24.3.2011 | 23:06
Sá á þetta skilið !
Mikið óskaplega er ég glaður yfir því að Gísli Örn Garðarsson hefur fengið íslensku bjartsýnisverðlaunin og mikið óskaplega er á ánægður yfir því að hafa fengið að kynnast þessum afburða færa leikhúsmanni og vinna með honum.
Í Gísla Erni er fólgið óvenju samtvinnað andlegt og líkamlegt atgerfi, sem til dæmis naut sín á heimsmælikvarða í Hamskiptunum, þar sem frammistaða hans var ógleymanleg og einstæð og er vafasamt að magnað og óhugnanlegt innihald verksins hafi í annan tíma verið laðað betur fram.
Samvinnan í söngleiknum Ást var óskaplega gefandi og skemmtileg tilviljun að við Þorsteinn Gunnarsson, sem fórum mikinn saman í Herranótt í þrígang fyrir meira en hálfri öld, skyldum báðir vera "gripnir upp" á gamals aldri til að fara aftur á fjalirnar.
Þorsteinn stökk fram alskapaður sem leikari 15 ára gamall í leikritinu "Browningþýðingin" og Gísli Örn sá til þess að hann næði hápunkti ferilisins í London í einhverju glæsilegasta "come-back" íslenskrar leiklistarsögu.
Hlýja Gísla og stórt hjarta ásamt ástríðu og metnaði hefur nú veitt honum verðskuldaða umbun.
Til hamingju, góði vinur!
Gísli Örn fékk bjartsýnisverðlaunin | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.