp0280_1051548.jpg

"Fötin skapa manninn" segir máltækið og þetta máltæki virðist algilt hvar sem er í heiminum. 

Sem dæmi má nefna að eftir að Pólland gekk í Evrópusambandið var hætt framleiðslu Fiat 126, sem kalla má nokkurs konar einkennisbíl Póllands, ígildi Mini í Bretlandi og Fiat 500 á Ítalíu. imgp0271_1051549.jpg

Vinur minn, Jón Atli Ólafsson, sem á heima í Póllandi, segir að á örfáum árum hafi götumyndin breyst þar í landi úr því að hvergi var hægt að þverfóta fyrir Fiat 126 Maluch ("Lilli") í það að þeir séu nánast horfnir. 

Pólverjar gefa greinilega mikið fyrir að sýnast menn með mönnum eftir að þeir komust í samfélag vestrænna lýðræðisþjóða og keppast við að komast yfir stöðutáknin. 

Það virðist einu gilda þótt viðkomandi land sé með meiri og almennari fátækt en gengur og gerist. 

Menn verða að sýnast vera menn með mönnum. 250px-nano.jpg

Líklega er sama fyrirbærið á ferð á Indlandi þar sem það þykir tákn um bága stöðu að vera á bíl sem er svo miklu ódýrari en allir aðrir bílar. 

Nano er líka ekki eins hraðskreiður og aðrir nútímabílar, hestöflin aðeins 35 og hámarkshraðinn 105 km/klst. 

Að vera á svo ódýrum bíl sé of áberandi merki fátæktar og skárra að vera bara fótgangandi eða hverfa í vélhljólafjöldann. 

Ég hef ekkert nema gotta að segja um pólsku Fiatana mína sem hafa skilað mér um allt land, jafnt í byggðum sem á hálendinu. 

Í raun var það aðeins á hippatímanum á síðustu öld sem bílar eins og Citroen bragginn, Volkswagen Bjalla og rúgbrauð og Mini urðu að stöðutáknum þeirra sem vildu nýja hugsun. 


mbl.is Nanóinn hefur selst illa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Durtur

Það er kannski spurning hvort Tata Motors þurfi að breyta ímyndinni eða hvort það þurfi bara smáviðhorfsbreytingu hjá sauðsvörtum almúganum; þ.e.a.s. þannig að Nanóinn verði hinnn nýji Braggi/Bjalla/Mini? Mér finnst þetta altént vera ljómandi skemmtilegir bílar að sjá og ég mundi vera stoltur eigandi svona apparats ef ég ætti fyrir því og mætti keyra það. Það er miklu skemmtilegra að sjá þessar litlu elskur en jeppana (sem eiga ekki heima í borg)--ég kemst alltaf í aðeins betra skap við að sjá drossíurnar þína, Ómar.

Durtur, 3.1.2011 kl. 21:15

2 Smámynd: Durtur

...eftir á að hyggja virðist ég hafa bergmálað það sem Ómar sagði. Mér fannst ég vera að bæta einhverju við þegar ég skrifaði, biðst hátíðlega velvirðingar á innihaldsleysinu..

Durtur, 3.1.2011 kl. 21:17

3 Smámynd: Guðjón Sigþór Jensson

Ekki má gleyma gamla góða Trabbanum!

Einu sinni fyrir langt löngu, það var 17.ágúst 1980 var eg með kærustunni minni á ferð með Ferðafélagi Íslands kringum Vatnajökul. Við vorum á heimleið á síðasta degi stödd í Vík í Mýrdal þegar fréttist af gosi í Heklu. Hópurinn hélt þangað og við tvö ákváðum að verða eftir í Galtalækjarskógi þar sem við settum upp tjaldið, áttum eina baunadós og nokkrar tegrysjur eftir. Við tíndum sveppi sem var nóg af og löguðum okkur kvöldverð. Fram yfir miðnætti var mikið af bílum um alla vegi. Við sváfum nokkra klukkutíma undir dynjandi drunum úr þessu fræga eldfjalli og sváfum til morguns. Þegar við vorum búin að tína saman pjönkur okkar og gera okkur ferðbúin var ekki einn einasta bíl að sjá. Við gengum klukkutímum saman, einu bílarnir sem óku um vegina voru mjólkurbílar og fóðurbílar sem komu úr gagnstæðri átt. Nokkrir stærri bílar sem einu sinni voru kallaðar „drossíur“ óku fram úr okkur og bílstjóranir ekkert að taka einhverja „puttalinga“ með. Svo þegar við vorum komin vestur fyrir bæinn Pulu sem er mjög sérkennilegt örnefni en keltneskt, þá kemur Trabant út úr vegarykinu og stoppar og við vorum tekin með til Reykjavíkur.

