1.2.2011 | 22:21
Enginn veit hvort kíkt hefur verið á spilin.
Einn af ágöllum Stjórnlagaþingkosninganna átti að vera sá að ekki mátti brjóta atkvæðaseðla saman.
Hermt er að Jón Steinar Gunnlaugsson sé góður briddsspilari og enginn veit, hvort úrslit briddsmóta hafa verið rétt eða röng vegna þess að einhver sá á spil annars, úr því að menn mega ekki brjóta þau saman.
Engin veit heldur hvort maður eða menn í kjörstjórn hafi látið setja upp faldar myndavélar fyrir ofan kjörklefa í alþingiskosningum til þess að nema það hvar einfaldur kross var settur á kjörseðla og sjá hvað hver kaus.
Það væri mun auðveldara en allt það samsæri og öll sú fyrirhöfn sem fylgt hefði því að "rekja" atkvæði í stjórnlagaþingkosningum.
Fráleitt er að mínu mati að það hefði verið hægt að "kíkja" á kjörseðla í stjórnlagakosningunum, sem voru útkrotaðir með allt að hundrað tölustöfum og brjóta þannig á rétti hvers kjósanda um leynd á því hvernig hann kaus.
Þar sem ég sat í mínu skoti í kosningunum með kjörseðlinn á borði þétt upp að mér hefði sá, sem vildi vita, hvað ég kaus, þurft að koma inn í skotið og horfa yfir öxlina á mér.
Ég gat bæði þá og síðar þegar ég gekk með seðilinn og setti ofan í kassan haldið honum jafnþétt upp að mér og Jón Steinar heldur spilum sínum upp að sér þegar hann spilar við Davíð.
Þegar ég var í lagadeild lærði maður um það að "eðli máls" og "lögjöfnun" væru notuð í dómum þegar það ætti við. Ekki er að sjá að í hæstaréttarúrskurðinum hafi slíkt verið viðhaft.
En, svo vikið sé að öðru í spjalli Þórhalls við Jón Steinar í kvöld, þá finnst mér einkennilegt að enginn fjölmiðill skuli taka upp það stórmál, sem hann ræddi um og skrifaði grein um á dögunum, en það er um allt of mikið álag á Hæstarétti og hættulega þróun í þeim efnum.
Ég tel brýna þörf á að ræða hugmyndir hans um millidómstig, sem geti gert kleift að fækka dómurum í Hæstarétti og láta þá alltaf dæma alla, þannig að óyggjandi fordæmi myndist.
Það er ekki viðunandi að dómarar þurfi að dæma í tveimur málum að meðatali á dag.
Það þýðir að hver dómari hefur aðeins hálfan vinnudag til þess að setja sig inn í hvert mál og það er ekki viðunandi gagnvart þeim sem þurfa að leita til réttarins.
Enginn veit um áhrif ágalla | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Ómar.
Þú veist eins vel og flestir aðrir, þessi niðurstaða var pöntuð en hefur reunst erfit að halda rök fyrir henni !
Annars eru orð Ragnars Aðalsteinssonar á RUV í kvöld athyglisverð.
,,
Ógilding Hæstaréttar til dómstóla
Gunnar Eydal, fyrrverandi borgarlögmaður og skrifstofustjóri borgarstjórnar, sagði í viðtali í Speglinum í gær að þar sem Hæstiréttur tók stjórnvaldsákvörðun um að ógilda kosningar til stjórnlagaþings hefði hann átt að sinna rannsóknarskyldu sinni, samkvæmt stjórnsýslulögum, og rannsaka fullyrðingar kærenda með sjálfstæðum hætti.
Ragnar Aðalsteinsson tekur í sama streng. Hann segir að séu annmarkar á ákvörðun Hæstaréttar eigi að vera hægt að hnekkja henni. Hann segir að engin undantekning sé gerð um það í lögum að ekki sé unnt að láta reyna á gildi þessarar stjórnsýsluákvörðunar fyrir almennum dómstólum. Það myndi merkja að sá sem er óánægður og ætti aðild að málinu gæti krafist ógildingar fyrir héraðsdómi Reykjavíkur í þessu tilfelli. Síðan yrði hægt að skjóta niðurstöðu dómsins til Hæstaréttar. Þá yrði að sjálfsögðu að skipa nýja menn í Hæstarétt til að fjalla um álitaefnið.
Ragnar bendir á að samkvæmt ákvörðun Hæstaréttar geti hver sem er kært kosningar. Hann býst við að það sama ætti við ef ákvörðun Hæstaréttar yrði kærð til dómstóla. Hvaða kjósandi sem er gæti kært ákvörðunina."
JR (IP-tala skráð) 1.2.2011 kl. 22:36
Ómar hvernig væri að þú kærðir þessi úrslit hæstaréttar eins og Ragnar Aðalsteinssong bendir á? Það væri fróðlegt og jafnvel nauðsyn að fá úr þessu skorið. Það væri hægt að safna fé fyrir þeim útgjöldum sem þetta hugsanlega kostaði þig. Ég myndi leggja mitt af mörkum.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 1.2.2011 kl. 23:54
"Fráleitt er að mínu mati að það hefði verið hægt að "kíkja" á kjörseðla í stjórnlagakosningunum,..."
Ég held einmitt Ómar, eftirá að hyggja að þetta hafi verið hægt en e.t.v. fráleitt að ætla að einhver hafi gert það. En er það ekki það sem málið snbýst um; að það hafi verið hægt?
Ég kaus í Laugardalshöllinn. Þar voru borð úti á miðju gólfi með fjórum kjör "klefum" hvor á móti öðrum. Það var umgangur aftan við mig og allt um kring og ég man að ég var á varðbergi fyrst gagnvart honum en hætti því svo. Þegar ég var búinn stóð ég upp og leit inn í bás konu minnar við hliðina til að sjá hvernig henni gengi og sá auðveldlega inn á hennar borð þótt ég gerði ekki tilraun til að sjá hverja hún kaus. Hún kippti sér ekkert upp við það enda var allt svo opið og laust við einhveja leynd að manni fannst einhvernvegin ekkert að því.
Og þótt þú hafir reynt að passa þig, með seðilinn þétt að þér úti í horni eins og þú segir þá er ekki víst að aðrir hafi verið það og ekki bauðst a.m.k. öllum að vera úti í horni.
Sigurjón Pálsson (IP-tala skráð) 2.2.2011 kl. 01:31
Í alþingiskosningum setur kjósandinn einn kross á seðilinn. Sá kross þýðir stuðning viðkomandi kjósanda við eitt af 5-6 framboðum og krossinn sést á nokkurra metra færi.
Í stjórnlagaþingkosningunum settu kjósendur að meðaltali átján fjögurra stafa talnaraðir í kjörseðilinn og því illmögulegt að sjá, hvað var á seðlinum nema að vera alveg ofan í kjósandanum.
Þar að auki var úr 522 frambjóðendum að velja en ekki 5-6 listum eins og í alþingiskosningum.
Á lagamáli heitir þessi gríðarlegi mismunur "eðli máls", sem tillit verður að taka til við úrskurði eða dóma. Umbúnaður í stjórnlagakosningunum var svipaður og gerist í mörgum öðrum löndum þar sem samt er talið, að kjósandinn fái uppfyllt lagalega kröfu sína um leynd.
Ómar Ragnarsson, 2.2.2011 kl. 08:51
"Umbúnaður í stjórnlagakosningunum var svipaður og gerist í mörgum öðrum löndum þar sem samt er talið, að kjósandinn fái uppfyllt lagalega kröfu sína um leynd."
Ég hef ekki kosið í öðrum löndum - eðli málsins samkvæmt - en ætli umbúnaður um kosingar í öðrum löndum sé ekki í samræmi við lög þar og því séu lagalegar kröfur þar uppfylltar.
Því dugar varla að við tökum upp erlendan umbúnað, þótt góður þyki þar - og jafnvel hér - ef hann stangast á við lög hér, öðru vísi en að breyta þá lögum.
Um það hefur mér nú skilist að málið snúist.
Sigurjón Pálsson (IP-tala skráð) 2.2.2011 kl. 10:25
Ómar hefur kannski hætt fullsnemma í lögfræðinni. Ekki er gripið til "eðli máls" eða " lögjöfnunar" nema að ekki sé til lagaákvæði um ágreiningsefnið/álitamálið eða að lagaákvæðið sé mjög opið til túlkunar. Í þessu tiltekna máli eru lagaákvæðin bæði til og mjög skýr.
Stefán Örn Valdimarsson (IP-tala skráð) 2.2.2011 kl. 11:33
Hér er sönn saga. Risi og dvergur, báðir með ljósmyndaminni, sátu hlið við hlið og kusu til stjórnlagaþings. Risinn sá vel yfir og mundi öll 25 númerin sem dvergurinn skrifaði. Þeir löbbuðu samhliða að kjörkassanum. Risinn snéri seðlinum niður til að ekkert sæist þegar hann setti seðilinn í kjörkassann. Helvítis dvergurinn leit þá upp og festi um leið í minni sér öll 25 númerin sem risinn skrifaði. Þeir láku svo báðir öllu á WikiLeaks. Þess má geta að Ómar ku hafa verið á báðum seðlunum.
Littlebigman (IP-tala skráð) 2.2.2011 kl. 12:44
Með bókstafslagatúlkun Hæstaréttar hefði hinn ungi Jóel Færseth auðvitað átt að vera áfram á Indlandi, hjá þeirri konu sem samkvæmt íslenskum lögum var móðir hans og fór með forsjá hans.
Lög er lög. Ekkert meira með það.
Skeggi Skaftason, 2.2.2011 kl. 13:24
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.