11.1.2011 | 21:47
"Það er engin leið að hætta..."
Ég hef verið fyrir austan fjall í dag við að fara með FRÚna inn í hús en tíminn hefur líka farið í að koma á framfæri mótmælum Íslandshreyfingarinnar gegn því að vaðið sé inn í Gjástykki með bora og stórvirkar vélar með tilheyrandi óafturkræfum umhverfisspjöllum.
Síðan hefur málið skýrst með yfirlýsingum Landsvirkjunar um að ekki verði "að svo stöddu" nýtt rannsóknarleyfið sem Orkustofnun hefur veitt.
Í yfirlýsingu stjórnar Íslandshreyfingarinnar í dag er minnt á það að vorið 2007 lýstu tveir þáverandi ráðherrar, umhverfisráðherra og iðnaðarráðherra, yfir því sem stefnu sinni, að ekki yrði hróflað við svæðinu Leirhnjúkur-Gjástykki nema eftir alveg sérstaklega vandaða og ítarlega umfjöllun um það og að því aðeins yrði virkjað þar að Alþingi fjallaði um það beint og sérstaklega.
Þessi yfirlýsing ráðherranna var birt með miklum lúðrablæstri, en þremur dögum fyrir kosningar laumaðist iðnaðarráðherrann til þess að veita Landsvirkjun leyfi til rannsóknaborana í Gjástykki.
Ekki var hægt að varast þeirri hugsun þá að þessi þriggja daga frestur fyrir kosningar væri svona stuttur til þess að tryggt væri að það vitnaðist ekki fyrr en atkvæðin væru komin í kjörkassana.
Ekki leið á löngu þar til frekari leyfa var leitað en eftir að ég fyrir heppni hitti þáverandi iðnaðarráðherra, Össur Skarphéðinsson, að máli, gekkst hann í því að vinda ofan af því.
Samt hélt virkjanavélin áfram að malla og í dag varð leyfi Orkustofnunar opinbert.
Þar á undan hafði nefnd um skipulag miðhálendisins samþykkt einróma að Leirhnjúkur-Gjástykki færi inn á skipulagið sem virkjana / iðnaðarsvæði.
Stuðmenn sungu á sínum tíma: "Það er engin leið að hætta" og þótt stóriðjuhraðlestin hægi á sér eða stöðvist einstaka sinnum, virðist engin leið að stöðva hana.
Nú síðast í hádeginu var frétt um það að á næstu fjórum árum myndi orkusala til stóriðjunnar næstum því tvöfaldast. Og í setningin "að svo stöddu" í orðalaginu hjá Landsvirkjun er hliðstætt því sem sagt var fyrir nokkrum árum um Norðlingaölduveitu, að hún væri "sett á ís", þ. e. frestað í bili.
Rannsóknarleyfi ekki nýtt að svo stöddu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Veistu Ómar landsbyggðin hefur ekki efni á ykkur höfuðborgarbúum.
Einar Þór Strand, 11.1.2011 kl. 21:50
Skoðaðu, Einar Þór, um hvað er að ræða fyrir norðan. Nú er verið að sýsla við jarðvarmasvæðin Þeystareyki, Bjarnarflag, Kröflu og Leirhnjúk-Gjástykki.
Þegar er komin 60 megavatta virkjun við Kröflu.
Ég fyrir mitt leyti hef sett í forgang að ekki verði eyðilagt frábært tækifæri til þess að gera svæðið Leirhnjúk-Gjástykki að ferðamannasvæði, sem gefi landsbyggðinni miklu meiri tekjur sem ósnortið og einstakt náttúruundur, sem hvergi finnst annar staðar í hér á landi eða í veröldinni, heldur en ef það væri virkjað.
Fyrir það að vilja þyrma aðeins hluta af jarðvarmasvæðunum þarna er maður kallaður "öfgamaður", "óvinur Norðausturlands númer eitt", "umhverfisfasisti" o. s. frv.
Þeir sem vilja hins vegar virkja allt sem virkjanlegt er og meira til handa aðeins einum kaupanda sem stundar mesta orkubruðl sem hugsanlegt er og bægir burtu öðrum og skaplegri kaupendum, eru hins vegar kallaðir hófsemdarmenn og menn framfara.
Finnst þér virkilega ekkert athugavert við þetta?
Ómar Ragnarsson, 11.1.2011 kl. 22:50
Ég þekki nú ekki alveg nógu vel til Gjástykkis, en ég treysti þér Ómar og styð þig, ég fagna líka að það virðist vera komin ný hugsun í Landsvirkjun þótt ég skilji að þú sért öggulítið skeptískur. En það er þó skref í rétta átt.
G. Pétur Matthíasson (IP-tala skráð) 11.1.2011 kl. 23:06
Ómar finnst þér í lagi að sú stefna að höfuðborgarbúar taki völdin af þeim sem eru á staðnum þar sem orkan er í nafni sveitarómantíkur? Víð gætum notað orkuna sem þarna fengist til að bæta samgöngur um landið með umhverfisvænni orku og þar með leggja af innanlandsflugið og til margra annarra verka en að bræða ál.
P.S. Kannski ættir þú að hugsa um að leggja frúnni það er þessari með TF því hún er jú ekki umhverfisvæn.
Einar Þór Strand, 11.1.2011 kl. 23:21
Takk, G Pétur. Reynslan hefur sýnt að það virðist alveg einstaklega erfitt að hægja á stóriðjuhraðlestinni og afsali orkuauðlindanna til útlendinga.
Sú aðferð hefur svínvirkað að lauma þessum áformum áfram og augljós óheilindi oft höfð í frammi eins og sést á framferði Framsóknarráðherranna tveggja fyrir kosningarnar 2007 og stefnu flokksins síðan í virkjanamálum.
Ég fagnaði hins vegar því þegar Hörður Arnarson var valinn forstjóri Landsvirkjunar og hann hefur sýnt góða takta. Stjórnin nú er líka á mun betra róli en hinar fyrri voru.
Íslandshreyfingin varð fyrst til að vara við því vorið 2007 sem væri að fara af stað við fyrstu söluna á HS orku sem síðan hefur þróast á þann veg sem blasir við okkur (að svo miklu leyti sem við fáum að vita, en ennþá eru atriði leyndarmál).
Enginn virti þessi aðvörunarorð okkar viðlits þá og síðan hafa ályktanir okkar um önnur svið orkumála ekki náð fram, - fyrr en í dag.
Það er áfangi út af fyrir sig.
Eftir að ályktunin birtist hefur Landsvirkjun skýrt málið betur og ég er ánægður með að loksins núna skuli slíkt hafa náðst fram, þótt orðalagið sé varfærnislegt: "...að svo stöddu."
Ómar Ragnarsson, 11.1.2011 kl. 23:48
Ómar, það var ágætt að heyra eitthvað lífsmark með Íslandshreyfingunni í dag. Spurning hvort að tími hennar sé að renna upp núna 4 árum eftir stofnun. Allavega er það augljóst að ráðandi öfl innan Samfylkinginarinnar vilja virkja og selja orku til stóriðju eins og enginn sé morgundagurinn.
Sigurður Hrellir, 12.1.2011 kl. 00:22
"Umhverfisráðherra segir algerlega óeðlilegt að Orkustofnun veiti Landsvirkjun rannsóknarleyfi á svæði eins og Gjástykki sem stjórnvöld ætli að friðlýsa."
Leyfisveiting óeðlileg
Þorsteinn Briem, 12.1.2011 kl. 00:41
Þakka þér, Sigurður minn. Við höfum oft sent áður frá okkur ályktanir sem stungið hefur verið undir stól, svo sem þegar við stóðum í ströngu vorið 2007 og vorum fyrst allra tll að vara við þeirri þróun sem væri að hefjast vegna söluna á HS orku.
Loksins kom þó að því að rödd okkar náði í gegn til að koma af stað nauðsynlegri umræðu og viðbrögðum.
Ef slíkt tekst ekki er það oft svo að kranablaðamennskan ræður, tekur fyrstu fréttatilkynninguna og síðan ekki söguna meir.
