4.3.2011 | 00:27
Rétt eins og höfnin.
Reykjavíkurflugvöllur tekur nú upp 7% af landi Reykjavíkur vestan Elliðaáa. Reykjavíkurhöfn tekur upp svipað rými. Miklabrautin tekur rúmlega 3% af þessu svæði.
Sífellt er verið að tala um að fara með innanlandsflugið til Keflavíkur svo að hægt sé að reisa íbúðabyggð á vallarsvæðinu en enginn talar um að flytja siglingarnar til Njarðvíkur.
Samt er það svo að allar flugleiðir innanlands mun lengjast við það að flytja flugið suður á Miðnesheiði en siglingar erlendis frá til aðalhafnar landsins myndu hins vegar styttast ef Reykjavíkurhöfn yrði lögð niður.
Ef innanlandsflugið er flutt til Keflavíkur lengist ferðaleið þess, sem þarf að fara fram og til baka milli Reykjavíkur og Akureyrar um samtals 160 kílómetra eða tvöfalt lengra en ef Hvalfjarðagöng yrðu lögð niður.
Sagt er að völlurinn hafi valdið því að byggð fór austur fyrir Elliðaár og þessu þurfi að snúa við.
Hvernig 7% af byggingarlandinu vestan Elliðaáa gátu skipt sköpum um það að 130 þúsund manns eiga nú heima austan ánna er mér hulin ráðgáta. Eða hvaða hverfi og byggðir austan Elliðaáa eigi að tæma til að flytja 45 þúsund manns í Vatnsmýrina.
Sagt er að umferð og umferðarslysum muni fækka um 40% ef byggð sé 45 þúsund manna byggð á núverandi flugvallarsvæði, því að allir ibúar þess muni vinna á þessu svæði og enginn fara um nema gangandi eða í almenningssamgöngum og þá niður á Laugaveg til að versla.
Einnig virðist reikna með að um engan í hverfinu muni gilda það að hann leiti sér vinnu utan þess.
Sagt er að Reykvíkingar muni græða milljarða á því að selja lóðir á svæðinu. Svo er að sjá að þessir peningar muni detta af himnum ofan og enginn muni borga fyrir lóðirnar og eyða til þess peningum sem annars hefðu farið í eitthvað anna.
Nú er það svo að það er styttra í Kringluna heldur en niður á Laugaveg en samt halda menn að fólk muni berjast gangandi á móti norðangarra til að versla við Laugaveg heldur en að fara í Kringluna.
Sagt er að miðja verslunar og þjónustu muni verða í gamla miðbænum ef íbúðabyggð rísi í Vatnsmýri.
Stærstu krossgötur landsins eru hins vegar fimm kílómetrum austar á línunni Árthúnshöfði-Mjódd-Smárinn. Það er alþjóðlegt lögmál að krossgötur laða að sér verslun og þjónustu. Gamli miðbær Reykjavíkur eru úti á nesi. Möguleikar hans eru að vera manneskjuleg, vinaleg og aðlaðandi byggð, full af sögulegum og menningarlegum minjum, - ekki að keppa við Smáralind eða Korputorg.
Sagt er að höfuðborgarsvæðið sé margfalt dreifbýlla en í sambærilegum borgum Evrópu.
Þá miða menn við milljónaborgirnar Kaupmannahöfn, London og Brussel.
Í norrænni skýrslu um 16 borgir á Norðurlöndum kemur fram að þær tíu þessara borga sem eru á stærð við Reykjavík eru með álíka dreifða byggð eða jafnvel dreifðari. Þessari skýrslu var stungið ofan í skúffu í borgarkerfinu á sínum tíma.
Sagt er að Reykjavíkurflugvöllur sé einsdæmi hvað varðar nálægð byggðar við hann. Allir sem hafa flogið til útlanda vita að þetta er ekki rétt. Í Los Angeles eru fjórir flugvellir og aðeins einn af ca 20 flugbrautarendum liggur að auðu svæði.
Í og rétt við Stokkhólm eru fjórir flugvellir og allir vita um legu Kastrupflugvallar. Gunnar Þorsteinsson skoðaði á sínum tíma hve langt væri frá flugvöllum til borga að meðaltali í heiminum og það voru sjö kílómetrar ef ég man rétt.
Hægt er að breyta Reykjavíkurflugvelli með því að lengja austur-vestur-brautina út í Skerjafjörð og gera nýja, stutta norður-suður-braut, sem aðeins yrði notað í norðan eða sunnan hvassviðri. Aðflugið yrði fyrir utan Kársnes. Talsvert rými myndi losna við þetta.
Haldin var dýr samkeppni um íbúðabyggð í Vatnsmýri en engin samkeppni um það hvernig svæðið gæti litið út með breyttum flugvelli.
Það er ekki einkamál Reykvíkinga hvort fólk á landsbyggðinni þarf að lengja ferð fram og til baka til Reykjavíkur um 160 kílómetra. Ekkert frekar en að það sé einkamál Blönduósinga hvort norðurleiðin um land Blönduósbæjar verði stytt um 14 kílómetra. Síðan gleymist það að það yrðu líka Reykvíkingar sem myndu þurfa að lengja ferðaleið sína fram og til baka um 160 kílómetra í hvert skipti sem þeir flygju út á land.
Kominn er tími til að slá því föstu að höfuðborg landsins verði með eins góð og hentug mannvirki til samgangna á landi, sjó og í lofti og eðlilegt er. Því að það er eðli borga að þær verða til og dafna vegna samgangna.
Þegar menn vilja fjarlægja samgöngumannvirki til þess að reisa íbúðabyggð í staðinn gleyma þeir því að lega borga gagnvart samgöngum skóp íbúðabyggðina.
Þegar köngulóin í ævintýrinu hafði gert undur fallegan vef fannst henni þráðurinn að ofan, sem hún hafði komið eftir, ekki passa inn í myndina og klippti á hann. Þá féll vefurinn saman.
Það á vel við að líkja flugvelli við þráðinn að ofan.
Vilja flugvöllinn áfram í Reykjavík | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Þetta er ljómandi góður pistill hjá þér Ómar. Kv
Elvar Eyvindsson (IP-tala skráð) 4.3.2011 kl. 07:27
Takk fyrir góða grein, Ómar. Flugvöllurinn er snar þáttur í lífi margra. Breytingarnar á vellinum sem þú nefnir eru einmitt þær sem gefa varanlega lausn. Oft er látið eins og nágrennið vilji völlinn burt, en svo er ekki: Skerfirðingar eins og ég eru upp til hópa fylgjandi vellinum. Við vorum bara aldrei spurð sérstaklega.
En æfingaflug einkavélanna er þreytandi í góðviðri og kyrrð, enda hafa þær margar enga hljóðkúta. Helst mætti færa það flug (bæta Sandskeið?) eða amk. setja lágmark á hávaðann.
Ívar Pálsson, 4.3.2011 kl. 08:32
Þ.e.a.s. hámark á hávaðann!
Ívar Pálsson, 4.3.2011 kl. 08:35
Ég er því eindregið hlyntur að flugvöllur verði áfram í Reykjavík. Það er hins vegar óhægt um vik að breyta þeirri yfirlýstu stefnu borgarinnar að hann skuli fara. Staðreyndin er sú að enginn annar en Reykjavíkborg fer með skipulagsvald í borginni, og þannig á það að vera. Sama er með önnur sveitarfélög, þau skipuleggja land sitt en ekki eitthvert miðstýrt stjórnvald í Arnarhváli. Sem betur fer.
Þó Ómar sé eitthvað fúll út í samflokksmenn sína í Reykjavík og Blönduósi fyrir stefnu þeirra í skipulagsmálum kemur það varla til álita að svipta sveitarfélögin, heimamönnum, skipulagsréttinum. Umhverfisráðherra reyndi það á dögunum en varð gerð afturreka.
Það er hins vegar ríkisvaldsins að tryggja það að þjóðvegir landsins séu hættulausir. Ómar veit það jafnvel betur en ég að til dæmis hringvegurinn er víða stórgallaður.
Landið þar sem nú er Reykjavíkurflugvöllur mun seint byggjast nema því aðeins að íbúar landsbyggðarinnar flytjist til borgarinnar eða útlendingar. Hvorugt er æskilegt af fjölmörgum ástæðum.
S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 4.3.2011 kl. 08:39
Rétt Ómar, auðvita á Reykjavíkurflugvöllur að vera þar sem hann er, þú bendir á lengingu á flugi til Reykjavíkur frá Akureyri, í því sambandi má velta fyrir sér hver aukinn kostnaður við flugið yrði. Eldsneyti kostar orðið stórfé, einnig má benda á aukin vinnutíma áhafna, sem flestar koma úr Reykjavík, það eru a.m.k. 2 tímar á dag fyrir hverja áhöfn, sjálfsagt 15 manns á dag, flugvélin sjálf þarf að fljuga lengur, og þar með er kominn viðhaldskostnaður, bæðí á vél og hreyfla. En það er svosem ekki von að núverandi borgarstjóri, og hanns fylgifiskar skilji svonalagað. Ekki reikna ég með að borgarstjóri vilji borga þennann aukna kostnað úr borgarsjóði.
Annað er, að mér fynnst það orka tvímælis að segja að Reykjavík eigi ein að hafa skipulagsvald svæðissinns, þetta er jú höfuðborg allra landsmanna, með öllum þeim skildum og réttindum sem því fylgja.
Bkv. Bjössi
Bjössi (IP-tala skráð) 4.3.2011 kl. 09:23
Alþjóðaflugvöllurinn í Lúxemburg er við jaðarinn á höfuðborginni og allt í kringum hann eru úthverfin. Þegar Boeng 747 risaþoturnar fara í loftið þar þá taka þær á loft yfir miðborginni eða í hina áttina yfir þéttri byggð. Eins þegar þær koma inn til lendingar í einni stefnu sleikja þær næstum því þakið á stærsta sjúkrahúsinu í höfuðborginni! Þetta er alvanalegt erlendis og Reykjavíkurflugvöllur er á flott stað
anna (IP-tala skráð) 4.3.2011 kl. 09:43
Menn eru búnir að láta eins og Reykjavíkurflugvöllur sé á einstaklega asnalegum stað, og að það sé einsdæmi að flugvöllur sé þetta nálægt miðborg. Þvílíkt kjaftæði, - hann er á ágætis stað. Gunnar Þorsteinsson fór reyndar líka í talningu á flugvöllum sem eiga sinn stað í miðborg á stærð við Reykjavík eða stærri, og mig minnir að hann hafi hætt þegar hann var kominn yfir 500!!!!
Svo er hitt enn fyndnara, að það sé þvílík vöntun á byggingarlandi. Er ekki búið að byggja allt of mikið? Eru ekki heilu og hálfu hverfin og göturnar hálftóm? Og er ekki hlutfallslega allt of mikill hluti landsmanna búsettur á einu landshorni?
Það er nefnilega allt að því einsdæmi á heimsvísu. Svona eins og London væri með 45 milljónir......Berlín með 60......L.A. með 220.....Tókýó með 80.....
Jón Logi (IP-tala skráð) 4.3.2011 kl. 09:56
Ekki má svo gleyma því, að eitthvað myndi það kosta Reykjavíkurborg að taka landið eignarnámi. Það vill nefnilega svo til að stór hluti landsins í Vatnsmýrinni er í eigu ríkisins.
Sigríður Jósefsdóttir, 4.3.2011 kl. 10:05
Það er nú líka svo að Reykjavíkur-hreppur á ekki einu sinni allt landið sem er undir flugvellinum, heldur á Ríkið, heyrði ég einhvern tima 2/3 hluta landsins, en vissulega gerir Reykjavíkurborg aðalskipulag og inná því er allt landið sem flugvöllurinn stendur á. Það eina sem er rétt í stöðunni er að Ríkið komi fram við borgina eins og bændur og taki þessa landsspildu eignarnámi í ljósi almannahagsmuna, ef ekki er hægt að semja um kaup á spildunni eða komast að einhverju samkomulagi um spilduna góðu.
Örvar (IP-tala skráð) 4.3.2011 kl. 10:14
Frábær pistill Ómar. Það má líka bæta við að inní miðri London er city airport og þaðan er bæði áætlunarflug og einkaflug.
Gísli Gíslason, 4.3.2011 kl. 10:38
Það gleymist oft, þegar fram kemur krafa frá Reykvíkingum að flugvöllurinn fari frá R.Vík, eitthvað annað,eða flugið verði flutt suður á Keflavíkurflugvöll, að Keflavíkurflugvöllur er líka umvafinn byggð.Búið er í blokkunum við flugvöllinn og stutt er í aðra byggð í Reykjanesbæ og í Sandgerði.Ef Sandgerðirðinar og Reyknesingar nota sömu rökesmdir og þeir Reykvíkingar nota sem krefjast þess að flugvöllurinn fari frá R.Vík. þá geta Sandgerðingar krafist þess að öllu herflugi verði hætt frá Keflavíkurflugvelli eða flugvöllurinn verði færður til R.Víkur.90% af Keflavíkurflugvelli er innan bæjarmarka Sandgerðisbæjar.
Sigurgeir Jónsson, 4.3.2011 kl. 10:53
Fornebu var fluttur frá oslo til Gardermoen 50-60 km leið.. Ég verð seint sammála þér Ómar með flugvöllinn og það gerir ekkert til.. að benda á að að meðaltali sé um 7 km frá flugvelli til borgar segir manni bara það að landrými er þröngt og íbúarnir hafa EKKERT val.
Tempelhof var lagður niður fyrir skömmu í Berlín.. td.
Japanir gera landgerðar eyjar til þess að koma sínum flugvöllum frá borgum.. enda landrými lítið..
Flestir munu velja það að flugvellir yrðu færðir frá borgum ef þess er einhver kostur.
Óskar Þorkelsson, 4.3.2011 kl. 11:40
Finnst alltaf vanta svolítið í þessa umræðu og það er að Reykjavík er undirstaða allrar þjónustu við alla Íslendinga, eins og t.d með sjúkrahúsin ef að Reykvíkingar vilja losna við flugvöllinn þá á það bara að vera þannig að flugvöllurinn fari til Keflavíkur en að sama skapi þá á að gleyma því að byggja hátæknisjúkrahús í Reykjavík heldur á það að fara til Keflavíkur þá þannig að það sé álíka langt fyrir Reykvíkinga að komast á það sjúkrahús og aðra landsmenn. Reykvíkingar verða líka að athuga það að til þess að þeir séu með allar undirstöður í þjónustu samfélagsins þá verða þeir að vera tilbúnir að þjónusta allt landið.
Hjörleifur (IP-tala skráð) 4.3.2011 kl. 12:02
Heyr heyr. Það verður nefnilega ekki bæði sleppt og haldið. Hvað er Reykjavík?
Og Óskar, - þetta er ekki alveg sanngjarnt að draga Berlín þarna upp. Berlín var jú tvískipt áður, þannig að Templehof var nauðsyn. En það er bara hellings pláss við Schönenfeld (gamla austur-Berlín), - hlussaðist þarna einu sinni á Júmbó. Svo er Tegel flugvöllur enn inni og sjálfsagt verður.
Ekki sýnist mér nú heldur að Frankfurt og Heathrow séu neitt á brottleið.
En...Reykjavík á draugahverfi og hálfbyggðar götur, enga Japanska fólksmergð, og enga þörf til að rusla flugvellinum í burtu.
Jón Logi (IP-tala skráð) 4.3.2011 kl. 12:39
já Óskar og flutningur vallarins til Gardemoen voru mikil mistök, þó flottur sé, alveg kominn tími til að læra af mistökum!
Margrét Elín Arnarsdóttir, 4.3.2011 kl. 13:20
Pottþétt þema fyrir ummæli; flugvöllurinn. Þetta veit Ómar.
Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 4.3.2011 kl. 18:57
Það verður líka að hugsa um sjúkraflugið....
Gunnar (IP-tala skráð) 4.3.2011 kl. 20:27
Flott samantekt - hjartanlega sammála þér Ómar. Rökin eru öll með Reykjavíkurflugvelli.
Kári Kárason (IP-tala skráð) 5.3.2011 kl. 02:26
Alltaf gaman að sjá að menn fara út um víðan völl þegar þeim er bent á nokkrar staðreyndir.. Flutningurinn frá Fornebu var mikið gæfuspor, þótt sumir afturhaldsseggir vilji halda öðru fram, farþegaflutningar hafa margfaldast síðan völlurinn var staðsettur í Oslo með tilheyranda flugvélagný allan daginn og allan sólarhringinn.
Tempelhof er flugvöllur sem var lagður niður um 15-20 árum eftir sameiningu Berinar og vegna þess að hann var til óþæginda fyrir fólk í nágrenninnu og hann pressaði mjög á almenningssamgöngur á þessu svæði, en ekki vegna þess að borginni hafði áður verið tvískipt. Tempelhof er svo miklu eldri en það að þau rök standist nokkra skoðun.
Flugvallafasistar í reykjavík vilja ekki og skilja ekki margfeldisónæðið af flugvellinum.
Óskar Þorkelsson, 5.3.2011 kl. 08:07
Það var einfaldlega hægara að leggja Templehof niður eftir að múrinn féll, það er ég að meina. Í kringum Schönefeld er nokkuð gott pláss.
ATH að meðan járntjaldið stóð var V-Berlín eins og eyja. Hvar átti að lenda? Berlín lá ekki á landamærunum,heldur inni í A-Þýskalandi, þannig að ekki var hægt að teygja sig í vesturátt.
Berlínarbúum var svo af einni ástæðu mjög hlýtt til vallarins. Hérna:
http://en.wikipedia.org/wiki/Berlin_Blockade
Stundum gagn í flugvelli :D
Og...það voru fleiri vellir sem lagðir hafa verið niður í Berlín, þegar þeirra var síður þörf.
Sjálfur bý ég 100 m. frá lendingarbraut. Ég er svo heilaþveginn flugvallafasisti að ég kom henni fyrir þarna sjálfur. En, hún hefur oft komið sér vel......
Jón Logi (IP-tala skráð) 5.3.2011 kl. 08:36
Það er gott að sjá svolitla umræðu um flugvöllinn hér í Reykjavík. Ómar á miklar þakkir skyldar fyrir að vekja máls á þessu.
Það er eitt af mörgu sem gleymst hefur í þessari umræðu.
Borgir og bæir verða ævinlega til í kring um krossgötur. Hér eru krossgöturnar höfnin góða og svo flugvöllurinn og síðan greiðar leiðir til allra átta. Þetta er grunnurinn fyrir tilveru þessarar höfuðborgar þar sem hún er.
Allar stofnanir sem settar hafa verið niður hér í Reykjavík eru hér vegna þess að hingað eru ferðalög sæmilega auðveld frá öllum hornum landsins. Ef flugstarfsemi verður flutt frá Reykjavíkurflugvelli verður jafnframt að flytja þessar stofnanir þangað sem hægt er að nota þær. Þetta á sérstaklega við um sjúkrahús landsins.
Það er bara bull að flugvellir séu ekki í borgum eins og allir hafa séð sem hafa farið að heiman. Ronald Regan flugvöllurinn í Washington er t.d. í bakgarðinum á Hvíta húsinu.
Kolbeinn Ingi Arason (IP-tala skráð) 5.3.2011 kl. 16:13
Oft hefur þú nú talað af meira viti Ómar. Ég skil ekki þessa umræðu.
Málið snýst um peninga og hagkvæmni. Er það skynsamlegt af 300 þús manna þjóð af hafa tvo alþjóðaflugvelli með 30 km millibili? Ég er sammála því að það er þægilegra upp á tengingu landsbyggðar við höfuðborgina að hafa flugvöllinn þar sem hann er. Spurningin er hvort við teljum það réttlætanlegt. Komumst við ekki auðveldlega af með einn flugvöll á þessu svæði?
Hvað atvinnu fólks varðar þá er það aldrei réttlætanlegt til lengri tíma litið að það megi ekki breyta til að hagræða og þ.a.l. styrkja samfélag, því þá missi fólk vinnuna. Um þetta er sérfræðingar og hagfræðingar sammála. Heildin á alltaf að hafa forgang fyrir sérhagsmunum.
Hvað sjúkraflug varðar þá er það sjaldnast svo að sekúndur, mínútur eða jafnvel klukkustundir skipti máli ef nokkurn tímann. Þegar svo liggur við er notuð þyrla. Það er líka blákaldur veruleikinn að það er verðmiði á mannslífi í þessu samhengi. Annars hefðum við fullkomið sjúkrahús í hverjum landsfjórðungi.
Allt þetta tal um landrýmið sem skapast er svo bónus við það að flytja flugvöllinn.
Sjálfur er ég flugmaður og hef flogið víða um heim. Það er ekki svo að allsstaðar séu flugvellir við bæjardyrnar eða langt í burtu. Það er allur gangur á þessu. Reyndin er hins vegar sú að það skiptir okkur engu máli. Við eigum að skoða málið út frá því hvað er best fyrir okkur, á Íslandi. Það má svo bæta því við að oft er það þannig að flugvellir eru færðir út úr borgum vegna ónæðis. Svo byggist í kringum þá ný byggð vegna þess að þar er mikil atvinna og loks eru þeir aftur orðnir fyrir.
Sumir segja að það að flytja innanlandsflugið til Keflavíkur muni gera út af við það. Þessu er ég ekki sammála en bendi á sérhagsmunina og heildarhagsmunina sé þetta reyndin.
Það er rétt að það lengir ferðalagið til höfuðborgarinnar en það styttir líka ferðalagið þegar farið er til útlanda.
Á þessum tímum verðum við að spara og þá á ekki að vera með sérhagsmuni, sleggjudóma eða annað skítkast. Við verðum einfaldlega að velja það sem er hagkvæmast fyrir heildina þegar til lengri tíma er litið.
Vilmundur Friðriksson (IP-tala skráð) 6.3.2011 kl. 11:37
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.