5.2.2011 | 15:42
Rúmlega tveggja ára ágreiningur.
Allt frá Hruninu 2008 hefur ríkt ágreiningur innan Sjálfstæðisflokksins um afstöðuna til Icesave og AGS, þó einkum hið fyrrnefnda.
Ágreiningurinn var upphafi milli Geirs Haarde og Davíðs Oddssonar, en Davíð var algerlega á móti því að semja um Icesave og í upphafi á móti því að leita til AGS.
Eftir brotthvarf Geirs Haarde hefur Bjarni Benediktsson tekið við af honum en Davíð og hans menn haldið sínu striki.
Út af fyrir sig er sú ákvörðun Bjarna og meirihluta þingflokksins rökrétt að því leyti, að ef menn ganga til samninga hlýtur niðurstaðan oftast að vera sú að hvorugur aðilinn fái allt sitt fram.
Ef menn ganga út frá þessu verður niðurstaða samninga oftast sú hvort hún sé sanngjörn, "fair deal" eða ekki.
Niðurstaða upphaflegu samninganna var mjög ósanngjörn að því leyti að ætlast var til að hver íslenskur skattgreiðandi greiddi 25 sinnum meira vegna þeirra en hver skattgreiðandi í Bretlandi og Hollandi.
Á það ber hins vegar að líta að fyrri samningar voru gerðir við þær aðstæður, sem þá ríktu, og voru okkur afar óhagstæðar. Við stóðum af afar höllum fæti eftir hið mikla Hrun.
Tíminn vann hins vegar með okkur og nú liggur fyrir margfalt skaplegri samningur.
Þeir, sem vildu fara samningaleiðina á annað borð, verða að velja um það hvort þeir telji líklegt að hægt sé að ná enn lengra eða hvort að nú hafi náðst það góður árangur að viðunandi sé.
Ekki gegn ályktun landsfundar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Hvað meinarðu með þessu Ómar;"Á það ber hins vegar að líta að fyrri samningar voru gerðir við þær aðstæður, sem þá ríktu, og voru okkur afar óhagstæðar. Við stóðum af afar höllum fæti eftir hið mikla Hrun. "? Staðreyndin var sú að engin tilraun var gerð til að semja undir forystu Svavars Gestssonar. Hann var sendur til að skrifa undir skuldabréf sem hann og gerði og Steingrímur ábekti. Stundum ekki sögufalsanir eins og forsetinn
Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 5.2.2011 kl. 15:56
Fyrirgefðu stríðsletrið, ýtti óvart á shift takkann
Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 5.2.2011 kl. 15:57
Bara til þess að halda því til haga, að áður en Svavar setti stafi sína undir ICESAVE, þá sett Geir Haarde(BG) stafi sína undir alla upphæðina, +6, eitthvað % vexti?
Ólafur Sveinsson (IP-tala skráð) 5.2.2011 kl. 18:29
"Stundum ekki sögufalsanir" er sagt. Haustið 2008 stóðu öll lán, sem við þurtum, föst vegna Icesave. Við höfðum ekki náð vopnum okkar gagnvart almenningsálitinu erlendis og hefðum raunar átt að fara af miklu meiri krafti út í upplýsingagjöf um það.
Af því leiddi að þeir virtu menn erlendir, sem loks komu til skjalanna til þess að taka undir sjónarmið okkar komu heldur seint til leiks og á meðan var samningsstaða okkar afleit.
Smám saman myndaðist traust erlendis á því sem við værum að gera og þar með betri aðstaða til þess að sækja mál okkar og rétta okkar hlut.
Ómar Ragnarsson, 6.2.2011 kl. 02:12
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.