Ómar Ragnarsson, 12.1.2011 kl. 00:49
Minni líka á það, Sigurður, að á landsfundi Sf vorið 2009 munaði aðeins örfáum atkvæðum að samþykkt yrði tillaga sem borin var þar fram þess efnis að stefna Sf skyldi vera sú að Íslendingar létu reisa eins mörg álver á Íslandi og hægt væri að virkja fyrir.
Með því að leggjast á árar með því góða, græna fólki sem var fyrir í Sf tókst að koma í veg fyrir þá hneisu að þetta yrði samþykkt.
Með sömu samvinnu voru líka samþykkt atriði í umhverfismálum á borð við þau að hafna ágengri orkunýtingu (rányrkju) jarðhitasvæða og stefnt yrði að því að allt svæðið milli Suðurjökla og Vatnajökuls yrði gert að friðu svæði eða þjóðgarði.
Engir fjölmiðlar höfðu hinn minnsta áhuga á þessum málefnum í frásögnum sínum af þessum landsfundi.
Ómar Ragnarsson, 12.1.2011 kl. 00:55
Landsvirkjun ætlar ekki að bora neitt... að svo stöddu. Ekki fyrr en það liggur fyrir hvort þetta land verði friðlýst eða ekki. En Ómar sér mikinn gróða í hverri þúfu austan Elliðaár, bara ef ekki verður hróflað við henni.
"Ég þekki nú ekki alveg nógu vel til Gjástykkis, en ég treysti þér Ómar og styð þig..", segir G. Pétur Matthíasson, fyrrverandi fréttamaður á ríkissjónvarpinu, sá hinn sami og var þjófkenndur hjá vinnuveitanda sínum, en slapp samt við ákæru. Honum var reyndar hótað lögsókn, ef hann bæðist ekki opinberlega afsökunar þjófnaðinum. Baðst hann afsökunar?
Þetta er auðvitað dæmigert fyrir skoðanir margra "vina" Ómars Ragnarssonar. Hann leiðir hjörðina... hún eltir með kyndla á lofti og kyrjar baráttusöngva, í halarófu niður Laugaveg. Flottur málstaður... af því Ómar segir það. Hjarðhegðun í sinni skýrustu mynd.
Gunnar Th. Gunnarsson, 12.1.2011 kl. 01:01
Svo held ég að þú getir hætt að tala um álver á Bakka, Ómar. Talaðu bara um að þú viljir ekki virkja, því það er alveg sama í hvað hugsanleg orka á svæðinu færi í, þú ert andvígur virkjanaframkvæmdum þarna. Talaðu bara um það, því það er heiðarlegt.
Gunnar Th. Gunnarsson, 12.1.2011 kl. 01:12
Góður pistill Ómar.
Ferðamannaiðnaðurinn telur sig geta vaxið um 5-15% á árunum 2011 og 2012. það myndi skila í efnahag Íslands um 15-50 milljörðum á þessum tveimur árum til viðbótar við þá 155 milljarða sem ferðamannaiðnaðurinn skilar okkur nú. Frá því að menn fóru að virkja fyrir álver fyrir þá hefur það einungis skilað okkur um 80 milljörðum á sínu besta ári í Íslenskan efnahag. En við búum svo illa að eiga ekki álverin og orkufyritækin skulda gríðarlegar upphæðir. Ferðamanageirinn treystir sér til að ná þessum 80 milljörðum sem stóriðjan skilar okkur á örfáum árum. Þannig að þú hittir svo sannarlega naglann á höfuðið í svari til Einars Þórs að:
"Ég fyrir mitt leyti hef sett í forgang að ekki verði eyðilagt frábært tækifæri til þess að gera svæðið Leirhnjúk-Gjástykki að ferðamannasvæði, sem gefi landsbyggðinni miklu meiri tekjur sem ósnortið og einstakt náttúruundur, sem hvergi finnst annar staðar í hér á landi eða í veröldinni, heldur en ef það væri virkjað. "
Andrés Kristjánsson, 12.1.2011 kl. 04:35
Orkuöflun á þessum svæðum krefst aðeins ca 1% af yfirborði svæðanna en geimfaragarðurinn þinn (fyrir þá sem ætla til Mars) krefst 32 ferkílómetra friðunar. Hvar er nú frekjan og yfirgangurinn.
Og við getum vel lifað með einhverjum geimfaragarði þarna í sátt og samlyndi.
Auk þess segir þú að allt sé á "fullu" en staðreyndin er sú að ekkert hefur verið gert á Þeistareykjum og Gjástykki í þrjú ár vegna þess að umhverfisráðherra (ÞS) stöðvaði allar rannsóknir á svæðinu. Engin orkunýting er í Bjarnarflagi eftir að Kísiliðjan var drepin (Grænar lausnir hafa eytt ca 500 miljónum af almannaféí tómt bull), engin orkunýting er á Þeistareykjum, engin í Gjástykki - en Krafla er auðvitað orkunýtingarsvæði , sem betur fer.
Þú ert ekki biðja neinum griða heldur að eyðileggja atvinnumöguleika fólks á Noðurlandi. Ekki erum við að eyðileggja þína atvinnumöguleika...eða er þetta þín atvinna?
Sigurjón Benediktsson, 12.1.2011 kl. 05:33
Ég held að það sé tími kominn til að skoða ferðamannaiðnaðinn betur þarna. Meir að segja Gunnar Reyðfirðingur hefur látið hafa það eftir sér að vitaskuld hefði hann ekkert haft á móti því að fá "eitthvað annað" á sínar slóðir, það var bara ekki í boði.
Þetta er hin gamla stefna, - það var bara ekkert annað í boði en að virkja, og selja sem mest af þeirri orku til stóriðju. Svo vakna menn upp við vondan draum, - þenslan of mikil, bankarnir steypast á hausinn í miðri veislunni, og búið að ráðleggja brúk á mjög stórum hluta virkjanlegrar orku.
Það kom í ljós að nettóinnspýtingstóriðjunnar er ekki mikil, sjá t.d. hér:
http://web.mac.com/inhauth/Indri%C3%B0i_H._%C3%9Eorl%C3%A1ksson/%C3%81grip_s%C3%AD%C3%B0ustu_greinar.html
"Í heild má segja að efnahagslegur ávinningur Íslands af starfsemi stóriðjuvera sé lítill og hafi farið minnkandi á síðustu árum. Hann er nú vart meira en 0,1 – 0,2% af þjóðarframleiðslu fyrir hvert álver. Arður af íslenskum auðlindum kemur aðallega fram í hagnaði iðjuveranna og rennur vegna lágra skatta að mestu ósnertur í vasa hinna erlendu eigenda."
Þetta er það sem við verðum að fésa. Virkjanaframkvæmdin síðasta lenti undir erlendum verktaka. Það þýðir að mjög mikill hluti þess fjár sem aflað var af Íslendingum rann úr landi. Orkan er svo seld of ódýrt svo að lítið skilar sér þar. Bræðslan er í erlendri eigu, þannig að Íslendingar taka ekki virðisaukann af vörunni.
Það hefði verið gaman að sjá þennan pening, þó ekki hefði verið nema að hluta til fara í eitthvað annað. Það stóð bara ekki til boða.
Ef það stæði til boða að spýta sama fé inn í Norðurlands eystra til margvíslegrar atvinnuuppbyggingar, - segjum Geopark, Mars-garð, bættar samgöngur, beina styrki og aðgang að þolinmóðu fjármagni til uppbyggingar ferðaþjónustu víða um svæðið, þá held ég að það yrði skrítinn svipurinn á heimamönnum, og borholudraumurinn e.t.v. ekki eins árennilegur. Það er þegar verið að vinna í svona Geopark hugmynd á Suðurlandi, þannig að þetta er ekkert út í loftið. Eldfjallaþjóðgarðurinn á Hawai tekur á móti 500.000 manns á ári, - við erum bara rétt að byrja, og höfum miklu stærri og fjölbreyttari svæði til að vinna með. Og þótt að aukningin sé stöðug í ferðaþjónustu (fjölgun um MILLJÓN gistinætur s.l. 10 ár), má gera betur, - mörg svæði eru illa aðgengileg (sum þurfa reyndar að vera það), og óþolinmæði kapítalsins gerir það oft erfitt að reikna vit í nokkurn skapaðan hlut, - sé það aðstaða, afþreying eða annað.
Og, svona að lokum, - Einar Þór, - pústið úr Frúnni ilmar betur heldur en helv. helskýjið frá t.d. Hellisheiðavirkjun, sem maður sér úr 50 km fjarlægð. Og hún getur borið mann frá Hvolsvelli og að Gjástykki á rúmum klukkutíma, - ca 1:20. Það þarf hins vegar að keyra hálfan hringveginn á bíl til að komast þangað. Farðu það á 2007 módelinu af alvöru pickup og ég skal veðja við þig að bíllinn tapar í umhverfissamanburði, hehe. Með opnun Aðaldælaflugvallar og og þéttara "neti" um Þingeyjasýslur næðist beintenging inn á Suðurlandið, sem er svo aftur við það að tengjast betur inn á Keflavík. Hefur einhver látið sér detta það í hug?
Jón Logi (IP-tala skráð) 12.1.2011 kl. 10:26
Þessu er alltaf stillt upp sem: annaðhvort/eða, af Ómari og félögum. Samt eru engin rök færð fyrir þeim málflutningi.
Náttúruverndarsamtök létu gera fyrir sig fræga skýrslu árið 2001, um fyrirhugaðar framkvæmdir við Kárahnjúka. Mikinn doðrant, með aðkomu allskyns fræðinga, eða "virtra vísindamanna og fagaðila", eins og þeir auglýstu skýrsluna. Í skýrslunni stendur ekki steinn yfir steini og get ég rakið það í löngu máli, lið fyrir lið. Ég læt þó nægja í þetta sinn, eina fullyrðinguna sem fengin var frá "sérfræðingum og fagaðilum" úr ferðaþjónustunni. Ég tek fram að tilvitnun mín úr skýrslunni er ekki orðrétt, en tölur og innihaldið var svona:
"Ef farið verður í virkjanaframkvæmdir við Kárahnjúka, mun ímynd Íslands sem ósnortins ferðamannalands bíða hnekki og ferðamönnum mun fækka á Austurlandi um 50% og um 30% á landinu öllu".
Það þarf auðvitað ekki að segja neitt meira, svo vitlaust er þetta, eins og reynslan hefur leitt í ljós. Flest annað var á svipuðum nótum, varðandi dýralíf og margt fleira á svæðinu. Skýrslunni var flaggað ótt og títt á sínum tíma, en sést hvergi lengur og hæpið er að "vísindamennirnir, sérfræðingarnir og fagaðilarnir", sem ljáðu skýrslunni nafn sitt, setji þetta verkefni í "ferilskrá" sína.
Gunnar Th. Gunnarsson, 12.1.2011 kl. 10:34
Jón Logi, finndu fjárfesta í Geopark, Mars-garð, innlenda eða erlenda, og allir munu fagna. Líka "virkjanafíklarnir".
Gunnar Th. Gunnarsson, 12.1.2011 kl. 10:38
Svo vitnar Jón Logi í Indriða H. Þorláksson!! Eru menn ekki hættir að vitna í hann, eftir aðkomu hans að "Svavarssamningum"? ... og greinaskrifa um efnahagsmál?
Gunnar Th. Gunnarsson, 12.1.2011 kl. 10:44
Sigurjón flaggar enn og einu sinni prósenttölu til að fela hvað um er að ræða. Allt í einu segir hann að aðeins 1% af svæðinu fari í virkjanamannvirki en 99% verði friðað.
Hingað til hefur verið haldið fram 2% tölunni. Hún felst í því að svæðið sé ca 100 ferkílómetrar og mannvirkin þeki aðeins tvo ferkílómetra.
Hvar verða svo þessi mannvirki? Jú, stöðvarhúsið á að verða inni á miðju svæðinu og síðan verða borholur, vegir gufuleiðslur og háspennulínur og möstur, sem skila rafmagninu út af svæðinu.
Þessi mannvirki munu blasa við af nánast öllu svæðinu rétt eins og er á Hellisheiði, en þar þekja mannvirki líkast til aðeins 2% af heiðinni.
Ég hef áður skrifað grein og tekið samlíkingu. Askja er 100 ferkílómetrar og því allt í lagi að setja niður virkjun á svæði sem er 2 kílómetrar að lengd og einn kílómetri á breidd inni í miðri Öskju.
Þingvallaþjóðgarður er 100 ferkílómetrar og þá er í góðu lagi að halda áfram friðun á 98% svæðisins en setja niður 2 ferkílómetra virkjanamannvirki rétt norðan við Vellina.
Esjuhlíðar eru um 100 ferkílómetrar og í góðu lagi að setja niður malargryfjur í miðja suðurhlíðina sem er 2 kílómetra langt og einn kílómetri á breidd.
Tunglfarar geta ekki upplifað tunglið innan um gufuleiðslur, borholur, stöðvarhús og háspennumöstur og línur inni í Öskju og marsfarar munu heldur ekki getað upplifað mars í svona umhverfi í Gjástykki.
Síðan vilja menn alveg gleyma því að við Íslendingar getum komið upp bílaflota sem mengar ekkert. Nema það sé vegna þess að þá dreymir um að álverin taki til sín alla orku landsins og ekkert verði eftir til annarra þarfa, samanber hina stórfelldu orkuþörf álvers á Bakka fyrir norðan.
Og, Gunnar, þ
Ómar Ragnarsson, 12.1.2011 kl. 11:16
Hvaðan kemur aurinn í virkjanir? Hvað var t.d. ríkisábyrgðin há á Kárahnjúkastíflunni? Upprunalega var talað um 100 milljarða, svo varð það meira. Og á sama tíma og verið er að gera klárt þar eystra, eru vextirnir skrallaðir upp úr öllu til að hefta þenslu, eða eins og ein greiningadeildin orðaði það, "að tekist hafi með hávaxtastefnu bankanna og ríkisstjórnarinnar að hefta eðlilega nýsköpun"
Bottom line, - það var HÆGT að útvega og ábyrgjast fjármagn, en því var ætlað í einn ákveðinn hlut, og það þurfti að stíga á bremsuna annars staðar.
Svo er það hann Indriði. Hann hefur átt sína slæmu daga, en það hefur alltaf þótt klén framsetning í rökræðu að veitast að manninum en ekki því sem hann bar á borð. Það hlýtur að svíða extra mikið ef það sem hann segir er...rétt. Og þetta eru nú bara skráðar tölur sem hann tekur saman. Í þínum heimi Gunnar, kann hann sjálfsagt ekki símanúmerið heima hjá sér af því hver hann er...
Jón Logi (IP-tala skráð) 12.1.2011 kl. 11:22
Gunnar gerir lítið úr því að ég viti eitthvað um Gjástykki og þess vegna eigi G. Pétur ekki að treysta neitt á það.
Á sínum tíma fór ég og myndaði í öllum Kröflugosunum níu og líka þegar umbrotahrinurnar gengu yfir. Ég hef margflogið yfir svæðið til myndatöku og á síðustu árum farið svo tugum skiptir um svæðið, ýmist einn eða með fólk með mér.
Í sumar fór ég með formanni landeigendafélags Reykjahlíðar og öðrum félagsmanni sem leiðsögumaður til þess að sýna þeim landið, sem ég væri að fjalla um en þau höfðu aldrei komið á.
Af hverju kemur þarna enginn. Aðal ástæðan er sú að heppilegustu slóðinnni, sem liggur beinast við að fara norður frá Kröflu, er lokað með keðju með strengilegu banni landeigenda við að slóðin sé farin.
Engar merkingar eru á slóðunum þarna og erfitt eða útilokað að rata um það nema fyrir þá örfáu, sem hafa farið um það.
Þess er heldur greinilega ekki talin þörf miðað við það að talið er heppilegast að enginn þekki svæðið.
Í hitteðfyrra kom í ljós þegar ég var þarna á ferð að fulltrúi Umhverfisstofnunar í Mývatnssveit hafði aldrei komið á þann hluta svæðisins þar sem menn sjá sköpun Íslands og jarðarinnar betur en á nokkrum öðru stað á jörðinni.
Eina fólkið í heiminum, sem hefur séð kvikmyndir af svæðinu eru nokkrar milljónir Þjóðverja sem sáu sjónvarpsþætti sem ARD gerði, annars vegar um íslensk virkjana- og náttúruverndarmál og hins vegar um baráttu mína í náttúruverndarmálum.
