Réttur 82 þúsund kjósenda.

Rúmlega 82 þúsund Íslendingar, sem neyttu helgasta réttar lýðræðisins í haust í kosningum með úrslitum, sem ekki hafa verið bornar brigður á, eru í raun helstu þolendur í þeirri stöðu, sem upp er komin eftir úrskurð Hæstaréttar.

Í lögunum um stjórnlagaþingið segir að þar sem ekki sé sérstaklega tiltekið um kosningatilhögun gildi lög um alþingiskosningar "eftir því sem við á."

Hæstiréttur sleppir þessum fimm orðum í úrskurði sínum og skoðar þar af leiðandi ekki þann mismun sem er á þessum tvennum kosningum og framkvæmd þeirra, annars vegar listakjör og hins vegar persónukjör. 

Í alþingiskosningum er hægt að sjá á nokkurra metra færi hvar kjósandi hefur sett kross við einn af 5-6 listum en til þess að sjá hrúgu af að meðaltali 60 tölustöfum á kjörseðli í stjórnlagaþingkosningunum, þarf að standa yfir kjósandanum og skrifa niður eða ljósmynda seðilinn eða hafa límheila við að leggja hann á minnið.

Kosningaaðferðin, sem notuð var í stjórnlagaþingkosningunum er meira en aldar gömul og í mörgum nágrannalöndum okkar eru notaðir samskonar kjörklefar eða afdrep og sams konar kjörkassar og kjörseðlar og voru notaðir í kosningunum hér. 

Hvergi hefur verið gerð athugasemd við þetta erlendis og þaðan af síður kosningar ógiltar. 

Hæstiréttur telur "verulegan annmarka" að seðlar höfðu númer og segir "alkunnugt er" um það að menn standi í kjördeildum og skrifi niður þótt engir kannist við að slíkt hafi verið gert í þessum kosningum. 

Rétturinn rannsakaði þetta greinilega ekki og fjallar ekkert um það hvað síðan hefði þurft að gera til þess að "rekja seðlana."  En til þess að það hefði verið hægt hefði maður á vegum frambjóðanda ekki aðeins þurft að skrifa númer seðla niður á kjörstað, heldur hefði frambjóðandi líka þurft að hafa mann á sínum snærum við talninguna til þess að finna viðkomandi kjörseðla þar.

En Hæstiréttur telur það einmitt vera "verulegan ágalla" að engir fulltrúar frambjóðenda hefðu verið við talninguna (!) -  telur það sem sé vera "verulegan ágalla" að frambjóðendur skyldu ekki geta haft fulltrúa til að "rekja atkvæðin"!

Leiðarahöfundur einn taldi á dögunum þá vera "tapsára" sem vildu neyta lagalegs réttar síns í þessu máli og fer háðulegum orðum um þá.

Sami leiðarahöfundur notar hins vegar engin slík orð um þá sem ekki náðu kjöri en kærðu framkvæmd kosninganna og höfðu til þess fullan rétt.  

Fróðlegt er fyrir þá rúmlega 82 þúsund Íslendinga, sem voru sviptir helgasta rétti lýðræðisins að heyra um það hvað þeir séu "tapsárir." 

Úrskurðir Hæstaréttar geta haft fordæmisgildi. Í úrskurðinum er mikið talað um leynd, sem er frumskilyrði. Leyndin virkar í báðar áttir, - annars vegar þá að kjósandinn geti treyst því að leynd sé yfir því hvernig hann kaus, en leyndin er líka nauðsynleg varðandi það að kjósandi geti ekki sannað hvernig hann kaus og þar með ekki sannað það fyrir stjórnmálamanni eða stjórnmálaafli, sem vill styðja hann og fá atkvæði í staðinn, að atkvæðið hafi verið greitt á umsaminn veg. 

Kjósandi eða hópur kjósenda getur í núgildandi kerfi rofið þessa leynd með því að auðkenna atkvæði sitt á löglegan hátt, til dæmis með því að endurraða nokkrum nöfnum neðarlega á framboðslista á þann hátt að það auðkenni seðil hans í raun. 

Fulltrúi framboðslista á talningarstað gæti siðan væntanlega "rakið" atkvæðið eða atkvæðin.

Auðvitað er þetta fjarlægur möguleiki en þó margfalt auðveldari en allt það flókna samsæri sem hefði þurft til að "rekja atkvæði" í stjórnlagaþingkosningunum. 

 Fordæmi gæti hins vegar verið komið fyrir því að kæra næstu alþingiskosningar og fá þær úrskurðaðar ógildar ef tekið er mið af úrskurði Hæstaréttar nú. 

