24.1.2011 | 14:10
Breyttar aðstæður.
Áður en framkvæmdir hófust við Kárahnjúka og Hjalladal var síðan sökkt var eitt besta og stærsta kjörlendi hreindýranna á Austurlandi í grónum hlíðum dalsins.
Austurhlíð hans bar nafnið Háls, og nafnið Hálslón er dregið af því.
Hálsinn var 15 kílómetra löng þéttgróin og bogadregin hlíð með 2-3ja metra þykkum jarðvegi, sannkölluð Fljótshlíð íslenska hálendisins.
Einnig var mikið af hreindýrum í Kringilsárrana, vestan við Jöklu.
Gróðurinn var þó ekki aðalatriðið heldur veðurfarið, en þetta var langdýpsti dalurinn á austurhálendinu og skjólgott þar, en vegna stærðar og dýptar var dalurinn líka langbesta stæðið fyrir miðlunarlón.
Flesta vetur var þarna snjóléttara en nokkurs staðar annars staðar á austurhálendinu enda minnsta ársúrkoma á Íslandi í "úrkomuskugganum" norðan Vatnajökuls.
Um 40 ferkílómetrar af grónu landi fóru undir miðlunarlón Kárahnjúkavirkjunar og hin styggu hreindýr fóru reyndar strax að hrekjast af virkjanasvæðinu þegar þar varð mikil umferð og skarkali.
Þótt graslendinu á Vestur-Öræfum , milli Hjalladals og Snæfells, væri ekki sökkt, fækkaði þeim mikið þar. Þau virtust þá leita út á Fljótsdalsheiði.
Stærsti hluti hreindýranna fór því utar á hálendið og fyrir þremur árum náði ég á Fljótsdalsheiði kvikmynd af stærstu hreindýrahjörð, sem sést hefur á mynd, alls 800 dýrum í einni þéttri hjörð.
Dýrunum hefur ekki aðeins fjölgað á Fljótsdalsheiði, heldur virðist þeim líka hafa fjölgað austan við Jökulsá í Fljótsdal og Lagarfljót.
Á þessum nýju svæðum snjóar meira en vestar á hálendinu, og þess vegna leita dýrin niður af því og valda hættu við vegi ef snjóalög verða mikil.
Missir 40 ferkílómetra af gróðurlendi undir miðlunarlón Kárahnjúkavirkjunar hlaut að skapa breyttar aðstæður fyrir hreindýrin og því lítið við því að gera þótt þau skapi hættu við vegi og valdi þar tjóni.
Kannski er þó hægt að bregðast við því með því að fækka í stofninum með auknum veiðikvóta.
Kosturinn við aukna umferð þeirra við vegi getur verið sá að heilla með því ferðamenn.
Varað við mikilli umferð hreindýra | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.