Ómar Ragnarsson, 12.1.2011 kl. 11:33
Ég heyrði í félaga mínum sem er gamalreyndur leiðsögumaður í dag. Hann staðfesti þetta. Það er assgotans ekkert aðgengi þarna að. Gjástykki er vel falið.
Þarna verður því aldrei hægt að virkja ferðamennskuna vegna þess að:
A: Allt er lok-lok-og-læs-og-allt-í-stáli, og-ég-opn'ei-fyrir-páli...og Páll er ferðamaður með seðlaveski.
B: Einn góðan dag má búast við því að allt í einu verði byrjað að hóna út einhverjar illþefjandi gufuholur niður í iður horngrýtis. Ekki beinlínis aðlaðandi fyrir þá sem fjárfesta vildu í einhverskonar aðstöðu og aðgengi þarna um kring. Þar af leiðandi er sú staða pottþétt, að ekkert verður þarna gert í "ferðamennskuvirkjun"á meðan Demóklesarsverð orkustefnunnar hangir yfir.
En einhverjar fréttir eru af þessu nýjar skilst mér.
Jón Logi (IP-tala skráð) 12.1.2011 kl. 23:31
Nei, Ómar, ég geri alls ekki lítið úr því að þú þekkir Gjástykki, en þegar fólk sem ekki þekkir svæðið notar "þinn smekk" gagnrýnislaust og gerir hann að sínum, þá kallast það "hjarðhegðun".
Sjálfur hef ég aldrei litið Gjástykki augum, nema á myndum, en hver veit nema ég yrði sammála þér Ómar ef ég kæmi á staðinn. Hingað til hefur þú samt að mínu mati ofmetið margt af því sem þú fjallar um og notar þá gjarna hæstu stig lýsingarorða, ásamt "einstakt" og "ómetanlegt" og ég kvitta einfaldlega ekki undir það.
Komdu með alvöru viðskiptaáætlun um nýtingu svæðisins sem þér hugnast, Ómar. Finndu svo fjárfesta sem eru tilbúnir að leggja peninga í verkefnið og þá geta menn farið að tala saman.
Jón Logi, "aurinn í virkjanirnar" kemur ekki úr ríkissjóði og skerðir ekki framkvæmda og þjónustugetu hans. Aurinn hefur hins vegar skilað þeim arði til ríkissjóðs, sem til hefur verið ætlast. Ekki einungis peningalegum hagnaði, sem lýsir sér m.a. í einu lægsta raforkuverði til almennings sem þekkist í veröldinni, heldur einnig í öruggri orkuafhendingu, sem er afrek útaf fyrir sig, í okkar harð og dreifbýla landi.
Gunnar Th. Gunnarsson, 13.1.2011 kl. 00:20
Gunnar, - Landsvirkjun er sem slík, þjóðareign, - og hefur sitt bakland þaðan, þ.m.t. fjármálaskuldbindingar. Aurinn í virkjanirnar er því fundinn með okkur öll í ábyrgð. Útvegun hans og afleiðingar hefur að sjálfsögðu áhrif á hagkerfið, og hann hefur EKKI skilað sér eins og til var ætlast.
Raforkuverð til almennings er vissulega hagstætt hérlendis, en N.B., almenningur var í forgangi og aðalkaupandi til ca 2005, almenningur ætti í raun að vera að kaupa orku af löngu afskrifuðum virkjunum, en þarf samt að greiða mun meira en stóriðjan. Talað er um þetta sem "stóriðjuskatt", þar sem þetta fellur inn í orkuverðið, og hann hleypur á milljörðum. Athyglisvert hérna:
http://www.johannrunar.is/greinar/storidjuskattur-landsvirkjunnar/
(ekki Indriði, heldur AGS, hehe)
Jón Logi (IP-tala skráð) 13.1.2011 kl. 08:40
Já, virkjunarframkvæmdir hafa alltaf áhrif á hagkerfi lítils lands eins og Íslands, það er gefið. En þó fjarri eins mikil áhrif og umhverfisverndarsinnar halda fram. Stærð framkvæmdanna eystra, bæði virkjunar og álvers, var um 14% af af þeim famkvæmdum sem voru í gangi (aðallega á höfuðborgarsvæðinu) á þessum tíma.
Bygging Búrfellsvirkjunar og Straumsvíkur á 7. áratugnum var mun stærri biti og hafði hlutfallslega meiri þensluháhrif í landinu, ef frá er talin þensluáhrif á vinnumarkaði.
Gunnar Th. Gunnarsson, 13.1.2011 kl. 10:03
Ja hvur skrattinn. Allt í einu erum við sammála. a.m.k. með það sem nefnt er. Gaman væri þó að hafa upprunann á þessum 14 prósentum. En hitt er víst, að þær framkvæmdir sem áttu sér stað á suðvesturhorninu á þessum tíma jöðruðu við sturlun.
Og hvað varðar hinn "stærri bita" á 7. áratugnum, þá var hagkerfið þar í voðalegri kleinu. Það skýrir að hluta hlutfallið, - og nauðina. Önnur ella árið 2002
Jón Logi (IP-tala skráð) 13.1.2011 kl. 12:13
getur einhver af ykkur náttúrutalibönum sagt mér hvað er svona fallegt við gjástykki?
(grjót og urð)
Friðrik Einarsson (IP-tala skráð) 14.1.2011 kl. 01:38
Hefur einhver sagt það vera fallegt? Einstakt er það, en fegurðarskynið er háð smekk, og mér finnst það ekki fallegt, - en það er bara ég.
Taktu af þér búrkuna Friðrik og lestu allan þráðinn.
Jón Logi (IP-tala skráð) 14.1.2011 kl. 12:07
Jón Logi, uppruni 14 prósentanna er úr hagtölum frá þessum árum. Þegar lánsfé (ódýrt ) lá á lausu eins og hráviður út um allt bankakerfið, þá dældu lánastofnanir 1.400 miljörðum út í hagkerfið, á þáverandi verðlagi. Framkvæmdirnar eystra kostuðu 200 miljarða á þáverandi verðlagi (2004).
Megnið af þeim fjármunum fór í húsnæðisbóluna, en einnig töluverður hluti í neyslufyllerí, þegar lántakendur hjá Íbúðalánasjóði endurfjármögnuðu eldri lán sem báru hærri vexti. Margir tóku því svo að þeir mættu "eiga afganginn" (mismuninn) og eyddu svo peningunum sem enginn væri morgundagurinn.
Andstæðingar virkjanaframkvæmdanna tala um að kostnaður vegna Kárahnjúka hafi farið langt fram úr kostnaðaráætlun. Það er rangt, því "aukakostnaðurinn" var undir liðnum "ófyrirséður kostnaður", en þar var gert ráð fyrir allt að 10% aukakostnaði, en reyndist svo vera um 7%. Uppreiknaður kostnaður er í dag um 140 miljarðar.
Hærra álverð en arðsemisútreikningar gerðu ráð fyrir og einnig töluvert meiri afköst virkjunarinnar, sem Fjarðaál kaupir aukalega í dag, gerir arðsemi framkvæmdanna enn betri en bjartsýnustu spár gerðu ráð fyrir.
Gunnar Th. Gunnarsson, 14.1.2011 kl. 14:14
Gott svo langt sem það nær. Ég fæ reyndar ekki heldur nokkurt vit í "hina bóluna", þegar allir (nema ég) voru komnir á risajeppa og í því að stækka við sig. Var að vinna á Reykjanesinu 2005 og varð alveg kjaftstopp yfir öllum þeim framkvæmdun sem þar voru í gangi, en engin sérstök framleiðsluaukning í gangi.
En hvað um það. Þetta verður allt of leiðinlegt ef við förum að vera sammála um allan fjandann. Lofa því að birtast aftur með horn og hala of bryðja niður einhvern eldsmat að viti.
Byrja á ráðgátunni um 2008, þar sem tap á orkusölu er í methæðum á meðan álverð er líka í methæðum, og það hefur ekkert með krónuna að gera.....
Jón Logi (IP-tala skráð) 14.1.2011 kl. 14:29
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.