Í almennri lögfræði er kennt að við úrskurði og dóma verði að líta á nokkur önnur atriði en beinan lagatexta, svo sem "eðli máls", "lögjöfnun","vilja löggjafans" og "greinargerðir og umræður."

Það, að Hæstiréttur sleppir orðunum "...eftir því sem það á við" sýnir hve þröngt sjónarhornið er í þessum úrskurði.

Talað er um "aðför að Hæstarétti" þegar dirfst er að rýna í og rökræða úrskurðinn. Samkvæmt þeirri hugsun er það "aðför að Hæstarétti" þegar Mannréttindadómstóll Evrópu kemst að annarri niðurstöðu en Hæstiréttur. 

Og síðan situr eftir spurningin: Fyrst enginn fulltrúi frambjóðenda var á talningarstað, hvers vegna var þá ekki hægt að taka seðlana til endurtalningar, má af þeim upphaflegu númerin og setja inn önnur og telja að nýju? 

Er nokkuð sem mælir gegn því að sannreyna úrslit kosninganna? 


mbl.is Vilja að Hæstiréttur endurskoði ákvörðun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

En afhverju kæra þá ekki þessir stjórnlagaþingmenn ákvörðun Hæstaréttar?

Þeir ættu að vita það að samkvæmt lögum getur stjórnvald ekki endurskoðað stjórnvaldsákvörðun eftir að hún er tekin. Eina leiðin til að fá henni breytt er að kæra hana.

Þetta tel ég að þið ættuð að vita!!

Haraldur Haraldsson (IP-tala skráð) 8.2.2011 kl. 14:17

2 identicon

Sæll Ómar.

Þú feitletrar það og fullyrðir að í löndum í kringum okkur séu notaðir samskonar kjörklefar, -kassar og -seðlar. En bendir á engin dæmi. En þó svo þú gerðir það myndi það engu máli skipta þar sem Hæstiréttur Íslands fer eftir íslenskum lögum en ekki því hvernig hugsanlegt sé að kosningar séu framkvæmdar í öðrum löndum. Kjörklefarnir, -kassarnir og -seðlarnir uppfylltu einfaldlega ekki sett lagaákvæði.

Í ákvörðun Hæstaréttar er komist að því að brot hafi átt sér stað. Um jafnalverlegt brot og það sem snýr að kosningalöggjöfinni, sem er undirstaða alls, gildir að nóg er að sýna fram á brotið.

Það er mikilvægt að kosningar séu hafnar yfir allan vafa. Það réttlætir ekki brotið að reyna að benda á skaðleysi þess.

Ég bið þig Ómar að reyna að sína fram á hvað sé lögfræðilega rangt í niðurstöðu Hæstaréttar, en engann hef ég séð benda á það.

Einnig vona ég að sem flestir lesi þessa grein til að fá lögfræðilega innsýn í málið í stað stærðfræðilegrar, http://www.visir.is/thvaeldust-kosningalogin-fyrir-kjorstjorn-/article/201152224126

Hallur M. (IP-tala skráð) 8.2.2011 kl. 14:26

3 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Þorkell Helgason hefur kynnt sér framkvæmd svona kosninga í mörgum löndum, og þuldi upp runu af nokkrum nöfnum, þeirra á meðal Holland.

Gísli Tryggvason hefur ásamt fleiri unnið að málinu og ég hef það skjal undir höndum.

Mun við fyrsta tækifæri sjá hvernig hægt er að láta fleiri sjá það.  

Ómar Ragnarsson, 8.2.2011 kl. 14:36

4 identicon

Sæll aftur, ég hreinlega gleymdi að spurja áðan, hvaða rannsóknarskylda er það sem þið teljið að Hæstiréttur hafi vanrækt?

Hallur M. (IP-tala skráð) 8.2.2011 kl. 14:41

5 Smámynd: Ragnar Gunnlaugsson

Ja ekki er nú öll vitleysan eins,enda er þá lítið gaman að henni.

Ragnar Gunnlaugsson, 8.2.2011 kl. 14:56

6 identicon

Ómar, ég er mjög ósáttur við ályktarorðin í niðurstöðu Hæstaréttar og tel eins og þú og fleiri að báðum atriðum sem talin eru til verulegra annmarka megi einfaldlega bæta úr líkt og þú lýsir í lok færslunnar. Sjálfur lagði ég á mig ómælda vinnu við það að kynna mér 522 frambjóðendur og helstu áherslumál þeirra og tel á mér brotið með þessari makalausu ákvörðun. Væri ekki við hæfi að bjóða öðrum frambjóðendum og jafnvel kjósendum líka að taka þátt í að fara fram á endurupptöku?

