Vaðlaheiði? Já. Blönduós? Nei.

Gott er að heyra að Vaðlaheiðargöng séu að komast á rekspöl þótt það kosti víst upp undir tíu milljarða að gera þau. Þetta er þjóðþrifamál og mikil samgöngubót, 16 kílómetra stytting.

Slæmt er að heyra að ekki skuli vera hægt að hrinda í framkvæmd tíu sinnum ódýrari samgöngubót við Blönduós sem styttir mun fjölfarnari leið um 14 kílómetra. Langhagkvæmasta vegagerð á Íslandi.

Með styttingu vegar við Blönduós yrði þó ekki um það að ræða að fara með þjóðleiðina alfarið út úr Blönduósbæ, því að ný og styttri leið myndi liggja á rúmlega þriggja kílómetra kafla í Langadal um land Blönduósbæjar og þar væri hægt að reisa þjónustufyrirtæki fyrir umferðina,  til dæmis við vegamótin hjá nýrri brú á Mjósyndi við Fagranes.

Og ofangreindar tvær styttingar myndu stytta leið Húsvíkinga og annarra fyrir austan Akureyri um 30 kílómetra á leið til Reykjavíkur.

Tvær þingsályktunartillögur eru á döfinni á Alþingi.  Önnur um að flugvöllur verði í Reykjavík og hin um styttingu hringvegarins við Blönduós. 

Báðar eru algerlega fluttar með sömu rökum, þeim, að ekki sé um að ræða einkamál viðkomandi sveitarfélaga, Reykjavíkur og Blönduósbæjar, heldur miklir samgönguhagsmunir fyrir stærstan  hluta landsins. 

Þeir sem vilja helst ekki stytta norðurleiðina milli Reykjavíkur og Egilsstaða átta sig greinilega ekki á því að þessi leið er í samkeppni við suðurleiðina milli sömu staða og því munar um hverja styttingu á leiðinni þegar menn velja á milli. 


mbl.is Veggjaldið verður hóflegt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

. . . hvað hefurðu svona á móti Blönduósi, Ómar!? 14 km!!

Erum við að tala um, hvað, 9 mínútur?

Ég flutti á Blönduós fyrir tæpum 6 árum en ætlaði reyndar bara að vera hérna í 3-4 mánuði. Síðan hefur margt breyst hjá mér. Ég kynntist fólkinu, þessu yndislega fólki, sem gaf mér eiginlega ástæðu til að finna hamingjuna aftur og fyrr skal ég dauður liggja en að leyfa ykkur að drepa niður heilt bæjarfélag !!

Egill Þór Sigurgeirsson (IP-tala skráð) 9.3.2011 kl. 18:58

2 identicon

Ómar er enn með sömu pólitíkina. Hann sættir sig ekki við að sveitarfélög séu sjálfráða um skipulag á landi sínu. Hverjir eiga aðrir að sjá um aðalskipulag? Hver á að ákveða hvaða hlutar skipulags séu ekki á forræði sveitarfélags? Það sem mestu skiptir er auðvitað sú blákalda staðreynd að aðalskipulagi er best komið hjá viðkomandi sveitarfélögum, ekki í Reykjavík.

Er ekki margt skynsamlegra að gera við peningana áður en hringvegurinn er fluttur frá Blönduósi? Það má til dæmis leggja af einbreiðar brýr, leggja af slysagildrurnar, breikka hann, setja upp vegrið og svo framvegis. Tíma Ómars er betur varið í þá hluti en að berja á Húnvetningum.

Sigurdur Sigurdarson (IP-tala skráð) 9.3.2011 kl. 18:59

3 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ég sé á athugasemdunum að það eigi að vera einkamál Reykvíkinga að innanlandsflugið verði flutt til Keflavíkur. Og af hverju er ekki spurt hvað ég hafi svona mikið á móti Reykvíkingum að vilja að hagsmunir  hafi eitthvað að segja landsbyggðarinnar um það hvar flugvöllurinn sé. 

Á sínum tíma var mikil andstaða við það á Hellu að Suðurlandsvegur yrði fluttur á nýja brú fyrir sunnan þorpið en lægi ekki áfram í gegnum það.  Þar var aðeins um að ræða tveggja kílómetra styttingu.

Niðurstaðan var sú að Hellubúar fluttu þjónustufyrirtæki sín að nýju brúnni og í dag dytti engum í hug að fara aftur með veginn inn í þorpið. 

Ómar Ragnarsson, 9.3.2011 kl. 19:42

4 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Við erum að tala um meira en 9 mínútur, því að hraðinn er lækkaður í gegnum Blönduós.

Við erum líka að tala um að losa vegfarendur við ófærðar-, óhappa- og slysakafla yst í Langadal að vetrarlagi. 

Ómar Ragnarsson, 9.3.2011 kl. 19:46

5 identicon

Ég skil ekki þessa tilætlunarsemi Blönduósinga að ætlast til þess að ALLIR vegfarendur leggi 14 Km lykkju á leið sína í ölmususkyni.

Það er enginn að tala um að leggja eigi af vegtengingar til Blönduóss eða að Blöndósingar fái ekki lengur þungavarning og aðföng.

Ég hef gist og fengið góðan viðurgjörning á Blönduós á ferðalögum um Húnavatnssýslur. Í þeim tilvikum átti ég erindi þangað sem þjónustan var veitt og e-h kílómetrar skiptu engu máli.

En á reglubundnum ferðum mínum á milli Eyjafjarðar og Reykjavíkur hef ég aldrei átt erindi til Blönduóss og hef haft það fyrir reglu að kaupa þar aldrei þjónustu.

Þessi ramakvein Blönduósinga jafnast á við það að Búðdælingar og Borðeyringar berðust fyrir því að öll umferð fari um Bröttubrekku og Laxárdalsheiði í stað Holtavörðuheiðar, -til að tryggja vöxt og viðgang þjóðvegasjoppureksturs.

Stormur (IP-tala skráð) 9.3.2011 kl. 19:46

6 identicon

..."og hef haft það fyrir reglu að kaupa þar aldrei þjónustu" !

Þetta hefur mér fundist einmitt vera aðal rökin fyrir þessari styttingu ykkar ... en Ómar hefur komið, allavega 3svar sinnum til mín, og þá er ég bara að tala um MÍNA vakt :) !!

Ekki veit ég, Stormur, sem þorir ekki að koma fram undir nafni, hvað þú hafir heimsótt mig oft en ég hef grun um að þú hafir gert það oftar en þú segir ...

Egill Þór Sigurgeirsson (IP-tala skráð) 9.3.2011 kl. 20:16

7 identicon

Þá skilur maður bara ekkert í því hvernig líf þrífst á Hvammstanga.

Selfyssingar hafa líka margir áhyggjur af Selfossi, fari brúin austur fyrir bæinn. Ég veit ekki, - ætli þeirra þjónusta byggist nú svo mikið á því í dag að stunda greiða við gegnumrennslið, þótt vissulega hafi það stutt upphaf bæjarins. En meginástæðan var önnur...

Jón Logi (IP-tala skráð) 9.3.2011 kl. 20:18

8 identicon

Egill, -ert þú sjoppuhaldari í Enneinni vegasjoppunni á Blönduós?

Ef ég þarf að stoppa á leiðinni þá reyni ég að stoppa í Baulu eða Víðihlíð. Sá rekstur er aðlagaður þjóðveginum en þjóðvegurinn ekki aðlagaður sjoppunum.

Ég ímynda mér að Blönduós verði ljómandi skemmtilegur bær þegar hann hættir að minna á Glerárgötuna á Akureyri.

Ferðaþjónusta Blómstrar á Húsavík án Hringvegar og helsti ljóður á bænum er umferðin á/af Tjörnesinu.

Stormur (IP-tala skráð) 9.3.2011 kl. 20:35

9 Smámynd: Ómar Ragnarsson

30 kílómetra stytting leiðarinnar milli Reykjavíkur og Egilsstaða mun auka umferð en ekki minnka. Þetta er hagmunamál fyrir ökumenn frá öllum byggðum landsins, allt frá Reykjavík um Vesturland, Vestfirði, austur um til Skagafjarðar, Eyjafjarðar, Akureyrar, Norðausturlands allt til Egilsstaða. 

Á mót því standa þeir einu hagsmunir Blönduósinga að eitthvert lítið brot af umferðinni í gegnum land þeirra muni ekki versla í Kaupfélaginu, en meira en 90% af versluninni verði áfram innan bæjarmarkanna, bara á öðrum stað en nú við nýju brúna hjá Fagranesi. 

Á sumrin munu ferðamenn, sem hafa nógan tíma, halda áfram að koma til Blönduóss til að fara á tjaldstæðið góða, eða skoða annað merkilegt þar.

Hellubúar fengu styrk á sínum tíma til að setja upp nýja þjónustu við nýju brúna í bæjarfélagi þeirra. 

Það eru svo yfirgnæfandi hagsmunir varðandi samgöngubæturnar á hringveginum að styrkur til heimamanna er lítið brot af ávinningnum. 

30 kílómetra stytting er líka öryggismál.  Þetta eru 8% af leiðinni milli Reykjavíkur og Fnjóskadals og að öðru jöfnu því um að ræða 8% færri slys. 

Ómar Ragnarsson, 9.3.2011 kl. 20:40

10 identicon

Það er ekkert „einkamál Reykvíkinga að innanlandsflugið verði flutt til Keflavíkur“. Þeir ráða bara ekki meiru en aðrir um það hvar hann verður byggður upp á ný, Ómar. Svo er það ekki eðlilegt að bera saman höfuðborgina og 1000 manna bæ eins og Blönduós. Og þó - öll sveitarfélög bera ábyrgð á skipulagi sínu og þau ráða því. Er einhver ástæða til að breyta slíku fyrirkomulagi?

Hins vegar eiga Reykvíkingar að ráða skipulagi í borginni en ekki aðrir, því ef við tökum eitt og eitt atriði og undanskiljum það frá forráðum hvers sveitarfélags þá endar það með ósköpum.

Hvammstangi er 10 km frá hringveginum, því verður ekki breytt. Selfoss er á áhrifasvæði höfuðborgarinnar og eiga ekki við sömu erfiðleika að etja og flest sveitarfélög á landsbyggðinni. Hins vegar hafa margir Selfyssingar áhyggjur af verslun og þjónustu verði þjóðvegurinn fluttur.

En er ekki hægt að beina umræðunni að hringveginum sjálfum og öðrum vegum eins og um Vestfirði? Er ekki hægt að fá umræðu um að losna við slysagildrurnar, mjóu vegina og allt þetta sem geta valdið umferð skaða?

Sigurdur Sigurdarson (IP-tala skráð) 9.3.2011 kl. 20:43

11 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Gaman að vera 100% sammála þér Ómar.... svona einstöku sinnum

Hagkerfi Blönduóss snýst í þessu tilfelli um eina "vegasjoppu". Tap hennar má bæta með því að flytja hana að vegamótunum yfir Húnavallaleið, eins og Ómar bendir á.

Gunnar Th. Gunnarsson, 9.3.2011 kl. 23:09

12 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Ég hefði haldið að íbúar Blönduóss væru fegnir að losna við umferð sem er á hraðri leið í gegnum bæinn og skilar engu nema í þessari "vegasjoppu".

Gunnar Th. Gunnarsson, 9.3.2011 kl. 23:11

13 identicon

Yfirleitt eru útlendingar ánægðir með Íslandsferð. Þeir hafa hinsvegar mjög neikvæða mynd af sjoppu-ómenningu okkar. Ljót og sóðaleg húsakynni, óhollur og rándýr matur. Þessar sjoppur mættu hverfa, flestar ef ekki allar.

Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 9.3.2011 kl. 23:22

14 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ég er ekkert að tala um að taka skipulagsvaldið af sveitarfélögunum. Hins vegar hlýtur að geta komið að því að tröllauknir hagsmunir stangast á við mjög litla hagsmuni, sem þar að auki eru það litlir, að hægt er að bæta fyrir það.

Ég hef fært að því rök hér að ofan að tap Blönduósbæjar vegna færslu vegarins er stórlega ofmetið. Við Fagranes í Langadal yrðu vegamót sem yrðu eðlilegur staður fyrir þjónustu fyrir vaxandi umferð þegar leiðin verður styttri og kreppunni fer að linna. 

Ég kem oftast við á Blönduósi á ótal ferðum mínum um hringveginn af því að ég þekki marga þar og hef taugar til héraðsins. 

Auðvitað væri þægilegra fyrir mig að viðhalda gamalgróinni vináttu allt frá barnsaldri við fólkið á þessu svæði með því að samsinna hverju sem er, en ef það er svo að skilja, að ég verði "óvinur Húnvetninga númer eitt" eins og ráð mætti af ummælum hér að ofan, fyrir það að hafa skoðanir á þjóðþrifamálum, þá verður bara að hafa það. 

Ný brú yfir Blöndu, mitt á milli brúarinnar við Blönduós og brúarinnar við Syðri-Löngumýri, yrði samgöngubót innanhéraðs eins og allir sjá sem líta á kort. 

Það eru 35 kílómetrar á milli þessara tveggja brúa en sú nýja yrði frábær tenging á milli Langadals og Bakása og Svínadals. 

Ómar Ragnarsson, 10.3.2011 kl. 00:31

15 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Austfirðingar munu í auknum mæli velja Norðurleiðina, með tilkomu Vaðlaheiðarganga og styttingu hringvegarins um Húnavallaleið.

Fyrir Mið-Austurland (Reyðarfjörð) er nánast jafnlangt að fara í dag, norður og suðurleiðina til Reykjavíkur. Ég held að það muni ca. 10-15 km. af 665-680 km leið,  (Styttra að fara norðurleiðina), en sú leið er oftast erfiðari að vetrarlagi.

Ef og þegar þessi stytting verður á norðurleiðinni, með Vaðlaheiðargöngum og Húnavallaleið, þá mun umferð aukast um norðurleiðina frá Austurlandi, því þá erum við að tala um tæplega 50 km. styttri leið til Reykjavíkur. "Vegasjoppan" í umdæmi Blönduóss mun hagnast á því.

Gunnar Th. Gunnarsson, 10.3.2011 kl. 02:04

16 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

.... en svo á auðvitað að taka það til alvarlegrar skoðunar að gera heilsársveg um Mið -hálendið. Það myndi spara heilmikið, hvernig sem reiknað er, ekki síst í umferðaröryggi. 

En á það vilja öfga-umhverfisverndarsinnar ekki heyra á minnst.

Gunnar Th. Gunnarsson, 10.3.2011 kl. 02:11

17 identicon

Ég gleymdi að nefna það að talað hefur verið um viðnám höfuðborgarsvæðisins gagnvart Suðurstrandavegi. Þá þarf túristaflaumurinn nefnilega ekkert endilega að troðast í gegn um Reykjavík þegar hann kemur til og frá flugi.

Tja, skrítin þessi veröld.

Sjálfur bý ég rétt við No 1, og þarf margoft að fara yfir hann á hverjum degi. Það eru sjoppur báðum megin. Ég vildi óska að hann væri annars staðar, en það hentar hins vegar ekki.

Og Gunnar, - værir þú að tala um Sprengisand eða Kjöl? Það mætti nú laga aðeins hluta þar...

Jón Logi (IP-tala skráð) 10.3.2011 kl. 08:11

18 identicon

Ég verð nú að segja það sem Fellihýsa ferðalangur til nokkurru ára að mér hefur oft dottið í hug að æja við Blönduós eins það er fallegt þarna, en alltaf hætt við vegna þess að þjóðvegurinn, sem býður uppá ónæði,útblástur mengun,ryk,hávaða og óöryggi fyrir börnin er þarna alveg uppvið.

Ég hef ekki lyst á því að skoða Blönduós bæ nánar, vegna þess að í mínum huga er hann þjakaður af því að laða til sín alla trukka og þjóðvega umferð, hann er ekki ferðamannabær í þeim skilning að fólk sæki eitthvað annað þangað en það að þarna sé hringvegurinn í gegnum bæinn.. ekki beint aðlaðandi hugsun.

Þannig að í dag stoppar maður eingöngu þarna til að taka bensín, eða hugsanlega kaupa sér pylsu með öllu, ef ég tími því miðað við verðlagið í þessum þjóðvegabúllum.

Rúnar Ingi Guðjónsson (IP-tala skráð) 10.3.2011 kl. 08:23

19 identicon

Mikið er ég sammála Rúnari Inga. Lenti í þessu nákvæmlega sama. Leist ekkert á þetta tjaldstæði vegna umferðar og hávaða. Ekkert rómantístkt að grilla á kvöldin undir hljómleik umferðar og mengunar. Enduðum inná Skagaströnd og vorum ekki á leið þangað en kusum það frekar fram yfir gistingu á Bönduós.

Sigurður Hjaltested (IP-tala skráð) 10.3.2011 kl. 08:54

20 identicon

Rúnar Ingi og Sigurður eru alveg með þetta.

Blöndós yrði frábær áfangastaður ef plássið yrði losað undan áþján hringvegarins.

Í dag er tjaldstæðið þar álíka spennandi og umferðareyjan á Glerárgötunni og Enneinsjoppan á Blönduós er jafn áhugaverð og Olíssjoppan við Tryggvabraut.

Stormur (IP-tala skráð) 10.3.2011 kl. 09:37

21 identicon

Ég er að velta því fyrir mér hvað eigi að kalla Fagranes á eftir,verði farið að róta þar til vegna brúar og vegagerðar að ég tali nú ekki um sjoppubyggingar og allt það. Að öðru leiti er ég alveg hlutlaus í málinu.

Gissur Jóhannesson (IP-tala skráð) 10.3.2011 kl. 10:06

22 identicon

Verð að segja það, að niðurlægjandi ummæli Gunnars Th. Gunnarssonar um að verið sé að verja hagsmuni einhverrar sjoppu á Blönduósi ná alveg tilgangi sínum. Þau eru einfaldlega niðurlægjandi og benda aðeins til þess að hann skilur ekki frekar en margir aðrir þýðingu þjóðvegarins fyrir Blönduós og byggðir í Austur-Húnavatnssýslu. Allir sem eitthvað vinna í ferðamálum vita að hringvegurinn er mikilvæg auðlind fyrir sveitarfélag en það er svo annað mál hvernig tekst að vinna úr þeim. En ferðaþjónustan er ekki öll skýringin. Blönduós nýtur góðs af því að vera í alfararleið.

Hins vegar sé ég ekki hina „tröllauknu“ hagsmuni á því að stytta þjóðveginn um 14 km framhjá Blönduósi. Hvernig ætti að lýsa þeim hagsmunum sem í því eru fólgnir að gera hringveginn hættulausan, útrýma einbreiðum brúm, seteja upp vegrið, breikka hann og svo framvegis. Þeir eru einfaldlega tröllauknir en styttingin framhjá Blönduósi algjört aukaatriði í samanburðinum.

