16.1.2011 | 13:43
"Bílvelta varð" upp á nýtt.
Á sínum tíma ákvað ég að prófa að pota í eitt af einkennum hin nýja "kansellistíls" í notkun íslensks máls og byggist meðal annars á fyrirbæri sem er kallað "nafnorðasýki" þar sem einfaldir hlutir eru gerðir flóknir, oft að því er virðist í eftirsókn í því að gera stílinn svo hátimbraðan, að hann sýnist vera tákn um langskólanám en er óskiljanlegur eða illskiljanlegur fyrir venjulegt fólk.
Eitt af þessum einkennum er orðalagið "bílvelta varð" sem hefur verið allsráðandi þegar fjölmiðlafólk hefur þurft að skýra frá því að bíll hafi oltið.
Ég fagnaði því þegar svo virtist sem þetta hefði borið árangur hér á mbl.is og grunaði að ritstjórinn, sem er með pennafærustu mönnum landsins, og íslenskumaður góður, hefði kannski átt þátt í því.
Þetta afmarkaða orðalag, "bílvelta varð", sýnist kannski ekki stórt mál, en er þó angi af sívaxandi slappleika sem felst í því að nota ekki gagnorða og rökrétta hugsun í knöppum, skýrum texta.
"Bíll valt" segir allt tveimur atkvæðum, en "bílvelta varð" þarf tvöfalt fleiri atkvæði til að greina frá því sama.
Næsta stig þessarar sýki verða væntanlega fyrirsagnir eins og "flughrap varð", "skíðasvæðisopnun varð", "leikslok urðu", "skipssökkvun varð" o. s. frv.
Dæmin eru óteljandi um þessa nafnorða og flækjusýki sem hrjáir menn.
"Það hefur orðið neikvæð fólksfjöldaþróun" sagði þingmaður einn þegar betra hefði verið og miklu styttra að segja: "fólki hefur fækkað."
Í öllum nágrannalöndumn okkar eru gerðar harðar kröfur til þess að fjölmiðlafólk kunni að beita tungumálinu, verkfæri sínu, á viðunandi hátt til þess að setja fram upplýsingar og skoðanir á skipulegan, skýran og markvissan hátt.
Í ljósi menningararfs okkar, sem er eitt af því merkasta sem við eigum, og í ljósi nauðsynjar vandaðrar og metnaðarfullrar fjölmiðlunar, verðum við að taka okkur tak.
Bílvelta við Korputorg | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.