Hvað sést á myndinni af Frúnni?

557921.jpg

Það er skemmtileg tilviljun hvar myndin er tekin af TF-FRÚ, sem fylgir frétt um vélina á mbl.is.

Myndina tók RAX af vélinni þar sem hún stendur á flugbraut, sem nú er á 45 metra dýpi í leirpytti þeim, sem nefnist Hálslón, 45 ferkílómetrar og 25 kílómetra langt. 

Í baksýn er hinn grængróni Háls, sem lónið er kennt við, en er nú kominn á kaf í vatn og leir. 

Hann var 15 kílómetra "Fljótshlíð íslenska hálendisins" með nokkurra metra þykkum jarðvegi og fóru 40 ferkílómetrar af grónu landi þarna á hálendinu undir vatnið. 

Yfir Hálsinum gnæfir Snæfell fjær. 

Þótt ég hefði fengið bréflegt leyfi Náttúruverndarráðs til að lenda flugvél þarna og ekki væri hægt að finna nein för eftir það var ég kærður fyrir það í beinni sjónvarpsútsendingu nokkrum dögum fyrir kosningarnar og fylgdi með í fréttinni að við þessu lægi allt að 2ja ára fangelsi. 

Í kjölfarið fylgdi viðamikil rannsókn og málarekstur sem stóð út það ár þar til málið var látið niður falla. Héðan af verður ekki hægt að taka það upp vegna þess að á hverju ári sest þykkt leirlag ofan á þennan stað uns dalurinn verður fullur af drullu. 

Öll sú saga verður óborganlega fyndinn kafli í heimildarmyndinni "Örkin" þegar hún verður gerð, hvenær sem það verður. Kaflinn gengur undir vinnuheitinu "Vatnssósa Rósa" sem var gælunafn sem ég gaf Feroza-jeppa sem leikur aðalhlutverkið í kaflanum og gefur Christinu í sögu Stephen King ekkert eftir. 

Er sá kafli reyfarakenndur í meira lagi. Við sögu koma Árni Kópsson, tveir ráðherrar og Örkin og hefði enginn skáldsagnahöfundur getað látið sér detta annað eins í hug. 

Þessi kafli verður nauðsynlegur til að vega upp á móti öðrum köflum myndarinnar, sem eru heldur dapurlegri. 


mbl.is Frúin flýgur ekki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband