13.3.2011 | 19:19
Sagan endurtekur sig.
"Að hika er sama og að tapa" segir grimmt máltæki, og það virðist ætla að eiga við um viðbrögð þjóðasamfélagsins gegn grimmdaræði og vitfirringu Gaddafis. Þrátt fyrir stór orð í upphafi um að láta hann ekki komast upp með að taka miskunnarlaust á uppreisnarmönnum hefur skort samstöðu um aðgerðir og komið hefur hika á suma.
Þetta nýtir Gaddafi sér til hins ítrasta og stefnir auðvitað að því að vera búinn að ganga milli bols og höfuðs á uppreisnarmönnum áður en tekist hafi samstaða um aðgerðir gegn honum sem duga.
Uppreisnarmönnum voru gefnar ákveðnar vonir um utanaðkomandi aðstoð í upphafi en í ljós hefur komið að engin innistæða var á bak við hin stóru orð ýmissa þjóðarleiðtoga.
Leiðarahöfundur Morgunblaðsins hefur rétt fyrir sér þegar hann gagnrýnir að með þessu hafi verið gefin óraunhæf von.
Sagan geymir ótal dæmi um hliðstæður. Þegar Ítalir réðust inn í Abbesyníu 1935 vantaði ekki fordæmingu þjóðarleiðtoga á athæfinu en máttlausar viðskiptaþvinganir voru það eina sem gert var og breyttu engu.
Franco gerði uppreisn gegn rétt kjörinni lýðræðisstjórn á Spáni 1936 og gagnrýnisraddir Breta og Frakka reyndust máttlaust gelt. Hitler og Mussolini voru ófeimnir við að leggja Franco lið og höfðu sigur 1939.
Mussolini réðst á Albaníu vorið 1939 án þess að Vesturveldin hreyfðu legg né lið og ekkert bitastætt var gert þegar Hitler tók Tékkóslóvakíu í mars sama ár.
Grimmir harðstjórar hafa jafnan sallað niður andspyrnumenn og murkað úr þeim lifið til þess að vekja skelfingu og óttablandna undirgefni.
Hitler losaði sig við Röhm og SA-lið hans á "nótt hinna löngu hnífa" 1934, lét myrða íbúa þorpsins Lidice í Tékklandi til að hefna morðs á Heydrich og drepa uppreisnarmenn í ágúst 1944 á hryllilegan hátt.
Stalín losaði sig við milljónir og lét drepa megnið af herforingjum og liðsforingjum Rauða hersins í hreinsununum hræðilegu skömmu fyrir stríð með þeim afleiðingum að Rauði herinn var að miklu leyti höfuðlaus her þegar Hitler réðst á Sovétríkin 22. júní 1941.
Það var Stalín sem mælti hin fleygu orð: "Dráp á milljónum er bara tala, dráp á einum manni er morð"
Eitthvað í þessa veru mun væntanlega verða í huga Gaddafis þegar hann gengur á milli bols og höfuðs á öllum þeim sem hatursæði hans mun beinast gegn.
Sveitir Gaddafis hreinsa landið | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Sæll þetta er sárara en orð taki hvað þjóðir heimsins eru lélegar þegar á hólminn er komið!
Sigurður Haraldsson, 13.3.2011 kl. 20:54
Þú hefðir nú alveg mátt minna á það að Grikkir hröktu Mussolini frá Albaníu á tæplega hálfu ári.
Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 13.3.2011 kl. 22:32
Það var skammgóður vermir því að Hitler skar Mussolini niður úr snörinni með því hertaka allan Balkanskagann á örfáum vikum vorið 1941.
Ómar Ragnarsson, 13.3.2011 kl. 23:45
Mér finnst nú að vesturveldin ættu aðeins að pikka í kallinn og jafna stöðuna svolítið.
Flugbannið gerir eitthvað, en hann gæti unnið þetta með vélaherdeildum sínum. Ef það er eitthvað sem mætti aðeins höggva í, þá eru það þær. Fljótlegt úr lofti.
By the way, mesti skriðdrekaslátrari seinna stríðs var flugmaður. Yfir 500 stykki takk.
Og Þorsteinn okkar Jónsson á heiðurinn af eyðingu einnar lestar af skriðdrekum, - hann skaut eimreiðina í spað svo að úr varð algert stopp, og kallaði svo út árásarvélar til að rjúfa bryntröllin.
Jón Logi (IP-tala skráð) 14.3.2011 kl. 07:40
Já, Stuka steypflugvélarnar urðu afar skæðar gegn skriðdrekum Rússa þegar leið á stríðið, næstum eins skæðar og þýsku skriðdrekarnir.
Ómar Ragnarsson, 14.3.2011 kl. 20:55
Gunther Rall sat inni með Rudel, skriðdrekabana, í sinni Bresku "gistingu" eftir stríð. Rudel var einfættur orðinn, með gerfifót (Douglas Bader skoðaði víst smíðina og gaf góð ráð). En hann var enn alveg í stuði til að halda áfram í tuskinu, langaði helst að skjóta meira.
Rall sagði hann hafa verið "snargeggjaðan"!
(maðurinn sem eyðilagði 275 flugvélar fyrir andstæðingnum + 8 hjá sjálfum sér)
Jón Logi (IP-tala skráð) 15.3.2011 kl. 09:03
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.