Friðrik (IP-tala skráð) 8.2.2011 kl. 14:56

7 Smámynd: Sigurður Ingólfsson

Allt rétt sem þú segir í greininni Ómar og mikið að loksins heyrðist hljóð úr horni. Úrskurður hæstaréttar var sem blaut tuska framan í okkur 82.000 kjósendurnar og eitthvað ennþá verra framan í frambjóðendurnar og þá sem hlutu kosningu. Þrír kærðu kosningarnar eftirá. Mjög margir voru á móti kosningunum yfirleitt og mættu ekki á kjörstað. Aðrir mættu ekki af því að þeim fannst þær flóknar vegna fjölda frambjóðenda og fyrirkomulags. Aðeins þremur einstaklingum datt í hug að kæra og engum datt í hug að taka upp símann áður en kosningarnar fóru fram, að ég veit, og hringja í t.d. landskjörstjórn og segjast álíta að útbúnaðurinn og aðstaðan sem sýndur var og kynntur margsinnis í fjölmiðlum væri líkast til ekki löglegur. Það er með ólíkindum að þið sem náðuð kosningu hafi ekki látið meira frá ykkur heyra í þessa veru sem þú hefur nú gert.

Sigurður Ingólfsson, 8.2.2011 kl. 15:10

8 identicon

"Einnig vona ég að sem flestir lesi þessa grein til að fá lögfræðilega innsýn í málið í stað stærðfræðilegrar, http://www.visir.is/thvaeldust-kosningalogin-fyrir-kjorstjorn-/article/201152224126"

 Hallur þekkir þú ekki muninn á rökfræði og stærfræði?

 Reynir er vissulega stærfræðingur en hann notar rökfræði þegar hann "debunkar" dóm Hæstaréttar. 

 Haukur færir nákvæmlega engin haldbær rök fyrir því hvernig átti að rekja seðlana. 

Arnþór (IP-tala skráð) 8.2.2011 kl. 15:38

9 identicon

Sæll Arnþór.

Ætli menn að gagnrýna lögfræðilegar niðurstöður þá verða menn auðvitað að beita lögfræðilegum aðferðum til þess. Rökfærla Reynis er þ.a.l. gölluð í heild sinni.

Hægt var að rekja seðlana af því þeir voru raðnúmeraðir, það er ekki flókið. Af því það var hægt þá er kosningin ekki lengur leynileg.

Hallur M. (IP-tala skráð) 8.2.2011 kl. 15:56

10 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Það að aðrar þjóði að kjósa að fara frjálslega með form og framkvæmd kosninga réttlætir ekki að við gerum það einnig. Þó margt megi læra og nota utan úr hinum stóra heimi, er ekki þar með sagt að við þurfum að apa allt eftir, bara af því að það er gert erlendis.

Sigurður Ingólfsson, þú hneykslast á að kært hafi verið "eftir á". Hvernig er hægt að kæra fyrirfram? Þú bendir reyndar á að hægt hafi verið að benda á vankantana fyrir kosningu. Mikið rétt, en var það ekki gert? Ég veit ekki betur en menn hafi einmitt bent á marga þessara agnúa fyrir kosningu, en ekki var hlustað. Því var eina sem hægt var að gera, að kæra og það eftir á! Þannig ganga mál fyrir sig.

Gunnar Heiðarsson, 8.2.2011 kl. 15:59

11 identicon

Sæll Hallur

 "Ætli menn að gagnrýna lögfræðilegar niðurstöður þá verða menn auðvitað að beita lögfræðilegum aðferðum til þess. Rökfærla Reynis er þ.a.l. gölluð í heild sinni."

 Beita lögfræðilegum aðferðum?

Nú verður þú að útskýra þetta betur. Á Reynir semsagt að vitna í einhverja lagabáka þegar hann hrekur hvort kjörseðill sé rekjanlegur eða ekki. Það hefur bara nákvæmlega ekkert með lög að gera. Ekkert frekar en það að það hafi með lög að gera hvort byssuskot með kúlu af ákveðinni tegund geti komist í gegnum höfuðkúpu á manneskju sé henni skotið af ákveðnu færi. Bæði tilvik gætu hinsvegar verið hluti af dómsmáli og hafa ekkert með lög að gera fyrr en búið er að staðfesta niðurstöðuna.

"Hægt var að rekja seðlana af því þeir voru raðnúmeraðir, það er ekki flókið" 

Ertu að grínast?  Ertu að segja þetta eitt sé nóg? Það er ótrúleg afstaða vægast sagt...

Þú verður að horfa á þetta útfrá heildarmyndinni og meta hvað þyrfti í raun til svo að það væri hægt rekja seðlana. 

Arnþór (IP-tala skráð) 8.2.2011 kl. 16:07

12 identicon

Sæll Arnþór.

Engu máli skiptir hvort kjörseðlar hafi verið raktir eða ekki. Það var hægt og þess vegna var kosningin ekki leynileg.

Dæmi. Ég er að vinna við kosninguna og rétti Reyni kjörseðilinn sinn og sé númerið sem einungis hans seðill hefur. Seinna um kvöldið er byrjað að telja atkvæðin og ég eða einhver vinur minn er þar viðstaddur, finnum seðil Reynis og vitum hvað hann kaus.

Það var möguleiki að rekja seðlana með þessum hætti, það er óásættanlegt og brýtur gróflega gegn rétti kjósenda til leynilegra kosninga sem er undirstaða alls.

Aftur á móti getur verið ólíklegt, án þess að hægt sé að fullyrða, að einhver kjörseðill hafi verið rakinn með einhverjum hætti eða eitthvað svindl hafi átt sér stað. Það er ekki það sem skiptir máli, heldur að það hafi verið hægt.

Ákvörðun Hæstaréttar um ógildingu byggir á formgalla við kosninguna.

Hallur M. (IP-tala skráð) 8.2.2011 kl. 16:28

13 identicon

Sæll Hallur

"Engu máli skiptir hvort kjörseðlar hafi verið raktir eða ekki. Það var hægt og þess vegna var kosningin ekki leynileg."

 Við erum ekki ræða hvort þeir hafi verið raktir eða ekki, heldur hvort það var hægt yfir höfuð.

 "Dæmi. Ég er að vinna við kosninguna og rétti Reyni kjörseðilinn sinn og sé númerið sem einungis hans seðill hefur. Seinna um kvöldið er byrjað að telja atkvæðin og ég eða einhver vinur minn er þar viðstaddur, finnum seðil Reynis og vitum hvað hann kaus."

Mátt þú vera viðstaddur talninguna ef þú réttir Reyni kjörseðilinn, eru kjörstjórnarmenn í ákveðnum deildum líka að sjá um talninguna?

Hitt dæmið sem þú tekur er að vinur þinn sé viðstaddur talninguna og finni miðann.
Semsagt þú vinnur í kjörstjórn í kjördeildinni hans Reynis og vinur þinn vinnur síðan við talninguna.  Reynir tók það akkurat fram að þetta væri hægt með samsæri. Ekki satt?

Arnþór (IP-tala skráð) 8.2.2011 kl. 16:42

14 identicon

Sæll Arnþór. Það getur verið, en er það þá ekki einmitt hægt? Er það ekki einmitt þess vegna sem kosningin var ekki leynileg.

Hallur M. (IP-tala skráð) 8.2.2011 kl. 16:46

15 identicon

Sæll Hallur

Ef menn eru í samsæri þá er allt hægt Hallur, það er mergur málsins. :)

Ég hefði getað verið með þér í samsærinu með því t.d. að merkja miðann hans Reynis með ákveðnu tákni sem þú vissir af. Þú vinnur svo í talningunni og sérð merkta miðann. 

Arnþór (IP-tala skráð) 8.2.2011 kl. 16:55

16 identicon

Sæll Arnþór.

Já rétt er að flest er hægt með góðu samsæri. Það hefði líka verið auðvelt að setja upp myndavélar fyrir ofan kjósendur og sjá þannig hvað þeir kusu.

En þar sem kjörseðlarnir voru prentaðir á þennann máta, að hægt var að finna sama seðil aftur og sjá hver átti hann, braut það gegn lögunum sem segja að kosningarnar eigi að vera leynilegar. Fyrir mér er þetta a.m.k. mjög skýrt.

Hallur M. (IP-tala skráð) 8.2.2011 kl. 17:22

17 Smámynd: Aðalsteinn Agnarsson

Gott mál, að hitni nú vel undir afturendum hæstaréttardómaranna 6!

Aðalsteinn Agnarsson, 8.2.2011 kl. 18:24

18 identicon

Réttur allra Íslensdinga til kosninga sem eru hafnar yfir allan vafa eru mun meiri en réttur þess þriðjungs kjósenda sem tók þátt í þessari hönnuðu kosningu.

Því miður virðist það vera pólitískt manifesto hjá vinstrimönnum að sveigja kosningar í átt að kerfi sem hentar þeirra áróðursmiðlum og einstökum frambjóðendum, og að grafa undan réttarkerfinu með skefjalausum áróðri.

Eitt af því sem maður hélt að nýja Ísland bæri með sér, væri minni spuni og áróður frá stjórnmálaflokkum, af því að fólkið, þjóðin, hefði fengið yfir sig af svoleiðis.

Því miður hefur áróðurinn, undirróðurinn, falsið, lygin og ómerkilegheitin aldrei verið meiri.

Hilmar (IP-tala skráð) 9.2.2011 kl. 13:48

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband