26.2.2011 | 10:08
Hið "hreina og ómengaða Ísland".
Á umhverfisráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Ríó 1992 börðu Íslendingar sér á brjóst og létu mikið með það að þar hefðu þeir gerst forgöngumenn fyrir því að förgun sorps yrði tekin föstum tökum í veröldinni.
Þetta gerðist og síðan kom að því að reglur um þetta voru lögfestar í Evrópu og í samræmi við samninga Íslendinga við Evrópuríki var sú stund upprunnin að forysturíkið í umhverfismálum, "hið hreina og ómengaða Ísland" uppfyllti sjálft þær kröfur sem það hafði gengist fyrir að "óhreinu og menguðu löndin" tækju upp.
Þá brá svo við að Íslendingar báru sig illa og voru með hvers kyns mótbárur við þessu og báru við "séríslenskum aðstæðum," og smæð þjóðarinnar.
"Forystuþjóðin" vældi því út undanþágur og enn í dag, 19 árum eftir að "fyrirmyndarþjóðin" hóf upp keyri sitt á hinar "óhreinu" eru Íslendingar með allt niður um sig í sorpbrennslumálum og mörgum öðrum umhverfismálum.
Í Reykjavík, "höfuðborginni með hreinasta og ómengaðasta loftið" fer magn svifryks hvað eftir annað yfir alþjóðleg mörk og loftið í borginni stenst ekki loftgæðakröfur Kaliforníu 40 daga á ári vegna útblásturs frá borholum á Nesjavöllum og á Hellisheiði.
Nýlega hefur komið fram ítrekað hér á blogginu að hvergi í heiminum sé eins auðvelt að henda úrgangi frá skipum og hér og fullyrti reyndur skipstjóri í blaðaviðtali að hér giltu engar reglur um slíkt og þar af leiðandi væri hér allt frjálst og ekkert eftirlit. ,
Um götur okkar og vegi ökum við mest mengandi bílaflota Evrópu, vældum út á sínum tíma "séríslenskt ákvæði" um að mega blása út miklu meiri útblæstri en aðrar þjóðir og stefnum ótrauð að því að tvöfalda þann útblástur.
Blogg mín um frelsi til að henda úrgangi við Ísland hafa engin viðbrögð vakið og þykir slíkt ekki fréttnætt, líklega vegna þess að það gæti varpað skugga á það þegar við gumum af því um veröld víða að vera "forystuþjóð í umhverfismálum með hreint og ómengað land."
P. S. Í athugasemd hér fyrir neðan er fullyrt að ég fari með staðlausa stafi varðandi losun í hafið við Ísland. Í blaðaviðtali um þetta efni við skipstjóra á risaskipi sem segir frá þessu kemur þetta fram sem hans frásögn og hægt er að sjá þetta í leitarreit efst til vinstri á bloggsíðu þessari má slá inn fyrirsögn fyrsta bloggs míns um þetta: "Hvergi eins auðvelt að losa sig við úrgang."
Þar má stækka mynd af viðtalinu með því að smella á hana.
Hyggst svipta sorpbrennsluna í Eyjum starfsleyfi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Hárrétt, Ómar og takk fyrir að halda vöku þinni og okkar í umhverfismálum. Víða um landið eru ýmsar "mengunartímasprengjur", nefni sem dæmi blýrafgeyma í hinum fjölmörgu bíla- og vélaruslahaugum til sveita, plús mengandi efni í olíum, sem hefur verið hleypt í jörðina af fullkomnu kæruleysi. Veit um sveitarfélag, þar sem hitaveituvatnið rennur enn í asbeströrum, allir hafa séð hvernig menn umgangast vatnslagnir í þéttbýli, þar sem öllu er hrært saman, neysluvatni, skólpi og jarðvegi, enda eru heilu vatnsveitukerfin orðin svo smituð af "legionella" að vonlaust er að uppræta það og borin von að það sé hægt að nýta venjulegt "kranavatn" í rakatæki í loftræstikerfum af þessum sökum. Fyrir nú utan hvað það virðist vera torvelt að kenna íslenskum karlmönnum að þvo sér um hendur eftir salernisferðir!
Skoðanabróðir (IP-tala skráð) 26.2.2011 kl. 13:22
Það er Rangt, Ómar að engar reglur gildi um sorplosun í sjó. skipstjórum fiskiskipa er t.d. skilt að halda sorpdagbók þar sem fram kemur hvað verður um þann úrgang sem fellur til um borð, sam ávið um vélstjóra þeir verða að gera grein fyrir í olíudagbók hvað verður um þá úrgangsolíu sem til fellur. Einnig var gefið út af siglingastofnun veggspjald (fyrir um 15árum minnir mig) þar sem talið upp hvað má henda og þá hversu langt frá landi og hvað skal koma með í land. Landhelgisgæslan skoðar í skindiskoðunum dagbækurnar og gerir athugasemdir ef þær eru í ólagi auk þess sem þær eru skoðaðar við lögbundnar búnaðarskoðannir. Reyndar á dagbóka skyldan ekki við um smábáta.
Hjá atvinnusjómönnum hefur síðastliðin 20 ár hefur orðið mikil vitundarvakning um sorphirðu og ég fullyrði að á flestum skipum vanda menn sig við að koma með allt í land, auk gamalla veiðarfæra sem hafa tapast í gegnum árin og koma upp með veiðarfærum þó það kosti tíma erfiði og jafnvel slysahættu
hins vegar falla þessar röngu fullyrðingar þínar ágætlega að hatursáróðri svokallaðrar velferðarstjórnar gegn sjómönnum og sjávarútvegi almennt
Samúel Guðmundur Sigurjónsson (IP-tala skráð) 26.2.2011 kl. 15:26
Ég hef aldrei sagt að engar reglur gilti heldur bloggaði ég um viðtal við skipstjóra, sem siglt hefur um heimsins höf í áratugi og segir að þetta sé svona. Af hverju segir skipstjórinn þetta í myndskreyttu viðtali? Af viðtalinu er að ráða að skipstjórnarmenn þurfi ekki að hafa neinar áhyggjur af því að hreinsa skip sín hér við land og láta vaða í sjóinn.
Ef þú ferð inn á leitardálkinn efst til vinstri hér á síðunni og slærð inn "Hvergi auðveldara að henda úrgangi" kemur upprunalaga bloggið upp og þú getur stækkað myndina af því og séð þetta með eigin augum.
Frásögn mín af þessu viðtali er ekki "rangar fullyrðingar". Viðtalið er svona.
Viðtalið fjallar ekkert um íslenska sjómenn eða sjávarútveg almennt heldur er aðeins greint frá viðtali við skipstjóra á útlendu skipi. Hvernig hægt er að fella það undir "hatursáróður gegn sjómönnum og sjávarútvegi almennt" er mér hulin ráðgáta.
Ekkert má nú.
Ómar Ragnarsson, 26.2.2011 kl. 16:51
Fyrirsögnin á bloggpistlinum 19. janúar er raunar: "Hvergi eins auðvelt að losa úrgang úr skipum."
Ómar Ragnarsson, 26.2.2011 kl. 16:56
Krækja á þennan bloggpistil.
http://omarragnarsson.blog.is/blog/omarragnarsson/entry/1135022/
Norðri (IP-tala skráð) 26.2.2011 kl. 17:21
Sæll 'Omar Var að lesa áður nefnt blogg . Það á reyndar við um erlend fragtskip en eins og þú sjálfsagt veist er aðeins eitt fragtskip skráð á Íslandi, Karlsey á Reykhólum. Ég verð að viðurkenna að ég þekki ekki reglur um losun á kjölfestusjó við landið, held að þær hafi verið í smíðum í nokkur ár. Hins vegar er öll losun á olíu bönnuð. Mér þótti hér að ofan þú fullyrða að engar reglur giltu við landið um losun á úrgangi frá skipum, eins að þú værir að alhæfa um öll skip og þar afleiðandi umgegni allra sjómanna, því skipin losa ekkert heldur mennirnir sem vinna þar.
ef ég hef misskilið það bið ég þig velvirðingar á því
( sé að ég er nokkuð á sama máli og Sigurbrandur skipsfélagi minn sem hefur kommentað hjá þér við fyrrnefnt blogg þann 19 /1 )
Samúel Guðmundur Sigurjónsson (IP-tala skráð) 26.2.2011 kl. 17:52
Skipstjórar geta auðvitað brotið lög eins og aðrir, en þegar ég var á sjó frá 1989-1998, var engu rusli hent í sjóinn frá mínu skipi.
Ef einhver skipstjóri heldur því fram að "hér séu engar reglur", þá segir það auðvitað allt um þann mann.
Gunnar Th. Gunnarsson, 26.2.2011 kl. 17:53
Áður en stóriðja hófst í Hvalfirði var vinsælt að tína þar krækling að sumarlagi. Þetta er liðin tíð. Kræklingur er eitraður þarna frá því snemma á vorin og langt fram á haust. Hafró vaktar eiturstigið. Þetta eru þörungar sem valda þessu. Þessi breyting þarna á náttúrunni í sjávarríkinu varð við tilkomu stóriðjunnar. Stóru flutningaskipin sem lestuðu sjóballest suður í höfum dældu henni út í Hvalfirði. Nýjir innflytjendur námu sjó í Hvalfirði og juku og snarlengdu eiturtímann á kræklingi t.d-þarna. Eitthvað vantar á reglurnar virðist vera.
Sævar Helgason, 26.2.2011 kl. 22:09
Ég hélt að kræklingar væru alltaf eitraðir á ákveðnum tímum... allsstaðar á landinu.
Gunnar Th. Gunnarsson, 27.2.2011 kl. 12:28
Já Gunnar Th. á vissum tíma er eitrun í kræklingi og hefur allta verið svo vitað sé. En þarna í Havlfirði hefur þetta tímabil lengst mjög oft framundir nóv-des. Hér áður var vinsælt að tína krækling við Fossá í Kjós allt sumarið og elda hann á staðnum. Það er liðin tíð:
Hafró vaktar eitrunina ár hvert . Henni lauk í september 2010 eða óvenju snemma.
15. - 22. ágúst 2010
Svifsýni var tekið í Hvammsvík 15. ágúst. Svifþörungar sem fundust í sýninu og geta valdið skelfiskeitrun voru skoruþörungarnir Dinophysis spp. ( DSP eitrun), og kísilþörungurinn Pseudo-nitzschia spp (ASP eitrun). Niðurstaða talninga sýndi að fjöldi þessara tegunda var undir viðmiðunarmörkum um hættu á eitrun í skelfiski.
Enn er þó varað við skelfiskneyslu í Hvalfirði vegna hættu á ASP eitrun, vegna niðurstaðna fyrir tveimur vikum síðan.
Sævar Helgason, 27.2.2011 kl. 17:52
Ekki veit ég hvað þessar skammstafanir á eitrunum þýða. Ertu viss um að þetta sé vegna mengunar frá stóriðjunni í Hvalfirði, Sævar? Getur þetta ekki verið vegna hlýnunar í hafinu?
Gunnar Th. Gunnarsson, 27.2.2011 kl. 23:14
Nei ,Gunnar Th. þessi vandamál með þörungana eru á engan hátt komið frá þeirri stóriðju sem er í Hvalfirði. Þessi umræða mín um aukna virkni og þar með lengd á eiturtímabili kræklinga er tilkomið vegna losunar skipa á úrgangi í hafið hér við Ísland. Stórskip sem sinna þessum iðjuverum koma oft mjög langt að úr suðri. Það er sjóballestin sem þau dæla út í einhverjum tilvikum í Hvalfirði sem innihalda framandi lífverur þ.a.m þörunga. Að dæla nokkur þúsund tonnum að framandi sjó í þröngan fjörð sem hefur hæg sjóumskipti er varasamt. Málið snýst um að við gætum að því sem sett er í sjó hér eins og pistill Ómars fjallar um.
Sævar Helgason, 28.2.2011 kl. 09:02
Eru til einhverjar rannsóknir sem styður þetta hjá þér, Sævar?
Gunnar Th. Gunnarsson, 28.2.2011 kl. 12:57
Já Gunnar Th. Hafró gerði rannsókn á þessu þegar þessi lenging á eiturtíma jókst svona mikið og síðan hafa þeir séð um vöktun á þessu eiturtímabili og haldið til haga. Allavega málið var skoðað mjög rækilega.
Sævar Helgason, 28.2.2011 kl. 13:04
Það er þekkt vísindaleg staðreynd að losun á sjóballast hefur flutt margskonar lífverur heimshornanna á milli. Sjá:
http://en.wikipedia.org/wiki/Ship_pollution#Ballast_water
En það hefur ekkert beint með stóriðju að gera, - þetta er flutningsmál. Það væri hugsanlega hægt að stoppa svona nokk hérna með refsireglu, nema við séum búin að spila það vald út úr höndum okkar í alþjóðasamningum.
Jón Logi (IP-tala skráð) 28.2.2011 kl. 15:14
Afhverju hefur Hafó ekki látið fylgja þessu eftir með eftirliti og viðurlögum? Eða er þetta ekki bannað?
Gunnar Th. Gunnarsson, 28.2.2011 kl. 15:40
Það væri líklega best að spyrja Hafró. En sennilega ekki bannað. Það væri líka lítill akkur í notkun á sjóballast ef hvergi má losa.
Og...þegar ég var á sjó fór ekkert rusl í sjóinn, - bara fiskúrgangur. Öllu drasli safnað í kör og tekið í land, sama með dót úr vélarrúmi. Amen.
Jón Logi (IP-tala skráð) 1.3.2011 kl. 08:44
Það er eitt að losa sjóballest inni á löngum firði og annað að skipta ballestinni út fjær landinu. Það er einkum lífríkið í kyrrum fjörðum þar sem sjóskipti eru hæg sem svona framandi sjór með framandi lífverum er varhugaverður. Þetta er kostnaðarlaust fyrir viðkomandi skip. Bara að herða kröfurnar og fylgja þeim eftir.
Það er nefnilega svo að við Íslendingar eru hinir mestu umhverfissóðar og litlir umhverfissinnar.
Dæmi : Dioxin mengun frá sorpbrennslum vítt um landið . Sú umhverfismengun og afleiðingar hennar er að setja t.d hreinleika okkar útflutningsmatvöru í uppnám...erlendis. Við krefjumst varna af öðrum en heimtum undanþágur fyrir okkur...
Sævar Helgason, 1.3.2011 kl. 09:37
Rétt myndi það vera. Það ætti að vera harðbannað með sektum að losa í innfjörðum.
En þetta með dioxinið, - var það ekki út af ónógri síun/viðhaldi á síum, eða var hitastigið of lágt?
Síaður bruni yfir 1.000 gráðum á að vera dioxinlaust. En ef að verið er að spara gráðurnar þá er alveg eins hægt að kveikja í þessu eins og það kemur fyrir í haug....
Jón Logi (IP-tala skráð) 1.3.2011 kl. 11:27
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.