Sigurdur Sigurdarson (IP-tala skráð) 10.3.2011 kl. 10:15

23 Smámynd: Guðmundur St Ragnarsson

Það er hættulegt að vera með einhlýta sýn á málið og horfa ekki á málið frá fleiri hliðum en einni. Þú fellur í þá gryfju hér Ómar eins og títt er um íslenska stjórnmálamenn. Og eins og títt er um íslenska stjórnmálamenn er það viðtekin venja að valta yfir minnihlutahópa og fá atkvæði. Hagsmunir Blönduósinga skipta engu máli virðist vera.

Mér finnst næsta ótrúlegt að þú og aðrir fjallið meira um þessa örfáu kílómetra sem það kostar að henda Blönduósi út úr hringveginum heldur en byggingu Sundabrautar. Það mætti halda að stytting hringvegarins um örfáa kílómetra með röskun fyrir Blönduós skipti mestu máli í samgöngumálum landsins. Svo er ekki Ómar. Hvað um að eyða einbreiðum brúm á hringvegi eitt. Hvað um að breikka þjóðveg nr. 1? Nei nei nei. Blönduós skal úr þjóðbraut hvað sem tautar og raular og Sundabraut og einbreiðar brýr, hvað er það?

Svo ertu að bera Blönduós saman við Hellu. Hvað er það? Það þurfti að færa sjoppuna á Hellu um nokkra metra og þjóðvegurinn gengur ennþá í gegnum það sveitarfélag þannig að samanburðarfræðin er á miklum villigötum hjá þér Ómar. Að segja að þú hafir taugar til héraðsins virðist einnig vera talsverð öfugmæli.

Guðmundur St Ragnarsson, 10.3.2011 kl. 11:45

24 Smámynd: Rúnar Ingi Guðjónsson

Þá spyr ég þig Guðmundur, Hvaða hagsmunum Blönduósinga er verið að varpa fyrir róða?

Það er búið að tala um sjoppurekstur og færa rök fyrir því að menn stoppi helst ekki á Blönduósi, nema til að versla í N1, og þá oftast bara bensín til að bruna burt úr bænum aftur?

Það er líka búið að færa rök fyrir því að það sé fallegt í Blönduósi, en Þjóðvegurinn skemmi ímynd Blönduós það mikið það sé ekki spennandi að eyða þar nokkrum dögum til að kynnast staðnum betur?

Ég get ekki betur séð en að þetta sé tækifæri fyrir Blönduós til að verða fallegur ferðamannabær, í staðinn fyrir að vera þjóðvegabær, eins fráhindrandi eins og það hljómar.

Rúnar Ingi Guðjónsson, 10.3.2011 kl. 11:53

25 identicon

Þjóðvegurinn á Hellu er t.a.m. með alla íbúabyggðina öðrum megin vegar. Það var vandamál með að Heshúsahverfið var öðrum megin en aðstaðan á Gaddstaðaflötum hinum megin, það var leyst með göngum undir veginn.

En áður þræddi vegurinn sig í gegnum allt þorpið. Nú er hann þó þar sem hann verður.

Á Blönduósi hef ég einu sinni stoppað. Til að kaupa rúðupiss :D En ég hef heyrt að þar sé t.d. gott tjaldsvæði og öll þjónusta. Fínt fyrir ferðamanninn.

Jón Logi (IP-tala skráð) 10.3.2011 kl. 13:26

26 identicon

Við losnum ekki við illviðrið, færum bara umferðina úr illviðrum í vestanverðum Langadal uppí illviðrin undir Axlaröxl og Sauðadal. Auk þess vil ég benda á; að þeir sem eru að flýta sér geta nú þegar farið Reykjabraut-Orrastaðaflóa-Svínvetningabraut, eða Reykjabr.-Auðkúluveg niður í Langadal...

valdemar (IP-tala skráð) 10.3.2011 kl. 16:53

27 identicon

Valdemar, hvað nær maður í styttingu? Ef eitthvað er að viti, þá vantar bara slitlag, en undirlagið sýndist mér nú víða vera nokkuð gott, - hehe, alla vega betra en í Landeyjum...

Jón Logi (IP-tala skráð) 10.3.2011 kl. 17:31

28 identicon

Logi minn, þú ferð bara upp Reykjabraut, eins og þegar þú komst til mín. Svo áfram austur, ofaní Blöndudal og síðan Langadal rétt við Húnaver !

Styttingin er 14 km.

Slitlag, já. Undirlagið er fínt á Reykjabraut og hún verður malbikuð innan skamms. Orrastaðaflóinn er ný-uppbyggður en mjór. Svínvetningabraut er nær tilbúin undir slitlag. Þá er eftir smáspotti frá fremri Blöndubrú að þjóðvegi 1, ágætur vegur.

Bestu kv. Valdemar.

valdemar (IP-tala skráð) 10.3.2011 kl. 18:12

29 identicon

Ég má til með að nefna umhverfisspjöllin sem yrðu við lagningu "Húnavatnsleiðar". (Húnavatnsleið er reyndar aulanafn, enda kemur meintur vegur hvergi nærri Húnavatni, en hinsvegar við enda Svínavatns.)

Mig langar hreint ekki að sjá hlíðina f. ofan Brekkubæina og Axlarbæina sundurskorna. Þá ekki Sauðadalinn með nýtt 70 metra breitt vegarstæði rétt sunnan Reykjabrautar. Og Orrastaðaflóinn með sitt fjölbreytta fuglalíf á að fá að vera í friði, takk ! Svo og hálsinn sunnan og austan Tinda.

valdemar (IP-tala skráð) 10.3.2011 kl. 18:19

30 identicon

Hva, þú ert bara með'etta! Það þarf bara að rúlla á þetta, laga aðeins vegamót og merkja vel, þá kemur þessi stytting mjög ódýrt út jafnframt því að verður til mikilla bóta fyrir þetta svæði, sem kom mér einmitt mjög skemmtilega á óvart. Og fyrir heimamenn að sjálfsögðu, og opnar möguleika t.d. í ferðaþjónustu.

Hvar er næsti flugvöllur (eða alvöru slétt tún) annars frá þér talið? 

Jón Logi (IP-tala skráð) 10.3.2011 kl. 21:57

31 identicon

Því meira sem þjóðvegur 1 er styttur því betra. Það má líka stytta leiðina í gegnum Skagafjörðinn skilst mér og þá þannig að í stað þess að fara niður í Varmahlíð þá sé farið um svokallaða Efribyggð ofan við Álftagerði ( veit ekki alveg hvar Ómar veit það kannski ) og svo yfir Héraðsvötnin á móts við Uppsali eða Kúskerpi.   Ég stoppa aldrei á tjaldstæðinu á Blöndós einmitt vegna þess að þjóðvegur 1 liggur þar við og aldrei í sjoppunni nema í neyðartilfellum. Hún er einfaldlega á óaðlaðandi stað, ekkert skjól að finna og traffíkin beint í nefinu á manni. Væri hún færð t.d við endan á Svínavatni á Húnavallaleið mundi ég alltaf stoppa enda gullfallegt svæði og þá leið ek ég alltaf á sumrin alveg slétt sama um malarveginn. Það er einfaldlega fallegri og skemmtilegri leið að fara. Stór mistök voru gerð hins vegar þegar Háreksstaðaleið var gerð að fara um Vegaskarð semlengdi hringveginn að mig minnir um 7 km en hefði getað stytt hann verulega með því að fara í næsta skarð fyrir utan og koma nánast beint að Biskupshálsi. Og þegar um hringveg og lífæð landsins er að ræða eiga hvorki lítil eða stór sveitarfélög að hafa neitt um það að segja og flugvöllurinn á að vera í Reykjavík og hvergi annars staðar á þeim slóðum.

(IP-tala skráð) 10.3.2011 kl. 22:21

32 Smámynd: Dexter Morgan

Blönduósingar, bæjarstjórnin þar og aðrir húnvetningar eiga að sýna svolitla kænsku í þessu máli, akkúrat núna.

Látið Ríkið afla allra þeirra leyfa sem þarf, og greiða götu þess, ásamt sköffun á raforku og skattaíviljunum fyrir byggingu á Orkuverinu sem er komið á teikniborðið rétt ofan við bæinn.

Þá má þessi fjandans vegur fara hvert á land sem er, mín vegna. Búsetan á Blönduósi yrði tryggð, með 6-700 föstum störfum og allt að 2000 störf meðan uppbygginginn á sér stað.

Dexter Morgan, 10.3.2011 kl. 22:53

33 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Nýja brúin á Hellu var sett 1,5 kílómetra frá þeirri gömlu, ekki nokkur hundruð metrum frá.

Þegar hún var sett var engin byggð nálægt henni, en auðvitað færðist byggðin nær nýju brúnni þegar hún var komin og þjónustufyrirtækin fluttu sig þangað. 

Núverandi Svínvetningabraut er að mestu holóttur og mjór malarvegur sem fer upp í 260 metra hæð við norðanvert vatnið.  Ef þessi vegur yrði lagður á betri stað og gerður jafn góður og hringvegurinn myndi þessi stytting nýtast og þá yrði rekið upp sama ramakveinið og nú út af Blönduósi og ekki bara það, sá vegur myndi ekki liggja um land Blönduósbæjar eins og Húnavallaleið myndi gera með þeim möguleikum sem bjóðast til að viðhalda þjónustufyrirtækjum fyrir umferðina innan bæjarmarkanna. 

Er með ólíkindum að þeir sem vilja flengja umferðinni út að ósum Blöndu vilji frekar fara þessa leið en Húnavallaleið.

Ómar Ragnarsson, 11.3.2011 kl. 00:14

34 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Rangt er farið

með hér að ofan hvað varðar lengd Svínvetningabrautar. Hún er aðeins 6 kílómetrum styttri en hringvegurinn vegna þess hvað hún er krókótt og hvað brúin hjá Syðri-Löngumýri er sunnarlega og þarf að krækja langt í suður til að fara yfir hana. 

Af öllum þessum orsökum er ekki ávinningur að fara þessa leið eins og hún er nú. 

Upphaflegu hugmyndirnar um styttingu hringvegarins gerðu ráð fyrir að leggja alveg nýjann veg mestalla þessa leið og gera nýja brú yfir Blöndu fyrir utan Ytri-Löngumýri. 

Þetta yrði mun lengri nýr vegur og brúin auk þess of nálægt brúnni við Syðri-Löngumýri til þess að hún nýtist eins vel og brú í miðjum Langadal fyrir innanhéraðssamgöngur. 

Ómar Ragnarsson, 11.3.2011 kl. 00:41

35 identicon

Miðað við núverandi bensínverð, eyðir bíllin minn fyrir 30 kr á kilometer og viðhald og annar kostnaður er um 15 kr á kilómeter.

Því kostar ein ferð fram og til baka td, Reykjavík Varmahlíð 1260 kr meira með því að fara í gegnum Blöndós.

Reikni maður sér tímakaup, þá bætist álíka við.

Semsagt það kostar um 2500 kr. að keyra í gegnum Blöndós, sem er meira en að keyra í gegnum Hvalfjarðargöngin.

Jonas kr (IP-tala skráð) 11.3.2011 kl. 11:21

36 identicon

Smá leiðrétting.

"Semsagt það kostar um 2500 kr. að keyra í gegnum Blöndós, sem er meira en kostar að keyra í gegnum Hvalfjarðargöngin."

Jonas kr (IP-tala skráð) 11.3.2011 kl. 11:27

37 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Jón Logi, mig minnir að einkaaðili hafi viljað gera heilsársveg um Sprengisand. Umhverfisverndarsinnar voru á móti því.

Gunnar Th. Gunnarsson, 11.3.2011 kl. 13:12

38 identicon

Það er nú svona malarvegur. Hægt að fara á sumri. Bara laga soldið ;)

Sama með kjöl.

En aðal vandinn er ekki efst ef ég man rétt, heldur þar sem snjólína hefst fyrir alvöru. Þar þarf mokstur til að halda opnu.

Jón Logi (IP-tala skráð) 11.3.2011 kl. 18:34

39 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Ekki segja þeir sem gerst þekkja þarna, Jón Logi. Vissulega eru illviðri þarna, en ekki svo snjóþungt og með vel uppbyggðum vegi á ófærð að vera þarna minna vandamál en á flestum fjallvegum landsins.

Gunnar Th. Gunnarsson, 11.3.2011 kl. 20:56

40 identicon

Ja, sko, þú hugsar norðan megin, og ég sunnan megin, þar er nokkur munur á.

Þar sem regnáttin er ríkjandi að sunnan eða suðaustan er þétting raka yfir í fönn (nú eða að sumri, rigningu) háð rakastigi, og hæð/hita, sem haldast gjarnan hönd í hönd. Svo kemur að þeim punkti þar sem þétting verður á raka og hann fellur til jarðar sem úrkoma.

Þetta gerist sunnan megin að mestu en ekki öllu leyti. Það er sem sagt oft meiri ofankoma rétt ofan við uppsveitir heldur en þegar hátt er komið.

Einmitt þess vegna eru stærstu jöklarnir SUNNAN megin á skerinu.

Fattarðu?

Jón Logi (IP-tala skráð) 11.3.2011 kl. 22:05

41 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Já, en snjókoma þarf ekki að þýða ófærð, ef vegurinn er uppbyggður. Vindurinn sér til þess.

Gunnar Th. Gunnarsson, 12.3.2011 kl. 01:22

42 identicon

Þá ertu líka að tala um mjög mikið af $$$ í hæðóttu landi, nú eða nýtt vegstæði og krókótt sem eltir alla hryggi, - en þá þarf líka að taka með í reikninginn hvar farið er yfir ár. Þetta er (hérna megin) ekki eins einfalt og virðist.

Sæmilegur vegur, margfalt betri en nú, sem er frostfrír og opinn stóran hluta ársins er hins vegar ekki svo svakalegt mál. Ætti nú ekki að standa í kokinu á umhverfisverndarsinnum að lappa svolítið vel upp á það sem er til.

Var á vondum vegi í gær við Sólheimajökul. Maður er alveg hissa á því hvað venjulegar rútur eru að láta sig hafa. En bílstjórinn var nú reyndar eldri en tvævetur.

Hlakka svo  til að fara Kjöl í sumar ;)

Jón Logi (IP-tala skráð) 12.3.2011 kl. 10:28

43 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Rök umhverfisverndarsinna voru þau að með bættum vegi, þá ykist umferð um "ósnortið víðernið" og vörubílar voru þeim sérstakur þyrnir í augum. Umhverfisspjöllin vegna þeirra (hávaðinn) átti að þeirra sögn að eyðileggi hálendiskyrrðina.

Gunnar Th. Gunnarsson, 12.3.2011 kl. 13:29

44 identicon

 Það er reyndar rétt hjá þeim. Ef sett væri upp alvöru veglína bæði yfir Sprengisand og Kjöl, og þungaflutningar myndu leita í þá áttina, þá er með ólíkindum hversu langt þarf að leita til að finna kyrrð.

En það er hægt að skælast þessar leiðir á fólksbílum og rútum nú þegar. Það dregur alltaf úr umferð þegar vegurinn er alger öxulbrjótur, en opnunin er til staðar. Væru þessar leiðir sæmilegir malarvegir í stað einhvers óhroða, þá væri aðal-aukningin frekar í formi rútuferða, og svo ákveðnir flutningar.

Væru þetta á hinn bóginn alvöru uppbyggðir vegir, þá væri það örugglega svona "truck-shortcut 'a la cruise"

En við þurfum svo sem ekki að hafa áhyggjur af slíku núna....það þarf að skatta sunnlendinga sér og spes fyrir það eitt að vilja vegbót á kafla Hellisheiðar...........

Jón Logi (IP-tala skráð) 12.3.2011 kl. 21:17

45 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Við ákveðnar aðstæður berst hávaði langar leiðir... ekki bara frá vörubílum heldur einnig jeppum, vélsleðum og flugvélum.

En ekki þykja mér þeir sérstaklega "umhverfisvænir", þessir rykslóðar á Sprengisandi og á Kyli.

Gunnar Th. Gunnarsson, 12.3.2011 kl. 22:00

46 identicon

Þarna hittirðu naglann á höfuðið. Það ERU nefnilega hálendisvegir. Á sumrin ERU rútur með túrista að hnoðast og skrölta þessa vegi. Það er minni gauragangur ef vegurinn er betri. Og þegar vegirnir eru of slæmir fyrir almenna bíla og venjulegar rútur, þá eru jeppamenn allsráðandi á þessum leiðum.

Kyrrðin, svo langt sem hún nær, gerir engum neitt ef enginn kemst að henni. Og það verður minna um hana ef þarf að þenja tryllitækið yfir hverja ófæruna á fætur annari.

Það eru svæði á Íslandi, þar að auki, sem þyrfti að opna aðeins betur fyrir ferðamenn. Þessir algengari staðir eru orðnir alveg stappaðir yfir sumarvertíðina. Við eigum mikla möguleika. Austurland, Hálendið, og Vestfirðir eiga gífurlega möguleika.

Jón Logi (IP-tala skráð) 13.3.2011 kl. 08:07

47 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Sammála, en þá verður líka að mega gera eitthvað varðandi vegi, þjónustu og slíkt.

Fyrir munka og meinlætamenn verður áfram hægt að finna óröskuð svæði.

Gunnar Th. Gunnarsson, 13.3.2011 kl. 12:09

48 identicon

Einföld grunnþjónusta og einhver stoð við öryggisatriði (sími o.þ.h.) þarf ekki að valda neinu raski sem nemur.

Væri jafnvel hægt að hafa hana í fornum stíl. Dettur í hug....Sænautasel. Langar alltaf að komast þangað.

Jón Logi (IP-tala skráð) 13.3.2011 kl. 12:55

49 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Í fornum stíl... í símaþjónustunni þá? Löng, stutt, stutt, löng?

Gunnar Th. Gunnarsson, 13.3.2011 kl. 14:57

50 identicon

Hehe, eða sveitasími, og allir að hlusta :D

Nei, ég meina nú bara að bensínsjoppa getur allt eins litið út eins og krúttlegt sel eða fjallaskáli eins og einhver stálglerjaður andans geldíngskassi frá annari plánetu. Og GSM sendir þarf kannski ekki að vera æpandi sýnilegur alltaf....

Jón Logi (IP-tala skráð) 13.3.2011 kl. 15:27

51 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Algjörlega sammála

Gunnar Th. Gunnarsson, 13.3.2011 kl. 16:14

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband