Hvergi eins auðvelt að losa úrgang úr skipum.

Í blaði, sem gefið er út á þeim ágæta vinnustað álverinu í Straumsvík er viðtal við íslenskan skipstjóra sem hefur siglt áratugum saman um öll heimshöfin og meðal annars flutt súrál til Straumsvíkur frá Ástalíu. p1011534.jpg

Skipstjórinn fullyrðir í viðtalinu að hvergi í heiminum, ekki einu sinni í þróunarlöndunum, sé eins auðvelt að kasta í sjóinn hverju því sem menn girnist og við strendur Íslands. Hér geti menn spúlað skipin af hvaða óþverra sem vera skal án þess að hafa neinar áhyggjur af því.

Hann nefnir dæmi um þunga dóma, sem skipstjórar hafi hlotið erlendis fyrir að brjóta gegn lögum um þessi efni og hafi einn meira að segja verið dæmdur frá skipstjórnarréttindum ævilangt.  p1011541.jpg

Hér virðast ekki gilda neinar alvöru reglur um þetta og þaðan af síður eftirlit ef marka má viðtalið við skipstjórann. Afleiðingin sé sú að skipstjórnarmenn noti tækifærið og spúli skip sín rækilega við Íslandsstrendur af hvers kyns óþverra. 

Hér á meðfylgjandi mynd af viðtalinu má meðal annars sjá þetta haft eftir skipstjóranum: 

"Á Íslandi eru engar reglur um þetta þannig að menn geta dælt út við ströndina hér sjó sem var tekinn allt annars staðar í heiminum." 

Þegar haft er í huga að hér á landi er nú sóst eftir að reisa olíuhreinslstöðvar og laða hingað risaskip, sem hafa innan borðs alls kyns óþverra, sem spúla þarf út, getur maður svona rétt ímyndað sér hvað fer í sjóinn við Íslandsstrendur. 

Eins og sést á myndinni í blaðinu eru skipin sem eru hér í förum risaskip og þeim á eftir að fjölga stórkostlega ef allar gróðahugmyndirnar um risaolíuskipaumferð við landið rætast. 

Fyrir næstum tuttugu árum gerði ég nokkrar fréttir um allan óþverrann, ruslið og viðbjóðinn, sem rekur á fjörurnar á Ströndum og sýndi af því ferlegar myndir. 

Ekki er að sjá af viðtalinu við íslenska eðalskipstjórann í álversblaðinu að neitt hafi gerst til batnaðar síðan þá sem máli skiptir og heldur ekki að nein viðbrögð hafi fengist við þessu einstæða viðtali. 

Líklega vegna þess að þetta þykir svo sjálfsagt mál. 

Okkur er greinilega meira skítsama um þetta en nánast öllum öðrum þjóðum, ef marka má viðtalið. 


mbl.is Rannsaka rusl á ströndum landsins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hörður Sigurðsson Diego

Hvaða reglur eru í gildi um þessa hluti hér á landi?

Hver er munurinn á okkar reglum og þeirra sem banna þetta?

Eða er þetta vegna þess að gæsla er ekki nægilega öflug?

Hörður Sigurðsson Diego, 19.1.2011 kl. 21:10

2 Smámynd: Sævar Helgason

"Þegar haft er í huga að til dæmis súrál mun vera einhver versti óþverri, sem hugsast getur"

Ertu ekki að rugla saman rauðu vítisótaleðjunni sem verður eftir við framleiðslu á súráli (alumina) úr jarðefnininu báxit ?  Súrálið er ekkert eitur síður en svo . Alumina (súrál) hefur m.a verið notað í þessa hvítu gömlu magamixtúru. Álverksmiðjumaður í kerskála innbyrðir mikið magn  ,um öndunar og meltingarfæri í formi ryks , af þessu um starfsævina án meins. Það hefur þó minnkað mikið með bætri hreinsitækni í kerskálum.

Bara að vekja athygli á þessu.

Sævar Helgason, 19.1.2011 kl. 21:15

3 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ég hripaði þennan bloggpistil kannski í of miklum flýti og þakka þér ábendingarnar. Hef nú lagfært ónákvæmni og innsláttarvillur og sett inn myndir sem segja mikið.

Ómar Ragnarsson, 19.1.2011 kl. 21:32

4 Smámynd: Sigurbrandur Jakobsson

Á línuskipinu sem ég er á kemur allt rusl í land, nema lífrænn úrgangur. Lifur og gota fer ekki með slóginu í sjóinn, heldur er gert verðmæti úr því í landi.

En það er bara ekki okkar rusl sem kemur með okkur í land. Mikið af allskonar dóti kemur á línuna, eins og náttulega gömul lína sem hefur slitnað niður og týnst. En það kemur fyrir að við fáum jafnvel línu og önnur veiðarfæri sem miklar líkur eru á að hafi verið hent vísvitandi fyrir löngu síðan. Því staðreyndin er sú að íslenskir sjómenn ganga að eigin frumkvæði nokkuð vel um hafið, miðað við það sem áður tíðkaðist. Maður heyrði sögur um að veiðarfæraúrgangi hafi verið safnað saman og sturtað svo í hafið á landleiðini.

Það eiga að vera til einhver viðurlög við brottkasti á sorpi hér við land, en það er bara ekkert eftirlit sem getur fylgst með og staðið menn að verki. En ég verð var við að Landhelgisgæslan er farin að fylgjast betur með þessu, eftir síðustu heimsókn þeirra um borð til okkar.

Sigurbrandur Jakobsson, 19.1.2011 kl. 23:44

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband