10.3.2011 | 09:29
Góðar minningar um geimferðir.
Áður en Bjarni Tryggvason fór með geimferju út í geiminn frá Kanaveralhöfða fékk forseti Íslands að skoða aðra ferju að innan sem utan. Ég tók myndir af athöfn á undan og síðan af geimskotinu sjálfu á besta stað, af svölum forstjóra NASA í fylgd með forsetanum.
Í þessu ferðalagi kom vel í ljós sú sérstaða sem þjóðhöfðingjar landa njóta og hvernig þeir geta nýtt hana í smáu og stóru fyrir þjóðir sínar.
Þjóðverjar og Japanir stóðu að geimskotinu ásamt Bandaríkjamönnum, en á hátíðarsamkomunni á undan geimskotinu fékk forsetinn alla athyglina og sérstaka fyrirgreiðslu.
Alveg var bannað að fjölmiðlar ræddu við aðstandendur geimfaranna, en Ólafur Ragnar gerði mig þá bara að sérstökum "hirðljósmyndara" og kvikmyndatökumanni embættis síns, svo að ég fékk að taka upp einkaviðtal hans við forstjóra NASA og fylgja honum til viðtals við börn Bjarna Tryggvasonar.
Forsetinn gerði sér lítið fyrir og gerðist starfsmaður Sjónvarpsins með því að taka sjálfur sjónvarpsviðtal við börnin sem síðan var auðvitað sýnt hér heima.
Það var ævintýri að fá að fara inn í geimferjuna og setja sig í spor geimfaranna með forsetahjónunum.
Þjóðhöfðingjar okkar hafa gert mikið gagn undanfarna áratugi á erlendri grund.
Allir muna glæsileik og töfra Vigdísar Finnbogadóttur, fyrstu konunnar sem kjörin var þjóðhöfðingi í heiminum, og Ólafur Ragnar hefur á sinn hátt hrifið marga á erlendri grund með sínum glæsileik og færni.
Engar kvikmyndir geta lýst því að vera í návígi við geimferju, sem er skotið á loft. Sterkasta upplifunin er hávaðinn og titringurinn þegar jafnvel hin rammbyggðustu hús nötra við að kraftur eldflauganna leysist úr læðingi.
Discovery sest í helgan stein | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Ætli geimskot mengi ekki loftslagið ????
Gissur Jóhannesson (IP-tala skráð) 10.3.2011 kl. 10:12
Sennilega jafn mikið hlutfallslega og eitt stykki jólasteik valdi offitu.
Ómar Ragnarsson, 10.3.2011 kl. 17:16
Skemmtileg fyrirspurn hjá Gissuri sem er greinlega að grínast í Ómari, sem svarar alveg snilldarlega.
Góð fyrirspurn en enn betra svar.
Hef heyrt það að 100ára útblástur frá álveri eins og það sem er í Straumsvík skilji eftir sig álíka mikla flúormengun og eitt lítið túrista gos í Heklu.
Rafn Haraldur Sigurðsson (IP-tala skráð) 10.3.2011 kl. 17:35
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.