13.3.2011 | 18:40
Rúmrar hálfrar aldar þýsk hefð.
Þjóðverjar gáfu ákveðinn tón á HM í knattspyrnu 1954 um það að tapa ekki tveimur leikjum í röð gegn sama landsliðinu og þeirri hefð var við haldið í Halle í dag .
1954 var ungverska landslið það langbesta í heiminum og hafði meðal annars burstað Englendinga á Webley 7:3 og var þó eitt mark dæmt ranglega af Ungverjum vegna þess að sókn þeirra var svo hröð að dómarinn áttaði sig ekki !
Þjóðverjar og Ungverjar drógust saman í riðil og Ungverjar völtuðu yfir Þjóðverja 6:3. Á þessum tíma gat það gerst að lið lentu tvisvar móti hvort öðru og Ungverjar léku til úrslita við Þjóðverja.
Þá brá svo við að Þjóðverjar unnu með eins marks mun og frumsýndu þar með þýsku seigluna að gefast helst aldrei upp og að ekki sé til umræðu að tapa tvisvar fyrir sama mótherja í áríðandi leik í stórmóti.
Það er eins og þetta sé sálrænt, ekki bara hjá Þjóðverjum, heldur líka mótherjum þeirra sem virðast orðnir vanir þessu.
Það er sjaldgæft að Guðmundur þjálfari taki jafn snemma fyrsta leikhlé í svona leik en það varð hann að gera því að íslenska liðið var gersamlega heillum horfið.
En allt kom fyrir ekki og það var ekki vonum fyrr að flautað var til leiksloka áður en markamunurinn yrði enn meiri.
Og þá er bara að taka því, bíta á jaxlinn og segja: Það gengur betur næst!
Ellefu marka skellur í Halle | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Þess ber þó að geta að vísbendingar (ekki sannanir) eru um að Þjóðverjar hafi gefið nokkrum af sínum leikmönnum sprautu fyrir umræddan úrslitaleik. Hvað til er í því skal ósagt látið, en margt það sem kallað er dóp í dag var fullkomlega löglegt á þeim tíma. En nokkrir leikmanna liðsins fengu það sem kallað er Pervitin (örvandi lyf sem er betur þekkt undir nafninu SPEED í dag) sem hafði þær aukaverkanir að húðin varð gul sem henti einmitt nokkra leikmenn þýska liðsins eftir HM.
Í ljósi tíðarandans og lyfjasögu bræðra þeirra í austri þá veit maður ekki hvað er satt og hvað er logið. Sagan er allavega ekki ótrúverðug í ljósi þess að Ungverska liðið gersigraði alla andstæðinga sína á þessum tíma - en kanski voru þeir líka búnir að fá heilsusprautur. Hvað veit maður?
Valgeir , 15.3.2011 kl. 11:54
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.