22.3.2011 | 12:52
Hafa aldrei upplifað Dynk.
Fossinn Dynkur í Þjórsá er eitt best varðveitta leyndarmál íslenskrar náttúru, enda full þörf á, ef fyrirætlanir um Norðlingaöldu eiga að ganga fram.
Forsenda fyrir virkjun Þjórsár fyrir ofan fossinn er sú að hann sé óþekktur og óaðgengilegur, enda hefur það þegar borið þann árangur að hópur um áhrif ferðamennsku á svæðið undir hatti Rammaáætlunar telur áhrifin lítil, vegna þess hve fáir hafi komið á svæðið fram að þessu!
Dynkur á fullu afli er að mínum dómi flottasti stórfoss Íslands vegna hins einstæða útlits síns, en hann er samansafn um tuttugu fossa á tveimur stöllum í sama fossstæðinu.
Um 1920 voru uppi áætlanir um virkjun Gullfoss, sem hefðu valdið meiri umskiptum í þjóðhagslegu tilliti en nokkur önnur virkjanaframkvæmd, vegna þess að landið var vegalaust, að mestu leyti án rafmagns og meirihluti sveitabæja enn torfbæir.
Nú malar Gullfoss meira gull en hann hefði gert ef hann hefði verið virkjaður.
Þegar er búið að taka allt að 40% af afli Dynks í burtu með svonefndri Kvíslaveitu þannig að afl hans og hávaðinn, sem hann er kenndur við, njóta sín sjaldan. Dynkur og Gljúfurleitarfoss, sem er skammt fyrir neðan Dynk, eru hvor um sig jafnokar Gullfoss að stærð og möguleikarnir til að nýta sér það eru fyrir hendi og dreifa þar með betur en nú er ferðamannaumferð um þetta svæði.
En á það má ekki minnast, því að þá er hætta á því að þeim verði bjargað eins og Gullfossi á sínum tíma.
Að lokum má geta þess að blaðamaður, sem hefur farið um allan heim til að skoða fossa og kom hingað til lands fyrir áratug, telur Hraunfossa í Borgarfirði merkilegustu fossa Íslands, einfaldlega vegna þess að engir aðri slíkir finnist í heiminum.
Það þýðir hið sama og um Gullfoss, að stærðin er ekki aðalatriðið, heldur það hversu sérstætt náttúrufyrirbrigði eru.
Gullfoss með fallegustu fossum heims | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Sæll Ómar, satt segir þú, Gullfoss er fallegur, en ennþá fegurri er Dynkur i Þjórsá. Síðast liðir haust var aðgengið að honum lagað inn eftir Búðarhálsi og er það nú nokkuð gott fyrir alla jepplinga og hvet ég fólk á komandi sumri að gera sér ferð þarna uppeftir. Ganga með Þjórsá á þessum slóðum er ógleymanleg og þá á ég við á eystri bakka árinnar, þar getur maður gengið út í sjálfan fossinn á blettum.
Jórunn Eggertsdóttir (IP-tala skráð) 22.3.2011 kl. 16:43
Hef lengi haft taugar til Dynks eftir að eg sá mynd af honum. Hef aldrei komið þangað enda er ekki aðkoman greið.
Nú er hver að verða síðastur að bjarga Dynk. Honum verður að bjarga frá græðgi stórgróðamanna sem aldrei virðast fá nóg!
Mosi
Guðjón Sigþór Jensson, 22.3.2011 kl. 21:09
Það er íhugunarefni, þessi nafngift. "Stórgróðamenn".
Því ekki hefur nú beinlínis verið stórgróði á stórgróðamönnunum....
Jón Logi (IP-tala skráð) 22.3.2011 kl. 22:19
Hérna er flottur hlekkur með mynd af þessum fossum:
http://photo.blog.is/blog/photo/entry/935165/
Jón Logi (IP-tala skráð) 23.3.2011 kl. 12:15
Vissulega er Gullfoss fallegur og Dynkur ekki síðri. Eftir áratuga þvæling um landið, sem einstaklingur og sem leiðsögumaður, get ég ekki afgreitt einhvern einn foss sem þann fallegasta, en það eru margir sem koma til greina. Flestir ef ekki allir fossar landsins heilla, en hver á sinn hátt, allt eftir árstíð, birtuskilyrðum og fleira.
Steinmar Gunnarsson, 28.3.2011 kl. 08:17
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.