Síðan hefur okkur ætíð verið hlýtt til Trabba og þess fólks sem þeim óku. Þeir sjást varla lengur á götunum, rétt eins og Gamla Ford.

Gleðilegt nýtt ár!

Mosi

Guðjón Sigþór Jensson, 3.1.2011 kl. 21:35

4 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Því miður er aðeins ein árgerð Trabbans sem gæti átt við núna, og slíkur bíll er einn af ómissandi bílum á "Örbílasafn Íslands".

Það er Trabant 1991 sem var ekki með illa mengandi tvígengisvélinni heldur Volkswagen Poló vél og með gorma á öllum hjólum. 

Hann gæti samt staðist kröfur um að vera á Örbílasafninu sem "ódýrasti bíll Evrópu 1991." 

Ómar Ragnarsson, 4.1.2011 kl. 00:44

5 identicon

Þessi frétt er ekki alveg nákvæm, verðtölur í henni eru frá því bíllin var á hugmyndaskeiðinu og teikniborðinu, raunveruleikinn er sá að í dag eru í boði í Indlandi 3 variantar sá ódýrasti á rúma 3000$ US og sá dýrasti á sem svarar 4200$ , og þessi verð náðust aðeins fram eftir að gerðar voru ýmsar sparnaðarbreytingar á því sem endalega komu af færiböndunum, margir nýir eigendur eru hundóánægðir með það sem fengu fyrir aurinn, og það er aldrei góð auglýsing, auk þess sem stutt er  úr dýrustu týpunni í næsta flokk fyrir ofan , Tata Maturi , sem þykir mun betri bíll.Mér þyjir nú líklegt að þetta hafi eitthvað með það að gera að sala er undir væntingum.

Og vel að merkja þessi, ef af markaðssetningu verður í Bandaríkjunum eða Evrópu verður verðið ekki undir c.a 8000 (US $ /Euro eftir því sem við á á hvoru svæði ) . Og hvers vegna skildi það nú vera , jú verðmunurin liggur í kostnaði við að uppfylla öryggisstaðla sem gerðir eru til farartækja á vesturlöndum. Ekki veit ég þetta verð  það kemur út í samanburði við verð á smábílum annara framleiðenda  smábíla sem þegar eru í boði, en mér segi  svo hugur það verði þungur róður hjá Indverjunum að selja sína framleiðslu  þarna.

Bjössi (IP-tala skráð) 4.1.2011 kl. 06:24

6 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Þetta er rétt hjá þér, Bjössi. Tata Nano er ódýrari en aðrir bílar vegna þess að hann er einfaldari.

1. Vélin er tveggja strokka og ventlarnir alls 4 en ekki 16 eins og hjá keppinautunum. 

2. Vélin er aðeins 650 cc, 35% minni en hjá keppinautunum. 

3. Vélin er aftur í bílnum. Það sparar pústkerfi. 

4. Ekkert ytra vélarhlífarlok er á bílnum og enginn afturhleri eða skottlok. 

5. Engir loftpúðar eru í bílnum né samlæsingar og annað "óþarfa" dót. 

Ljóst er að flestu af þessum fimm atriðum verður breytt ef bíllinn verður boðinn í Evrópu, auk þess sem settir verða á hann nýir stuðarar og framendinn lengdur til að auka árekstraöryggi. 

Annars hefur Nano verið settur í árekstrapróf óbreyttur og komst bara vel frá því. 

Annars er bíllinn rúmgóður fyrir fjóra og hár (1,60 m) fyrst og fremst vegna þess að vélin er undir aftursætinu, en við það hafa hana svona nálægt miðju bílsins verða þyngdarhlutföll hans heppilegri en ef vélin væri rétt aftan við afturhjólin. 

Ómar Ragnarsson, 4.1.2011 kl. 09:40

7 Smámynd: Ómar Ragnarsson

6. Gírarnir eru fjórir en ekki fimm. Myndu líklega verða fimm í Evrópuútgáfu.

Ómar Ragnarsson, 4.1.2011 kl. 09:40

8 identicon

Gleðilegt ár Ómar og aðrir hér....

 Ein spurning varðandi Nano og aðra smábíla sem hér hafa verið ræddir.  Hvernig koma þeir út í öryggisprófunum eins og EuroNCAP.  Hjó eftir því hér fyrir ofan, að þeir eru ekki með t.d. loftpúða.  Eru þeir með öryggisbelti, krumpsvæði, beltastrekkjara, höfuðpúða og annað það er til öryggis ökumanns og farþega horfir.  

 Stærðin, verðið og mengunarmálin eru ekki allt.  Það þarf líka að líta til öryggis notenda.

 Kveðja,

 Ólafur Guðmundsson.

Ólafur Guðmundsson (IP-tala skráð) 4.1.2011 kl. 10:53

9 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ég hef reynt að fylgjast sem best með Nano en upplýsingarnar mættu vera meiri.

Huga verður að því að honum er fyrst og fremst ætlað að leysa vélhjól af hólmi og ætti þar af leiðandi að vera framfaraspör í öryggismálum. 

Það fylgdi ekki fréttinni af árekstraprófuninni sem ég minntist á hér að ofan, hvort þar hefði verið farið eftir staðl EuroNCAP heldur aðeins sagt að hann hefði staðist prófið betur en búist var við.

Nano er nokkuð skynsamlega hannaður að framan eftir því sem best verður séð. 

Vegna þess að engin vél er í honum þar er ekki hætta á að vél fari inn í farþegarýmið og lendi á farþegum og sömuleiðis er framendinn alveg heilsteyptur því að ekkert op er á honum eins og á bílum með vélarhlíf. 

"Krumpusvæðið" að framan er því drýgra en sýnist við fyrstu sín, því að framrúðan er það langt fyrir framan framsætisfarþega að skortur á belgjum valdi því að fólk skelli á framrúðunni.

Ég veit ekkert um beltastrekkjara og slík smærri atriði en Indverjarnir ætla ekki að flytja bílinn til Evrópu nema hann standist kröfurnar þar. 

Ég hef séð árekstrarpróf á Fiat 126 og bíllinn sjálfur kom undravel út úr því, enda veit ég að þegar hann var hannaður með sama undirvagni og gamli Fiat 500, var bætt inn sérstökum bitum í gólfi og hurðum og að vegna aukinna krafna um öryggi varð bíllinn 100 kílóum þyngri en fyrirrennarinn þrátt fyrir að vera af nánast sömu stærð. 

Hins vegar kastast höfuð ökumanns í framrúðu og brýtur hana og hlýtur þar að vera um að kenna bæði því að framrúðan er nær ökumanni en í nýrri bílum og að bílbeltinu sé áfátt. 

Hins vegar kemur miklu nýrri bíll, Fiat Ceicento, hörmulega út úr árekstrarprófuninni og sumir jeppar og jepplingar frá fyrri hluta síðasta áratugar. 

Og árekstrarprófun á stórum amerískum kagga frá 1959 sýndi að þetta voru hræðilegir og lífshættulegir bílar þrátt fyrir stærðina. 

Hins vegar kemur Trabbi gamli ekkert svo illa út úr árekstri þrátt fyrir allar grínsögurnar um að hann hrykki í sundur eins og pappakassi. 

Farið inn á YouTube og notið orðin "crash test" og tegundaheiti bílanna til að sjá þetta sjálf. 

Ómar Ragnarsson, 4.1.2011 kl. 23:15

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband