19.1.2011 | 13:35
80 ára íhugunarverð saga.
Saga mótmæla, sem hafa beinst gegn opinberum stofnunum og fundum kjörinna fulltrúa á afmæli á næsta ári þegar 80 ár verða frá Gúttóslagnum fræga, en í bók Þórs Whitehead "Sotvét-Ísland" kemur fram að þeir hafi raunar verið þrír.
Gúttóslagurinn skapaði ákveðið viðmið sem hefur loðað við æ síðan.
Af minn heitinn, Þorfinnur Guðbrandsson, var einhvert mesta ljúfmenni og friðsemdarmaður sem ég hef kynnst.
En hann var líka maður hugsjóna um jafnrétti og jöfnuð.
Hann var þvi verkalýðssinni og fylgismaður Héðins Valdimarssonar.
Gúttóslagurinn var harður, og meðal þeirra, sem tóku þátt í honum voru menn sem trúðu því, að þegar tíminn yrði kominn, myndu öreigarnir taka völdin með ofbeldi í kommúnistabyltingu.
Af minn var hins vegar fulltrúi þess mikla meirihluta verkalýðssinna, sem varð heitt í hamsi í Gúttóslagnum af því að þeim blöskraði misrétti og ójöfnuður þótt þeir aðhylltust ekki vopnaða byltingu með ofbeldi og jafnvel vopnavaldi.
Síðar, þegar ég var strákur og var í pössun hjá afa og ömmu á Ásvallgötunni á gamlárskvöld af því að þá fór allt ungt fólk á áramótadansleiki, labbaði afi stundum með mig niður í miðbæ, þar sem við urðum vitni að því ár eftir ár, að skríll réðist á lögreglustöðina með grjótkasti og braut rúður í henni.
Þessi ósiður lagðist síðar af þegar farið var að hafa áramótabrennur víða um borgina, enda voru þessar óspektir við lögreglustöðina blettur á borgarlífinu og dæmi um það hvernig óeirðaseggir nota tækifæri til að finna útrás fyrir skemmdarfýsn eða átök og slagsmál eingöngu óeirðanna vegna.
Með því komu þeir og hafa ávallt komið óorði á friðsamlega baráttu fólks notar borgaralegan rétt sinn til að koma saman og taka þátt í göngum og útifundum tll að vekja athygli á málstað sínum.
Tímamót urðu í Búsáhaldabyltingunni þegar mótmælendur mynduðu sjálfir sveit manna, sem tók að sér að verja lögregluna fyrir hamslausum árásum óeirðarseggja, sem aðeins voru að misnota tækifærið til þess að hleypa öllu í bál og brand.
Óeirðirnar á Austurvelli 30. mars 1949 voru langalvarlegustu og stærstu átök lýðveldissögunnar.
Ég tel að báðir málsaðilar hafi gert mistök í hita leiksins en ekki hægt að réttlæta grjótárásina á þinghúsið.
Í framhaldi af þessum atburðum gengu dómar sem ekki geta hafa talist harðir úr hófi.
Mótmæli á þingpöllum hafa orðið af og til síðan eins og Össur Skarphéðinsson vitnaði um fyrir rétti í dag.
Hávær og fjölmenn mótmæli urðu í Ráðhúsi Reykjavíkur þegar borgarstjórn hleypti Kárahnjúkavirkjun i gegn og einnig var þar háreysti þegar nýr borgarstjórnarmeirihluti tók við 2008.
Engin dómsmál hlutust af þessu.
Mótmælin hafa áður verið háværari og heitari í Alþingishúsinu en fyrir tveimur árum, án þess að fólk væri saksótt fyrir það og dæmt.
Þess vegna er ósamræmi í þeirri málssókn, sem nú á sér stað á hendur níumenningunum svonefndu.
Ég tel að hafa beri í huga jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar vegna þess að ekki birtist jafnræði í þessum málaferlum gagnvart hliðstæðum aðgerðum áður.
En það er hollt fyrir okkur að velta fyrir okkur 80 ára sögu átaka og mótmæla við fundarstaði kjörinna fulltrúa, draga af henni lærdóma og skipa þessum málum á betri og skaplegri veg.
Ég hygg að það sé einsdæmi að þjóðþing njóti eins lítils trausts í skoðanakönnunum eins og hér á landi og sömuleiðis einsdæmi að eggjum, matvælum og rusli sé kastað að kjörnum fulltrúum eins og gerðist við síðustu þingsetningu.
Þetta er íhugunarefni fyrir okkur öll, hvar sem við stöndum. Hvert erum við eiginlega komin?
Ég á mér þann draum að þessu linni því að annars gæti illa farið.
Brugðið en ekki óttasleginn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Alþingi verður að afnema kvótakerfið, og leyfa frjálsar handfæra eða smábátaveiðar
það leysir byggða, fátæktar og atvinnuvanda Íslands!
Aðalsteinn Agnarsson, 19.1.2011 kl. 14:56
Við höfum báðir orðið hugsi við lestur bókarinnar og út af svipuðum atriðum. Ég staðnæmdist þó sérstaklega við kafla þar sem höfundur velti fyrir sér þeirri aðferð manna að setja andstæðinginn á sem lægst plan með illu umtali. Í framhaldi átti svo skrefið að verða styttra yfir í hreint ofbeldi eins og sannaðist ítrekað við ýmis tækifæri.
Svo hraðspólum við til samtímans og rekumst á ansi keimlíkar aðferðir, þar sem menn höggva á báða bóga á hinu nýja almannafæri Internetsins. Og þegar menn eru orðnir nógu heitir af öllum umræðunum er stutt í það að þeir ráðist gegn stjórnmálamönnum, lögreglunni og þess vegna gegn sjúkraflutningamönnum.
Tempora mutant, segja þeir. Ég veit ekki!
Flosi Kristjánsson, 19.1.2011 kl. 16:19
Lengi má brýna deigt járn svo bíti.
Þessi 80 ára saga okkar um átök og mótmæli er íhugunarverð, satt er það en þó er enn merkilegra hvað langlundargeð okkar og sjálfstjórn hefur þrátt fyrir allt verið.
Það sem við höfum og erum að láta yfir okkur ganga er með ólíkindum og held ég að ekki sé of fast að orði kveðið.
Við höfum liðið spillingu, óráðssíu, jafnvel hreina heimsku ráðamanna og hagsmunapot fyrir opnum tjöldum átölulaust, gjarnan með þeim rökum að við höfum það þrátt fyrir allt ágætt og betra en margir aðrir...
Á sama tíma hefur möguleikum okkar til sjálfsvarna verið fækkað skipulega svo sem lög um vinnustöðvanir sem nú banna pólitísk verkföll, þ.e. hópar eða samtök mega ekki hóta eða beita verkfallsvopninu sér til varnar gegn óréttlátum stjórnvaldsákvörðunum eins og tíðkast víða í nágrannalöndum okkar. Þetta held ég hafi verið mjög misráðið á sínum tíma því þarna var ákveðinn öryggisventill tekinn úr sambandi. Þetta, ásamt fleiri atriðum, svo sem vaxandi ógegnsæi í ákvarðanatöku stjórnvalda gera það að verkum að frekar en að gera ekki neitt þá er fólk tilbúið að kasta eggjum eða eitthvað þaðan af verra.
Ég vek athygli á fréttum sem birtast nánast daglega af vægast sagt einkennilegum gjörningum fjármálastofnanna hverra afleiðingar dynja nú á berum bökum landslýðs og skyldi engan undra þó undan svíði. Seint ætlar að ganga að rannsaka þessi mál og á meðan horfum við á helstu gerendur leika sér í útlöndum og gefa almenningi langt nef. Eðlileg viðbrögð okkar er að verja sig ig sína og þá eru notuð þau meðöl sem tiltæk eru og helgast oft af reiðinni sem sársaukinn vekur.
Hjalti Tómasson, 19.1.2011 kl. 17:12
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.